23.03.1961
Neðri deild: 80. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

21. mál, leiðsaga skipa

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Þetta frv. um skattfrelsi vinninga í happdrætti Styrktarfélags vangefinna er flutt að beiðni félagsins af heilbr.- og félmn. Verksvið það, sem Styrktarfélag vangefinna hefur kosið sér, er að styðja og efla þá starfsemi hins opinbera, sem miðar að því að bæta aðbúnað og aðhlynningu þeirra fávita, sem þurfa hælisvist, en hér á landi er talið, að slíkir menn séu um 600 talsins. Hæli eru hins vegar ekki til nema fyrir 150–160. Félagið er aðeins þriggja ára, en hefur þegar lagt verulegt fé af mörkum til að auka og bæta húsakost og rekstur fávitahælanna, sem ríkið rekur í Kópavogi og Skálatúni, og nú er félagið að byggja leikskóla hér í Reykjavík fyrir vangefin börn. Nemur kostnaður við þá framkvæmd þegar 11/2 millj, kr. Almenningur hefur tekið starfsemi félagsins af velvild og skilningi, og því hafa borizt góðar gjafir og fjárframlög til starfseminnar, auk þess sem það hefur safnað fé með happdrætti. Þessa starfsemi ber að þakka, og mælir heilbr.- og félmn. eindregið með því við hv. d., að frv. nái fram að ganga.

Ég skal geta þess, að eftir að heilbr: og félmn. bar fram þetta frv., hafa n. borizt erindi frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra og frá Sjálfsbjörg — landssambandi fatlaðra, og fara þessi félagssamtök fram á, að vinningar í happdrættum, sem þau hyggjast stofna til á árinu, njóti einnig skattfrelsis. N. hefur fjallað um þessi erindi og samþykkt að bera fram brtt. við frv. við 2. umr. til þess að koma til móts við þessar óskir. Á s.l. ári nutu tvö þessara félagssamtaka, Styrktarfélag vangefinna og Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, þessara hlunninda fyrir sín happdrætti.