12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

14. mál, skattur á stóreignir

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. þm. G-K. (ÓTh) hefur nú svarað því aðalatriði, sem ég ætlaði að gera að aðalumræðuefni, og ég skal því ekki endurtaka það.

Mér sýnist af skýrslu hæstv. ráðh., að innheimta skattsins hafi gengið miklu betur, en vænta mátti, eftir því sem málin hafa staðið. Ég er út af fyrir sig ekkert að harma það, en ég vil benda á, að mér þykir ekki ólíklegt, að það geti verið mjög vafasamt að reka á eftir innheimtunni, eins og gert hefur verið og láta útbúa skuldabréf fyrir lánum, meðan ekki hefur verið gert út um það, hvað gjaldendurnir eiga að greiða. Því er ekki lokið enn. Og meira að segja, meðan verið er að gefa þessi skuldabréf út og undirrita þau, er vitanlegt, að fjöldi af þeim mönnum, sem undirrita bréfin nú, eiga að fá mikinn afslátt af þeim skatti, sem þeim er ætlað að greiða samkvæmt skuldabréfunum.

Hv. fyrirspyrjandi virtist harma það, að skatturinn væri nú kominn niður í 113 millj. Ég gat ekki betur skilið á honum, en hann teldi það mjög illa farið. En hv. fyrirspyrjandi hefur vafalaust ekki munað eftir því, að þegar þetta mál var hér til umr. í þinginu, var gert ráð fyrir því, að skatturinn gæti alls ekki farið upp fyrir 85 millj., en hann fór upp í 135 millj.

Framsfl. þykist öllum fótum í jötu standa og geta leyft sér að segja það, að Sjálfstfl. standi fyrir því, að málinu hafi verið skotið til útlanda. En hv. framsóknarmenn stóðu fyrir álagningu stóreignaskattsins, svo vel sem frá því var gengið. Og þeir sáu fyrir því, að þessi 135 millj, stóreignaskattur skyldi ekki snerta neitt af samvinnufélögum landsins, þó að þau eigi milljónir í tugatali. Og þetta var gert á þann hátt, að skatturinn var lagður á einstaklinga. Því fékkst ekki framgengt 1950 og því fékkst ekki framgengt þegar síðasti stóreignaskattur var lagður á, að skatturinn væri lagður á alla skattaðila í landinu, bæði einstaklinga og félög. Og af hverju var það gert? Það var vegna þess, að ef skatturinn er lagður á einstaklinga, þá borga samvinnufélögin engan stóreignaskatt og eins og allir vita, þá varð niðurstaðan sú, að samvinnufélagsskapurinn í landinu með Samband íslenzkra samvinnufélaga í broddi fylkingar greiddi 300 þús. kr. af þessum 135 millj.

Þeir menn geta vissulega djarft úr flokki talað, sem hafa séð svona vel fyrir eigin hagsmunum í máli eins og þessu.