02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í D-deild Alþingistíðinda. (10005)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir 10 mánuðum flutti ráðh. sá, sem hér var nú að ljúka máli sínu, íslenzku þjóðinni boðskap í ríkisútvarpinu um landhelgismálið. Þá sagði ráðh. orðrétt á þessa leið:

„Við munum berjast gegn öllum frádrætti, hverju nafni sem nefnist, tímatakmörkunum og öðrum, gegn öllu, sem veitir öðrum þjóðum fiskveiðiréttindi innan 12 mílna við Ísland.“

Þegar þetta var sagt, hafði borizt út sá orðrómur, að ráðh. væri byrjaður að makka við Breta um landhelgismálið, og brezk blöð fullyrtu beinlínis, að svo væri. En þjóðin var andvíg öllu makki við Breta um málið, og af því þótti nauðsynlegt að sverja á þennan hátt, sem ráðh. gerði í útvarpsboðskap sínum.

Á miðju s.l. sumri lýstu tveir ráðh. yfir því, þeir Bjarni Benediktsson dómsmrh. og Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh., að allar getsakir um það, að til stæði að semja við Breta um landhelgismálið, væru uppspunnar og ósannar og ætlaðar til þess að sverta ríkisstj. Aðeins mánuði síðar urðu þessir ráðherrar að viðurkenna, að þeir höfðu samþ. að taka upp viðræður við Breta um landhelgismálið. Fyrst hét það svo, að hér væri aðeins um viðræður að ræða, ekki samningaviðræður.

Þannig var þjóðin blekkt stig af stigi með ósönnum yfirlýsingum og röngum svardögum æðstu embættismanna þjóðarinnar.

En brátt kom að því, að viðræðurnar við Breta urðu formlegar samningaviðræður. Þann 1. okt. s.l. kom samninganefnd Breta hingað til lands, og augljóst var á öllum vinnubrögðum, að ætlunin var að hafa lokið samningum, áður en Alþingi kæmi saman 10. okt. En þá reis slík mótmælaalda í landinu, að fá dæmi eru slíks. Ríkisstj. varð hrædd og lét undan síga í bili. Til þess að lægja óánægjuölduna lýsti forsrh. því hátíðlega yfir á Alþingi, að haft skyldi samráð við Alþ. um málið. Þetta hátíðlega loforð var svikið. Ekkert samráð hefur verið haft við Alþingi. Þvert á móti hefur öllum upplýsingum verið haldið fyrir Alþ. og þar sagt ósatt um gang málsins.

Fyrir aðeins nokkrum dögum spurðist ég fyrir um það á Alþ., hvort það væri rétt, sem brezk blöð skýrðu frá, að íslenzka ríkisstj. hefði gert till. um lausn landhelgisdeilunnar við Breta, og jafnframt spurði ég, hvort ríkisstj. teldi ekki ástæðu til að skýra Alþ. frá því, sem gerzt hefði í málinu. Nú er það öllum ljóst, að þegar ég gerði fsp. mína á Alþingi, var samkomulag það, sem nú hefur verið lagt fram, þegar gert að fullu. Það samkomulag var gert rétt fyrir jól, þegar Guðmundur í Guðmundsson utanrrh, var kallaður á NATO-fund og ræddi um málið við utanrrh. Breta á lokastigi málsins. En utanrrh. Íslands, Guðmundur Í. Guðmundsson, var samt ekki hikandi, þegar hann svaraði fsp. minni á Alþ. fyrir nokkrum dögum. Blygðunarlaust sagði hann, að Íslendingar hefðu enga till. gert um lausn deilunnar, að fréttir um slíkt væru rangar, og hann bætti við, að ekkert það hefði gerzt í málinu, að ástæða væri til að skýra Alþ. frá því. Sá maðurinn, sem sjálfur geymdi í gögnum sínum samkomulagsplaggið og sjálfur hafði gert samkomulagið, sagði þannig Alþingi Íslendinga ósatt um málið.

Samkomulagsplaggið var vandlega geymt og tilvist þess afneitað allan janúar og allan febrúar, vegna þess að það þótti ekki vogandi að tilkynna það, á meðan verkföllin stæðu yfir. Það var hræðsla við það, að slíkur svikasamningur í landhelgismálinu gæti magnað verkföllin og beinlínis orðið ríkisstj. að falli. En nú eru verkföllin liðin hjá, og þá á með skyndiáhlaupi að ryðja málinu í gegnum Alþ. Enn á að læðast að þjóðinni, og blekkingum er ausið yfir hana í stærri stíl og ósvífnari formi en nokkru sinni áður.

Vinnubrögðin eru þessi: Kl. 5 síðd. er þskj. um málið útbýtt á Alþ. óvenjulegur tími er valinn, sýnilega af ásettu ráði. Þannig getur ríkisstj. fengið einn sólarhring til blekkingaráróðurs, áður en stjórnarandstaðan getur komið skýringum sínum að. Um kvöldið eru gefnar út aukaútgáfur stjórnarblaðanna með ótrúlegum blekkingum. Þannig er aðalfyrirsögn Alþýðublaðsins: „Aldrei framar inn fyrir 12 mílur.“ En aðalefni samningsins er þó að hleypa Bretum upp að 6 mílum. Og síðan er ríkisútvarpið notað í marga daga til þess að tyggja upp áróðursósannindi ríkisstj. um efni málsins. Með þessum vinnubrögðum hefur eflaust tekizt að villa einhverjum sýn í fyrstu lotu. En upp komast svik um síðir. Ósannindi ríkisstj. munu verða öllum Íslendingum ljós, áður en margir dagar líða. Stórsigur Íslands í landhelgismálinu, segir ríkisstj., þegar hún leggur fyrir Alþ. til staðfestingar nýjan samning við Breta um málið.

Hvað er nú hið sanna um efni þessa samkomulags? Við skulum athuga það lið fyrir lið. Ríkisstj. segir sjálf, að samkomulagið feli í sér fjögur meginatriði:

1) Bretar viðurkenni 12 mílna fiskveiðilandhelgi Íslands.

2) Bretar viðurkenni þýðingarmiklar grunnlínubreytingar.

3) Íslendingar heimili brezkum skipum að veiða upp að 6 mílum í þrjú ár á ýmsum svæðum við landið.

4) Íslendingar lofa því að færa ekki út fiskveiðimörkin að nýju án þess að tilkynna Bretum með sex mánaða fyrirvara og ágreiningi skuli verða vísað til alþjóðadómstólsins, ef óskað er.

Rétt er að íhuga hvert þessara atriða um sig og ganga úr skugga um, hvað er hið sanna um efni þeirra.

Bretar viðurkenna 12 mílur við Ísland, segir ríkisstj. og leggur á það höfuðáherzlu í málflutningi sínum. Hvernig er viðurkenningin orðuð í sjálfu samkomulaginu? Orðalagið er þannig: „Ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland.“ Ekki eitt orð er að finna í samkomulaginu um viðurkenningu eða samþykkt á 12 mílunum, en í stað þess er sagt: „falli frá mótmælum“. Að falla frá mótmælum jafngildir ekki viðurkenningu, og sannar ríkisstj. það bezt sjálf í grg. sinni með till. Í grg. till. segir ríkisstj. orðrétt á þessa leið:

„Með þessu samkomulagi fær Ísland viðurkenningu Breta á 12 mílna mörkunum, og er auðsætt, hversu mikla þýðingu það hefur, ekki sízt þegar þess er gætt, að til þessa hafa Bretar hvorki viðurkennt formlega 4 mílna fiskveiðilögsöguna frá 1959 né 12 mílna lögsöguna frá 1958.“

Hér er berum orðum sagt, að Bretar hafi ekki viðurkennt 4 mílna mörkin frá 1952. Þetta er líka rétt. En hvað hafði gerzt í deilunni um 4 mílna mörkin frá 1952? Fyrst mótmæltu Bretar þá, eins og nú, 1958. Þeir beittu þá ofbeldi eins og nú, þótt með öðrum hætti væri. Síðan féllu Bretar frá mótmælum sínum gegn 4 mílum, en viðurkenndu þær ekki. Framkoma Breta hefur óumdeilanlega sannað, að þeir gera grundvallarmun á því að falla frá mótmælum og því að viðurkenna. Frá mótmælum er hægt að falla um stundarsakir, en taka þau upp aftur, — þegar hentugt þykir. Bretar höfðu fallið frá mótmælum sínum gegn 4 mílum og meira að segja gert nýjan löndunarsamning við okkur. En þegar deilan reis út af 12 mílunum, tóku Bretar bara aftur upp mótmæli sín gegn 4 mílum og hindruðu íslenzk varðskip í að taka brezka veiðiþjófa innan 4 mílna markanna. Bretar sögðu pá skýrt og skorinort, að þeir hefðu aldrei viðurkennt 4 mílur.

Samkv. samkomulagi ríkisstj. nú við Breta er aðeins um að ræða, að Bretar falli frá mótmælum sínum, og engin tímatakmörk eru þar sett. Ekkert orð er að finna í samningnum sjálfum um það, hvað gerist að þremur árum líðnum. Allar yfirlýsingar ráðh. um, að þeir hafi loforð brezku stjórnarinnar um, að þeir skuli fara út fyrir mörkin eftir þrjú ár, eru vitanlega haldlausar, á meðan það stendur ekki í þeim milliríkjasamningi, sem nú á að gera. Slík loforð einstakra ráðh. geta ekki bundið þær ríkisstjórnir, sem taka við í Bretlandi á eftir. Það er aðeins samningurinn einn, sem stendur. En það er líka ljóst á þessum samningi, að annað orðalag hans ber það greinilega með sér, að Bretar geta túlkað það svo, að þeir séu aðeins bundnir af samkomulagi í þrjú ár eða á meðan þeir fá að skarka í landhelgi okkar. Þannig er eitt meginatriðið í röksemdum ríkisstj. fyrir samkomulagi þessu, viðurkenning Breta á 12 mílum, fallið um sjálft sig. Hið sanna er líka það, að Bretar neituðu um formlega viðurkenningu og neituðu öllum ákvæðum, sem skuldbundu þá í samningnum til þess að víkja út úr landhelginni eftir 3 ár. Af því vantar þessi atriði öll í samninginn.

Bjarni Benediktsson dómsmrh, á eflaust eftir að tala hér á eftir mér. Ég vil skora á hann að tilfæra hér fyrir hlustendum þau ummæli samkomulagsins við Breta, sem skuldbinda þá til þess að fara út úr landhelginni eftir þrjú ár, og enn fremur skora ég á hann að lesa fyrir hlustendum þau ákvæði í samningnum, sem fjalla um viðurkenningu Breta á 12 mílna landhelginni við Ísland. Veitið því athygli, hvað ráðh. gerir í þessum efnum. Ekkert svar hans er staðfesting á því, að Bretar hafa enga formlega viðurkenningu gefið og þeir eru óbundnir eftir 3 ár.

Víkjum þá að öðru meginatriði samkomulagsins, en það er breytingin á grunnlínum. Ríkisstj. hefur lagt á það ofurkapp að benda landsmönnum á 9 grunnlínubreytingar, sem hún ætlar að gera. Þessar grunnlínubreytingar eru taldar stórsigur og gildi þeirra talið ómetanlegt. Augljóst er, að ríkisstj. vill láta landsmenn horfa á þær skákir, sem vinnast við þessar breytingar, á meðan hún er að hleypa hundruðum erlendra skipa inn á miklu stærri svæði landhelginnar og miklu nær landi en þessar skákir eru. Svo ósvífinn er þessi málflutningur, að sagt er, að Bretar hafi látið okkur hafa þessar skákir og þær séu næstum eins stórar og svæðið, sem við látum þá hafa. Já, Bretar geta gefið okkur Íslendingum hluta af Selvogsbanka, Húnaflóa og Bakkaflóa. Þeir eru svo sem ekki vondir menn, Bretarnir, nei, ónei. En skyldu Bretar eiga eitthvað í fiskimiðunum í kringum Ísland? Skyldu þeir eiga eitthvað í þeim neðansjávarstöpli, sem Ísland stendur á? Ekki aldeilis. En er þá grunnlínubreytingin ekki góð út af fyrir sig? Jú, vissulega. En við getum bara ekki keypt það af neinum, sem við eigum sjálfir. Við þurfum ekki að hleypa Bretum upp á bátamið okkar til þess að gera þær breytingar á landgrunnslínum okkar, sem við eigum rétt til samkv. alþjóðalögum.

Allt raus hæstv. utanrrh. hér áðan um það, að við Alþýðubandalagsmenn og framsóknarmenn hefðum sýnt fjandskap okkar gegn grunnlínubreytingum með því að leggja til, að núgildandi fiskveiðilandhelgi með þeim grunnlínum, sem nú gilda, skyldi lögbundin, er vitanlega út í hött, þar sem slík lögfesting tók ekkert vald af Íslendingum í málinu. Réttur meiri hl. Alþingis gat vitanlega ákveðið grunnlínubreytingar, hvenær sem hann vildi, aðeins með því að breyta lögunum aftur. Lögin höfðu það eitt gildi, eins og skýrt var tekið fram af flm. frv., að það átti að koma í veg fyrir, að veiklunduð ríkisstj. gæti án samþykkis Alþingis breytt fiskveiðilandhelgi Íslands Íslendingum í óhag.

Margyfirlýst afstaða okkar Alþb.-manna og einnig framsóknarmanna til grunnlínubreytinganna sannar, að allt fjas ráðherrans er út í bláinn. Á fyrri Genfarráðstefnu, 1958, var gerður alþjóðasamningur um grunnlínur, og við Íslendingar vorum aðilar að þeim samningi eins og flestar aðrar þjóðir. Grunnlínuvandamálið var leyst. Hvorki Bretar né aðrir gátu veitt neina mótstöðu gegn því, að við notfærðum okkur í þeim efnum alþjóðalög, sem Bretar voru beinir aðilar að. Þetta lá skýrt fyrir, þegar landhelgisstækkunin var ákveðin 1958. Ég lagði þá fyrir hönd okkar Alþb.-manna fram skriflegar tillögur í landhelgismálanefnd flokkanna þann 28. apríl 1958 um útfærslu á grunnlínum við landið og lagði fram kort, sem sýndi breyt. Í þeim till. voru allar þær grunnlínubreytingar, sem nú er ætlað að gera. En í mínum tillögum voru aðrar grunnlínubreytingar, nákvæmlega jafnréttháar, teknar einnig með, en nú er þeim sleppt. Í mínum till. var lagt til að færa út við Grímsey fyrir Norðurlandi. Þannig að þá yrðu ekki þeir krikar inn í landhelgina, sem nú eru þar og áfram eiga að vera þar. Sams konar till. gerði ég varðandi Hvalbak fyrir Austurlandi. Og ég lagði enn fremur til að rétta grunnlínurnar í Mýrnabugt og Meðallandsbugt, eins og ótvíræður réttur okkar er til. Samkv. till. okkar Alþb.-manna hefði útfærslan á Selvogsbanka og við Reykjanes orðið meiri en nú er lagt til, þar sem við lögðum til, að grunnlínan yrði dregin beint á milli Geirfuglaskers sunnan Vestmannaeyja og í Geirfugladrang út af Reykjanesi, en ekki í Eldeyjardrang, eins og nú er lagt til. Allar þessar grunnlínubreytingar áttum við Íslendingar samkv. alþjóðalögum. En hvers vegna voru þessar grunnlínubreytingar ekki gerðar 1958, þegar 12 mílurnar voru ákveðnar? Það liggur ljóst fyrir. Sjálfstfl. og Alþfl. vildu ekki á þær fallast. Þeir voru þá, eins og allir vita, á móti aðgerðum í landhelgismálinu. Þeir vildu fresta málinu og ganga til samninga við erlenda aðila um málið. Þeir þvældu að vísu um grunnlínubreytingar, en neituðu öllum tillögum, sem fram komu, og fengust aldrei til að leggja fram eina einustu till. um grunnlínubreytingu.

Þann 28. júní 1958, eða daginn áður en reglugerðin um 12 mílurnar var gefin út, lýstum við fulltrúar Alþb. og Framsfl. yfir því, að við værum reiðubúnir að samþykkja grunnlínubreytingar ásamt 12 mílunum, ef samkomulag gæti orðið um málið. Á þeim fundi lýsti Guðmundur Í. Guðmundsson yfir því, að Alþfl. væri ekki reiðubúinn til þess að taka afstöðu til grunnlínubreytinga, en vildi fresta útgáfu reglugerðarinnar í heild. Sigurður Bjarnason, fulltrúi Sjálfstfl., lýsti yfir sömu afstöðu, að hann vildi fresta málinu og tæki ekki afstöðu til grunnlínubreytinga. Þegar málin stóðu þannig, lýstu Framsfl. og Alþb. yfir því, að aðeins annað stækkunarskrefið yrði stigið nú, 12 mílna stækkunin, en rétturinn til breytinga á grunnlínum yrði geymdur.

Ofan á þessa sögu kemur svo ríkisstj. nú með grunnlínubreytingar sínar, og nú á aðeins að taka hluta af þeim grunnlínubreytingum, sem réttur okkar stendur til. Aukningin við Grímsey og Hvalbak er skilin eftir, af því að Bretar stunda mikið veiðar einmitt á þessum slóðum. Og eitt bezta fiskisvæði við Ísland, Meðallandsbugtin, má standa áfram opin fyrir Bretum þrátt fyrir skýlausan rétt okkar til þess að rétta af grunnlínuna þar. Og út á það, að íhald og kratar drattast nú tveimur árum of seint í það að samþykkja nauðsynlegar grunnlínubreytingar og þó aðeins til hálfs nú, á að veita Bretum rétt til þess að skarka upp að 6 mílum svo að segja í kringum allt landið.

Þannig eru þá þau tvö meginatriði í samkomulaginu, sem við áttum að njóta góðs af, Íslendingar, þau atriði, sem Bretar áttu að láta af hendi við okkur. Viðurkenningin á 12 mílunum er engin, og grunnlínubreytingarnar áttum við allar samkv. alþjóðalögum.

Hvað fá svo Bretar samkv. þessu samkomulagi í staðinn? Brezkir togarar fá leyfi til þess að veiða upp að 6 mílna mörkum við Ísland allt árið. Enginn mánuður skal úr falla. Svæðin og tíminn, sem Bretar fá, eru í fullu samræmi við óskir þeirra og þarfir. Bretar fá öll þau svæði, þar sem þeir áður höfðu markað sér veiðibása, nema út af Vestfjörðum. Fyrir öllu Norðurlandi nema á smáskika landmegin við Grímsey mega Bretar vera þá fjóra mánuði, sem þeir óska helzt eftir. Fyrir Austurlandi mega þeir vera alla mánuði ársins, færa sig lítillega til eftir því, sem reynslan hefur sýnt þeim að er þeim sjálfum í hag. Fyrir Suðurlandi mega Bretar vera á aðalaflatímanum, á sjálfri vetrarvertíðinni. Í Faxaflóa og Breiðafirði mega þeir vera í marz, apríl og maí, á aðalvertíðarmánuðunum.

Augljóst er, að afleiðing þessa verður mikill ágangur erlendra togara. Bretar eiga um 300 togara, sem veiðar geta stundað við Ísland. Á þeim eigum við von upp að 6 mílum næstu 3 árin a.m.k. En allir vita, að Bretar verða hér ekki einir. Aðrar fiskveiðaþjóðir munu fá hér sömu réttindi og þeir.

Í kjölfar 300 brezkra togara geta komið 100 þýzkir, og enn geta bætzt 100 við, þar sem eru íslenzkir togarar, belgískir togarar og færeyskir togarar. 500 togarar upp að 6 mílum í þrjú ár. Mér er spurn: Vita menn, hvað þeir eru að gera? Hafa menn ekki fylgzt með því, hvers konar ofveiði hefur verið hér í Norður-Atlantshafi undanfarandi ár? Aflaleysi íslenzku togaranna hér á Íslandsmiðum s.l. 3 ár er dæmi um það. Friðun grunnmiðanna síðan 1948 var að byrja að segja til sín. Afli fyrir Norðurlandi og Austurlandi og alls staðar á grunnmiðum var að glæðast aftur. Nýjar vonir voru að glæðast með þjóðinni, að okkur mundi e.t.v. takast að bjarga fiskimiðum okkar aftur. En þá kemur þetta reiðarslag: 500 togarar upp að 6 mílum, upp á smábátamiðin, á uppeldisstöðvarnar, á smáfiskinn, þar sem hann er að alast upp. Hvílík skammsýni, hvílík þjóðsvik!

Ég veit það vel, að aðalsamningamenn ríkisstj., þeir Guðmundur Í. Guðmundsson utanrrh. og Bjarni Benediktsson dómsmrh., hafa ekki meira vit á íslenzkum sjávarútvegi og aðstöðu íslenzkra sjómanna á fiskimiðunum en kötturinn á sjöstirninu. Slíka fávizku geta þeir haft sér til afsökunar. En hvað um Ólaf Thors forsrh. og Emil Jónsson sjútvmrh.? Einu sinni hafa þessir ráðherrar þó a.m.k. stungið nefinu í útgerðarmál. En eru þeir kannske komnir líka á sama stigið í þessum efnum og hinir tveir ráðherrarnir? Eða eru engin takmörk fyrir því, hve djúpt þessir ráðherrar geta sokkið í undirlægjuhætti sínum við erlent vald?

Ég kem þá að fjórða meginatriðinu í samkomulaginu. Samkvæmt því afsalar Ísland sér einhliða rétti til frekari útfærslu fiskveiðilögsögunnar en nú er orðið. Hugsi íslendingar til frekari stækkunar, skal þeim vera skylt að tilkynna Bretum það með sex mánaða fyrirvara og sæta úrskurði alþjóðadómstóls, sé þess krafizt. Hér er um hættulegasta og alvarlegasta ákvæði þessa samkomulags að ræða. Með þessu ákvæði erum við raunverulega bundnir á höndum og fótum. Það er alger blekking að halda því fram, að raunverulega sé hægt að láta alþjóðadómstólinn skera úr um deilur varðandi stærð fiskveiðilandhelginnar. Á síðustu Genfarráðstefnu um landhelgismálið kom þetta atriði skýrt fram í ræðum margra heimskunnra lögfræðinga. Ástæðan til þess, að alþjóðadómstóllinn getur alls ekki fellt neinn eðillegan dóm um stærð landhelgi, er sú, að það er viðurkennd staðreynd, að nú eru engin alþjóðalög til um víðáttu landhelgi. Tvær alþjóðlegar ráðstefnur hafa einmitt verið haldnar til þess að reyna að setja lög um þetta efni, en það hefur ekki tekizt. Lögin, sem dæma ætti eftir um þetta atriði, stærð landhelgi, eru því ekki til. Úrskurður alþjóðadómstólsins í þessum efnum gæti aldrei verið annað en persónuleg atkvgr. þeirra, sem dóminn skipa, um vilja þeirra eða þeirra ríkja, sem þeir eru fulltrúar fyrir. Þær þjóðir, 31 að tölu, sem nú hafa 12 mílna landhelgi, hafa allar tekið sér þá landhelgi með einhliða yfirlýsingu. Þær þjóðir, sem lýst hafa lögsögu yfir stærra svæði, hafa líka allar gert það með einhliða yfirlýsingum. Ákvæðið um áfrýjun til alþjóðadómstólsins í þessum efnum er því sett inn í samkomulagið af ráðnum hug til þess að stöðva alla frekari útfærslu á landhelgi Íslands.

Í grg. till. reynir ríkisstj. að skjóta sér á bak við það, að ákvæðin um málskot til alþjóðadómstólsins séu í samræmi við tillögur og afstöðu Íslands að báðum Genfarráðstefnunum, þar sem lagt hafði verið til að leggja ágreininginn undir gerðardóm. Hér er gersamlega óskyldum hlutum jafnað saman. Annað atriðið varðar ágreining um ofveiði á úthafinu, en hitt er um stærð fiskveiðilandhelgi. En það er fróðlegt að heyra, hvað helztu ráðunautar ríkisstj. í landhelgismálinu, þeir Hans G. Andersen og Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, segja í skýrslu sinni um Genfarráðstefnuna 1958 um þetta atriði, sem ríkisstj. ætlar sér nú að skjóta sér á bak við. Segir orðrétt í skýrslu þessara tveggja fulltrúa:

„Þær fréttir bárust til Genf á sínum tíma, að íslenzku n. hefði verið hallmælt í íslenzkum blöðum vegna þess, að einungis væri talað um forgangsrétt, og sérstaklega af því, að talað var um gerðardóm. Virtust þau gefa í skyn, að íslenzka nefndin hefði þarna framið talsvert axarskaft og falið útlendingum úrskurðarvald varðandi íslenzka lögsögu. Þetta er auðvitað hreinn misskilningur, því að í till. sjálfri segir, að þessar reglur skuli gilda utan fiskveiðilögsögu hlutaðeigandi ríkis, og hvergi er minnzt á, hversu langt hún skuli ná, og því síður, að gerðardómur skuli um hana fjalla. Það, sem um var að ræða, var, að Ísland hefði forgangsrétt utan íslenzku fiskveiðimarkanna, eins og þau eru á hverjum tíma, og er óskiljanlegt, hvernig nokkur Íslendingur getur gert við það athugasemdir.“

Þetta eru orð þeirra Hans G. Andersens og Davíðs Ólafssonar um þessar gerðardómstillögur.

Það er rétt, að Íslendingar voru árið 1958 svo viðkvæmir í þessum málum, að þeir vildu ekki einu sinni gera ráð fyrir gerðardómi um það, hvort um ofveiði eða ekki væri að ræða utan fiskveiðimarkanna. En óhætt er að fullyrða, að þá heyrðist ekki í einum einasta Íslendingi sú rödd, að til mála kæmi að sæta úrskurði erlends dómstóls um sjálfa fiskveiðilögsöguna, eins og nú er lagt til. Slíkt er í fullkominni andstöðu við alla afstöðu Íslands í landhelgismálinu fyrr og síðar.

Þegar blekkingarhjúpnum hefur verið svipt af þessu samkomulagi ríkisstj. við Breta, stendur þetta eftir:

1) Bretar veita enga formlega viðurkenningu á 12 mílum.

2) Bretar veita engin loforð um að hverfa úr landhelginni eftir þrjú ár, sem íslendingar geti handsamað þá á.

3) Mörg hundruð erlend skip fá leyfi til þess að skarka á bátamiðunum kringum landið upp að 6 mílum í a.m.k. 3. ár.

4) Íslendingar afsala sér rétti til frekari stækkunar fiskveiðilögsögunnar við landið án samþykkis Breta.

5) Landgrunnslögin frá 1948 eru raunverulega felld úr gildi.

Þannig er þá sannleikurinn um stórsigur Íslands í landhelgismálinu. Hann er þá um stórsvik við hagsmuni lands og þjáðar. Öll undanbrögð ríkisstj. í þessu máli, allur laumuskapurinn, öll ósannindin, öll sviknu loforðin, allt verður þetta skiljanlegt, en ekki afsakanlegt, þegar sannleikur málsins liggur fyrir umbúðalaus. Það er ekkert nýtt fyrirbæri, að þeir, sem hafa illt í huga og ætla sér að vinna óþurftarverk, laumist með undirbúning sinn og þræti fyrir ráðagerðir sínar, á meðan þess er nokkur kostur. Núv. ríkisstj, hefur tamið sér slík vinnubrögð. Af fádæma fyrirlitningu á réttu og röngu snýr hún staðreyndum við og læzt alltaf vera að gera þveröfugt við það, sem hún er að gera. Þegar hún t.d. lækkar allt kaup í landinu, segir hún, rétt eins og hún meini það, að hún sé að berjast gegn dýrtíð. Og þegar hún setur lög, sem banna kauphækkun, segir hún í fullri alvöru, að hún skipti sér ekki af kaupgjaldsmálum. Og þegar hún byrjaði að makka við Breta um landhelgina, lýsti hún auðvitað yfir því, að samningar við Breta kæmu ekki til mála. Þegar hún semur um að hleypa Bretum inn í landhelgina, æpa blöð hennar: „Aldrei framar inn fyrir 12 mílur.“ Og þegar hún hefur svikið samþykkt Alþ. frá 5. maí 1959 um, að ekki skuli hvika frá 12 mílum allt í kringum landið, þá lýsir hún því yfir í sjálfu svikaplagginu, að hún muni áfram vinna að framkvæmd þessarar samþykktar. Og hvað gat svo sem annað orðið framhaldið af svona staðreyndafölsun en það að orga yfir þjóðina nú, að stjórnin hafi unnið stórsigur, þegar hún var að fremja stórsvik? Það er eins og alkunn regla úr þekktri bók eigi að vera þeirra regla: „Þegar hann sver, þá lýgur hann.“

Góðir Íslendingar. Landhelgismálið er að komast á lokastig. Sá óttalegi grunur, sem þjóðin hefur hræðzt að undanförnu, er nú að koma fram. Ríkisstj. hefur unnið að svikasamningi. Sá samningur er jafnvel verri en nokkrum manni hafði komið til hugar. Það á að binda hendur okkar um ókomin ár. Hvað er hægt að gera til þess að afstýra þessum þjóðarvoða? Það væri enn hægt að knýja ríkisstj. til undanhalds. En til þess þarf þjóðin öll að risa upp. Flokksmenn stjórnarflokkanna verða að leggjast hér á eina sveif með stjórnarandstæðingum.

Landhelgismálið er mál þjóðarinnar allrar án tillits til flokka. Eyðing fiskimiðanna við landið bitnar á öllum landsmönnum jafnt. Einnig þeir, sem nú verða í fyrstu lotu ekki eins hart fyrir barðinu á hinum erlenda flota, munu tapa eins og hinir, sem fá á sig erlendan flota allt árið. Tap þeirra kemur aðeins síðar. Þjóðin getur ekki á komandi árum, þegar grunnmiðin við landið eru urin upp, lifað á öfugmælum ríkisstj. Nú verður hver og einn einasti íslenzkur fiskimaður, hver og einn einasti verkamaður og allir landsmenn að láta Alþingi heyra vilja sinn í þessu máli.

Það er hægt að hræða stjórnarflokkana frá samþykkt þessa samkomulags. Það, sem þeir óttast, er fylgishrun. En þeir verða að skilja það nú strax, að fylgishrunið verður ekki umflúið, fremji þeir svikin.

Það er krafa okkar, sem hér á Alþingi stöndum gegn þessum svikasamningi, að samningurinn verði borinn undir þjóðaratkvæði. Við krefjumst þjóðaratkvæðis. Sú krafa þarf að dynja á ríkisstj. Ríkisstj. gumar af stórsigri þjóðarinnar. Hún getur þá ekki óttazt þjóðaratkvæði um málið. Hvar er lýðræðisást stjórnarflokkanna, ef þeir færast nú undan þjóðaratkvgr.? Eða trúa þeir kannske ekki á málstað sinn, eins og þeir láta? Hér er slíkt stórmál á ferðinni, að þjóðaratkv. er sjálfsagt. Hér er teflt um framtíðarhag þjóðarinnar. Hér er um skuldbindingu um ókomin ár að ræða. Þjóðaratkvgr. er hægt að framkvæma um málið á stuttum tíma, og þá liggur vilji þjóðarinnar fyrir ótvírætt.

Íslendingar! Gerum kröfuna um þjóðaratkvgr. að kröfu allra landsmanna. Látum þá kröfu bergmála um allt land. Knýjum fram þjóðaratkvæði og björgum þar með heiðri og málstað Íslands. Góða nótt.