24.01.1961
Efri deild: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1321)

158. mál, sóknargjöld

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og grg. þessa frv. ber með sér, hefur kirkjuþing árið 1960 samþykkt að leggja fyrir Alþingi ályktun um að breyta lögum um sóknargjöld, þannig að hámark þeirra verði ekki lægra en 100 kr. Í grg. fyrir frv. koma einnig fram þær ástæður, sem fyrir þessari ályktun kirkjuþings hafa legið, að safnaðarstjórnir hafa ekki talið sér unnt að standa undir auknum rakstrarkostnaði safnaða án hækkunar gjaldanna.

Hæstv. kirkjumrh, hefur nú beint þeim tilmælum til fjhn., að hún flytti frv. þetta. Taldi n. rétt að verða við slíkri beiðni, en einstakir nm. hafa þó að svo stöddu óbundnar hendur um afstöðu til frv., enda hefur efni þess í rauninni ekki verið rætt enn þá á fundum nefndarinnar.

Það mun að vísu ekki venja, þegar nefndir flytja frv., að vísa þeim formlega til nefndar hvorki þeirrar, sem flutt hefur frv., eða annarra nefnda, en við í fjhn. höfum þó talað þannig um, að við mundum taka efnishlið frv. til meðferðar fyrir 2. umr, og leggja þær niðurstöður, sem við þá kunnum að komast að, um það t.d., hvort ástæða sé til að breyta frv., og þess háttar fyrir hv. deild við 2. umr. Þann hátt höfum við talað um að hafa á, svo framarlega sem ekki koma fram aths. við það frá hv. dm. við þessa 1. umr.