07.04.1960
Efri deild: 57. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2450)

45. mál, sjúkrahúsalög

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég hafði fyrirvara um afgreiðslu á þessu máli. Hann var þó ekki af því, að ég skildi ekki nauðsyn á byggingu elliheimila víða um landið, því að ég tel eðlilegt, að leitað verði eftir því, að ríkið styrki þau með einhverjum hætti, heldur var hann fyrst og fremst bundinn við það, að nú er verið að endurskoða löggjöf um elliheimili. Að því starfar milliþinganefnd, sem m.a. við hv. 9. þm. Reykv. eigum sæti í, og ég vonast til, að við getum þar komizt að samkomulagi um, hvernig hægast verður að stuðla að því, að nægilega mörg og stór elliheimili rísi í landinu til þess að fullnægja þeirri þörf, sem ómótmælanlega er fyrir hendi.

Ég er alveg sömu skoðunar og hv. 9. þm. Reykv. um, að það er eðlilegt og sjálfsagt nauðsynlegt að gera nokkurn mun á elliheimilum þar, sem fjölmenni er nokkurt, reisa fleiri tegundir en eina. Til þessa höfum við aðeins getað reist elliheimili fyrir þá, sem það er bráðust nauðsyn, fyrir einstæðinga og fyrir þá, sem eru sjúkir að einhverju leyti, og þó varla fullnægt þeirri þörf. En eins og kemur fram í bréfi landlæknis, þá er þörfin í sjúkrahúsamálum okkar mjög brýn víða og nauðsynlegt að meta það á hverjum tíma, hvað mest kallar að, og stuðla að lausn þess, sem bráðust nauðsyn er á í hvern svip, ef við getum ekki gert allt í einu, eins og við höfum rekið okkur á, að við getum ekki.

En ég vildi þó ekki vera meinsmaður þess, að þetta frv. næði fram að ganga. Mér skilst það vera nú eins og oft er, þegar svona frv. koma fram, að flm. hafa þá fyrst og fremst í huga það, sem þeim er næst og mest kallar að, þar sem þeir eru kunnugastir, og ég vil ekki vera meinsmaður þess, að þetta geti orðið til að stuðla að því, að leystur verði vandinn, þar sem menn eru tilbúnir að leysa hann með þessu móti. Ég mun þess vegna greiða atkv. með því, að þetta frv. gangi áfram. En fyrirvarinn var sem sagt bundinn við það, að fyrir þessu þingi liggja fleiri breytingar á sjúkrahúsalögunum og enn fremur till. til breyt. á l. um styrk fyrir vinnuheimili, þannig að mögulegt verði að styrkja vinnuheimili, sem kynnu að verða reist fyrir aldrað fólk.