25.05.1960
Efri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (2144)

81. mál, Hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Þetta frv. fjallar um örfáar breytingar á lögum um Hjúkrunarkvennaskóla Íslands. Þessar breytingar eru í raun og veru mikilsverðar og snerta mikilsverð atriði laganna. En þær eru þannig vaxnar, að um réttmæti þeirra er ekki deilt. Það eru viss ákvæði í þessum lögum þegar orðin úrelt, þannig að eftir þeim er ekki lengur farið. Þess vegna taldi ég rétt og raunar aðkallandi að sníða burt úr lögunum þessa dauðu kvisti. Ég nefni sem dæmi nafn skólans: Hjúkrunarkvennaskóli Íslands. Þetta er rangnefni. Þess vegna á að nema það úr lögum. Ég nefni einnig ákvæðið um, að skólinn skuli vera heimavistarskóli. Eftir þessu er ekki farið lengur og verður ekki gert í framtíðinni, enda mundi það mjög há starfsemi skólans, ef svo yrði.

Hvorki landlæknir né hv. meiri hl. heilbr.- og félmn. hefur hreyft einu orði til andmæla breyt. þeim, sem í frv. felast. Um það er ekki að ræða. Það hefur engin n. verið skipuð til þess að endurskoða þessi lög, sem þó er full þörf á að verði hið fyrsta, ekki aðeins vegna þess, sem ég nú hef minnzt á, heldur almennt um hjúkrunarkvennanám. Hins vegar hefur skólanefnd þessa skóla ótilkvödd verið að föndra við endurskoðun nú í allmörg ár, en ekki tekið á málinu til þessa af neinni alvöru. Ég minnist þess, að fyrrv. landlæknir sagði mér frá því fyrir 3–4 árum, að skólanefndin væri að endurskoða lögin um hjúkrunarnám. Hið sama segir núv. landlæknir í dag. Og hið sama yrði máske sagt eftir 3–4 ár hér frá. Þess vegna tel ég ekkert því til fyrirstöðu, að þessar breyt., sem í frv. felast, verði samþ. nú. Þær eru nauðsynlegar, enda þótt lögin í heild verði endurskoðuð á næstu missirum eða árum og um það flutt frv. siðar. Það mál er miklu vandasamara og viðkvæmara, og út í það vildi ég ekki fara á þessu stigi málsins, en tók aðeins þær breytingar upp í mitt frv., sem mér var kunnugt um að allir voru sammála um að þyrfti að gera. Af þessum ástæðum leggur minni hl. heilbr- og félmn. til, að frv. verði samþykkt.