16.12.1960
Efri deild: 40. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

133. mál, almannatryggingar

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir, þegar þetta mál var hér til 1. umr., eru þær breytingar, sem nú eru gerðar á almannatryggingalögunum, bráðabirgðabreytingar, sem eru aðallega í því fólgnar, að það hefur þótt nauðsynlegt að kveða nákvæmar á um framkvæmd þess atriðis, sem á að koma til framkvæmda nú um áramótin, að fella niður skerðinguna svokölluðu. Þá þótti nauðsynlegt, að löggilda þessar breytingar á lögunum, sem hér liggja fyrir. Þær eru, eins og ég sagði áðan, aðallega til þess að kveða nánar á um þessa niðurfellingu. Það hefur verið skipuð nefnd, eins og hæstv. félmrh. gerði grein fyrir, til þess að endurskoða lögin í heild, eins og lofað hafði verið á síðasta þingi, en sú endurskoðun er svo skammt á veg komin, að ég hygg, að ekki séu líkur til, að fullnaðarendurskoðun laganna komi fyrir á þessu þingi. Þess vegna var gripið til þess ráðs að leggja fyrir þessa bráðabirgðabreytingu.

N. samþykkti að mæla með, að þessi bráðabirgðabreyting sé gerð, en einn nm., hv. 9. þm. Reykv., áskildi sér raunar rétt til að skrifa undir með fyrirvara og hafði búizt við að gera grein fyrir þeim fyrirvara við þessa umr. Ég hygg, að fyrirvarinn hafi verið fólginn í því, að þm. hafi óskað þess, að einhverjar frekari breytingar væru gerðar á l., en þar sem nú er komið nálægt þingfrestun, þá geri ég ekki ráð fyrir, að tóm verði til þess. Ég skal ekki lengja þessar umr., nema tilefni gefist til, — eitthvað. sem menn vilja spyrja um frekar í sambandi við þetta, eða annað tilefni gefist til.