24.03.1961
Efri deild: 82. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þeir eru nú orðnir margir og áhugasamir, fyrirsvarsmenn kvenna hér á þingi við þessar umr., og virðist hafa komið nokkuð skyndilega yfir suma. Hv. flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, hafa þegar svarað ýmsum aths., sem fram hafa komið gegn frv., en það eru samt örfá atriði, sem ég vildi minnast á.

Hv. 9. þm. Reykv. sagði m.a., að verkalýðssamtökin hefðu verið í fararbroddi í jafnlaunabaráttu kvenna. Ég skal ekki rengja hann um það, að þessi samtök, sem konurnar líka standa að, hafi reynt að þoka þeim málum áleiðis, enda borið skylda til. En eftirtekjan hefur þó ekki orðið meiri en svo, að það hefur verið upplýst hér í umr., að á sex árum hefur tímakaup í almennri verkakvennavinnu ekki hækkað nema um 2%.

Þessi hv. þm. sagði, að þetta frv. væri flutt í þágu atvinnurekenda. Ég læt hv. þm. um það, hve hátíðlega þeir taka slíkar fullyrðingar.

Þá minntist hann á frumvörp, sem hv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson, hefði flutt á þingi, það fyrsta 1948. Í sambandi við það vil ég minna á, að vinstri stjórnin beitti sér fyrir samþykkt þáltill. um heimild til að fullgilda jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, og það var a.m.k. látið í veðri vaka af hv. þáv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, að þarna hefði verið unninn stórsigur í jafnlaunabaráttu kvenna. En þessi hv. þáv. ráðh. hafði alveg óvenjulega góða aðstöðu til þess að þoka þessum málum áfram. Hann var félmrh. í þeirri ríkisstj., sem þá sat, vinstri stjórninni, og forseti Alþýðusambandsins. Og ég held, að það verði ekki um það deilt, að betri aðstöðu getur enginn haft. En það er hryggilegt til þess að vita, að meðan hann hafði þessa aðstöðu, kom ekki frá honum neitt frv. um launajafnrétti. Þetta finnst mér segja sína sögu og þetta finnst mér að eigi að koma fram nú, þegar hv. flokksbræður hans brigzla fylgjendum þessa frv., sem hér liggur fyrir, um það, að þeir séu að bregðast konum. Ja, hver hefur brugðizt?

Hv. 4. þm. Vestf. talaði hér einnig. Það var hálfgerð illska í hv. þm. Hann fór að rifja það upp frá bernsku sinni, að hann hefði fengið fjórða part úr köku í nesti í smalamennskuna, sætt sig vel við það, en nú ætti að fara að skammta sjötta part, og það þótti honum ekki gott. Ég veit ekki, hvort ég á að skilja hv. þm. svo, að hann mundi sætta sig við launajöfnun í 4 áföngum í stað 6, mér lá nærri að taka það þannig. Hann fáraðist yfir því, að aðildin að jafnlaunasamþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem væri búin að skuldbinda okkur til þess að koma á launajafnrétti karla og kvenna, skyldi ekki vera virt meira en svo, að þetta skuli ekki vera orðið, var hann ekki sömu skoðunar, meðan hann var einn af stuðningsmönnum hv. vinstri stjórnar? Það hefði ekki verið úr vegi, að hann hefði hnippt í hv. félmrh. þeirrar stjórnar til þess að kippa málunum í lag. Hv. þm. vildi þakka Framsfl. lögin um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna, en hæstv. fjmrh. hefur upplýst aðdraganda að þeirri lagasetningu, svo að lítið er úr þeirri forustu orðið.

Hv. 5. þm. Norðurl. e., mig minnir, að hann hafi hafið mál sitt á því að segja, að það hefði einhvern tíma þótt saga til næsta bæjar, að framsóknarmaður norðan úr landi væri kominn langt til vinstri við Alþfl. í kjaramálum verkalýðsins. Átti hann þar við tillögur þær, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. flytur við frv. Ef svo væri, að þetta væri satt, þá þættu það ekki lengur nokkur tíðindi, eftir að Framsfl, er nú kominn langt til vinstri við sjálfa Alþýðubandalagsmennina í flestum efnum, síðan hann komst í stjórnarandstöðu.

Þessi hv. þm. sagði, að fyrst hefði tekið í hnúkana, þegar ég hefði viljað eigna Sjálfstfl. eitthvert forustuhlutverk í jafnlaunabaráttu kvenna. Ég stend við hvert orð af því, sem ég sagði í minni framsöguræðu, og ég skora á hann að hrekja það, sem hann telur að þar hafi verið ranghermt.

Því hefur verið beint sérstaklega til mín, hver afstaða mín væri til þeirra brtt., sem hér liggja fyrir. Ég endurtek það, sem ég skaut að hv. þm., sem spurði, að í nál. meiri hl. heilbr.-og félmn., sem ég stend að, er lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt, og er þá þar með þeirri spurningu svarað.