23.05.1960
Efri deild: 82. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

110. mál, verslunarstaður við Arnarnesvog

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt samkvæmt ósk hreppsnefndar Garðahrepps, en í því felst það, að Arnarnesvogur í Garðahreppi í Gullbringusýslu skal vera löggiltur verzlunarstaður. Hér er enn fremur kveðið svo á, að lögin skuli öðlast gildi, þegar atvmrn, hefur ákveðið takmörk verzlunarlóðarinnar samkvæmt lögum nr. 61 frá 1905.

Allshn. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Íbúatala innan takmarka þessa verzlunarsvæðis mun nú vera tæplega 700. Þarna er um mjög þéttbýlan og vaxandi stað að ræða og reyndar miklu þéttbýlli en margir aðrir þeir staðir eru, sem öðlazt hafa slíka löggildingu, og því virðist einsýnt að veita þessum stað slíka löggildingu einnig.