07.08.1959
Efri deild: 5. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. til stjórnskipunarlaga um breyt. á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 17. júní 1944, var samþ. á síðasta Alþ. Eins og lög gera ráð fyrir, var Alþ. síðan rofið og efnt til nýrra kosninga. Þær kosningar hafa þegar farið fram og niðurstaða þeirra hefur orðið sú, að þeir flokkar, sem vitað var að voru þessari breytingu fylgjandi, hafa hlotið nærri 3/4 hluta atkvæða, sem greidd voru í kosningunum, en andstæðingar málsins hlutu fylgi aðeins rúmlega 1/4 kjósendanna.

Þetta mál hefur nú verið afgreitt í Nd. á ný til þessarar hv. d. og er því aðeins ólokið afgreiðslu málsins í þessari hv. d., til þess að það öðlist lagagildi. Ég tel óþarft að rekja efni frv. Það er öllum hv. þdm. kunnugt, bæði frá afgreiðslu málsins á síðasta Alþ., frá umr. í blöðum og útvarpi og raunar mun það einnig hafa verið aðalumræðuefnið á öllum eða flestum þeim framboðsfundum, sem haldnir voru fyrir kosningarnar síðustu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar, en mun aðeins leyfa mér að óska þess, að málið fái sem skjótasta afgreiðslu í þessari hv. d., með því að, að því samþykktu er meginverkefni þessa þings að mínu viti lokið og með afgreiðslu kosningalaganna, sem því fylgja.

Ég ætla, að sú n., stjskrn., sem hefur áður verið kosin hér í d., hafi fengið tækifæri til að fylgjast með starfi neðrideildarnefndarinnar og það til viðbótar þeim kunnugleika, sem allir dm. áður hafa um málið, ætti að geta orðið þess valdandi, að málið gæti fengið skjóta og góða afgreiðslu í þessari hv. deild.