04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (1047)

112. mál, útsvör

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Sumar af þeim spurningum, sem hv. 1. þm. Austf. endurtekur nú, eru gersamlega óþarfar, vegna þess að þeim var svarað og svarað ýtarlega fyrir fram í framsöguræðu minni um þetta mál. Ég skal samt sem áður rekja þessar spurningar, en taka það áður fram, að af hendi þessa hv. þm. og hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) er farið hér með ákaflega miklar blekkingar í sambandi við veltuútsvar. Þessir hv. þm. tala hér eins og með þessu frv. sé verið að lögleiða veltuútsvar, eins og hv. 1. þm. Austf. komst að orði. Hér er ekki verið að lögleiða veltuútsvar, heldur er verið að lögleiða hámark veltuútsvars. Veltuútsvar hefur tíðkazt um fjölda ára og verið talið heimilt, án þess að nokkurt hámark væri sett í lögum fyrir því. Veltuútsvar hefur tíðkazt í öllum kaupstöðum og fjölda annarra sveitarfélaga. Það hafa nýlega gengið um það dómar, að bæjar- og sveitarfélögum væri heimilt að leggja á veltuútsvar. Hins vegar hafa veltuútsvörin sums staðar verið hærri en hér er lögleitt sem hámark, 3%, þannig að sums staðar hafa þau komizt upp í 4% og upp í 5%. Þau hafa komizt upp í 5% m.a. á stað eða stöðum, sem hv. 1. þm. Austf. er ákaflega vel kunnugt um. Það er því verið að fara hér með hinar mestu blekkingar, þegar látið er svo í veðri vaka, að nú fyrst sé verið að leiða í lög heimild til þess að leggja á veltuútsvar. Veltuútsvar hefur sem sagt verið notað skv. heimild í útsvarslögum, ákvæðinu um niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum, og liggja fyrir hæstaréttardómar um, að slíkt sé heimilt.

Aðalþýðing þessa frv. í sambandi við veltuútsvör er því þessi, að nú er verið að takmarka þau frá því, sem áður hefur verið, að lögbinda algert hámark, sem er 3%, en jafnframt er svo ákveðið, eins og skýrt er fram tekið í þessu frv., í 5. gr., varðandi veltuútsvörin í Reykjavík, að veltuútsvarið megi þó í engu tilfelli á neinni tegund vöru vera hærra en það var á s.l. ári.

Hitt er svo annað mál, að það nýmæli er í þessu frv., að nú er ætlazt til að nema úr gildi þau úreltu og ranglátu ákvæði, sem skapa einni tegund verzlunar algera sérstöðu og fríðindi. Það er kannske eðlilegt, að hv. 1. þm. Austf. og 1. þm. Norðurl. v. sjái ekkert í þessu frv. eða yfirleitt í þessum skattalögum annað en það, sem snertir samvinnufélögin, enda virðist það á öllum þeirra ræðum. En menn mega ekki láta slík einhliða tillit til einnar verzlunartegundar algerlega villa sér sýn, þannig að þeim sé meinuð yfirsýn yfir málið í heild.

Hv. þm. spyr í fyrsta lagi, hverjar séu þær undanþágur, sem sveitarfélögin hafi gefið frá ákvæðum skattalaga, eins og segir í 3. gr., að víkja megi frá ákvæðum skattalaga varðandi sérstakan frádrátt frá tekjum, tapsfrádrátt milli ára og fyrningarfrádrátt. Ég gat þess hér, og ég held, að það hafi komið alveg skýrt og greinilega fram í minni framsöguræðu og því óþarft af þm, að spyrja um þetta, að þessi frávik væru ákaflega misjöfn í hinum ýmsu sveitarfélögum. Varðandi t.d. skattafrádrátt sjómanna, þá hafa sum bæjarfélög, eins og t.d. Reykjavík, tekið hann til greina að fullu við útsvarsálagningu, leyft við útsvarsálagningu sama frádrátt fyrir sjómenn og varðandi tekjuskatt. Í sumum öðrum sveitarfélögum er það þannig, að þau hafa ekki treyst sér til þess að leyfa þennan frádrátt að fullu. Varðandi fyrningarfrádráttinn er það líka mjög mismunandi. Sá almenni fyrningarfrádráttur hefur víðast hvar verið leyfður, en sums staðar a.m.k. hefur sá sérstaki fyrningarfrádráttur, sem leyfður er, sem sagt þá með sérstökum lögum, ekki verið tekinn til greina við útsvör.

Ég tók fram og tek það enn fram, að þessu er ákaflega ólíkt farið í hinum ýmsu sveitarfélögum og náttúrlega ógerningur að fara að gefa hér skýrslu um hvert einasta sveitarfélag á landinu, hvernig þetta hefur verið framkvæmt. En tilgangurinn með þessu ákvæði í 3 gr. laganna er, að ekkert sveitarfélag skuli skv. þessum lögum gera meiri frávík frá ákvæðum skattalaga í áhag gjaldanda en verið hefur, sem sagt, að hagur gjaldanda skuli í engu tilfelli versna að þessu leyti frá því, sem verið hefur.

Þá spyr hv. þm. í öðru lagi um það, hvað sé átt við með orðinu „velta“. Honum er það auðvitað ákaflega vel kunnugt, að með veltu er fyrst og fremst átt við heildarupphæð vörusölu. Varðandi ýmiss konar þjónustu og m, a. það, sem hann nefndi sérstaklega, umboðsverzlun, þá er það í sumum tilfellum álitamál, hvort á að telja til veltu sjálfa upphæð umboðslaunanna eða upphæð heildarvörusölunnar. Um þetta hefur verið ágreiningur í vissum tilfellum, og geri ég ráð fyrir, að niðurjöfnunarnefndir verði að meta það í hverju einstöku tilfelli. Stundum er þetta alveg glöggt með umboðslaunin, að það á að leggja á þau sjálf, heildarupphæð þeirra er veltan. Í öðrum tilfellum er það, sem kallað er umboðslaun, í rauninni svipað og heildsala, og t.d. gekk nýlega hæstaréttardómur um það, varðandi eina tegund verzlunar, þar sem seljendur töldu að væri um umboðslaun að ræða, niðurjöfnunarnefnd taldi hins vegar að ætti að meta sem veltu heildarvörusöluna, og hæstiréttur féllst í því tilfelli á skoðun nefndarinnar. Hitt má vel vera, að æskilegt væri að setja inn í þetta frv. nánari skýringu á því, hvernig skuli líta á umboðslaunin, vegna þess að í sumum tilfellum hefur þar verið nokkurt vafamál um túlkun. En ég geri ekki ráð fyrir, að það sé nein breyting, og ekki ætlazt til neinnar breytingar á því í þessu frv. frá því, sem verið hefur framkvæmt af niðurjöfnunarnefndum, hvað sé velta. Það, sem átt er við með þessu frv., er auðvitað það sama, sá sami skilningur og lagður hefur verið í það orð öll þau ár, sem niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir hafa lagt á veltuútsvör.

Í þriðja lagi spyr hv. þm., hvort skylt sé að leggja sömu prósetnu á alla veltu í sömu grein, og hann spyr t.d. vegna þess, að í skýrslunni um veltuútsvör í Reykjavík á s.l. ári segir, að veltuútsvar á nýlenduvöruverzlun sé allt að 0.5%. Þá spyr hann, hvort ekki megi samkvæmt þessu frv. leggja t.d. 0.4% á einhverja verzlun, sem verzlar með nýlenduvörur o.s.frv. Það má vera, að orðalagið skeri ekki úr þessu. En ég hef engan mann hitt, sem hefur dottið sú fjarstæða í hug, fyrr en þennan hv. þm., að lögð sé mismunandi prósenta veltuútsvars á verzlun með sömu vörutegund. Ég held, að það hafi ekki nokkurri niðurjöfnunarnefnd eða hreppsnefnd í landinu dottið slíkt í hug, fyrr en þessi hv. þm., sem kannske hefur töluverða reynslu í skattamálum, imprar á þessu. Ég ætla, að öll þau ár, sem veltuútsvör hafa verið notuð hér á landi, hafi hver einasti aðili, sem hafði með álagningu þeirra að gera, talið það svo sjálfsagða, ófrávíkjanlega reglu og að það verði einnig þannig í framtíðinni, að sama prósenta verði alltaf notuð um sölu sömu vörutegundar, hvaða verzlun sem á í hlut.

Í fjórða lagi spyr hv. þm., hvort ríkisstj. hafi ákveðið að beita sér fyrir því, að útsvör yrðu einnig frádráttarhæf við álagningu tekjuskatts. Um það segir ekkert í þessu frv. og ekki heldur í því frv. um breyt. á tekjuskattslögunum, sem fyrir liggur. Samkv. þessu frv. eru greidd útsvör frádráttarbær við útsvarsálagningu. Samkv. frv. um tekjuskattinn er það óbreytt, sem verið hefur nú um 18 ára skeið, að greiddur tekjuskattur og greidd útsvör eru ekki frádráttarbær við álagningu tekjuskatts. Um það, hvað verður í framtíðinni, er ekki hægt að segja á þessu stigi. Endurskoðun tekjuskattslaga og útsvarslaga heldur áfram, og væntanlega liggur fyrir í haust, þegar heildarlöggjöf um þessi málefni verður lögð fyrir, svar við þessari spurningu hv. þm.

Loks spyr hv. þm. um það, hvort veltuútsvarið verði tekið inn í verðlagsgrundvöll vara. Um þetta segir að sjálfsögðu ekkert í þessu frv. Það er alveg eins og með aðra skatta, að það er ekki venja að taka það fram í sjálfum skatta- eða útsvarslögunum, hver áhrif þær greiðslur skuli hafa á verðlagningu vara. Það er ekki í núgildandi tekjuskattslögum og það er ekki í núgildandi útsvarslögum. (Gripið fram í: En í söluskattslögunum?) Nei, það er ekki nema að örlitlu leyti í söluskattslögunum. (Gripið fram í.) Nei. Þetta er auðvitað atriði, sem verðlagsyfirvöldin verða að ákveða. Hvort einhver slík ákvæði kæmu inn í löggjöf um verðlagið, skal ég ósagt láta, en hér hefur ekki þótt ástæða til þess að taka inn ákvæði um það efni, fremur en um það, hvort t.d. tekjuútsvar og eignarútsvar eða tekjuskattur fyrirtækja almennt eigi að koma inn í verðlagsgrundvöll.