24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1236)

217. mál, landnám, ræktun og byggingar í sveitum

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Hinn 26. okt. 1960, þ.e. á öndverðu þessu þingi, var útbýtt hér á hv. Alþ. frv. til laga um breyt. á l. nr. 48 frá 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Flm. þess frv. eru þrír þm. Framsfl., sem sæti eiga í Nd. Þetta frv. var tekið til 1. umr. og visað til landbn. Nd. 3. nóv. 1960. Þegar frv. hafði legið hjá n. 95 daga, gaf minni hl. þeirrar n. út álit um málið, og í því nál. er tekið fram, að málið hafi ekki fengizt tekið fyrir í landbn. Nd. fyrr en þá, en þeir, sem minni hlutann skipa, vilji ekki una slíkum drætti á afgreiðslu svo þýðingarmikils máls og gefi því út sérálit, þar sem þeir leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. En álit frá meiri hl. landbn. Nd. um þetta þýðingarmikla mál hefur ekki enn komið fram, þó að nú séu liðnir 140 dagar, síðan þessu máli var vísað til þeirrar nefndar. Af þessu verður að draga þá ályktun, því miður, að þetta mál hafi ekki til þessa átt fylgi að fagna í hv. Nd., a.m.k. hefur það ekki átt greiðan gang í gegnum þá hv. deild.

En nú fyrir þremur dögum er borið fram hér f þessari hv. d. stjfrv. um breyt. á l. nr. 48 frá 28. maí 1957, um landnám, ræktun og byggingar í sveitum. Það verður þegar augljóst, þegar litið er á þetta frv., að það fjallar um breyt. á sömu l. og frv. framsóknarmanna, sem liggur fyrir Nd. En þegar nánar er að gætt, þá kemur það og í ljós, að bæði frv. eru fjórar greinar og að bæði frv. fjalla um breyt. á sömu greinum laganna, nákvæmlega sömu ákvæðum, þ.e. 5. gr., 26. gr. og 41. gr. laganna um landnám, ræktun og byggingar i sveitum. Og ef enn nánar er að gætt, þá kemur það og í ljós, að jafnvel orðalag á þessum ákvæðum er mjög líkt og á sumum stöðum samhljóða í báðum frv.

Í 1. gr. stjfrv., sem hér er til umr., segir, að í stað orðanna „minnst 5 millj. kr. á ári“ í síðari mgr. 5. gr. laganna komi: „minnst 6.5 millj. kr. á ári.“ En í frv. framsóknarmanna er þetta orðað þannig, að til þessara framkvæmda greiði ríkissjóður minnst 71/2 millj. kr. á ári næstu 25 árin, þannig að báðar þessar gr. eru við það miðaðar að falla inn í gildandi lög um þetta efni, og þegar búið væri að fella þetta inn í lögin, þá er orðalagið svo líkt, að það má heita, að eini mismunurinn á 1. gr. sé fjárupphæðin, þar sem í öðru frv. er miðað við 61/2 millj., en í hinu við 71/2 millj.

2. gr. frv. þess, sem hér liggur fyrir, er þannig: „Til byggingar íbúðarhúsa á nýbýlum einstaklinga utan byggðahverfa og í byggðahverfum er heimilt að veita framlag allt að 40 þús. kr. á hverju býli.“ En í frv. framsóknarmanna er þetta orðað svo: „Til íbúðarhúsabygginga á nýbýlum einstaklinga utan byggðahverfa og í byggðahverfum er heimilt að veita framlag allt að 40 þús. kr. á hvert býli.“ Hér er breytt um fall á einu orði, og skal ég ekki fara út í það. Ég hygg, að hvort tveggja geti staðizt. Síðan er ráðizt í það í stjfrv. að setja punkt og hefja nýjan málslið: „Framlagið greiðist að hálfu, þegar húsið er fokhelt, og að fullu, þegar byggingu er lokið, enda hafi byggingarfulltrúi staðfest með vottorði, að fullnægt hafi verið settum skilyrðum um frágang byggingarinnar.“ En í frv. framsóknarmanna er tilvísunarsetning látin ná yfir þetta efnisatriði, og þar segir: „er greiðist að hálfu, þegar hús er fokhelt, en að fullu, þegar byggingu er lokið.“ Efnið er nákvæmlega hið sama. Og svo í framhaldi af þessu segir í báðum frv. eins: „Til þessara ráðstafana leggur ríkissjóður fram minnst 2 millj. kr. árlega,“ en í stjfrv. er bætt við: „í fyrsta sinn árið 1962.“

Svipað er að segja um 3. gr., að þar er í raun og veru aðalefnisbreytingin sú, að í stjfrv. er gert ráð fyrir að greiða 6 millj. kr. árlega til þeirra framkvæmda, sem þar um ræðir, en í frv. framsóknarmanna 71/2 millj. kr. árlega.

Það er nú augljóst, þegar þetta er borið saman, að ef áhugi stjórnarflokkanna hefði verið mikill fyrir þessu máli nú á þessu þingi, þá hefði legið mjög vel fyrir að afgreiða frv. það, sem flutt var í Nd. 26. okt. s.l., annaðhvort óbreytt eða þá á þann hátt að breyta eitthvað tölum frá því, sem þar segir, og vitanlega er meiri hl. þings í lófa lagið að koma slíkum breyt. fram. Sá kostur hefur þó ekki verið tekinn, heldur er í þess stað lagt fram nýtt frv. hér í þessari hv. d. En framsóknarmenn hafa, bæði á þingi í fyrra og eins á þessu þingi, bent á það með skýrum rökum, hve verðlagshækkanir þær, sem orðið hafa að undanförnu, bitni hart á bændastéttinni eigi síður en öðrum þegnum þessa þjóðfélags og torveldi að miklum mun framkvæmdir í sveitum við ræktun og byggingar. Undir þetta er greinilega tekið í grg. þessa frv. og þau rök, sem við framsóknarmenn höfum fært fram að þessu leyti, staðfest svo vel sem verða má. Í grg. þessa frv. segir t.d., að ræktunarkostnaður hafi hækkað frá því 1957 úr 9200 kr. á hektara í 12776 kr. á hektara árið 1960, sem svarar til 38% hækkunar á kostnaðarverði ræktunar og girðinga. Í grg. þessa frv. segir enn fremur, að hækkun byggingarkostnaðar sé svo mikil, að hún nemi allt að 100 þús. kr. á hús með 90 m2 gólffleti á einni hæð, og enn fremur, að kostnaðarauki nýbyggjandans á ræktun, sem nemi 10 hekturum, nemi um 36 þús. kr., en á sama tíma hafi framlögin staðið í stað.

Allt er þetta mjög ótvírætt og staðfestir þau rök, sem við framsóknarmenn höfum borið fram í þessu sambandi. Það liggur því í augum uppi, að það er fullkomlega tímabært að lögfesta breyt. á þeim ákvæðum laganna um landnám, ræktun og byggingar í sveitum, sem hér er fjallað um, og það er jafnvel enn þá fremur aðkallandi en ella vegna þess, að á sama tíma sem ræktunarkostnaður hefur hækkað um 38%, svo sem segir í grg. þessa frv., hefur verið horfið frá því að reikna verðlagsuppbót á hin almennu jarðræktarframlög, sem greidd eru samkvæmt jarðræktarlögum, en allt fram til ársins 1960 voru jarðræktarframlög samkvæmt jarðræktarlögunum greidd með verðlagsuppbót, sem samsvaraði meðalvísitölu þess árs, þegar framkvæmdirnar voru gerðar.

Þetta frv. gefur nú ekki tilefni til þess að fara að ræða í sambandi við það um hið almenna ástand í efnahagsmálum þjóðarinnar og þau áhrif, sem efnahagsmálalöggjöf núv. hæstv. ríkisstj. hefur haft í þeim efnum, en hin mikla hækkun ræktunarkostnaðar og byggingarkostnaðar á þó að mestu leyti rót sína að rekja til hinnar nýju efnahagslöggjafar. En þær tölur, sem hér koma fram og ég hef drepið á, sýna þó, að það er mikið ósamræmi milli þess, sem raunverulega hefur átt sér stað um hækkun ræktunar- og byggingarkostnaðar, og þess, sem talað var um eða látið í veðri vaka í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálafrv. á síðasta þingi, um þá breyt., sem mundi koma í kjölfar þess og leiða af sér kjaraskerðingu, þar sem miðað var við, að kjaraskerðing vegna gengisfellingarinnar yrði ekki yfir 3%, að mig minnir.

En þó að frv. þetta sé nú seint fram komið, þá viljum við, sem höfum skilað minnihlutaáliti um þetta mál, styðja að framgangi frv. og mælum með því, að það verði samþ., og við teljum, að því beri að fagna, að nú undir þinglokin hyggst hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar að gera þó ofur litla bragarbót í þessum efnum. En við teljum, að þær fjárhæðir, sem framsóknarmenn í Nd. lögðu til í haust að lögfestar yrðu til breyt. á þessum gr., sem hér er fjallað um, séu sízt of háar til þess að mæta þeirri miklu og brýnu þörf, sem fyrir hendi er hjá bændastéttinni í þessu efni. Þess vegna leggjum við til, að frv. þetta verði samþ. með þeim breyt., að í stað 6.5 millj. í 1. gr. frv. komi 7.5 millj. og að í stað 6 millj. í 3. gr. frv. komi 7.5 millj. Ég tel, að með þessum brtt. sé mjög í hóf stillt, og vil enn fremur benda á, að mér virðist, að það hafi jafnvel komið til álita hjá hæstv. ríkisstj. að hafa framlagið samkvæmt 3. gr. dálitið hærra en þar er, því að ef ég skil málið rétt, þá held ég, að í grg. sé talað um hærri tölu en í frv. sjálfu. Í grg. segir: „Ákvæðin í 3. gr. frv. um 1.5 millj. kr. hækkun vegna ákvæða 38.–41. gr. laganna eru afleiðing þess, að samþykkt voru með lögum 49 frá 11. júní 1960 framlög“ o.s.frv., en ef ég skil þetta rétt, þá er í frvgr, aðeins miðað við 1 millj. kr. hækkun á þeim sérstaka lið. Það, sem hér segir í grg., fer mjög í þá átt, sem við hv. 1. þm. Vesturl. leggjum til, og bendir það til þess, að líkur kunni að vera fyrir því, að till. okkar nái fram að ganga.