25.03.1961
Neðri deild: 84. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1552 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

59. mál, launajöfnuður karla og kvenna

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það virðist vera takmarkaður áhugi fyrir þessu máli hjá stjórnarliðinu öðru en kvenþjóðinni. Það var svo í nótt, að ekki var hægt að koma málinu til nefndar, nema þeir, sem mest hafa við það að athuga, hjálpuðu til, og nú virðist vera orðið allfámennt af stuðningsmönnum þessa máls t.d. og af þeim flokki, sem þykist sérstaklega bera það fram, nema sá hæstv. forseti sem síns embættis vegna getur ekki úr stólnum horfið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er borið fram af Alþfl., og ég skil það satt að segja svo, að það sé borið fram af Alþfl. með það fyrir augum að bæta kjör verkakvenna. Ég skil það svo, að það sé ekki eina atriðið í þessu máli að jafna laun karla og kvenna, því að svo framarlega sem það hefði verið eina hugsjónin, þá hefði það verið nær stefnu Alþfl., eins og hún hefur verið upp á síðkastið, að fyrirskipa, að laun karla skuli lækka niður í laun kvenna, þannig að fullur jöfnuður fáist og öruggt sé, að atvinnuvegirnir beri sig. M.ö.o.: fyrst ekki er lagt til að fara þessa leið í beinu áframhaldi af vísitöluráninu 1. febr. 1959 og dýrtíðarflóðinu, sem fylgdi gengislækkuninni 1960, þá skilst mér, að þetta frv. eigi að miðast við það að bæta kjör kvenna, þeirra sem vinna fyrir launum. Og það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að maður athugi, hvernig aðstaða þess flokks er, sem þetta frv. nú flytur, í þeim efnum. Hvað er það, sem gerzt hefur á undanförnum tveim árum í framkomu Alþfl. gagnvart verkakonum í landinu? Það, sem gerzt hefur, er það, að það hefur verið ráðizt svívirðilegar á verkakonur í landinu og þeirra laun af hálfu Alþfl. en gert hefur verið um 20 ára skeið af nokkrum flokki og nokkurri ríkisstjórnarsamsteypu í landinu. Það hefur verið ráðizt með lögum á verkakvennafélögin í landinu og þau svipt þeim réttindum, sem þau höfðu samkv. sínum samningum um að fá ákveðna vísitöluuppbót, þegar dýrtíð í landinu yxi. Þegar þetta var gert með lögunum 1. febr. 1959, lögum, sem Alþýðuflokksstjórnin fékk sett, þá var kaupið lækkað á hverri klukkustund hjá verkakonunum hér í Reykjavík, t.d. hjá verkakvennafélaginu Framsókn um kr. 2.47 eða 2.48 á hverri klukkustund. Þá var gerð tilraun til þess að afstýra því, af því að það var verið að níðast á karlmönnum líka, að það væri níðzt þannig á verkakonum, og hv. núv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson, flutti ásamt öðrum þm. Alþb. brtt. um að undanskilja kaup verkakvenna í þessu sambandi, þannig að þær yrðu ekki fyrir þessari vísitöluskerðingu. Sú brtt. hljóðaði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn fremur skal greiða verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu 185 á allt grunnkaup kvenna samkvæmt samningum stéttarfélaga, þar til fullum jöfnuði er náð við kaup karla, er vinna hliðstæð störf.“

M.ö.o., þegar Alþfl. lagði í herför gegn kaupi karla og kaupi kvenna í landinu, var reynt að undanþiggja kaup kvenna, til þess að í þessari allsherjarárás yrðu ekki konurnar á sama hátt fyrir barðinu, sem voru lægra launaðar, eins og karlmennirnir, sem voru hærra launaðir. Þetta lét Alþfl. þá drepa, þessa till. Þetta var hugurinn þá viðvíkjandi launajöfnuði karla og kvenna. Þá var verið að lækka laun karlmanna, og þá var þó hægt að koma á nokkrum launajöfnuði með því að lækka ekki laun hjá kvenfólkinu. En hvað gerði Alþfl., sem var einn saman í ríkisstj. þá? Hvað gerði hann? Hann drap það, að kvenfólkið skyldi fá að halda sínum launum, þegar launin voru lækkuð hjá karlmönnunum. Það má náttúrlega segja, að það sé alveg gífurleg framför hjá svona flokki, sem síðan er svo búinn að leiða allt dýrtíðarflóðið yfir, að nú skuli hann virkilega koma fram með till. um, að það sé nú farið að hækka ofur lítið kaup kvennanna og ekki bara verið að lækka laun karlmannanna. Ég skil þetta nú ofur lítið öðruvísi. Ég skil þetta þannig, að nú eru liðin rúm tvö ár síðan þetta gerðist. Venjulegt kjörtímabil er fjögur ár. Kosningar eiga að fara fram á næsta ári til bæjarstjórna um land allt. M.ö.o.: Alþfl., sem var mjög sprækur í upphafi kjörtímabils og réðst vægðarlaust á aðstöðu og launakjör kvenfólksins þá, er nú farinn að finna dauðann og dóminn nálgast og farinn að byrja sína iðrun, eins og sumum hættir við, þegar þeir finna dauðann og dómsdag einhvers staðar nærri, og sér nú, að það mundi vera rétt að fara að reyna að gera einhverja yfirbót.

Menn skyldu nú hafa ætlað, þegar menn á annað borð færu að finna dauðann og dóminn nálgast, að sú tilfinning yrði það rík, að menn vildu þó a.m.k. nokkurn veginn bæta fyrir sínar misgerðir, þannig að þeir gerðu aftur gott það, sem þeir hefðu gert bölvað áður, þegar þeir stálu af verkakonum, t.d. í verkakvennafélaginu Framsókn kr. 2.47, með einu höggi 1. febr. 1959, — þá skyldu menn þó hafa ætlað, að þeir vildu þó skila t.d. þeim hluta til baka í einu lagi fyrir næstu bæjarstjórnarkosningar. Ónei, ekki er nú iðrunin svo mikil. 76 aurar á ári og byrjað á árinu 1962, ef ekki annað breytist, — 76 aurar á ári, ef engin breyting yrði af öðru. Þá væri sloppið með 76 aurana fram yfir einar kosningar og kannske 76 aura fram yfir þær næstu — og þá látið ef til vill bíða í fjögur ár, og hver veit nema það væri hægt að byrja á nýjan leik að lækka kaupið eftir kosningar. M.ö.o.: ósköp er þetta nú lítið, sem Alþfl. er farinn að iðrast eftir sínar misgerðir. Hann er dálítið flottari við aðra.

Ég skal taka dæmi: Að stela af verkakonum kr. 2.47, og nú tala ég ekki um dýrtíðarflóðið, nú tala ég bara um það, sem var stolið 1. febr. 1959, það er kr. 2.47 á klst., það þýðir á ári fyrir verkakonu á verkakvennafélaginu Framsókn 5700 kr., ef ég reikna það rétt, með 8 tíma vinnudegi 25 daga í mánuði 12 mánuði ársins, og fæstar þeirra munu hafa það mikla vinnu. Fyrir 1000 konur, ef maður reiknaði t.d. 1000 konur í verkakvennafélaginu Framsókn, sem þannig ynnu, þá er þetta orðið 5 millj. 700 þús. Hvernig hagar svo Alþfl. sér hins vegar, þegar það eru einhverjir burgeisar innan hans, sem eiga í hlut, t.d. menn úr fjármálaráði Alþfl.? Hvernig fer sá fjmrh., sem stóð að því að framkvæma þetta rán gagnvart verkakonunum, þá að? Þegar í hlut á maður, sem fenginn var af Alþfl.-stjórninni með mjög vafasamri heimild til að reka togarann Brimnes, þá er honum borgað út í einu lagi 2½ millj. kr. Honum virðist ganga eitthvað erfiðlega að fá fylgiskjölin yfir, til hvers þetta var; 2.5 millj. í einn burgeis Alþfl. í fjármálaráðinu. Sjálfsagður hlutur. En frá verkakonunum, 1000 verkakonum, er stolið kr. 2.47 á klst. af þeirra samningsbundna kaupi eða af 1000 konum um 5.7 millj. kr. Eða svo að ég taki eitthvað annað, þá þykir víst lítið af Alþfl. að borga úr ríkissjóði fyrir t.d. togarann Keili 7 millj. kr. algerlega í heimildarleysi. En ef það eru verkakonurnar í Framsókn, sem fara fram á að fá þetta kaup, þá er sagt, að atvinnuvegirnir í landinu muni drepast. Hvað segir sami fjmrh., sem úthlutar svona? Þetta vil ég nú aðeins minna á út af því, sem hér er um að ræða.

Upphæðirnar, sem þarna er verið að tala um, upphæðirnar, sem rænt er, upphæðirnar, sem ausið er út úr ríkissjóði, það eru upphæðir, sem mundu margfalt duga til þess að bæta það misrétti, og það í einni svipan, sem nú á sér stað milli karla og kvenna. Þetta vildi ég aðeins minnast á til þess að sýna fram á, að það er ekki spurningin um getu ríkisins og getu þjóðfélagsins. Þjóðfélagið og ríkissjóðurinn hefur auðsjáanlega nóga peninga til þess að fleygja þeim út, ef þeim er fleygt í rétta menn. En svo framarlega sem það eru verkakonurnar, sem eiga að fá það, þá á að skera við nögl sér og skera naumt.

Svo er annað, sem er dálítið lærdómsríkt í þessu sambandi. Við erum búnir að heyra það allan tímann, sem rætt hefur verið um launamál hér, að það er eitt yfirvarp, sem allur þjófnaður, allur hernaður, öll árás á launakjör verkalýðsins í landinu hefur verið framkvæmt undir, og það er, að þjóðfélagið beri ekki hærri laun, Það var níðzt á kvenfólkinu, og það var níðzt á karlmönnunum undir þessu yfirvarpi. Þetta yfirvarp er að vísu haugalygi og hefur margsinnis verið hrakið. Það hefur verið sýnt fram á, að heildarframleiðsla þjóðarinnar vex á sama tíma, einum einustu 5 árum eða 6 árum, um 35%, en kaupið lækkar um 7%, kaupgetan lækkar um 7%. Þjóðarframleiðslan hefur farið sívaxandi, en kaupgeta almennings hefur verið minnkuð með beinum aðgerðum stjórnarvaldanna undir þessu logna yfirvarpi, að þjóðarframleiðslan bæri ekki hærra kaup. Það er svo fjarri því, að nokkurt einasta orð sé satt í því, sem sagt hefur verið í slíkum efnum, að þjóðarframleiðslan beri ekki hærra kaup. Það er álíka mikil lygi og hitt, að Íslendingar hafi lifað um efni fram, enda hefur enginn ráðherra allan þann tíma, sem þetta þing hefur staðið, treyst sér til þess að reyna að verja þessi mál hér úr þessum stól. Það liggur fyrir, að Íslendingar hafa allan þennan tíma og lengri tíma lagt til hliðar af þjóðartekjunum 30% til fjárfestingar. 30% hefur landið sparað, hefur þjóðin sparað á hverju einasta ári. Af þessum 30% eru 3%, eða tíundi parturinn aðeins, fengin með erlendum lánum, svo að það er fjarri því, að þjóðin hafi lifað á öðrum. En það, sem hefur verið gallinn allan þennan tíma og er búið að vera langt árabil, það er, að þetta, sem hún hefur lagt til hliðar til fjárfestingar, er ekki gert af fyrirhyggju, er ekki gert samkvæmt áætlun um, hvernig verja skuli fjárfestingarfjármununum. Það er þetta, sem hefur ekki fengizt fram, og það er vegna þeirrar óreiðu, sem verið hefur hjá ríkisstjórnum allan þennan tíma og öllum stjórnum í efnahagsmálum, að þær hafa verið að reyna að nota það sem yfirvarp út af þessari óstjórn á fjárfestingunni, að kjör fólksins í landinu væru of góð. Þau hafa allan þennan tíma verið of léleg. Landið hefur allan þennan tíma borið hærra kaup, en landið hefur ekki borið óstjórnina á fjárfestingunni, og afleiðingunum af óstjórninni á fjárfestingunni hefur með launakúgun verið velt yfir á almenning. Það er það, sem hefur gerzt í þessu. Og það hefði nú mátt ætla, að einhverjir af þeim mönnum, sem hér hafa stundum djarft úr flokki talað, eins og hæstv. viðskmrh. og einhverjir slíkir, hefðu verið hér við og verið reiðubúnir til þess að ræða þessi mál. En þeir láta nú ekki svona lítið.

Það hefur venjulega verið sagt, þegar rætt hefur verið um þessi mál, að atvinnurekendurnir í landinu segðu, að atvinnuvegirnir þyldu ekki þetta, — sömu atvinnurekendur sem hafa í ein 20 ár haft möguleika til þess að breyta atvinnurekstrinum í miklu skynsamlegra og nýtízku horf og aldrei notað tækifærin til þess nema að hverfandi litlu leyti, og stundum verið píndir til þess. Það hefur verið sagt, að þeir segðu: Atvinnulífið ber ekki þetta. Og stjórnarliðið hefur kropið í auðmýkt og sagt: Heyrið, atvinnurekendur segja, að atvinnulífið beri ekki þetta, — hvernig dirfizt þið að rísa upp á móti þessum mönnum? — Hvað gerist svo í sambandi við þetta mál? Í þessu máli liggur fyrir umsögn þann 23. nóv., undirskrifuð hvorki meira né minna en af öllum þeirra herradómum, Félagi íslenzkra iðnrekenda, Félagi íslenzkra stórkaupmanna, Kaupmannasamtökum Íslands, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Vinnuveitendasambandi Íslands og Verzlunarráði Íslands, öllum fulltrúum þessara aðila, atvinnurekendanna í landinu, þar sem þeir segja um þetta frv., sem hér liggur fyrir, að það sé mjög varhugavert að lögbjóða kaup vissra starfshópa, án þess að tillit sé tekið til greiðslugetu atvinnuveganna, og muni ekki leika á tveim tungum, að útflutningsatvinnuvegirnir a.m.k. þola nú ekki hærra kaupgjald, svo að ekki sé meira sagt. M.ö.o.: atvinnurekendurnir segja nú: Atvinnureksturinn þolir ekki þetta, ekki þessa sjöttungshækkun á þessum sex árum. Og hvað gerist svo? Jú, það gerist það, að Sjálfstfl. og Alþfl. á þessu þingi, sem allan þennan tíma eru búnir að berja höfðinu við steininn, eru búnir í auðmýkt að lúta fyrir atvinnurekendunum, þeir segja loksins, — loksins gengur fram af þeim, og þeir sjá, að það, sem atvinnurekendur segja um þessi mál, er tóm vitleysa, og loksins sjá þeir, að það ber ekki að taka tillit til þess, að þegar atvinnurekendurnir segja, að atvinnureksturinn þoli þetta ekki, þá á ekki að taka tillit til þess. Það er þess vegna eftirtektarvert í sambandi við það, sem er að gerast í þessu máli, að Sjálfstfl. og Alþfl, slá því föstu, að, atvinnurekendasamtökin í landinu ljúgi, að það sé ekkert að marka það, sem þau segja, að það beri ekki að taka neitt tillit til þess, sem þau segja. Það er mjög ánægjulegt, þótt seint sé og lítið, að þeir opni augun, — þó að ekki sé nema rétt svona, að þeir geti rýnt ofur lítið í einhvern part af sannleikanum, þá er gaman að því, að þeir skuli þó opna augun.

Hvernig stendur á þessu? Hvernig stendur á, að þeir opna augun þetta mikið, að þeir sjá, að atvinnurekendurnir í landinu segja ósatt? Þeir eru búmenn, sem alltaf barma sér og alltaf munu barma sér og hafa í 50 ár barmað sér, og hafa aldrei sagt, að það væri hægt að greiða hærra kaup í landinu en þá 25–35 aura, sem voru um aldamótin. Verkalýðshreyfingin hefur allan þennan tíma, öll þessi 60 ár, sem liðin eru síðan um aldamótin, alltaf þurft að berja þá til þess að hækka kaupið. Þeir hafa alltaf sagt, að atvinnureksturinn bæri það ekki, vegna þess að þeir hafa gjarnan viljað liggja í sinni ómennsku án þess að þurfa að laga þannig atvinnureksturinn hjá sér, að hann beri mannsæmandi kaup.

Hvað er það, sem nú er að gerast? Nú er það að gerast, að verkalýðsfélögin, sem eru búin að vera mjög þolinmóð í þessum efnum, eru að leggja til baráttu, og atvinnurekendurnir í landinu vita það, þeir eru búnir að fá kröfurnar í sínar hendur, jafnt frá félögum, sem núv. stjórnarflokkar stjórna, eins og þeim, sem stjórnarandstaðan stjórnar. Þeir sjá sem sé, að það tekur enginn maður í landinu mark á atvinnurekendum og þeirra samtökum og því, sem þeir segja, ekki einu sinni stjórnarflokkarnir. Þeir sjá, að fram undan er harðvítug kaupbarátta, réttlát, óhjákvæmileg kaupbarátta, og það sem er að gerast, er þetta: Sjálfstfl. og Alþfl. reyna að hafa ofur lítið vit fyrir atvinnurekendum og segja við þá: Heyrið þið, við vitum náttúrlega, að þið segið alltaf, að atvinnureksturinn beri aldrei neitt. En haldið þið, að þið gætuð ekki gefið 76 aura í sjóðinn eftir t.d. 1½ ár, 76 aura til verkakvennanna? — Lítilsigldur gerist nú a.m.k. Alþfl. að ætla að sætta sig við slíkt. Það er óttinn við þá baráttu, sem nú er að hefjast, sem knýr það fram, að meira að segja stjórnarflokkarnir hér á Alþingi taka ekki tillit til þess, sem atvinnurekendurnir segja, og reyna að koma ofur litlu viti fyrir þá.

Ég skil þetta frv. þannig, að þessir stjórnarflokkar muni ætla sér að segja við atvinnurekendur: Heyrið þið, svona lítið getið þið nú gert, — og ætla að reyna að segja við sitt fólk í verkalýðsfélögunum: Heyrið þið, þið sættið ykkur nú við svona lítið. — Eftir að búið er að ræna af verkakonunum meira kaupgjaldi en því, sem þær mundu fá á sex árum, ef ekkert annað breyttist með þessu, ræna því á tveim árum, á nú að reyna að afgr. málið á þennan máta. M.ö.o.: af ótta við þá baráttu, sem fram undan er, á að reyna að losa atvinnurekendurna við hræðsluna og láta þá sleppa svona ódýrt.

Ég held, að þetta sé skakkur útreikningur, þetta þýði ekki. Ef stjórnarflokkarnir á Alþingi átta sig ekki betur á því, hvað fram undan er, þá eru þeir ekki starfi sínu vaxnir. Það er það minnsta, sem hægt er að heimta af stjórnmálamönnum, að þeir séu það raunsæir, að þeir fylgist með í því, sem er að gerast. Ef þeir fylgjast ekki með í því, að neyðin er farin að knýja að dyrum, t.d. hér í Reykjavík, að margar fjölskyldur hér eiga að lifa af 40 þús. kr. á ári, fjölskyldur jafnvel, sem á undanförnum árum hafa verið að reyna að leggja í að byggja íbúðir og eru að missa þær, fjölskyldur, sem nú eru búnar að missa alla eftirvinnuna, fjölskyldur, sem mega ekki verða fyrir smáveikindum; án þess að þeirra eigur séu meira eða minna foknar, eða verða jafnvel að neita sér um meðul, sem þær þurfa handa sjúklingum í fjölskyldunni, sem sé það er farið að sverfa hér að, — og ef stjórnarflokkarnir eru farnir að hugsa eins og franska aristókratíið á sínum tíma og fylgjast ekki lengur með í því, sem er að gerast hjá fólkinu, þá verða þau átök, sem fram undan eru, því harðari og því hættulegri, því skilningslausari sem valdhafarnir eru í slíku. Og það er skilningsleysi í þessu máli að bjóða svona lítið.

Ég vil svo, um leið og ég segi þessi orð almennt og vara menn við, þá sem völdin hafa, út af þessu, þá vil ég benda á örfá atriði í sambandi við þetta frv. Í sambandi við 3. gr. og útreikninginn, sem þar á að vera, ákvarðanir nefndarinnar séu fullnaðarákvarðanir, — ég vil benda á, að hv. stjórnarflokkar hafa gert sig seka um mjög harðsvíraða misnotkun undanfarið í sambandi við útreikninga. Ég á þar með við þá útreikninga, sem þeir hafa fyrirskipað hagstofunni að framkvæma og kauplagsnefndinni. Ég vil vekja athygli á því, að það er ekki sérstaklega mikil trygging fólgin í þessum ákvæðum viðvíkjandi útreikningunum. Ég skal bara minnast á einn hlut. Þeir stjórnarflokkar, sem nú setja fjölskyldubæturnar og annað slíkt inn í vísitöluútreikning til þess að breyta honum, — ef það tækist að knýja í gegn á Alþingi einhver sérstök fríðindi, sem kvenþjóðinni einni saman kæmu til góða, eigum við það á hættu, að það sé farið að nota þetta í sambandi við útreikningana á eftir. Við höfum reynt annað eins.

Ég vil benda á það þeim mönnum, sem þetta frv. hafa samið og að því standa, að það er hlægilegt, jafnvel þó að 2. og 3. gr. að vísu taki af tvímæli, að því er manni finnst, um merkingarnar í því, þá er hlægilegt að orða 1. gr. eins og gert er: „skulu laun kvenna hækka til jafns við laun karla“. Eftir orðanna hljóðan þýðir þetta, að þau skuli hækka jafnmikið og laun karla. Ef hitt væri örugglega meint, þá ætti þarna að orða: skulu þau hækka þannig, að þau verði jafnhá launum karla eftir ákveðið tímabil. „Hækka til jafns við,“ hvað þýðir það þarna? 2. og 3. gr. skýra þetta, eins og ég sagði, en engu að síður á að breyta 1. gr., sem er aðalatriðið. Ég vil bara segja það við stjórnarflokkana, það á að breyta slíku, því að við höfum áður reynt það hér á Alþingi með frv., sem hér hafa verið afgreidd á þennan máta, að dómarar hafa síðan neitað að dæma eftir því, og maður hefur orðið ýmist að standa að því, að það væru gefin út brbl. um slíkt, eða þá að það hefur orðið á næsta þingi á eftir að breyta lögunum til þess að taka af öll tvímæli. Og ég vil benda á, þegar þarna er aðili þar að auki á móti eins og Vinnuveitendasambandið, sem er á móti þessum lögum, sem álítur, að það eigi ekki að setja lög um þetta, og hefur aðstöðu til alls konar fyrirtafa og annars slíks, þá er það vitleysa af þeim mönnum, sem þykjast vilja vel í þessu máli, að orða lögin svo ónákvæmt eins og þarna er gert.

Eitt vildi ég líka taka fram í sambandi við þennan hátt, sem hér er hafður á, að vilja reyna að ákveða þetta með lögum, hvort sem það verður nú gert á þennan máta, sem lagt er til í frv., eða breytt eins og við Alþýðubandalagsþingmennirnir leggjum til og raunar Framsóknarþingmennirnir líka. Ég vil benda á það öllum þeim, sem er það áhugamál að tryggja jafnrétti karla og kvenna í launamálum, að trygging í lögum er ekki einhlít, ef baráttuvilji er ekki á bak við hjá samtökunum. Ég vil minna á, að ýmis mikilvægustu ákvæðin, sem við höfum knúið fram á undanförnum áratugum um réttindalöggjöf verkalýðsins, voru fyrst knúin fram með verkföllum verkafólksins í samningum við atvinnurekendur og siðan löggilt. Orlofslögin voru knúin fram í samningunum 1942, þannig að frv., sem lá fyrir Alþingi og fékkst ekki afgreitt, var í samningunum milli verkamanna og atvinnurekenda ákveðið, að orlof skyldi gilda og vera greitt samkvæmt því frv. Seinna meir var svo það frv. gert að lögum. Á sama hátt var með atvinnuleysistryggingar í verkföllunum 1955. Þær voru settar þá, eftir að það höfðu verið í 12 ár flutt frv. á Alþingi og ekki orðið að lögum. Og eins var með lífeyrissjóð togarasjómanna, baráttumál sjómannanna. Það er nauðsyn fyrir verkakvennafélögin og öll verkalýðsfélögin, hverjar réttarbætur sem þau reyna að knýja fram, að fyrst og fremst sé það þeirra eigin styrkur, sem þau treysta á í slíku sambandi, og svo framarlega sem hann er ekki fyrir hendi, þá reynast venjulega lög, sem sett eru, ekki duga mikið. Ég er a.m.k. búinn að lifa það of oft hér á Alþingi, að lög, sem maður hefur getað knúið fram á einhverjum tíma og fólu einhverjar réttarbætur í sér, ef verkalýðsfélögin voru ekki vígreif á bak við til þess að halda því föstu, þá er þetta eftir örskamman tíma afnumið aftur með öðrum lögum. Þau þýðingarmiklu lög, sem sett voru um útrýmingu heilsuspillandi íbúða 1946, voru afnumin rétt rúmu ári eftir að þau voru sett. Og þannig hefur farið með mörg þau réttindi, sem einvörðungu hafa verið sett á Alþingi og verkalýðssamtökin ekki staðið nógu harðvítuglega saman um. Þess vegna mun eins verða um það almenna hugsjónamál, hvað snertir jöfnuð í launum milli kvenna og karla, að það er sjálf barátta verkalýðssamtakanna, sem þar er aðalatriðið. Hvort sem mikið eða lítið kynni að vinnast á í þeirri baráttu, sem nú yrði háð á Alþingi, þá er það baráttan utan þingsalanna, sem verður höfuðatriðið í þessu efni.

Ég sá það í umsögn atvinnurekendasamtakanna, að þau telja það varhugavert að breyta þessu með lögum. Meira að segja þessi litli sjötti partur, sem þarna er farið fram á, þessi lítilþægni, sem þarna er sýnd, því telja atvinnurekendurnir varasamt að breyta með lögum. En þeir töldu ekki varasamt að breyta 1. febr. 1959, þegar vísitalan var afnumin. Þá komu ekki mótmæli.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði hér í sinni ræðu, að við værum á móti þeirri réttarbót, sem í þessu fælist. Það, sem við erum á móti, er að hafa þessa réttarbót svona pínu-pínulitla, og það kemur sérstaklega úr hörðustu átt frá þeim flokkum, sem búnir eru að rífa af verkakonum fjórðunginn af þeirra launum á tveim árum, fjórðunginn af kaupgildi þeirra launa á tveim árum, að koma nú og segjast vera hér með mikla réttarbót. Og það er alveg dæmalaust, ef þeir halda, að þeir geti sætt meira að segja það fólk, sem þeim hefur fylgt fram að þessu, við slíkt.

Hv. 8. þm. Reykv. talaði um, að það væri hætta á, að ef konurnar færu of geyst í þetta, þá yrði þeim bolað úr vinnu. Að svo miklu leyti sem sú hætta væri til, þá væri hún jafnt til, hvort sem það er á lengri eða skemmri tíma. En það væri ósköp auðvelt með löggjöf að koma í veg fyrir það. Það væri ekkert auðveldara en að bæta því inn í þetta frv. að banna atvinnurekendum uppsagnir, — ekkert auðveldara en vernda rétt kvenfólksins í því efni.

Hv. 1. þm. Vestf. talaði hér um, hve lengi væri talað af ýmissa hálfu. Það kemur nú satt að segja úr hörðustu átt, þegar hv. 1. þm. Vestf. fer að tala um slíkt. Hann hefur nú lengst af á sínum þingferli átt sæti í Ed. Þegar hann átti sæti í Ed., talaði hann svo mikið, að það var um það rætt, að þriðjungurinn af öllum ræðum og öllu, sem talað hafði verið í Ed., hefði verið talað af þessum eina þingmanni. Hans flokksmenn tóku þess vegna það ráð, til þess að hann talaði ekki öll þessi ósköp, að þeir gerðu hann að forseta Ed., og eftir það styttust fundir í Ed. mjög mikið, sem kunnugt er. (BF: Var ekki hv. 3. þm. Reykv. líka einu sinni gerður að forseta?) Jú, ég sagði það einmitt við menn, hvort það væri gert í því skyni. Síðan hefur það hins vegar gerzt, að þessi hv. þm. hefur komið hingað í Nd. (Gripið fram í.) Já, það er ýmist of eða van, finnst þeim, þeim er víst jafnilla við það, hvort við tölum eða þegjum, það er stundum að þögnin er mælsk. Síðan hv. 1. þm. Vestf. kom hins vegar hingað í Nd., hefur lítið á honum borið, og ég fann ástæðu til þess fyrir nokkru, þegar hann loksins fékk málið hér, að óska honum til hamingju með það, að hann virtist leystur úr þeim álögum, sem hans flokksmenn hefðu lagt hann í. Ég held þess vegna, að hann ætti nú sízt af öllu að vera að álasa öðrum mönnum, hvorki fyrir langar ræður né heldur fyrir að þegja.

Ég álít, að þeir flokkar, sem standa að þessu frv., ættu á síðustu stundum þessa þings að athuga sinn gang. Þeir hafa rænt og rænt miklu. Þeirra ránsfengur er stór á þessum tveggja ára ferli þeirra. Og það liður nú að dómsúrslitum í þessu efni. Verkalýðurinn í landinu kemur nú bráðlega til að kveða upp sinn dóm í þeim átökum, sem fram fara. Það hefði verið æskilegt, að sú yfirstétt, sem nú er að brjótast hér til valda, hefði sýnt þann skilning að vilja skila dálitlu af sínum ránsfeng til baka. Haldi menn, að menn sleppi með svona lítið eins og hér er lagt til, þá reikna menn skakkt, og það er mjög slæmt, þegar stjórnmálamenn gera slíkt. Við erum að sjá afleiðingarnar af því alls staðar í veröldinni núna. Skammsýnir valdhafar átta sig ekki á því fyrr en of seint, hvað það er, sem þeir eru að bjóða alþýðunni í löndunum, og mér — sýnist þetta frv. og það, hvernig tekið hefur verið á þeim brtt., sem Alþb. kom með í Ed. og flytur nú hér við þessa umræðu, það muni sýna, að skammsýni núv. valdhafa er mikil. Þess mun verða freistað, eftir því sem nokkur kostur er á, að reyna að koma fyrir þá vitinu, bæði með ræðum og tillögum, við þær tvær umræður, sem eftir eru um þetta mál. Það hefði kannske verið hægt að vonast eftir því, fyrst um kvenfólk var að ræða þarna, að menn hefðu sýnt ofur lítið minni ránskap og ofur lítið meiri riddaraskap í því að skila aftur stuldinum, skila aftur af ránsfengnum. En það virðist ekki bóla mikið á því.

Ég vil þess vegna eindregið skora á hv. þm. stjórnarliðsins, áður en til atkvæða kemur um þær brtt., sem hv. 4. landsk. þm. flytur f.h. Alþb., að athuga sitt mál, að reyna þó að gera eitt ærlegt verk á þessu þingi, og það er að afgreiða þetta mál, sem snertir kvenfólkið og þess jafnlaunakröfur, þannig, að nokkur sómi sé að. Það mundi vera gert með því að samþykkja þessar brtt., sem hv. 4. landsk. þm. leggur fram.