15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

3. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Fjhn. hv. d. hefur haft til meðferðar frv. til laga um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga. Með frv. þessu er gert ráð fyrir að innheimta tiltekin gjöld á árinu 1961 með sömu viðaukum og verið hefur undanfarin ár. Þá er enn fremur gert ráð fyrir, að haldist heimild sú, sem verið hefur til að fella niður aðflutningsgjöld á nokkrum nauðsynjavörum. Sú breyting er þó helzt á þessu frv. frá fyrri lögum, að um einstaka tekjustofna hafa verið samþykkt sérstök lög, svo sem um söluskattinn, og hann því felldur út úr þessu frv. Sama gegnir og um nokkra aðra tekjuliði, sem á sinum tíma voru felldir inn í lögin um efnahagsmál.

Nefndin hefur orðið sammála um að leggja til við hv. d., að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Þó hafa tveir nm., Einar Olgeirsson og Skúli Guðmundsson, skrifað undir það með fyrirvara. Það er till. n., að hv. d. samþykki þetta frv. óbreytt.