04.02.1960
Neðri deild: 22. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2281)

36. mál, erfðafjárskattur

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég hef hér ásamt nokkrum hv. þm. borið fram á þskj. 57 frv. til l. um breyt. á l. nr. 30 27. júní 1921, um erfðafjárskatt. Samkv. þeim l. var erfðafjárskatturinn notaður til greiðslu almennra ríkissjóðsgjalda, en með l. nr. 12 30. jan. 1952 er svo fyrir mælt, að erfðafjárskatturinn skuli renna í sérstakan sjóð, er nefnist erfðafjársjóður. Verkefni þess sjóðs er að koma upp vinnuheimilum, vinnustofum og vinnutækjum fyrir gamalmenni og öryrkja í landinu, svo að starfsorka þeirra komi að sem fyllstum notum fyrir þjóðfélagið, samfara því að skapa þessum þegnum þjóðfélagsins mildari kjör og meira öryggi en þeir búa við í dag. Er sjóðurinn í vörzlu Tryggingastofnunar ríkisins, og ákveður félmrh. ásamt tryggingaráði fjárveitingar úr sjóðnum á hverjum tíma.

Með breyttum þjóðfélagsháttum og vaxandi skilningi á kjörum öryrkja og gamalmenna vex þörfin fyrir aukið fé til þess að standa undir þeim kostnaði, sem verkefni erfðafjársjóðsins hefur í för með sér. Það er því óhjákvæmileg nauðsyn að afla sjóðnum tekna, svo að hann geti sem fyrst og sem bezt innt af hendi það verk, sem honum er falið með l. frá 1952, og að því miðar það frv., sem hér er til umr.

Samkv. 2. gr. l. nr. 30 27. júní 1921 skulu erfingjar samkv. A-flokki greiða í erfðafjárskatt sem hér segir: Af fyrstu þús. kr. 1½%, að viðbættum 1¼% fyrir hverjar þús. kr., sem fram yfir eru þús., þar til arfurinn er orðinn 10 þús., skal þá og úr því greiða 10%. Í þennan flokk er skipað samkv. gildandi l. hjónum, sem lifa hitt, niðjum hins látna, kjörbörnum og fósturbörnum svo og erfingjum, sem erfa hinn látna að ¼ samkv. arfleiðsluskrá.

Í 1. gr. frv. er gerð sú breyt. á þessum ákvæðum, að til A-flokks verði talið það hjóna, sem lifir hitt, niðjar hins látna, kjörbörn, fósturbörn, foreldrar hins látna, afar hans og ömmur. Hér er því lagt til, að foreldrar hins látna, afar og ömmur greiði erfðafjárskatt skv. A-flokki, en þau greiða nú skattinn samkv. B-flokki laganna. Á milli þessara ættingja eru svo sterk ættartengsl, að rétt er, að þau greiði erfðafjárskatt eftir sama skattstiga, svo lengi sem ákveðið er með lögum, að erfðafé skuli renna til niðja, systkina eða annarra arftaka í ættum.

Þá er lagt til í frv., að hér sé gerð á sú breyt., að arftakar, sem arf taka að ¼ hluta samkv. arfleiðsluskrá, skuli fluttir úr A-flokki í B-flokk og greiði því hærri skatt af erfðafé en þeir greiða nú samkv. gildandi l. Er hvort tveggja eðlilegt og rétt, að sú breyt. sé á gerð.

Þá er enn fremur lagt til, að sú breyt. sé gerð, að erfðafjárskattur A-flokks sé ekki lengur stighækkandi frá 1½% af fyrsta þús. upp í 10%, heldur sé jafnan greitt 10% af hvaða arfalóði sem er í þessum flokki. Reynslan ein verður að skera úr um það, hvað erfðafjárskatturinn kynni að aukast við þessa breyt., ef að lögum verður, en ljóst er, að þó að skatturinn verði eitthvað minni af því fé, sem fer til foreldra og afa og ömmu, þá verður hann þó hærri í heild, þar sem þá verður felld niður stighækkun og nokkrir aðrir arftakar færðir í flokk þeirra, sem greiða hærri erfðafjárskatt, eins og síðar verður getið.

Samkv. gildandi lögum er í B-flokk skipað foreldrum hins látna og niðjum þeirra, sem ekki heyra undir A-flokk, og ber að greiða af því fé 5½% af fyrstu þús. kr. og hækkandi um ¼% af hverju þús., þar til skatturinn hefur náð 25%. Í frv. er lagt til, að í B-flokk sé skipað systkinum hins látna, arftökum, sem arftaka samkv. sérstakri erfðaskrá eða gjafabréfi, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög eða stofnanir. Þá er og lagt til, að hér sé eigi ákveðinn stighækkandi skattur, heldur skuli af fé í þessum flokki greiddur 25% skattur, jafnt hvort sem upphæðin er há eða lág. Með þessum breytingum, ef að lögum verða, er ljóst, að allmiklu meiri upphæðir renna til sjóðsins en að óbreyttum lögum, eins og þau eru nú.

Samkv. gildandi lögum er eftirtöldum erfingjum skipað í C-flokk: afa og ömmu og niðjum þeirra, sem ekki heyra undir A- og B-flokka, eða fjarskyldum erfingjum. Af þessu fé greiðist nú stighækkandi skattur frá 11% af fyrsta þús. með 1% hækkun á hverju þús., þar til skatturinn hefur náð 50%. Í frv. er lagt til, að allir arftakar, sem eru ekki taldir upp í A- og B-flokki, falli undir ákvæði C-flokks og greiði 50% í erfðafjárskatt af öllum arfi burtséð frá stærð upphæðarinnar. Ætti þessi breyting, ef að lögum verður, að auka mjög verulega tekjur sjóðsins.

Þá er að síðustu lagt til, að erfðafjárskatturinn renni allur í erfðafjársjóð, sem stofnaður er með lögum nr. 12 30. júní 1952, og er það ákvæði í gildandi lögum. Þykir rétt í þessu sambandi að upplýsa hér, hvaða tekjur sjóðurinn hefur haft að undanförnu, hverjar eignir hans eru í árslok 1958, en það eru síðustu reikningar, sem fyrir liggja, og hvernig fé hefur verið varið úr sjóðnum á þessu tímabili. Hef ég fengið allar þessar upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins og skal hér gera nokkra grein fyrir þeim:

1953 eru tekjur í sjóðinn rúmlega 525 þús., ég mun sleppa hér smærri upphæðum, — þá eru engir vextir og heldur enginn styrkur veittur og engin lán og því sama upphæð sem eign í árslok.

1954 eru tekjur sjóðsins rúmlega 767 þús., og þá eru vextir rúmar 26 þús. kr. Þá er enginn styrkur veittur og ekki heldur nein lán úr sjóðnum og eignirnar því 1 millj. 318 þús. kr.

1955 eru tekjurnar rúmlega 995 þús., vextirnir þar rúmlega 60 þús. kr., og þá er veittur styrkur 115 þús. kr. úr sjóðnum, og mun sá styrkur vera veittur til að koma upp öryrkjastofnun hér í Reykjavík. Eignir í árslok eru þá 2 millj. og tæpar 300 þús. kr. og þá hafa einnig verið lánaðar 303 þús. kr. úr sjóðnum.

1956 eru tekjurnar rúmlega 950 þús. kr. og vextirnir nærri 113 þús. Þá er enginn styrkur veittur. Eignir í árslok eru þá 3 millj. 322 þús., og útistandandi er í láni sama upphæð, 303 þús.

1957 eru tekjurnar 854472 kr., vextirnir eru þá 166 þús. rúmlega, enginn styrkur veittur það ár, en eignir í árslok eru 4 millj. 432 þús. og sama upphæð í lánum, 303 þús.

1958, sem er síðasta árið, sem yfirlitið nær yfir þessa reikninga, eru tekjurnar 1423853 kr. og vextir 217 þús. rúmlega. Eru þá eignirnar tæplega 6 millj. Þar af eru í lánum 803 þús.

Á árinu 1959 hefur verið lofað láni til vinnustöðva SÍBS, 637500 kr., veitt lán til blindraheimilisins við Hamrahlíð 600 þús., til Sjálfsbjargar á Akureyri 250 þús., lofað styrk til Múlalundar 215500 kr., veittur styrkur til Sjálfsbjargar á Akureyri 100 þús. kr., og veittur styrkur til Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra 150 þús. — eða alls 1 millj. 950 þús.

Þetta eru þær upplýsingar, sem ég hef fengið um tekjur sjóðsins, eignir hans og hvernig fénu hefur verið varið á undanförnum árum.

Að fornu var framfærsluskylda og erfðaréttur látin fylgjast að. Breyttir tímar, breyttur hugsunarháttur og að ýmsu leyti breyttar aðstæður hafa breytt mjög verulega þessu gamla fyrirkomulagi. Nú hefur framfærsluskyldan að langmestu leyti verið flutt yfir á Tryggingastofnun ríkisins og það svo, að framfærsluskyldu er jafnvel ekki krafizt af nánustu niðjum eða öðrum ættingjum, þótt þeir búi við ágæt efni. Það er því bæði eðlilegt og sjálfsagt, að erfðafé falli í vaxandi mæli til þeirrar stofnunar, sem í vaxandi mæli tekur að sér framfærsluskylduna. En einmitt sökum þess, að enn sem komið er sér Tryggingastofnunin sér ekki fært að leggja svo mikið til framfærslu gamalmenna og öryrkja sem þörf er á, þá er eðlilegt, að þetta fé renni í sjóð, sem sinnt geti þessu hlutverki og það sem allra fyrst, svo að viðunandi sé. En það verður fyrst viðunandi, þegar þessir þegnar þjóðfélagsins, sem margir hverjir hafa slitið út kröftum sínum um langa ævi fyrir niðjana og þjóðfélagið, geta fengið það fé, sem þarf til þess að hafa sæmileg lífskjör, það sem eftir er ævinnar. Möguleikar til þess að halda þeim á heimilum barna sinna eða ættingja torveldast með hverju ári sem líður, og valda þessir erfiðleikar miklum og vaxandi vanda. Gripið hefur verið til þess að vista þetta fólk á elliheimilum í bæjum og þorpum, þar sem mjög takmarkaðir möguleikar eru fyrir því, að það fái notið sín sem skyldi, auk þess sem það hefur oftast meiri kostnað í för með sér en viðkomandi aðilar ráða við.

Með vaxandi tekjum erfðafjársjóðs á að vera unnt að bæta að verulegu leyti úr þessum vanda með því að koma upp og starfrækja elli- og örorkuheimili, þar sem öll skilyrði eru fyrir hendi, að fólkið geti haldið áfram að lifa og starfa undir líkum skilyrðum og það hefur búið við alla ævi og það vill helzt ekki hverfa frá. En þessi vandi er að mjög miklu leyti leystur með því, að sjóðurinn geti innt af hendi það hlutverk, sem hann á að inna af hendi. Væru nokkur slík heimili staðsett þar, sem fyrir eru góð skilyrði frá náttúrunnar hendi, svo sem jarðhiti, raflýsing, veiði, gróðurhúsarækt o.fl., þótt slíkir staðir væru að öðru leyti nokkuð afskekktir, mætti á sama tíma bæta úr læknisþjónustu dreifbýlisins, en það er ein af þeim ástæðum, sem knýja fólk úr fámennum héruðum, að það á ekki sama aðgang að lækni og þeir, sem í fjölbýlinu búa, Í þessu sambandi vil ég benda á tvo staði, sem mér er vel kunnugt um, að tilvaldir eru til þess að sameina þessi sjónarmið, en það eru Reykhólar í Reykhólahreppi og Reykjanes við Ísafjarðardjúp, en margir aðrir staðir á landinu hafa að sjálfsögðu einnig sömu sögu að segja.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að benda á, að nú, þegar sú hugmynd að létta verulega af beinum sköttum er að fá vaxandi fylgi hjá þjóðinni, er það ekki nema rétt og sjálfsagt, að tekinn sé stærri skerfur af erfðafé, þegar viðkomandi hefur verið gefið betra tækifæri til fjársöfnunar, og að þetta fé sé þá einmitt notað á þann hátt, sem hér er lagt til að verði gert með þessu frv. Þjóðinni er nú löngu ljóst, að ef skapa á sterkt og þróttmikið þjóðfélag, verður hún að búa sem bezt að hinni uppvaxandi kynslóð. Þess vegna leggur hún á sig þungar byrðar, til þess að æskan geti búið sig undir lífið og leyst af hendi þau verkefni, sem eldri kynslóðin leggur henni jafnan á herðar. Þess vegna reisum við og rekum skóla og aðrar menntastofnanir, þess vegna kostum við miklu fé til íþróttamála og félagsmála. En engin þjóð verður til langframa sterk, þróttmikil með vaxandi menningu og vaxandi hugsjónir, ef hún gleymir þeim, sem slitið hafa ævi sinni til þess að bæta hag niðjanna, eða þeim, sem vegna slysa eða óhappa örkumlast í lífsbaráttunni. Ég vil því vænta þess, að hv. d. hafi fullan skilning á þessum málum og samþykki þetta frv. Ég er að sjálfsögðu til viðtals og við flm. allir um einhverjar breytingar á frv., svo að það mætti betur fara, en ég vænti þess, að frv. nái fram að ganga.

Að lokinni þessari umr. óska ég eftir því, að því verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn. þessarar hv. deildar.