04.04.1960
Neðri deild: 61. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

89. mál, umferðarlög

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar frv. til laga um breyt. á umferðarlögum, nr. 26 2. maí 1958, en það er stjórnarfrv., og hafa nm. orðið sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt.

Sú breyt. á reglunum um ríðandi menn, sem komst inn í umferðarlögin frá 1958, að þeim væri skylt að halda sig á hægri vegarhelmingi í stað vinstri áður, hefur ekki þótt gefast vel, og er það álit þeirra manna, sem þessum málum eiga að vera kunnugastir, að umferð ríðandi manna um hægri vegarhelming hafi aðeins aukna slysahættu í för með sér. Hefur Landssamband hestamanna beinlínis óskað eftir, að reglunum um ríðandi menn verði breytt í það horf, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, og búnaðarþing hefur einnig lýst sig fylgjandi þessari breyt.

Allshn. leitaði álits lögreglustjórans í Reykjavík um frv. þetta, og lýsti hann sig fylgjandi því, með því að hinar breyttu reglur um umferð riðandi manna skv. umferðarlögunum frá 1958 hefðu haft í för með sér aukna slysahættu, eftir því sem hann bezt vissi.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en eins og ég áður gat um, leggur allshn. einróma til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.