27.03.1961
Sameinað þing: 57. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það leikur ekki á tveim tungum, að efnahagsmálin og landhelgismálið eru tvö þýðingarmestu málin, sem ríkisstj. hefur fjallað um. Bæði hafa þessi mál komið til aðgerða þessa þings, sem nú er að hverfa frá störfum.

Í nær 20 ár hefur engin ríkisstj. verið mynduð, án þess að viðureignin við verðbólguna væri meginatriðið í störfum hennar. Allan þennan tíma hefur verðlag og kaupgjald engu að síður hækkað á víxl og verðgildi peninga minnkað. Þjóðin hefur árlega notað meiri gjaldeyri til neyzlu og framkvæmda en aflað hefur verið. Um flest áramót hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir til, að flotinn kæmist á vertíð, þar eð verðhækkanir liðins árs hafa svipt grundvellinum undan rekstrarafkomu atvinnuveganna. Erfiðleikar efnahagsmálanna hafa orðið hverri ríkisstj. á fætur annarri að falli.

Við stofnun vinstri stjórnarinnar árið 1956 var gerð tilraun til að fara inn á nýjar brautir við lausn efnahagsmála. Takmark þeirrar stjórnar var að leysa þau og koma rekstri atvinnuveganna á fjárhagslega öruggan grundvöll í nánu samstarfi við samtök vinnandi fólks og framleiðenda til sjávar og sveita. Það var vissulega ástæða til að gera sér von um, að með slíku samstarfi mætti ná ríkum árangri, þar eð hér var um að ræða samstarf við þær stéttir, sem vöxtur verðbólgunnar bitnaði harðast á og mestra hagsmuna höfðu að gæta um öruggan og stöðugan rekstur atvinnutækja. En til þess að slíkt samstarf gæti borið tilætlaðan árangur, þurftu allir, sem að því stóðu, að vinna saman af heilindum. Vinstri stjórnin fór að vísu vel af stað, en það kom brátt í ljós, að fulltrúar Alþb. höfðu allt annað í huga en gera sér grein fyrir vanda efnahagsmálanna og framkvæma síðan þær ráðstafanir, sem nauðsynlegar voru. Ég ætla ekki að rekja þróun mála innan vinstri stjórnarinnar. Allir vita, að samstarfið tókst ekki betur en svo, að haustið 1958 var málum þannig komið, að við blasti hækkun kaupgjaldsvísitölunnar úr 185 stigum í 202 stig eða um 17 stig. Vitað var, að án aðgerða mundi vísitalan komin í minnst 270 stig fyrir haustið 1959, og enginn treystir sér til að reikna út, hve ör vöxtur hennar yrði eftir það.

Innan vinstri stjórnarinnar var ekki samstaða um neina lausn á vandanum. Alþýðubandalagsmenn neituðu að viðurkenna staðreyndir og vildu engar raunhæfar aðgerðir. Á milli Alþfl. og Framsfl. var enginn ágreiningur um, að þörf var róttækra aðgerða. Alþfl. lagði til í nóvember 1958, að forsrh. legði málið fyrir Alþ. og þar yrði freistað að leysa vandann. Þessa till. byggði Alþfl. á því, að ríkisstj. gæti ekki hlaupið frá málinu án þess að leggja það fyrir þingið og það því fremur, er svo lítið virtist bera á milli tillagna Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. um úrlausn, að fyrir fram var ekki hægt að útiloka þann möguleika, að þessir þrír flokkar gætu komið sér saman. Slík meðferð málsins hefði getað orðið grundvöllur að frekara samstarfi þessara flokka. Alþb. vildi ekki á þetta fallast. Það taldi sig sjá fram á einangrun sína, ef farið væri að tillögum Alþfl. Kröfðust ráðherrar Alþb. þess, að forsrh., Hermann Jónasson, legði hugmynd sína um frestun hækkunar vísitölunnar fyrir þing Alþýðusambands Íslands. Forsrh. hafnaði till. Alþfl., en féllst á till. ráðh. Alþb. og gekk á fund Alþýðusambandsþings. Undir forsæti Hannibals Valdimarssonar félmrh. hafnaði A.S.Í. tilmælum Hermanns Jónassonar. Við göngu forsrh. á þing A.S.Í. hafði það því eitt áunnizt, að ráðh. Alþb. hafði tekizt að niðurlægja forsrh. sinnar eigin ríkisstj. Eftir þetta endurtók Alþfl. kröfu sína um, að málið yrði lagt fyrir Alþ. Ráðh. Alþb. voru þessu mótfallnir sem fyrr og kröfðust þess, að ríkisstj. annaðhvort framkvæmdi þýðingarlausar málamyndaaðgerðir í efnahagsmálum eða bæðist lausnar. Hermann Jónasson forsrh. hafnaði á ný till. Alþfl. og gekk þá braut, sem Alþb. vísaði. Hann lýsti því yfir á Alþ. 5. des. 1958, að ný verðbólgualda væri skollin yfir, að engin samstaða væri innan ríkisstj. til úrlausnar á málinu og hann hefði beðizt lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Ég hef rakið þessa atburði haustsins 1958 svo ýtarlega hér vegna þess, að yfirlýsing Hermanns Jónassonar í des. 1958 og för hans á Alþýðusambandsþing nokkrum dögum áður markar tímamót í íslenzkri stjórnmálasögu. Í fyrsta lagi er hér um að ræða dauðadóm yfir hinu svonefnda vinstra samstarfi, og í öðru lagi var þetta upphaf þess, að Framsfl. lætur Alþb. í æ ríkara mæli segja sér fyrir verkum og marka stefnu flokksins. Hefur þetta komið glöggt fram á þingi því, sem nú er að hverfa frá störfum, svo sem síðar mun að vikið.

Stjórn Alþfl., sem eftir þetta var mynduð, tók við þrotabúinu. Hennar verkefni var að stöðva vöxt verðbólgunnar, koma flotanum á vertíð, leysa kjördæmamálið og afgreiða hallalaus fjárlög án nýrra skatta á almenning. Við allt þetta var staðið, og skal ekki nánar að því vikið. Við myndun stjórnar Alþfl, var því lýst yfir, að hún hygðist fara með stjórn landsins, á meðan fram færu alþingiskosningar, svo að hægt væri að mynda ríkisstj., sem byggðist á traustum meiri hluta á Alþingi. Frambúðarlausn efnahagsmálanna yrði að bíða slíkrar ríkisstj.

Strax eftir myndun núv. ríkisstj. var hafizt handa um ýtarlega rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Sú rannsókn leiddi í ljós, sem reyndar var vitað áður, að uppbótakerfið hafði gengið sér gersamlega til húðar og ekki gat komið til mála að halda lengra á þeirri braut. Ekki var um aðra leið að velja en viðurkenna þá staðreynd, að íslenzk króna var þegar fallin stórlega í verði og skráning hennar alröng. En jafnhliða gengislækkuninni gerði ríkisstj. þýðingarmiklar hliðarráðstafanir til að létta byrðar almennings. Bætur almannatrygginga voru hækkaðar úr 126 millj. kr. árið 1959 í 348 millj. árið 1960. Framlag til útlána húsnæðismálastjórnar vegna íbúðabygginga almennings var hækkað úr 48.8 millj. kr. árið 1958 í 70.8 millj. kr. Tekjuskattur hefur verið felldur niður af almennum launatekjum auk annarra umbóta á skattskyldu einstaklinga. Sveitarfélögum hafa verið skapaðir möguleikar til nokkurrar útsvarslækkunar. Innflutningsskrifstofan lögð niður og ný skipan lögleidd á innflutnings- og gjaldeyrismálum. Innflutningur gefinn frjáls á allt að 85–90% heildarinnflutnings. Bankakerfið hefur verið endurskoðað. Lánasjóðum hefur verið útvegað allmikið lánsfé og þýðingarmikil endurbót gerð á lánakerfi sjávarútvegsins með föstum lánum til langs tíma í stað lausalána. Þessa stundina eða í dag var verið að samþykkja frv. Alþfl. um jöfn laun kvenna og karla. Ótalmargt fleira mætti hér til nefna.

Það er eftirtektarvert, að stjórnarandstaðan hefur á allan hátt reynt að koma. í veg fyrir framgang þeirra mála, sem ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Verður í því efni ekki gert upp á milli stjórnarandstöðuflokkanna. Hafi ríkisstj. staðið að málinu, hefur mátt ganga út frá því fyrir fram sem gefnu, að stjórnarandstaðan reyndist málinu mótfallin án tillits til málavaxta. Vekur þetta því meiri athygli, þegar þess er gætt, að hvorugur stjórnarflokkanna hefur haft neitt fram að færa til úrlausnar hinum þýðingarmestu málum.

Landhelgismálið er annað af tveimur þýðingarmestu viðfangsefnum ríkisstj. Það mál hefur nú verið leitt til lykta á farsælan hátt. Íslendingar hafa lengi barizt fyrir því á alþjóðavettvangi að fá viðurkenndan rétt sinn til útfærslu á fiskveiðilögsögu við Ísland. Þessi barátta hefur verið háð á alþjóðaráðstefnum og í viðræðum við ríkisstjórnir mikils fjölda landa. Árangur þessarar baráttu hefur að vísu ekki orðið sá, að samþykktar hafi verið reglur, sem fullnægja Íslendingum. En sé þess gætt, hvert ástandið var, er baráttan hófst, verður ekki annað sagt en mikilsverður árangur hafi náðst og þýðingarmeiri en allur þorri manna gerir sér ljóst í dag.

Fyrir tiltölulega fáum árum var þriggja mílna beltið almenn regla, og ekki var um aðrar grunnlínur að ræða en þræða ströndina. Íslendingar gátu hvenær sem var krafizt uppsagnar landhelgissamningsins við Breta frá 1901 með tveggja ára uppsagnarfresti. Kyrrt var látið liggja í nær 50 ár, vegna þess að talið var, að engin alþjóðleg heimild væri fyrir víðari landhelgi en 3 mílum. Barátta fullra 10 ára hefur hins vegar leitt til þess, að nú er til alþjóðleg samþykkt fyrir grunnlínukerfi, sem miðast við útnes, auk þess sem andstæðingar 12 mílnanna gáfust upp í þeirri baráttu á Genfarráðstefnunni s.l. vor og eftir stóð aðeins deilan um það, hversu langan umþóttunartíma þær þjóðir, sem veitt hefðu innan 12 mílnanna, skyldu fá til að hverfa á brott. Vantaði svo sem kunnugt er aðeins eitt atkv. á ráðstefnunni til, að nægur meiri hluti fengist fyrir tíu árum.

Þessi þróun á alþjóðavettvangi ætti vissulega að vera Íslendingum mikið gleðiefni og sönnun þess, að rétt hefur verið á málunum haldið, þegar baráttan var tekin upp og henni haldið áfram innan Sameinuðu þjóðanna. En þrátt fyrir þá viðurkenningu, sem sérstaða okkar hefur notið, og þann árangur, sem náðst hefur, skulum við nú, þegar málið er leyst, ekki loka augunum fyrir því, að vegna vinnuaðferða okkar innanlands vorum við vel á veg komin með að glata þeirri samúð, sem áunnizt hafði. Synjun okkar á viðræðum við aðrar þjóðir þótti ósanngjörn. Við átöldum ofbeldisaðgerðir Breta, er þeir sendu hingað herskip sín í sept. 1958. Þessar ofbeldisaðgerðir hlutu fordæmingu víða um heim. En því megum við hins vegar ekki gleyma, að í augum hins frjálsa heims vorum við einnig sakaðir um ofbeldi, er við neituðum að ræða málið, þó að til þess væri ekki ætlazt af okkur, að við fórnuðum hagsmunum okkar við samningaborðið. Það er ekki sterkur leikur fyrir smáþjóð að haga málum sínum þannig í milliríkjaviðskiptum, að allt sé á því byggt, hversu smá og veik hún er. Ef stjórnarandstaðan hefði fengið að ráða á Alþ. og samkomulagi við Breta hefði verið hafnað, megum við vera viss um, með tilliti til þess, hvaða lausn bauðst, að við hefðum gersamlega glatað allri samúð og hlotið þungan áfellisdóm víða um heim. Hygg ég, að Íslendingum hafi sjaldan verið gefin verri ráð en stjórnarandstaðan gaf þeim í þessu máli. Sem betur fór, var ekki farið að ráðum stjórnarandstöðunnar. Geta Íslendingar nú fagnað tvöföldum sigri í landhelgismálinu. Annars vegar hafa þeir leyst deiluna með samkomulagi, sem tryggir þeim meira en reglugerðin frá 1958 gerði, og hins vegar hafa þeir sýnt, að þeir vilja leysa deilumál sín við aðrar þjóðir með friðsamlegum hætti.

Afstaða og málflutningur stjórnarandstöðunnar í landhelgismálinu er á ýmsan hátt athyglisverð og lærdómsrík fyrir Íslendinga. Þáttur kommúnista kemur mönnum að vísu ekki á óvart. Þeirra takmark hefur ætíð verið að nota landhelgismálið til illdeilna við grannþjóðir okkar og kljúfa okkur úr Atlantshafsbandalaginu. Þetta kom fyrst fram sumarið 1957, á meðan beðið var aðgerða Sameinuðu þjóðanna og væntanlegrar alþjóðaráðstefnu. Þá vildu kommúnistar láta friða þrjú svæði utan fjögurra mílnanna, en halda áfram fjögurra mílna línunni. Þetta var ófullnægjandi vernd, en hefði án efa leitt til alvarlegra árekstra við grannþjóðir okkar og spillt aðstöðu okkar á alþjóðavettvangi. Þessu var afstýrt. Þegar fært var út 1958, vildu kommúnistar engar viðræður við aðrar þjóðir, og það kostaði hörð átök innan vinstri stjórnarinnar að knýja slíkar viðræður fram. Gleggst kemur það þó fram, hvað kommúnistar vildu í landhelgismálinu, í ræðu, sem hv. alþm. Lúðvík Jósefsson flutti nýlega á hv. Alþ., en þá sagði hann svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Mig hefði langað mjög til þess, miðað við aðstöðuna til friðunar á Íslandsmiðum, að semja beinlínis við Breta um, að þeir héldu áfram í eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár þessari vitleysu, sem þeir voru að gera hér.“

Þá veit maður það. Vonir og óskir kommúnista í landhelgismálinu voru að sögn Lúðvíks Jósefssonar þær, að Bretar héldu áfram ofbeldisaðgerðum sínum við Ísland í allt að fjögur ár, og svo ríkt var kommúnistum þetta í huga, að þeir vildu beinlínis semja um það við Breta. Þetta varpar skýru ljósi á tilgang kommúnista í landhelgismálinu og skýrir jafnframt, hvaða alvara lá á bak við, þegar þeir heimtuðu á sínum tíma mótaðgerðir gegn ofbeldi Breta á Íslandsmiðum og kröfðust þess, að við slitum stjórnmálasambandi við Breta, kærðum þá fyrir öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og færum úr NATO. Þegar þeir báru þessar kröfur fram, höfðu þeir það efst í huga að eigin sögn, að til þess bæri brýna nauðsyn að tryggja áframhald ofbeldisins í a.m.k. fjögur ár.

Afstaða Framsfl. í landhelgismálinu er hins vegar miklu athyglisverðari en afstaða kommúnista fyrir þær sakir, að hjá Framsfl. kemur fram sama undirgefnin við kommúnista sem hv. þm. Hermann Jónasson var haldinn af í des. 1958, er hann lét hv. þm. Hannibal Valdimarsson, þáverandi félmrh., senda sig á fund Alþýðusambandsþings til þess þar að láta gera sig afturreka og biðjast síðan lausnar samkvæmt fyrirmælum kommúnista, í stað þess að leggja efnahagsmálin fyrir Alþ. Er þetta því furðulegra, þar sem allar aðgerðir Framsóknar í landhelgismálinu nú eru í beinni mótsögn við fortíð flokksins. Ég skal nefna nokkur dæmi.

Árið 1958 hefur Framsfl. tvívegis forustu um tilboð til NATO-landa um, að skip þeirra megi í þrjú ár stunda veiðar kringum allt land, ef smávægilegar grunnlínubreytingar fáist og 12 mílurnar verði viðurkenndar. Nú bauðst þessi sama lausn, en þó þannig, að veiðisvæðin eru stórlega takmörkuð að stærð og tíma úr ári, auk þess sem um er að ræða stórfelldar grunnlínubreytingar. Kommúnistar hamast á móti þessu og heimta samstöðu Framsfl. Framsfl. gleymir allri sinni fortíð og hleypur á eftir kommúnistum. Þegar fært var út í 4 mílur árið 1952, varð af deila við Breta. Framsfl. hafði þá forsæti í ríkisstj. og býður Bretum að leggja deiluna undir úrskurð alþjóðadómstólsins í Haag. Kommúnistar voru þá sem nú andvígir alþjóðadómstólnum, en í leiðara, sem birtist í Tímanum um þessar mundir, gerði Framsfl. grein fyrir afstöðu sinni til alþjóðadómstólsins. Ummæli Tímans um dóminn hafa verið birt áður hér á hv. Alþ., en með leyfi hæstv. forseta, þá hljóða þau svo, — Tíminn segir:

„Þegar um þessi mál, landhelgismálin, var rætt s. l. haust, var m.a. minnzt á það í þessu blaði, Tímanum, hve mikilvægt það væri fyrir smáþjóð, að til væri alþjóðadómstóll, þar sem smáþjóðir gætu leitað réttar síns, annars væru þær ofurseldar yfirdrottnun stórvelda eða a.m.k. væri þeim auðveldara að láta kenna aflsmunar. Á þetta var bent vegna þess tilefnis, að málgagn kommúnista hafði farið svívirðilegum orðum um dómstólinn í Haag og haldið því fram, að smáþjóðir ættu að einskisvirða hann. Úrskurður hans í landhelgisdeilu Norðmanna og Breta hefur nú sýnt, hver ávinningur það er fyrir smáþjóð, að slíkur dómstóll er til. Kommúnistar hafa hins vegar sýnt hér eins og oftar, að þeir reyna að óvirða og eyðileggja allt það, sem eykur öryggi og rétt smáþjóða, og munu flestir geta rennt grun í, af hvaða ástæðum það er.“

Lengri er tilvitnunin í Tímaleiðarann ekki. Hún sýnir greinilega, að Framsfl. gerir sér grein fyrir mikilvægi alþjóðadómstólsins fyrir smáþjóðir, og blaðið er ekki í vafa um, af hvaða rótum óvild kommúnista í garð dómsins er runnin. Árið 1952 hegðaði Framsfl. sér samkvæmt þeirri stefnu, sem Tímaleiðarinn flutti, og bauð Bretum, að landhelgisdeilan yrði lögð fyrir alþjóðadómstólinn. Þegar ríkisstj. nú átti þess kost, að Bretar beiti ekki ofbeldi vegna framtíðarágreinings um útfærslu fiskveiðilögsögu, en láti alþjóðadómstól gera út um málið, strikar Framsfl. yfir öll fyrri orð og gerðir og hleypur eftir kalli kommúnista.

Íslendingum er það mikilsvert að hafa fengið viðurkenningu fyrir 12 mílna fiskveiðilögsögu og breyttum grunnlínum. Mestu máli hygg ég þó að skipti, að Bretar hafa nú skuldbundið sig til að beita ekki ofbeldi við framtíðarútfærslu fiskveiðilögsögu, en leggja málið þess í stað fyrir alþjóðadómstólinn. Íslendingar eru allir á einu máli um, að framtíðarútfærsla verður að byggjast á alþjóðarétti, og þegar málum er þannig háttað, er alþjóðadómstóll þeim ómetanlegur.

Stjórnarandstaðan hefur goldið mikið afhroð vegna afstöðu sinnar til landhelgismálsins. Vitað var, að tilraunir mundu gerðar til að leiða athyglina frá þessum ósigri og að reynt yrði að ná sér niðri á þeim, sem beitt hafa sér til lausnar á málinu. Gagnaðgerðirnar hafa ekki látið standa á sér. Fyrir nokkrum dögum voru tveir kommúnistar látnir bera fram till. í Nd. um skipun rannsóknarnefndar vegna viðskipta fjmrn. árið 1959 við Ásfjall h/f og vegna útgerðar togarans Brimness. Leynir sér ekki, að kommúnistar hyggjast gera hér tvennt í senn: leiða athyglina að nýju máli og koma fram persónulegum hefndum. Er rétt að gera með fáum orðum grein fyrir þessum málum.

Á árinu 1958 gáfust Seyðfirðingar upp á útgerð togarans Brimness vegna fjárhagsörðugleika. Var eftir því leitað, að ríkisstj. tæki að sér rekstur togarans. Á það var þó ekki fallizt, fyrr en samþykki Alþ. var tryggt. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1959 var ríkisstj. heimilað að annast og ábyrgjast rekstur togarans Brimness til 1. sept. og innleysa áhvílandi sjóveðs- og fjárnámskröfur. Till. um þetta var borin fram af fjvn., þar á meðal hv. þm. Karli Guðjónssyni, og samþ. ágreiningslaust. Í samráði við bæjarstjórn Seyðisfjarðar var Axel Kristjánssyni falið að annast rekstur skipsins og gera upp áhvílandi sjóveðs- og fjárnámskröfur. Fylgzt var með rekstri skipsins, á meðan Alþfl. fór með málefni fjmrn. og án efa einnig eftir það. Var afkoma skipsins á árinu 1959 góð og virtist ekki um rekstrarhalla að ræða. Þá mánuði af árinu 1960, sem skipið var gert út, mættu því hins vegar þeir sömu erfiðleikar og aflaleysi og öðrum togurum. Þrátt fyrir allt þetta hygg ég, að þegar útgerðinni var hætt, hafi heildarútkoman verið betri en áður hafði reynzt um það skip. Endurskoðunardeild fjmrn. endurskoðar að sjálfsögðu reikninga útgerðarinnar.

Að því er Ásfjall varðar, þá leitaði Axel Kristjánsson til ríkisstj. í febr. 1960 og óskaði ríkisábyrgðar fyrir kaupverði togara, er hann hygðist kaupa í Þýzkalandi. Ríkisstj. sneri sér til fjvn. og bað um, að ábyrgðarheimildin væri tekin í fjárlög. Erindinu fylgdu upplýsingar um skipið og verð þess. Samkvæmt einróma till. fjvn., þar á meðal hv. þm. Karls Guðjónssonar, samþ. Alþ, að veita heimildina. Er kaupandi hafði lagt kaupsamninginn fyrir ríkisstj., var ábyrgðin veitt samkv. heimild fjvn.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa till. Hún er vesældarleg tilraun til að draga athyglina frá óförum kommúnista í öðrum málum og lítilmótlegir tilburðir til að reyna að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi.

Við lausn landhelgismálsins hafa kommúnistar misst af tækifæri til að kljúfa okkur úr samstarfi vestrænna þjóða. En þá er tekið til við annað. Varnarmálin eru tekin fram af nýjum krafti, og enn er nú krafizt samstöðu af Framsfl. Ganga Framsfl. með kommúnistum í landhelgismálinu var erfið fyrir flokkinn, en naumast trúi ég öðru en að ganga þeirra með kommúnistum í varnarmálunum verði enn erfiðari. Ferill kommúnista í varnarmálunum er með slíkum hætti, að Framsókn getur naumast talizt of sæl af þeim félagsskap.

Atlantshafsbandalagið var stofnað að frumkvæði þeirra Evrópuþjóða, sem um sárast áttu að binda eftir heimsstyrjöldina. Reynsla styrjaldaráranna hafði kennt þessum þjóðum, að hlutleysið, sem þær fram til þess tíma höfðu trúað á, var þeim ekki vörn, heldur þvert á móti bauð árásarhættunni heim. Tilgangur bandalagsins var að sýna samtaka- og varnarmátt og þar með koma í veg fyrir árás. Menn geta deilt fram og aftur um bandalagið, en enginn neitar þeirri staðreynd, að eftir tilkomu þess lauk sókn heimskommúnismans til vesturs og hann sölsaði ekki undir sig fleiri lönd í þeim hluta heims. Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu vegna þess, að það var óhjákvæmilegur hlekkur í varnarkerfi hins vestræna heims, og Íslendingar töldu frelsi sínu því bezt borgið, að vestrænar þjóðir fengju haldið sínu frelsi. Vegna hættuástands og hagsmuna Íslendinga sjálfra var fallizt á, að hingað kæmi varnarlið áríð 1952, en því var þá jafnframt lýst yfir, að það skyldi hverfa héðan aftur, strax og öryggi landsins leyfði. Árið 1955 og fram eftir ári 1956 var litið svo á um allan heim, að friðarhorfur hefðu breytzt mjög til hins betra. Viðræður forseta Bandaríkjanna og forsrh. Sovétríkjanna á árinu 1955 stuðluðu mjög að þessum bjartari vonum. Um allan heim var rætt um að draga úr vígbúnaði og fækkun varnarstöðva. Á grundvelli þessa ákváðu Alþfl. og Framsfl. vorið 1956 að beita sér fyrir uppsögn varnarsamningsins. Því miður fór svo, að fljótlega kom í ljós, að hér hafði verið um of mikla bjartsýni að ræða. Atburðirnir í Ungverjalandi haustið 1956 sýndu, svo að ekki varð um villzt, að friðarhorfur höfðu sízt af öllu breytzt til batnaðar. Af þessari ástæðu hurfu Framsfl. og Alþfl. frá endurskoðun varnarsamningsins haustið 1956. Kommúnistar beittu sér frá upphafi gegn þátttöku Íslands í NATO og gerð varnarsamningsins. Þeir gengu til stjórnarmyndunar með Framsfl. og Alþfl. 1956 m.a. til að vísa varnarliðinu úr landi. Þegar samstarfsflokkarnir hurfu frá þessu, var að sönnu ekkert samráð haft við kommúnista, en þeir sættu sig við gerðan hlut og hreyfðu engum mótmælum. Eftir það sátu ráðherrar þeirra í ríkisstj. í rúm tvö ár og hreyfðu á þeim tíma engum andmælum gegn veru varnarliðsins á Íslandi. Það kom að vísu fyrir einu sinni, þegar hv. þm. Einar Olgeirsson fór á fund til Moskvu, að hann skildi eftir bréf, þar sem rætt var um brottför varnarliðsins. Það var líka eina lífsmarkið í þá átt.

Eftir að Hermann Jónasson baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt haustið 1958, ríkti mikil óvissa nokkurn tíma um, hvaða stjórn tæki við. Um þessar mundir hélt flokksstjórn Sósfl. fund. Á þeim fundi var gerð ályktun í varnarmálunum og birt í Þjóðviljanum. Ályktun þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samþykkt Alþ. um uppsögn varnarsamningsins verði þegar í stað látin koma til framkvæmda. Flokksstjórnin felur miðstjórn flokksins að ákveða, hvenær gera beri brottför hersins að úrslitaskilyrði um stjórnarsamstarf.“

Þetta er mjög greinilegt. Flokksstjórn Sósfl. krefst þess, að varnarliðinu verði þegar í stað vísað úr landi, en hún bætir því við, að miðstjórnin megi ráða því, hvenær hún verzli með þetta stefnuskráratriði flokksins og falli frá því í skiptum fyrir ráðherrastóla.

Kommúnistar hafa ekkert tækifæri fengið síðan haustið 1958 til að gera verzlun þá með varnarmálin, sem flokksstjórnin heimilaði miðstjórninni. Það hefur enginn rætt við þá um stjórnarmyndun. Nú þykir þeim biðtíminn orðinn nokkuð langur. Hafin er herferð til uppsagnar varnarsamningsins. Fundir eru haldnir og gengið er fyrir hvers manns dyr til að safna undirskriftum. Margar sögur berast um aðferðir þær, sem beitt er til að ná undirskriftum undir áskorun um uppsögn varnarsamningsins, og þær ekki allar sem prúðastar. Engin þessara sagna greinir samt frá því, hvort miðstjórn Alþb. lætur nokkuð uppi um það, hvort hún hugsar sér að nota heimild þá, sem flokksstjórn Sósfl. gaf henni til að falla frá stefnu flokksins í varnarmálunum í skiptum fyrir ráðherrastóla. Mætti naumast minna vera en þeir, sem leitað er til með undirskrift, fengju eitthvað um þetta að vita.

Framsfl. hefur nú ákveðið að hlýða kalli kommúnista í varnarmálunum. Eftir reynslu liðinna mánaða kemur þetta engum á óvart. En fróðlegt verður að heyra greinargerð Framsfl. fyrir því, að hvaða leyti viðhorfin í heiminum eru nú svo breytt frá því í des. 1956, að varnarliðs, sem þá var þörf á Íslandi að dómi Framsfl., er nú ekki lengur þörf. Og ekki væri síður uppbyggilegt að vita, hvort miðstjórn Alþb. hefur nokkuð sagt Framsfl. um það, hvort Alþb. hyggst nota heimild flokksstjórnar Sósfl. til að falla frá kröfu flokksins um burtför varnarliðsins í skiptum fyrir ráðherrastóla, þegar undirskriftasöfnun er lokið.

Ég býð hlustendum góða nótt og óska þeim gleðilegrar páskahátíðar.