02.03.1961
Neðri deild: 71. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1336 í B-deild Alþingistíðinda. (1315)

115. mál, réttindi og skyldur hjóna

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til 2. umr. og er frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Þorsteinsstaði í Grýtubakkahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu, var flutt í hv. Ed. og hefur verið afgreitt þaðan einróma. Landbn. þessarar hv. d. hefur kynnt sér frv. og mælir með samþykkt þess. Fyrir liggja umsagnir um málið frá landnámsstjóra og stjórnarráðsfulltrúanum í jarðeignadeild ríkisins, og báðir telja þeir eðlilegt, að jarðarsalan verði heimiluð.

Þessi jörð, sem hér um ræðir, er nú í eyði. Þetta er lítið býli, upphaflega hjáleiga frá prestssetrinu Laufási, ræktað land er þar lítið og jörðin nú með öllu húsalaus, og eru engar líkur taldar til, að býlið komist aftur í ábúð, enda mun vera svo, að enginn hefur sótt um ábúð á býlinu. Hins vegar vantar hinar jarðirnar báðar, sem nefndar eru í frv., Áshól og Yztuvík í þessari sömu sveit, ræktunarland, og kemur sér þá að sjálfsögðu vel fyrir þær, að landi Þorsteinsstaða verði skipt á milli þeirra, svo sem ráð er fyrir gert í frv.

Landbn. Ed. flutti brtt. við frv., sem var samþykkt þar í hv. d. Hún var fólgin í því, að þeim viðauka var bætt við frv., við 1. gr. þess, að ríkissjóður skuli eiga forkaupsrétt að jörðinni, komi aftur til sölu. Þetta mun ekki vera vanalegt, þegar um það er að ræða að selja ríkisjarðir einstaklingum, en ástæðan fyrir því, að þessi brtt. var flutt, er sú, að jörðin Áshóll, sem er nýbýli, mun vera í erfðaábúð, og til þess að tryggja það, að viðbótin frá Þorsteinsstöðum verði ekki aftur tekin af nýbýlinu, var þetta ákvæði samþykkt í hv. Ed. Við í landbn. þessarar d. föllumst á þetta sjónarmið, og sem sagt leggjum við til, að frumvarpið verði samþ. óbreytt.