14.02.1961
Neðri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

158. mál, sóknargjöld

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. og hefur verið samþ. þar. Það fjallar um breyt. á l. um sóknargjöld, og ef frv. verður samþ., þá leiðir Það til þess, að sóknarnefndum verður heimilt að ákvarða hámark sóknargjalda við 100 kr. Þó að 100 kr. séu ekki há upphæð nú á dögum, mun það áreiðanlega koma sér víða vel, að þessi hækkun á hámarki sóknargjalda verði leyfð, einkum í mannmörgu söfnuðunum, en í fámennu söfnuðunum verða sóknargjöldin í heild svo lág þrátt fyrir þessa hækkun, að lítið er hægt að gera fyrir svo lítið fé, þegar litið er á, hversu allur kostnaður við viðhald kirkna og byggingu þeirra er orðinn mikill. En eins og við vitum, þá er einnig ákveðið í lögum um sóknargjöld, að sóknarnefndir hafa heimild til þess, þegar þetta fastagjald hrekkur ekki fyrir útgjöldum, að leggja á aukagjald sem hundraðsgjald af útsvörum.

Í lögunum um sóknargjöld, sem giltu hér á landi frá 1909–48, var heimildin um innheimtu sóknargjalda nokkuð með öðrum hætti en ákveðið er í gildandi lögum. Það var fast gjald eins og nú, og ef það dugði ekki, þá mátti leggja á aukagjald. Um það, hvernig með átti að fara, ef leggja þurfti á þetta aukagjald, segir í l. frá 1909, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú hefur söfnuður á hendi umsjón og fjárhald kirkju, og má sóknarnefnd þá með jákvæði lögmæts safnaðarfundar og samþykki héraðsfundar hækka og lækka kirkjugjald fyrir eitt ár í senn eða um tiltekið árabil. Ef hið lögskipaða kirkjugjald með hækkun þeirri, er sóknarnefnd hefur ákveðið og safnaðarfundur og héraðsfundur samþykkt, nægir ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum kirkjunnar, er sóknarnefnd heimilt að jafna niður því, sem á vantar, á safnaðarmenn í sókninni eftir efnum og ástæðum“.

Ég vil aðeins benda á það, að ég hef orðið þess var, að ýmsir þeir menn, sem með þessi mál hafa að gera, óska eftir því, að þetta ákvæði, eins og það var í gömlu lögunum, eða ákvæði mjög svipað því verði aftur sett inn í lögin um sóknargjöldin, og meira að segja hefur einn prestur höfuðborgarinnar orðað það við mig, að ég flytti um þetta brtt. nú, þegar þessi mál eru til umr. í þinginu. Þetta hef ég ekki gert enn og raunar ekki tekið neina ákvörðun um að gera það, en mér þætti vænt um það, ef nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, sem ég hygg að muni verða hv. fjhn., — málið var hjá fjhn. í hv. Ed., — mér þætti vænt um, ef hún vildi taka til athugunar þetta, sem ég hef nú hér bent á.