10.02.1961
Efri deild: 56. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1385)

182. mál, afhending Þingeyjar í Skjálfandafljóti

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem ég flyt ásamt þrem öðrum hv. þdm., er flutt eftir beiðni sýslumanns Þingeyjarsýslu í samræmi við nokkurra ára gamla samþykkt sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu. Efni málsins er það, að sýslunefndin hefur áhuga á því að friða Þingey í Skjálfandafljóti og gera hana að eins konar héraðsgarði, sem þeir svo kalla. Þarna var þingstaður héraðsins að fornu, og hvílir því nokkur söguhelgi á staðnum. Áður fyrr lá eyjan að 3/4 hlutum undir Helgastaði, sem var prestssetursjörð. Þegar sú jörð var seld, var eyjan undanskilin og er því ríkiseign. Eyjan hefur síðan verið leigð sem beitiland Einarsstaðarbændum fyrir mjög lágt gjald, nánast málamyndagjald. Þórir Baldvinsson arkitekt lýsir eyjunni þannig í Árbók Þingeyinga 1959, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingey mun vera sem næst miðdepill Suður-Þingeyjarsýslu. Eyjan er svo einkennilega sett, að landfræðilega tilheyrir hún raunverulega engri sveit. Þetta skipar henni skemmtilegan sess utan og ofan við alla hreppapólitík. Náttúrufegurð er þarna mikil, hugþekkur lynggróður eyjarinnar á hæfilegum misfellum uppgróins hrauns, fallvötn í gljúfrum, stórvaxnir skógar í fjallshlið á báða vegu. Norður af hamrastalli eyjarinnar steypist Ullarfoss niður í Skipapoll. Í suðri sést til blárra heiða Bárðardals, í norðri liðast Skjálfandafljót milli víðivaxinna bakka, en fjærst rís úfin rönd Aðaldalshrauns yfir sléttuna. Hér er hinn forni þingstaður héraðsins, hér voru vorþing háð á söguöld, og hér er Þingvöllur með nokkrum ummerkjum um búðartóftir frá þeirri tíð. Á miðjum Þingvelli er Þinghóll. Hann er um 10 m hærri en umhverfið og hæsti blettur eyjarinnar. Um Þingvöll má sjá leifar af fornum garði furðulega breiðum. Þar eru einnig á vellinum leifar af gömlum bæ eða eyðibýli. Hér eru Því merkar sögulegar minjar, sem þarf að varðveita. Þingey er stór eyja. Láta mun nærri, að hún sé hálfur sjötti km á lengd og hálfur annar, þar sem hún er breiðust. Þingvöllur liggur á austurbakka eyjarinnar, um 2 km frá norðurenda hennar. Eyjan er mjög þurrlend, þar er gott beitiland, sérstaklega á vetrum og snemma á vorin, því að snjólétt er þar með afbrigðum. Þó hefur Þingey í þeim efnum ekki sömu þýðingu og hún hafði áður:

Þetta var úr lýsingu Þóris Baldvinssonar á Þingey í Árbók Þingeyinga.

Í bréfi sýslumannsins í Þingeyjarsýslu til mín segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Á aðalfundi sýslunefndar Suður-Þingeyjarsýslu 1957 samþykkti nefndin einróma að reyna að ná eignarhaldi á Þingey allri. Dómsmrn. hafði á þessum tíma umsjón með ríkisjörðum. Skrifaði ég því ráðuneytinu 17. maí 1957 og tilkynnti því ályktun sýslunefndarinnar og bað ráðuneytið að tilkynna hana ríkisstj. og leita hennar undirtekta. Ekkert svar hefur borizt frá ráðuneytinu. Hins vegar átti ég tal um málið við þáv. forsrh., sem tók vel í málið að því leyti, sem það snerti eignarhluta ríkisins.“ Og síðar segir í bréfinu: „Sýslunefndin hefur í hug að friða eyjuna, sem nú er notuð til beitar. Fé er flutt út í hana á hverju vori, og er hún aðallega notuð til vorbeitar, en það er mjög hættulegt gróðrinum, enda er allmikill hluti eyjarinnar þegar uppblásinn sunnan til, en þingstaðurinn og þar með allur nyrðri hluti eyjarinnar er vel gróinn hinum upphaflega gróðri, sem sýslunefndin vill vernda. Jafnframt friðun eyjarinnar hafði ég hugsað mér, að stefnt yrði að því, að þar yrðu haldnar árlegar héraðssamkomur fyrir allt Þingeyjarþing.“

Þetta var úr bréfi sýslumanns. (Gripið fram í: Frá hvaða tíma er bréfið?) Það er dagsett 21. jan. 1961.

Efni frv. er það, að ríkisstj. verði heimilað að selja Suður-Þingeyjarsýslu eignarhluta ríkisins í Þingey, þ.e. 3/4 hluta eyjarinnar. Salan fari fram með því skilyrði, að eyjan verði friðuð fyrir búfjárágangi. Söluverðið verði ákveðið með mati dómkvaddra manna og tillit tekið til þess við ákvörðun verðsins, að salan er bundin friðunarskilyrði.

Hluta ríkisins er ekki skipt út, og er eyjan því óskipt sameign ríkisins og tveggja einstaklinga, að ég ætla. Hins vegar hyggst sýslunefnd reyna að ná eignarhaldi að þeim 1/4 eyjarinnar, sem er í einkaeign, með frjálsum samningum. Rétt er að geta þess, að veiðiréttur í Skjálfandafljóti mun fylgja eynni. Ekki veit ég, hvers virði hann kann að vera, en leigan, sem greidd er fyrir afnot eyjarinnar af hluta ríkisins, þar með afnot af veiðiréttinum, bendir ekki til, að hann sé mikils virði. Ég hef spurt Sveinbjörn Dagfinnsson deildarstjóra í stjórnarráðinu um þetta, og hann minnti, að leigan á ári væri 100–200 kr. Fyrir sýslunefnd Suður-Þingeyjarsýslu skiptir það líklega engu máli, hvort veiðin fylgir með í sölunni eða ekki, og ég ætla, að ekki muni skylt að láta hana fylgja eyjunni samkv. lögum, þar sem eyjan er ekki lögbýli. Í frv. er ekki minnzt á veiðiréttinn. Ætlast ég til þess, að það verði samningsmál milli ríkisstj. og sýslunefndar, hvort veiðirétturinn fylgir með eða ekki. Ég ætla þó, að heimild til þess muni felast í frv.

Ég legg til, herra forseti; að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.