28.03.1961
Sameinað þing: 60. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 1641 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigurður Ingimundarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það, sem vakið hefur mesta athygli almennings í mörgum útvarpsumræðum að undanförnu, er hin algera samstaða stjórnarandstöðuflokkanna, kommúnista og framsóknarmanna, jafnt í efnahagsmálum sem utanríkismálum, og hefur hún þó komið enn betur fram í sölum Alþingis á undanförnum tveimur þingum.

Forsaga efnahagsmálsins var sú, að þjóðin hafði, eins og málin stóðu á árinu 1958, árið sem vinstri stjórnin gafst upp, samkvæmt skýrslu, sem Torfi Ásgeirsson hagfræðingur Alþýðusambandsins gaf launþegasamtökunum, eytt stríðsgróðanum öllum, Marshallhjálp, gjafafé, öllum fáanlegum lántökum og lánstrausti, eða nærri 5000 millj. kr., reiknað á verðlagi þess árs, umfram eigin samtíma framleiðslu, og ný viðhorf blöstu við, eins og Torfi segir í skýrslu sinni orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, — Torfi segir:

„Við höfum til ráðstöfunar aukalega fé, sem slagar hátt upp í að samsvara verðmæti allrar þjóðarframleiðslunnar í heilt ár. Sé horft fram á við, þá er það augljóst, að þetta lántökuskeið er senn runnið á enda og við blasir tímabil, þar sem þjóðin, í stað þess að hafa til ráðstöfunar allt verðmæti sinnar eigin framleiðslu og að auki 5–10% af erlendu fé, aðeins hefur til umráða eigin framleiðslu, að frádregnum vöxtum og afborgunum af erlendum skuldum.“

Hér lýsir Torfi því ástandi, sem Alþfl.-stjórnin tók við eftir uppgjöf vinstri stjórnarinnar, og vitað var, að það þurfti stærra átak en nokkru sinni fyrr til þess að tryggja rekstur vertíðarflotans í ársbyrjun 1959. Stjórn Emils Jónssonar setti sér það mark að koma á samningum við sjómenn og útvegsmenn um rekstur bátaflotans, að stöðva þá óðaverðbólgu, sem á var skollin, og helzt reyna að lækka hana, að afgreiða hallalaus fjárl., að afgreiða kjördæmamálið, að leggja málin síðan undir dóm þjóðarinnar, svo að við gæti tekið meirihlutastjórn, sem ráðizt gæti gegn rótum efnahagsvandamálsins í umboði þjóðarinnar. Þessi verkefni leysti stjórn Emils öll og raunar fleiri til fulls og fékk fyrir þakkir þjóðarinnar með öruggum kosningasigri. Samstarf Alþfl. og Sjálfstfl. eftir kosningarnar byggðist m.a. á eftirfarandi stefnuatriðum:

Að ráðast gegn meinsemdum efnahagslífsins og dreifa byrðunum af þeirri framkvæmd réttlátlega á þjóðina alla.

Að hækka verulega bætur almannatrygginga, einkum fjölskyldubætur, elli- og örorkulífeyri, til þess að hlífa þeim, sem hlífa skyldi, og reyna að auka hag þeirra, sem ekki var orðin vanþörf á.

Að endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á algengar launatekjur.

Að taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verða mættu leiðarvísir stjórnarvalda um markvissa stefnu í efnahagsmálum, og tryggja þannig grundvöll að heilbrigðri uppbyggingu atvinnuveganna, svo að þjóðin fengi í náinni framtíð að njóta fórna sinna í vinnu og fjárfestingu með góðri og batnandi lífsafkomu, en á því hefur orðið alvarlegur misbrestur og öfugþróun undanfarinn áratug.

Nú er hafinn undirbúningur að gerð þessara þjóðhagsáætlana, og hefur þá stefnuskráratriðunum öllum að nokkru eða öllu verið hrundið í framkvæmd.

Gagnrýni stjórnarandstöðuflokkanna gegn þessum nauðsynlegu aðgerðum ríkisstj. verður ekki betur saman dregin en gert var í prentuðu þingskjali eins af forustumönnum stjórnarandstöðunnar, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Stjórnarsamstarfið hófst með gengisfellingu, okurvöxtum, lánabanni og öðrum ófarnaði, sem leitt hefur yfir þjóðina meira hörmungarástand en hún hefur í mörg ár þurft að horfa framan í.“ Þetta hefur verið tónninn í afstöðu hinnar samvöxnu stjórnarandstöðu. Það er því ekki að ófyrirsynju, að stjórnarliðar hafa við ýmis tækifæri innt þessa háu herra eftir því, hvað þeir hefðu sjálfir viljað gera, hvernig þeir hefðu sjálfir viljað leysa vandann, og hefur þá orðið fátt um andsvör og helzt verið hörfað í það skjól, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafi verið með öllu óþarfar, allt hafi verið í bezta lagi í árslok 1958, þegar vinstri stjórnin, þeir hv. þm. Hermann, Eysteinn, Lúðvík og Hannibal yfirgáfu ráðherrastólana af fúsum vilja og í bezta bróðerni.

Þessi afstaða þarf athugunar við, og skal ég þó ekki sjálfur dæma um, hvort afsakanir stjórnarandstöðunnar um hið góða ástand í árslok 1958 og úrræðaleysi þeirra þá og síðar sé á rökum reist eða gífuryrði þeirra um sjúklega mannvonzku núv. ríkisstj. Vil ég aðeins láta nægja að vitna í nokkrar samtímaheimildir, þ.e.a.s. frá árinu 1958, sem þeir ættu sjálfir að kannast við og reka ofan í sjálfa sig, ef þeir kæra sig um.

Eins og menn rekur minni til, framkvæmdi vinstri stjórnin uppbótakerfisaðgerðir í maí 1958, sem jafngiltu 23–35% gengisfellingu í innflutningsverzluninni og 35–45% gengisfellingu í útflutningsverzluninni. Þegar fyrirsjáanlegt var, að árangur þessara aðgerða var að renna út í sandinn, aðeins sex mánuðum síðar, skrifaði forseti Alþýðusambandsins, þáv. ábyrgur hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarsson, grein í Vinnuna, málgagn Alþýðusambandsins, þar sem hann skoraði á bændur landsins að gefa eftir hækkun á landbúnaðarvörum og skoraði á umbjóðendur sína, verkamenn og aðra launþega, að gefa eftir nokkur vísitölustig og hafði það þó verið gert tvisvar áður í stuttri stjórnartíð hans. Skömmu síðar fór hæstv. forsrh., Hermann Jónasson, hina frægu för sína til Alþýðusambandsþings sömu erinda. Mér dettur ekki í hug að ætla, að þessir menn hafi gert þetta að ástæðulausu eða af illum hug til þessara stétta. En athyglisvert er að bera þetta saman við framferði þeirra nú. Í grein sinni lýsti Hannibal réttilega háskalegum afleiðingum þeirrar óðaverðbólgu, sem var að skella á, og segir síðan orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er flestum orðið ljóst, að þetta er leiðin til glötunar. Þessa leið má ekki renna á enda. Hún liggur fram af hengiflugi.“

Þegar hv. þm. skrifaði þessar setningar, var honum ekki ljóst, að Moskvukommarnir, sem stjórna Alþýðubandalaginu, voru tiltölulega ánægðir með öngþveitið, sem var að myndast, þ.e. sama fjármálalega og atvinnulega öngþveitið og þeir stefna að í öllum vestrænum ríkjum. Kommarnir voru staðráðnir í því að láta ekkert samkomulag nást innan vinstri stjórnarinnar. Þeir vissu, að erfitt hlutverk biði þeirrar stjórnar, sem við tæki. Þeir héldu, að þau verk, sem hún yrði að vinna, hlytu að verða óvinsæl, á væntanlega ríkisstj. yrði auðvelt að deila, hver sem hún yrði og hvað sem hún gerði, og dylja þar með sinn eigin vanmátt og vanefndir. Nokkrum dögum síðar, eða nánar tiltekið 5. des., sagði hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, af sér f.h. ráðuneytisins og viðhafði að lokum þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

,.Ný verðbólgualda er þar með skollin yfir. Við þetta er svo því að bæta, að í ríkisstj. er ekki samstaða um nein úrræði í þessum málum, sem að mínu áliti geti stöðvað hina háskalegu verðbólguþróun, sem verður óviðráðanleg, ef ekki næst samkomulag um raunhæfar ráðstafanir.“

Þetta voru orð forsætisráðherrans. Ég skal aðeins skjóta inn í, að stjórn Emils Jónssonar sá um það nokkrum dögum síðar, að þessi verðbólguþróun yrði ekki óviðráðanleg.

Eftir þessar yfirlýsingar ráðherranna, Hermanns og Hannibals, sem einir telja sig vera hina réttu umbjóðendur bænda og launþega, verður mér að spyrja: Var það forsvaranlegt gagnvart umbjóðendum þeirra að skilja þá eftir á leiðinni til glötunar, á brún hengiflugsins? Voru þessir herrar og flokkar þeirra efniviðurinn í þá stjórnarandstöðu, sem síðan hefur barið sér á brjóst og þyrlað upp moldviðri blekkinga og beitt hefur niðurrifsöflum sínum, fyrst gegn úrræðum Alþýðuflokksstjórnarinnar og síðan gegn núv. ríkisstj.? Menn höfðu búizt við þessu af kommúnistum. En það liggur við, að mönnum renni til rifja að sjá fullorðna, reynda, gegna og greinda framsóknarmenn stíga þennan villta dans. Það var orðin nokkuð útbreidd skoðun, að ekki væri hægt að hafa kommúnista utan ríkisstjórnar vegna niðurrifsstarfsemi þeirra í stjórnarandstöðu. Eru framsóknarmenn að reyna að skapa sér sama kostinn? Illa þekki ég íslenzka bændur, ef þeim geðjast að óábyrgu og óraunhæfu yfirboðskapphlaupi Framsóknarforustunnar við kommúnista, og er raunar vitað, að ýmsum góðum flokksmönnum þeirra er þegar nóg boðið.

Það alvarlegasta við þetta er þó það, að samstaða þessara flokka nær aðeins til stjórnarandstöðu, innan ábyrgrar ríkisstjórnar er samstaða þeirra engin. Eins og ég gat um í upphafi, hafa stjórnarandstöðuflokkarnir farið leynt með sín úrræði í vandamálunum, þó að hart hafi verið eftir því gengið, að þeir gerðu grein fyrir þeim. En þó að þeir fari nú leynt með úrræði sín s.l. tvö ár, eru þó kunn og skjalföst þau úrræði, sem þeir lögðu til í vinstri stjórninni vorið 1958 og ekki náðist samstaða um. Hér er því miður ekki tími til þess að gera grein fyrir álitum þeirra og tillögum, en ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa nokkur atriði.

Álit framsóknarmanna byrjar svona: „Núverandi uppbótakerfi hefur eftirfarandi höfuðgalla, einkum vegna þess, hve uppbætur eru orðnar háar.“ Svo kemur löng og ljót lýsing, sem ekki er tími til að rekja hér, en síðar kemur: „Fyrir því leggjum við til eftirfarandi: Í stað uppbótakerfis þess, er nú gildir, verði lögleitt almennt yfirfærslugjald á keyptan og seldan gjaldeyri, er komi í staðinn fyrir núverandi útflutningsbætur annars vegar og 16% yfirfærslugjald og innflutningsgjald hins vegar. Þetta gjald verði við það miðað, að bátaútvegurinn við þorskveiðar búi við eigi lakari kjör en nú.“ Ég snýr: Hvað er þetta annað en gengisfelling, gengisfelling, einmitt miðuð við afkomu bátaflotans, eins og núv. stjórn gerði? Síðan segir í álitsgerðinni: „Leitað verði samkomulags við launþegasamtökin og bændasamtökin um að falla að einhverju leyti frá að taka kaupgjalds- og afurðahækkun samkvæmt framfærsluvísitölu, til þess að komizt verði hjá óheppilegri víxlverkun til hækkunar á afurðaverði og kaupgjaldi, sem þó kemur hvorugum þessara aðila að gagni.“ Ég spyr: Var það ekki einmitt þessi víxlverkun, sem stjórn Emils Jónssonar stöðvaði?

Og í till. Alþb. segir m.a.: Fyrsta tillaga Alþb.: „Lánveitingar fjárfestingarsjóða, eins og ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs, séu stranglega miðaðar við tekjur og eignir sjóðanna og beinar erlendar lántökur.“ Á máli stjórnarandstöðunnar væri þetta nú kallað lántökubann og samdráttartillaga. Önnur tillaga Alþb.: „Endurkaupalán Seðlabankans hækki alls ekki miðað við 1. jan. 1958 nema í samræmi við auknar útflutningsafurðir af seljanlegri vöru.“ Nú væri þetta á máli þeirra kallað lántökubann. Þriðja till. Alþb.: „Viðskiptabankarnir auki ekki skuldir sínar við Seðlabankann árið 1958.“ Nú væri þetta kallað lántökubann og samdráttur. Fjórða tillagan er um 100 millj. kr. lántöku í Sovétríkjunum. Fimmta tillaga, a-liður: „Gjaldeyrissala verði svipuð og 1957, og sé því ekki miðað við, að gjaldeyrisstaðan geti batnað á árinu, nema gjaldeyristekjur fari vaxandi.“ B-liður: „Gjaldeyrissala til hátollavöru sé 10% meiri en 1957. Gjaldeyrissala til fjárfestingar sé 20% minni en 1957.“ C-liður: „Dregið sé úr gjaldeyrissölu til véla- og tækjakaupa og takmörk sett á gjaldeyrissölu til nokkurra vöruflokka.“ Nú mundi þetta kallað á máli stjórnarandstöðunnar haftastefna, aukning á lúxusinnflutningi, skortur eða skömmtun á nauðsynjavörum, fjárfestingar- og rekstrarvörum, samdráttur og atvinnuleysi. Sjötta till. Alþb.: „Dregið verði úr fjárfestingu á árinu, m.a. með því að veita 20–30% minni fjárfestingarleyfi en gert var 1957.“ Nú mundi þetta kallast byggingabann, samdráttur, atvinnuleysi. Sjöunda till.: „Útgjöld ríkissjóðs vegna framkvæmda verði lækkuð um ca. 20 millj. kr. og þannig dregið úr fjárfestingu af hálfu ríkisins.“ Nú mundi þetta kallast minnkun opinberra framkvæmda, samdráttur, atvinnuleysi.

Í þessu, sem ég hef nú rakið, hefur stjórnarandstaðan sjálf lýst efnahagsástandinu 1958. Stjórnarandstaðan hefur sjálf lýst úrræðum sínum og í rauninni sjálf svarað til fulls öllu sínu stjórnarandstöðu-málþófi. Hún hefði getað sparað sér og þjóðinni tveggja, þriggja og fjögurra tíma maraþonlýðskrumsræður og gífuryrða, sem þegar eru orðnar frægar að endemum og ekkert skilja eftir annað en alþingiskostnaðinn.

En þó að stjórnarandstaðan hafi í raun og veru svarað sér sjálf, get ég ekki stillt mig um að geta annarra heimilda frá miðju ári 1960. Samstarfsnefnd launþegasamtakanna fékk hingað til landsins einn af hagfræðingum alþýðusambandsins norska, Per Dragland, til þess að kynna sér efnahagsráðstafanir ríkisstj. frá sjónarmiði launþega og gefa álit sitt um þær. Það er rétt að taka það fram, að norskir launþegar hafa bætt lífskjör sín um ca. 40% s.l. áratug, á sama tíma sem lífskjör íslenzkra launþega hafa versnað. Úr langri skýrslu Draglands langar mig til að geta nokkurra atriða, með leyfi hæstv. forseta.

Um uppbótakerfið segir hann m. a.: „Yfirfærslu- og aðflutningsgjöldin urðu til jafnaðar of lág. Til þess að mæta uppbótunum og til þess að uppbótakerfið væri starfhæft, varð innflutningurinn að vera meiri en útflutningurinn, þ.e.a.s. sjálft kerfið byggðist á halla í utanríkisviðskiptunum. Lúxusvörur báru hærri gjöld en nauðsynlegar vörur. Það er í sjálfu sér eðlilegt. En eftir því sem uppbótakerfið komst meira úr jafnvægi, hafði þetta í för með sér, að leyfður var óhóflega mikill innflutningur á lúxusvöru til að afla meiri tekna, eða m.ö.o.,“ segir Dragland, „þegar landið vantaði tilfinnanlega gjaldeyri, varð að flytja inn mikið af lúxusvöru til að halda uppbótakerfinu starfhæfu. Hin mörgu og óþarflega dýru dollaragrín í Reykjavík munu vera afleiðing af þessu.“ Og hann heldur áfram: „Ég á erfitt með að sjá, að þetta geti verið hagstætt fyrir launþega. Útflytjendur lögðu áherzlu á vörur með háum uppbótum, og oft voru gjaldfrjálsar eða gjaldlágar innfluttar vörur notaðar í framleiðslunni í stað annarra, sem hefði mátt framleiða innanlands með góðum árangri. Þetta varð hemill á eðlilega þróun í landinu, en hagur fyrir erlenda framleiðendur. Ekki gat þetta heldur verið til hagsbóta fyrir launþega.“

Á öðrum stað segir Dragland: „Þegar atvinnurekandi eða fyrirtæki getur gengið að því sem gefnu, að verðlag muni halda áfram að hækka, miðar hann ekki fjárfestingu sína við hreina og beina útreikninga á þjóðhagslegri hagnaðarprósentu, en öllu heldur við það, hvað hægt er að fá af lánsfé. Þess háttar braskkennd fjárfesting gefur sjaldan nokkurn arð þjóðfélagslega séð, sem geti staðið undir betri lífskjörum launþega. Hún er miklu frekar sóun á verðmætum þjóðfélagsins.“ Hann telur, að framleiðsluaukningin hafi ekki verið nógu mikil, miðað við fólksfjölgun og gífurlega fjárfestingu, og segir: „Það getur að sjálfsögðu verið skýring á því, að launþegar hafa ekki borið úr býtum hærri laun og meiri kaupmátt en raun ber vitni um. Þeim mun æskilegra“, segir hann, „er það frá þeirra sjónarmiði, að hreinsað sé til í því efnahagskerfi, sem veldur öfugþróun í atvinnuvegunum og kemur í veg fyrir eðlilegan vöxt framleiðslu og lífskjara.“

Um efnahagsaðgerðirnar segir Dragland: „Það hlaut að vera eðlilegt að ákveða nýtt gengi þannig, að mikilvægasti útflutningsatvinnuvegurinn, þorskveiðarnar, fengi hæfilegt tækifæri til þess að komast af án styrkja.“ Honum þykja vextirnir háir, en segir síðan: „Að mínu áliti hafa hinar nýju reglur um útlán bankanna meiri áhrif á fjárfestinguna. Það undrar mig, að ekki skuli fyrr hafa tekizt að koma á slíku beinu aðhaldi í landi, þar sem allir bankar eru ríkiseign. Reynsla annarra landa sýnir, að útlánareglur bankanna eru eitt öruggasta tækið, sem stjórnarvöld geta beitt til að hafa tangarhald á fjárfestingunni. Skýringin á því, að þessu tæki hefur ekki verið beitt á Íslandi, getur verið sú, að verðbólgan hafi hrætt menn frá því að leggja fé sitt í banka og þannig hafi vaxandi fjárstraumur farið fram hjá bönkunum. Ef þetta er rétt, getur vaxtahækkunin haft meiri áhrif en ella, ekki sízt á þann hátt, að hækkaðir innlánsvextir fái bönkunum í hendur sterkari tök á lánamarkaðinum.“

Dragland telur, að viðskiptajöfnuðinn verði að bæta um 300–400 millj. kr. á ári, og telur það mikið og segir síðan: “ Það er skoðun mín, að samtök launþega geri meðlimum sínum bjarnargreiða, ef þau taka ekki tillit til þess, hvað slíkt viðreisnarvandamál felur í sér. Ef ekki tekst að leysa það nú, mun það koma aftur eins og kastvopn Ástralíunegra og með auknum styrkleika. Ef lausnin brýzt fram gegnum hrun og kreppu, verða afleiðingarnar miklu geigvænlegri fyrir launþega heldur en ef viðreisnin fer fram eftir fyrirframgerðri áætlun. Það er heldur ekki í samræmi við raunveruleikann að ætla, að vandann sé hægt að leysa án þess að skerða lífskjör launþega. Það, sem ber að athuga og krefjast er, að byrðunum sé skipt af réttlæti á allar stéttir og að líkur séu á, að lausnin veiti meira öryggi framvegis. Reynslan af hinum mörgu og dreifðu ráðstöfunum eftir stríðið hefur verið slæm, og ekki er hægt að lá launþegum eða samtökum þeirra, þótt þeir séu farnir að mæta nýjum ráðstöfunum með nokkurri tortryggni. Engu að síður er það lífsnauðsyn fyrir þá, að takast megi að koma fastari fótum undir efnahag landsins og losna við það ástand, sem hefur auðsjáanlega í mörg ár komið í veg fyrir, að fórnir þjóðarinnar í vinnu og fjármagni hafi borið viðunandi ávöxt í aukinni framleiðslu og bættum lífskjörum.“ Og síðar segir Dragland: „Ég fæ ekki séð, að um nokkra aðra betri leið hafi verið að velja. Vandamálin sem krefjast úrlausnar, eru hvorki sök aðgerðanna sjálfra né þeirra manna, sem standa að þeim. Vandamálin hafa verið til staðar í mörg ár. Allar tilraunir til þess að stöðva verðbólguna hafa farið út um þúfur, og ástandið hefur versnað ár frá ári. Allt fram að þessu hafa erfiðleikarnir verið faldir með erlendum lántökum. Á þennan hátt hefur landið nálgazt það fet fyrir fet, að allir lánamöguleikar væru tæmdir og þá hlaut breytingin að koma, hvort sem þjóðin vildi eða ekki. Einnig án þessara aðgerða mundu lífskjör almennings brátt hafa versnað. Ég lít á ráðstafanirnar“. segir Dragland, „sem tilraun til að láta breytinguna fylgja fyrirframgerðri áætlun takmarka tjónið og deila byrðunum af nokkurri sanngirni.“

Hér lýkur tilvitnunum í álit Draglands. Ég fæ ekki betur séð en að álit þessa hagfræðings norska alþýðusambandsins styrki álit og tillögur stjórnarandstöðunnar, svo langt sem þær náðu, meðan þeir voru í ábyrgri ríkisstjórn. Það vantaði aðeins samstöðu, einurð og kjark til þess að framkvæma það, sem gera varð. En undan þeim vanda hefur núv. ríkisstj. ekki vikið sér.

Það er nauðsyn, að þjóðin taki í taumana við þá landlægu þjóðarógæfu, sem er blygðunarlaus stjórnarandstaða. — Góða nótt.