02.12.1959
Efri deild: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frumvörpin fjögur á þskj. 7, 8, 9 og 10, sem hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Ed. og hv. meiri hl. fjhn. mælti með fyrir síðustu helgi, eru nú horfin af dagskrá. Þetta voru frv. með fyrirsögn: gjaldaviðauki 1960, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna, tollskrá o.fl., bifreiðaskattur o.fl. Það átti að sigla þessum frv. hraðbyri í gegnum þingið, en veðrin reyndust ekki hagstæð, svo að áhöfnina brast kjark og hún yfirgaf fleytur sínar.

Á fjörum hæstv. ríkisstj. hefur nú verið klambrað saman upp úr þessum fjórum fleytum einum kuggi og notað til viðbótar í hann brak úr litlu fari, sem var í nauðum statt milli skerja í Nd. með skemmtanaskatt innanborðs. Ekki er þessi kuggur lögulegur eða álitlegt sjóskip. Hann lofar ekki smiði sína sem meistara. „Sér þar fyrir samskeytum, og gapa þar vænar glufur,” eins og segir í gamalli þulu. En nota flest í nauðum skal. Eitt frv. er orðið úr 5 frv. Það, sem á undanförnum árum voru 5 lög, er nú stofnað til að verði ein lög, þótt ósamstæð séu.

Meiri hl. fjhn. mælti með þessu frv, engu síður en hinum, og sést á því, að honum þykir vænt um ríkisstjórn sína. Við, sem skipum minni hl., getum enn síður mælt með þessu frv. en hinum fjórum, og þess vegna klofnaði nefndin aftur. Við höfum skilað nál. og gerum þar grein fyrir afstöðu okkar. Við teljum samsteypu frv. efnislega og formlega ambögu. Við tókum fram, eins og hv. frsm. meiri hl. sagði frá og stendur víst í nál. meiri hl., að við töldum þessa samsteypu algerlega óþarfa. Og tilgangurinn með samsteypunni er auðvitað eingöngu sá að skerða málfrelsi hv. þm., alls enginn annar. Ef frv. hefðu haldið áfram að vera 5, þá hefðu umræðurnar samtals orðið a.m.k. 30, en um þetta frv. verða þær 6, ef að líkum lætur. Málfrelsið er því orðið 4 sinnum minna en það var í fyrra, að því er þessi frv. snertir. Hér er um bolabrögð gegn lýðræði að ræða og fram komin óprýði á löggjafarstarfi og löggjöf. Og þetta er þess vegna mjög ásökunarvert. Hvar nemur staðar, þegar farið verður að telja þetta til fordæma, að taka eldri lög og negla þau saman með hnoðnöglum hentisemi lítils meiri hl. eins og þess, sem nú er á þingi? Þetta er klambur og sóðaskapur, hvernig sem annars er á það litið.

Úr því að stuðningsmenn stjórnarinnar lögðu út í það fyrir sína ástkæru ríkisstj. að hugsa sér að komast með framlengingarfleyturnar strax gegnum Alþingi, áttu þeir, þótt þeir gætu ekki siglt þeim, að sýna þá karlmennsku og úthald að taka til áranna og róa, þótt þeir blotnuðu og sárnaði þá í lófum.

Við minnihlutamennirnir í fjhn. erum ekki efnislega á móti framlengingunum, þó að við viljum ekki að þessu sinni samþykkja þær og enn síður samþykkja þær í formi þessa samsteypufrv. heldur en í hinu venjulega formi, sem áður lá fyrir. Og þetta er af því, andstaða okkar eða tregða í þessu máli stafar af því, að samþykkt framlenginganna er nauðsyn fyrir ríkisstj. til þess að geta komið á þeirri þingfrestun, sem boðuð hefur verið í tillöguformi. Og þá þingfrestun teljum við óhæfu, eins og við tökum fram í nál. okkar á þskj. 44 og rökstyðjum.

Við flytjum eina brtt. við frv., sem þm. hafa sjálfsagt séð og lá fyrir áður í sambandi við eitt af frv., sem lagt hefur verið til hliðar. Það er brtt. við 4. gr., þar sem er framlenging söluskattsins á ferðinni. Framlenging söluskattsins hefur jafnan heitíð dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Nafnið felur í sér, að upphaflega og í raun og veru alltaf hefur þessi lagasetning verið hugsuð til bráðabirgða, þó að búið sé oft að endurnýja hana með framlengingu. Dýrtíðarráðstafanir hljóða sem tímabilsaðgerðir. Efni greinarinnar um söluskattinn hefur oft verið umdeilt, m.a. hafa sveitarfélög haft ágirnd á að fá hlutdeild í þessum skatti. Þau 3%, sem hér um ræðir, eru aðalálag á tiltekin viðskipti til ríkissjóðs, og er gert ráð fyrir því í frv. því, sem liggur fyrir til fjárlaga, að ríkissjóður fái í tekjur af þessu 148 millj. kr. Þess vegna má segja, að framlengingin sé miðuð við þessa upphæð í áætlun. Og ég hygg, að hv. frsm. meiri hl. hafi í dag minnzt á það.

En það er ekki úr vegi að minnast þess, um leið og rætt er um þessa framlengingu, að eftir lögum um útflutningssjóð fær þessi sjóður 6% söluskatt, að ýmsu leyti eftir sömu leiðum og ríkið tekur sin 3%. Á þetta minntist ég rækilega og hv. 5. þm. Austf. (PÞ) við umræður s.l. laugardag, umræður um frv., sem þá lá fyrir. Og með tilliti til þess, að framlengingin er, eins og nafnið bendir til, um skatt, sem beinlínis hefur verið á lagður sem dýrtíðarráðstöfun vegna atvinnuveganna, þá finnst okkur minnihlutamönnum fjhn. rétt að breyta gildistíma framlengingarinnar og samræma hann gildistíma framlengingarinnar á heimildum til bráðabirgðagreiðslna úr ríkissjóði eða til loka febrúarmánaðar. En gera má ráð fyrir því, að um heimildina til greiðslna úr ríkissjóði, sem er á þskj. 16 og hefur verið afgreidd úr þessari hv. d., verði sú niðurstaðan. Það er að vísu allt í myrkri um það, hvað hæstv. ríkisstj. hyggst fyrir í efnahagsmálum, a.m.k. fyrir augum alþm. yfirleitt, og það getur verið, að ríkisstj. sjálf hafi ekki fullkomlega gert sér grein fyrir því, að hverju stefnt er. En það hefur heyrzt mikið um það talað úr þeirri átt, að miklar breytingar eigi að gera á efnahagskerfinu. Það hefur komið fram í blöðum stjórnarflokkanna og kom mjög fram á framboðsfundum úti um land fyrir síðustu kosningar, og þar var stundum og eins í blöðunum mælt allhreystilega um algert afnám uppbóta- og niðurfærslukerfisins og fullkomlega staursetningu dýrtíðardraugsins. Ef eitthvað yrði nú af því, að hreystiverkin yrðu unnin, þó að minna yrði en ráð hefur verið fyrir gert, þá er ekki óeðlilegt, að þessi tekjuöflun til dýrtíðarráðstafana vegna atvinnuveganna sé ekki bundin til lengri tíma en brtt. gerir ráð fyrir, hún sé sem sé ekki bundin lengur en greiðslurnar úr ríkissjóði. Ef hæstv. stjórnarflokkar geta ekki fallizt á þetta, þá verð ég að segja, að þeir eru fyrir fram vantrúaðir á sig og stjórn sína.

Í þessu sambandi vil ég taka fram, að ég hef sem sveitarstjórnarmaður litið svo á, að æskilegt væri og réttmætt, að sveitarfélögin fengju hluta af söluskattinum, ef því yrði við komið. Þau vantar nýja tekjustofna til þess að þurfa ekki að nota álagningu útsvara í eins stórum stíll og þau hafa þurft að gera. Hæstv. fjmrh. hefur einnig, meðan hann var borgarstjóri Reykjavíkur, hvað eftir annað hreyft því máli hér á Alþingi. Og að gefnu tilefni frá mér á fundi í fjhn. upplýsti hæstv. fjmrh., að hann hefði skipað eða fengið sérstaka menn til að athuga tekjuöflunarþörf sveitarfélaganna og gera till. um nýja tekjustofna fyrir þau. Mér skildist á honum, að hann gerði ráð fyrir því, að þessi nefnd manna mundi fljótlega skila till. Og það þætti mér ekki ólíklegt, að þessir menn bentu á söluskatt sem eitt aðalúrræði vegna sveitarfélaganna. Þetta er viðbótarástæða fyrir því, að ég tel rétt að hafa gildistíma söluskattsákvæðanna vegna ríkissjóðsins ekki lengri en til febrúarloka, eins og gert er ráð fyrir í till. Mér finnst einmitt tilvalið tækifæri, ef gerðar eru breytingar á tekjuöflun til ríkissjóðs og efnahagskerfi landsins, að hafa það opið, að hægt sé að verða við þeim óskum sveitarfélaganna, að þau fái nýja tekjustofna og einmitt hlutdeild í þessum tekjustofni.

Útsvarsálagningin, sem að vísu er ekki takmörkuð, er óvinsæll tekjustofn, og komið hefur það fyrir líka, að sannazt hefur, að hún er óréttlát aðferð til þess að gera mönnum gjöld til sveitarfélaga. Fréttir héðan úr Reykjavík hafa a.m.k. hljómað þannig í eyrum okkar úti um land, að eitthvað hafi verið að við álagningu útsvara á þessu ári hér í Reykjavík, enda er álagning eftir efnum og ástæðum, ef á að beita henni þannig samkv. lögum, eiginlega óframkvæmanleg, svo að hún verði ekki óréttlát í fjölmennu sveitarfélagi. Ég vildi þess vegna ætla, að hæstv. fjmrh. væri því ekki mótfallinn að hafa framlengingu söluskattsins ekki lengri að sinni en þangað til afgreiðsla fjárlaga er hugsuð.

Það má segja, og ég held, að þeir hafi sagt, meirihlutamennirnir í fjhn., að hægt sé að breyta lögunum, þótt framlengd væru til árs, ef það þætti tiltækilegt að sinna sveitarfélögunum með þessum tekjustofni. Ég viðurkenni, að þetta er rétt. En ég held því fram og tel það óyggjandi, að meiri trygging er fyrir því, að þetta verði fullkomlega athugað, ef framlengingin er ekki nema til tveggja mánaða. Framlenging til tveggja mánaða og ekki lengur er trygging fyrir því, að það verði tekið fullkomlega til athugunar, hvort sveitarfélögin geta þarna fengið einhvern hlut, einhverja réttingu mála sinna. Ég kalla það réttingu, vegna þess að ég sem sveitarstjórnarmaður hef kynnzt því mjög vel, að þau eiga afar erfitt með tekjuöflun sína, eins og nú er komið og eins og ríkisvaldið gerir þeim þungar skyldur og bindur hendur þeirra í ýmsum efnum.

Við minnihlutamenn fjhn. segjum það í nál. okkar á þskj. 44, að við styðjum ekki framgang framlenginganna um sinn og leggjum ekki til, að aðrir geri það, af því að þær eru grundvöllur þess, að ríkisstj. geti látið þingið hætta störfum nú þegar í nálega tvo mánuði, en það teljum við óhæfu. Og við nefnum sem dæmi um óhæfuna, að meðan 1. umr. fjárlaga hefur ekki farið fram og frv. til fjárlaga 1960 ekki verið vísað til nefndar, þá sé algerlega ótímabært að fresta Alþingi. Það hefur verið sýnt og sannað með tilvitnunum í þingsöguna, að það er algerlega fordæmalaust, að 1. umr. fjárlaga fari ekki fram snemma þings, eða að þingi hafi verið frestað, áður en hún hefur farið fram. Það er fordæmalaust, að fjmrh. hafi ekki gefið Alþingi, litlu eftir að það hefur komið saman, — oft má segja fyrstu daga þings, en annars eftir stuttan tíma, — skýrslu um fjárhagsafkomuna, eftir því sem hægt er að sjá hana á þeim tíma. Og það er að taka af þm. tækifæri til þess að gera sér grein fyrir efnahagsmálunum og búa sig undir að vinna að afgreiðslu fjárlaga að halda fyrir þeim upplýsingum um ástand fjármálanna hjá ríkinu og afkomu ríkissjóðs á líðandi ári. Það væri kannske hægt að segja, ef hæstv. fjmrh. hefði enga hugmynd um, hvernig afkoman er, að þá gæti hann ekki gefið um það skýrslu. En hins vegar er það, að bæði getur hann aflað sér hugmyndarinnar, þó að hann sé nýkominn til starfs, og svo hefur hitt einnig komið í ljós, eins og oftlega hefur verið bent á í þessum umræðum, að forsrh. hefur getað gefið pólitísku félagi þessar upplýsingar úti í bæ, svo að þær hljóta að vera fyrir hendi.

Hæstv. fjmrh. tók ekkert líklega í það í dag í umr. utan dagskrár í Sþ., að hann mundi fylgja þessari gömlu venju og verða við óskum þm. um að flytja fjárlagaræðu, áður en þingi verður frestað. En ég vildi nú óska þess, að hann endurskoðaði fyrri afstöðu sína og stofnaði ekki til þess einsdæmis og endemis að láta þingið fara í frí upplýsingalaust um þessi mál. Hann tók fram, að strax og þing kæmi saman seint í janúar, þá mundi hann gefa þessa skýrslu og þá gæti hún vafalaust orðið fyllri en hann hefði skilyrði til að gefa hana nú. Það er vitanlega rétt, að sú skýrsla gæti orðið fyllri, og maður mundi telja eðlilegt, að hann gæfi þá aðra skýrslu eða viðbótarskýrslu. En að láta þingmenn vaða í villu og svima um það, þegar þinghlé er tekið, hvernig niðurstaðan er, eins og nú er komið, er ekki samboðið hæstv. fjmrh., og ég vona sem sagt, að hann endurskoði afstöðu sína. Ég hygg líka, að þá sé illa farið með tíma fjvn., sem þarf mikinn tíma til starfa sinna, til að kynnast einstökum liðum fjárlaganna eða frv., sem liggur fyrir, og lesa og kynna sér erindi þau, sem jafnan liggja fyrir fjvn., — það er illa farið með tíma hennar að ætla henni ekki að taka til starfa fyrr en í janúarlok.

Hæstv. fjmrh. hefur nú gengið út. En mér þykir illt að hafa hann ekki sem áheyranda, þegar ég er einmitt að tala um þau atriði, sem sérstaklega snerta starf hans, og vitna í það, sem hann hefur sagt hér í þingsölunum. Ég þóttist sjá, að hann hefði verið kallaður út, en ég spyr forseta, hvort það væri ekki rétt, að ég gerði aðeins hlé á ræðu minni? (Forseti: Jú, mér finnst það vera allt í lagi. Ég hugsa, að ráðh. verði ekki lengi, hann hafi bara farið í símann. )

Ég var að segja það, þegar hæstv. fjmrh. var kallaður út, — en hann er nú kominn í salinn, — að það væri að mínu viti illa farið með tíma fjvn. til að starfa, ef hún á ekki að fá fjárlagafrv. til meðferðar fyrr en í lok janúarmánaðar. Fyrir fjvn, liggja jafnan mörg erindi, sem tekur langan tíma að kynna sér, og mörg eru þess eðlis, að það þarf að leita upplýsinga í sambandi við þau, sem oft tekur líka langan tíma að fá frá ýmsum stofnunum. Og ef hæstv. fjmrh. hugsar sér, að það geti orðið framkvæmt, sem hann sagði í dag í Sþ., að afgreiða fjárlög fyrir febrúarlok, en taka þau ekki til umr. og meðferðar í þinginu og í fjvn. fyrr en í janúarlok, þá finnst mér, að gert sé ráð fyrir meiri hraða á vinnubrögðum t.d. hjá fjvn. en sanngjarnt er að krefjast og hægt er að hafa nema með flausturslegum vinnubrögðum. Það má vera, að hæstv. fjmrh. geri ráð fyrir því, að frv. af hans hendi verði svo vel undirbúið, að það þurfi lítið fyrir því að hafa. Og við skulum segja, að hann hugsi sem svo. En víst er nú það, að þegar margir koma til, þá er enginn vafi á því, að ýmislegt þarf að athuga, og hæstv. fjmrh. þarf a.m.k. nokkurn tíma til þess að sannfæra menn um, að það sé enginn galli á. En vera má einnig, að hann hugsi sér að hafa svo hlýðinn þingmeirihluta, að hægt sé að fá hann til þess að afgreiða með meirihlutavaldi sínu á næturfundum og með þrásetu í þingsölum frv. til fjárlaga á svo stuttum tíma. En þá tel ég, að farið sé að stofna til þess að beita of miklu valdi og gjörráðu meirihlutavaldi og skerða þann sjálfsagða rétt, sem minni hlutinn hefur til þess að hafa áhrif á setningu fjárlaga, og skerða þá líka þann rétt, a.m.k. skerða þá skyldu, sem stjórnarstuðningsmenn hafa gagnvart sínum kjósendum til að vanda vel til setningar fjárlaga. Og ekki sízt kemur þetta til greina, ef á að gerbylta efnahagskerfinu og leggja fram frv., sem er upp byggt allt öðruvísi en það, sem nú liggur fyrir, eins og ráða mátti af orðum hæstv. ráðh. í dag, að hlyti að verða, og gert á allt öðrum grundvelli en gert hefur verið og lagður hefur verið á undanförnum árum og bæði fjvn. og þm. hafa þá getað stuðzt við.

Þá tökum við fram í nál. okkar, að við teljum óhæfu að taka tveggja mánaða þinghlé, áður en brbl. um verðlag landbúnaðarvara, sem sett voru á s.l. sumri, hafa verið lögð fyrir Alþingi og hlotið afgreiðslu. Hæstv. fjmrh. sagði á fundi aðfaranótt fullveldisdagsins, að brbl. yrðu lögð fyrir Alþingi, áður en því yrði frestað. Það hefur enn ekki verið gert. En þó að brbl. verði lögð fyrir Alþ., rétt áður en þingi er frestað, og ekki afgr., þá er það ekki fullnægjandi. Það er ekki að fullnægja lögum, það væri að fara í kringum lögin. Það væru að mínu viti af hálfu þeirra manna og þess flokks, sem heitið hefur bændum leiðréttingu mála þeirra og lýst hefur yfir, að hann mundi fella þessi lög, loddarabrögð aðeins til þess að komast frá orðum, sem ekki á að standa við. Ég tel þess vegna, að það sé ástæða til þess að samþykkja ekki framlengingarnar um sinn, einmitt með tilliti til þess að knýja fram afgreiðslu brbl., ekki aðeins að þau séu lögð fram, heldur afgreidd.

Þá segjum við í þriðja lagi, að við teljum óhæfu að fresta þinginu, og föllumst ekki á að samþykkja framlengingar handa ríkisstj. og auðvelda henni þannig að fresta því, af því að fjölmörg mikilvæg mál hafi nú þegar verið lögð fyrir þetta þing og ekki fengizt tekin á dagskrá til fyrstu meðferðar og þar að auki hafi þm. ekki gefizt eðlilegt tóm til þess að undirbúa og ganga frá málum til flutnings. Ég tel þetta mjög þýðingarmikið atriði, og ég tel, að ef fresta á þingi, án þess að mikilvæg mál, sem fram hafa komið, verði tekin á dagskrá og þeim komið til nefndar, þá sé verið að stofna til mjög ópraktískra vinnubragða, auk þess sem það er gerræði við þm. að taka þannig á móti till. þeirra.

Ég er þess fullviss, að það mundi sparast þingtími seinni hluta vetrar, ef ýmis þau mál, sem nú eru fram komin, en hafa ekki komizt á dagskrá, væru látin ganga gegnum 1. umr. og til nefnda. Þau eru þess eðlis, mörg þeirra, að þau þurfa rannsóknar við. Nefndir, sem við þeim taka, þurfa að fá tóm til þess að meta þau, og þær þurfa líka að leita til nefnda og fyrirtækja og forustumanna í stofnunum ríkisins til þess að fá upplýsingar í sambandi við málin og geta skilað um þau fullkomlega frambærilegum álitum. Mér virðist auðsætt, að ef sá háttur væri viðhafður, að málin fengju að komast til nefnda, þá sparaði það tíma aftur á seinni hluta þingsins. En ég hygg, að það þyrfti ekki að tefja hæstv. ríkisstj. frá því að sinna sínum vandamálum, þó að þessi starfsemi færi fram í þinginu.

Einu sinni virtust framámenn stjórnarflokkanna halda, að þingfrestunin mundi verða mikill sparnaður, peningalegur sparnaður fyrir ríkið. Eitt blað stjórnarflokkanna tiltók upphæð í því sambandi, sem mundi sparast, allt að milljón krónum. Nú er vitað mál, að þetta voru bara fljótfærnislegar draumórar. Þingfararkaupstími þm. sparast lítið við frestunina, eins og hún er fyrirhuguð, þar sem lög ákveða, að þm. hafi, þegar þingi er frestað, fullt kaup í 30 daga, og þar að auki er jólaleyfi, og þess vegna eru það aðeins fáir dagar í þingfararkaupi, sem falla niður. En hins vegar er enginn vafi á því, að þingið lengist aftur fram á vorið, ef frestunin verður gerð svona snemma, fyrir það að ekki er hægt að undirbúa mál fyrir þinghléið og fyrir starfsemina á seinni hluta þingsins, eins og hægt væri að gera og heppilegt væri að gert yrði.

Ég hef hér fengið mér nokkur þskj. til þess að sanna það mál, að mikilsverð frv. og till. séu fram komin, sem þurfi athugunar við, en þau mál hafa enn ekki verið tekin á dagskrá. T.d. er frv. til laga um bráðabirgðabreytingu á lögum um bifreiðaskatt, þ.e. að til viðbótar við innflutningsgjald á benzíni skuli innheimta á árinu 1959 37 aura af hverjum lítra, þar af skuli 5 aurar renna í brúasjóð, 22 aurar í sérstakan sjóð, sem varið verði til að gera akfæra þjóðvegi milli byggðarlaga, og jafnframt skal benzíngjald það, er um ræðir í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 33 1958, um útflutningssjóð o.fl., lækka úr 62 aurum á lítra í 45 aura, og af þeim skulu 6 aurar renna í brúasjóð, en 30 aurar í útflutningssjóð. Hér er till. á ferðinni, sem er mjög þýðingarmikil og nauðsynlegt að sé athuguð. Ég er alveg viss um, að það þarf að leita umsagnar t.d. vegamálaskrifstofunnar í sambandi við þetta mál, fá um það skýrslur, og mikilsvert, að hér sé rétt á tekið af þinginu.

Þá er frv. til laga um auknar framkvæmdir við vegagerð á Vestfjörðum og Austurlandi og miðað við það, að á árunum 1960–64, að báðum árum meðtöldum, skuli verja árlega 6 millj. kr. umfram fjárveitingar á fjárlögum til nýbyggingar þjóðvega á Vestfjörðum og Austurlandi. Og á ríkisstj. að vera heimilt að taka innlend lán til vegagerðar samkv. lögum þessum. Vegafénu skal samkv. þessum lögum varið til þeirra byggðarlaga á Vestfjörðum og Austurlandi, sem lakast vegakerfi hafa að dómi vegamálastjóra. Enginn vafi er á því, að fólk það, sem þarna á hlut að máli, telur hér mjög svo mikilsvert mál á ferðinni. En jafnframt er enginn vafi á því, að sjálfsagt er, að sú stofnun ríkisins, sem hefur framkvæmdir í þessum efnum, — þar á ég við vegamálaskrifstofuna, — þarf að gefa sínar skýrslur og athuga þetta mál. Ég held, að það hefði ekki veitt af því að vísa þessu máli til nefndar fyrir þinghlé, og mundi flýta mjög mikið fyrir, ef búið væri að undirbúa það fyrir seinni hluta þingsins.

Þá er hér næst frv. til laga um útsvör. Útsvör eru nú þau málefni, þær álögur í landinu, sem menn taka mjög eftir og margir eru sárir yfir. Ég held, að það væri fullkomin ástæða til þess, að þetta málefni væri afgr. til nefndar og nefnd gæti gert ráðstafanir til þess, að upplýsingar lægju fyrir frá þeim aðilum, sem þetta skiptir mestu máli og bezta yfirsýn hafa í þessum efnum, þegar þing kæmi saman aftur.

Þá er till. til þál. um fjáröflun til byggingarsjóða. Hér er einnig um mjög aðkallandi mál að ræða, og mundi sannarlega ekki veita af því að hafa það tilbúið, þegar þing kemur saman aftur, ef það er alvara hæstv. ríkisstj. að gera ráð fyrir því, að þinghald geti orðið í hófi langt.

Þá er till. til þál. um kaup á skipi til síldarrannsókna og síldarleitar. Sannarlega má sama segja um þetta og aðrar þær till., sem ég hef nefnt hér: þessi till. þarf athugunar og umsagnar frá þeim aðilum, sem með þessi mál hafa mest að gera.

Þá er till. til þál. um skipun nefndar til athugunar á verðtryggingu sparifjár, — ákaflega tímabær till., ekki sízt í sambandi við athuganir á efnahagskerfinu og ef leggja á nýjan fjárhagsgrundvöll. Vafalaust færi vel á því, að þessi till. væri komin til nefndar og komin til þeirra aðila til umsagnar, t.d. til bankanna, sem leitað verður áreiðanlega til í sambandi við hana, þegar þingfrestun verður tekin. Ég tel það afar nauðsynlegt, að þegar þingfrestunin verður tekin, þá verði þessi till. komin þangað, sem leita verður umsagnar, svo að umsagnirnar gætu legið fyrir, þegar þing kemur aftur saman.

Þá kemur till. til þál. um ráðstafanir til fjáröflunar fyrir byggingarsjóð ríkisins. Um þessa till. má það sama segja og hinar: vandamál mikið, sem marga snertir og mun þurfa mikillar gaumgæfni við, og að leita úrræða í þeim efnum er svo erfitt mál, að víst er ekki forsvaranlegt, að Alþingi liggi á svona till. um tveggja mánaða tíma og stofni til þess, að hún verði afgr. í flausturslegum önnum seinni hl. þingsins.

Þá er till. til þál. um ráðstafanir til að tryggja starfsgrundvöll veðdeildar Búnaðarbankans, — till., sem kom fram í dag. Mér þykja þeir menn, sem bera hana fram, kröfulágir fyrir sig og sína, ef þeir sætta sig við það, að þessi till. verði látin liggja þangað til þing kemur aftur saman. En ég segi þetta um flutningsmennina, því að það eru stuðningsmenn hæstv. ríkisstj., sem bera þessa till. fram.

Þá eru hér fram komnar till. um breyt. á vegalögum. Vist mætti segja, að ástæða væri til að vísa þeim til n. og að sú n. fengi tækifæri til þess að biðja um upplýsingar frá vegamálaskrifstofunni í sambandi við þær.

Allar þessar till., sem ég hef nefnt, og fleiri eru til, sem líklegt er, að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér að yrðu látnar liggja, ef hún kemur fram þeim vilja sínum að fresta þinginu einhvern næstu daga, víst eru þær allar þannig, að þær gera það að óhæfu að fresta þinginu nú. Og ég vildi þess vegna fyrir mitt leyti óska þess, að sá hæstv. ráðh., sem hér á sæti, og þessar till. eru nú málefni, margar hverjar, sem heyra beint og óbeint undir hann, að hann tæki það til endurskoðunar, hvort það væru ekki einmitt nauðsynleg vinnubrögð að koma þessum málum til nefndar, koma þeim undir starfshendur, áður en þinginu verður frestað. Þegar okkur, sem fluttum ósk um það skriflega á Alþingi í dag, í Sþ., að sérstakt mál væri tekið til nefndar, var synjað um það, þá bendir það að vísu ekki til þess, að það vaki fyrir hæstv. ríkisstj. að taka nokkurt tillit til þeirra aðkallandi mála, sem hér eru á ferðinni nú á fyrri hl. þingsins. En hvers vegna ætti hún ekki að endurskoða afstöðu sína? Ég býst við því, að yfirleitt muni vera ætlazt til þess, að Alþ. hagi þannig vinnubrögðum sínum, að þau notist sem bezt og geti orðið, eftir því sem við verður komið, sem ódýrust. Ég fullyrðir, að ef á að fresta þinginu nú, þá er stofnað til þess að fara illa með vinnukraft Alþ. og illa með fjármuni ríkisins í því sambandi.

Ég vil að lokum færa fram vitni um það, einmitt úr hópi stjórnarstuðningsliðsins, að gert er ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. geri vel grein og það sem fyrst fyrir því, hvernig ástandið er og hvað hún hyggst gera. Í Morgunbl. á sunnudaginn stóð þessi málsgr. í Reykjavíkurbréfi. Þess skal getið, að undanfari hennar er það, að verið er þar að fagna því, að kjördæmabreytingin gekk fram og nú sé saman komið starfhæfara Alþingi en áður hefur verið, réttar skipað, og nálgist það, að þeir, sem á Alþ. sitja, komi fram fyrir þjóðarviljann. Og síðan segir svo:

„Á meðan Alþingi var þannig skipað, að vilji meiri hl. þjóðarinnar réð þar ekki, var það ekki vanda sínum vaxið. Nú horfir allt öðruvísi við. Nú verður hiklaust að ganga í lausn sjálfra efnahagsvandamálanna. Þar er fyrst fyrir hendi að gera aðilum sjálfum, þjóðinni, grein fyrir, hvernig komið er.“

Það sést á þessu, að hjá þeim blaðamanni, sem skrifar Reykjavíkurbréfið, er sama hugsunin á ferðinni og hjá okkur minnihlutamönnunum, að því leyti, að fram eigi að koma glögg skil, að strax eigi að vera fyrir hendi upplýsingar um, hvernig ástandið er. Ég tel, að þetta sé skýr vottur þess, — alveg skýr vottur þess, — að krafa okkar er í raun og veru krafa alþjóðar, og ef hæstv. fjmrh. gerir ekki þau skil, sem fyrirrennarar hans í allri þingsögunni hafa gert, þá brýtur hann í bága ekki aðeins við hefðbundnar, sjálfsagðar venjur Alþingis, heldur líka vilja þjóðarinnar.

Eins og ég vitnaði til úr nál. okkar minnihlutamannanna, þá getum við ekki, eins og sakir standa, greitt atkv. með því frv., sem hér liggur fyrir, og leggjum ekki til, að aðrir geri það. Þvert á móti. En með því erum við ekki heldur að leggja til, að frv. verði fellt, heldur leggjum við aðeins áherzlu á það, að ríkisstj. á ekki að fá það afgreitt til þess, að hún geti framkvæmt þá óhæfu að fresta Alþingi næstu daga.