12.02.1960
Neðri deild: 27. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

55. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1960

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umræðu, er öllum þm. gamalkunnugt. Það hefur verið flutt á flestum undanförnum þingum. Efni þess er, að reglulegt Alþingi 1960 skuli ekki koma saman fyrr en 10. okt. n.k., ef forseti Íslands hefur ekki áður ákveðið annan samkomudag fyrr á árinu. Hin örstutta grg., sem fylgir frv., segir allt, sem um það þarf að segja, og ég skal ekki bæta þar neinu við, enda engu við að bæta.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að mælast til, að þetta frv. verði afgreitt nú við þrjár umr. í röð á þremur fundum. Ég held, að það sé rétt með farið, að því hafi aldrei verið vísað til nefndar, og geri ég þá ekki heldur ráð fyrir, að um það komi fram nein ósk hér.