27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í D-deild Alþingistíðinda. (2664)

93. mál, klak- og eldisstöð fyrir lax og silung

Bjartmar Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil einungis þakka hv. fjvn. fyrir afgreiðslu á þessari till., og eindregin meðmæli með henni. Einnig vil ég vænta þess, ef till. verður samþykkt, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að framkvæma hugmyndina um fiskeldisstöðvar eins fljótt og tök eru á, enda veit ég, að fyrir liggur áhugi a.m.k. sumra ráðherra í hæstv. ríkisstj. fyrir því.

Þetta er að mínu áliti mjög mikilsvert mál. Það lýtur að því að taka tæknina í þjónustu klaks og fiskeldis, svo sem nú er mjög tíðkað víða erlendis, og auka fiskistofna í ám og vötnum í landinu. Og samkv. reynslu erlendis nú hin síðustu ár er það vafalítið eða raunar vafalaust mál, að það er hægt að stórauka lax og silung hér í vötnum á næstu árum, ef rétt er á þessum málum haldið og lagt er út í þann kostnað, sem hér er gert ráð fyrir.

Einnig blasir það við, að hægt er að rækta fiska í vötnum á svipaðan hátt og húsdýr eru ræktuð og hafa verið ræktuð um langan tíma, og mjög er líklegt, að sú fiskrækt, sem t.d. Danir framkvæma nú mikið með regnbogasilung, geti vel átt við hér á landi eins og í öðrum löndum. Það virðist vera mjög mikill markaður fyrir þessa vöru þar og líkur til, að svo verði einnig hér, ef við tækjum slíka framleiðslu upp. En fyrsta verkefni okkar að því er snertir fiskrækt álit ég þó að sé að auka laxinn og silunginn í ánum og vötnunum, og það er mjög mikilsvert atriði. Og áreiðanlegt er, að það er mikill hugur í landsmönnum í þessa átt nú, því að yfir Alþingi hefur svo að segja rignt áskorunum um að samþykkja þessa tillögu.