21.02.1961
Neðri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (1832)

49. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. meiri hl. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Sú löggjöf, sem reynzt hefur einhver hin farsælasta, sem sett hefur verið um landbúnaðarmál hin síðari ár á Íslandi, er löggjöfin um jarðræktarsamþykktirnar, nr. 7 frá 12. jan. 1945. Á grundvelli þeirra laga voru ræktunarsamböndin mynduð, stórvirkra jarðræktarflækja aflað til þeirra með stuðningi ríkisins og þannig myndaður traustur grundvöllur, sem hin mikla ræktun síðustu 10–15 ára hefur að mestu leyti byggzt á. En í gegnum þá verðbólguþróun, sem öllum er kunn frá því á styrjaldarárunum, hefur verulega raskazt sá grunnur, er í upphafi var lagður, þannig að í gegnum fyrningarákvæði, sem hvílt hafa á jarðræktarvélum sambandanna og tryggja áttu endurnýjun tækjanna, ef þau yrðu ónothæf, hefur þetta ekki reynzt kleift. Þess vegna stóðum við frammi fyrir þeirri staðreynd nú, að ræktunarsamböndin yfirleitt skortir bolmagn til að kaupa nýjar beltadráttarvélar, nema nokkur aðstoð komi til enn. Á því er byggð sú fjárveiting, 1 millj. kr., sem veitt er á fjárlögum yfirstandandi árs í þessu skyni.

Á síðasta Alþingi fluttu nokkrir hv. framsóknarmenn frv. um breyt. á l. um jarðræktarsamþykktir, sem mun hafa verið alveg eða nær alveg shlj. því frv., sem hér er nú til 2. umr. Því frv. var þá vísað til ríkisstj. Hæstv. landbrh. skipaði þá þriggja manna nefnd til að endurskoða þessi lög, sem hér um ræðir, rannsaka hag og starfsemi ræktunarsambandanna og gera tillögur um, á hvern hátt verði tryggður starfsgrundvöllur þeirra framvegis. N. lauk störfum s.l. haust og skilaði áliti sínu til ríkisstj. í lok október. Hv. flutningsmönnum þessa frv., sem hér er nú til 2. umr., var vel kunnugt um, að n. var að störfum og mundi skila áliti. Þrátt fyrir þetta fluttu þeir enn sitt fyrra frv. þegar í þingbyrjun. Verð ég að játa, að ég furðaði mig nokkuð á þeim vinnubrögðum.

Svo sem fram kemur í nál., sem hér liggur fyrir, hefur landbn. þessarar hv. d. eða réttara sagt stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. í n. beðið þess um hríð, hvort frv. mundi koma fram frá hæstv. ríkisstj. um þetta mál, en þess er ekki að vænta á næstunni.

Ég hef orðið var þeirrar skoðunar hjá sumum, að engin fyrirmæli væru raunverulega nú í gildi um úthlutun þess fjár, er á fjárlögum er veitt í þessu skyni, og því beri nauðsyn til að lögfesta slík fyrirmæli. Út af þessu sneri ég mér til lögfræðings í atvmrn. og spurði um þetta atriði. Hann kvað engan vafa á því, að lögin um ræktunarsamþykktir væru í gildi um þetta atriði sem önnur og það væri landbrh. að sjá um skiptinguna, svo sem verið hefur, með aðstoð eða eftir tillögum vélanefndar.

Eins og nál. ber með sér, tekur meiri hl. n. ekki afstöðu efnislega til þess frv., sem hér liggur fyrir til 2. umr., en ég vil þó taka fram, að ég er ekki samþykkur þeim skiptingarreglum á stuðningi til ræktunarsambandanna, sem þar er lagt til að lögfestar verði. Hin eldri sambönd, sem lengur hafa starfað, fengu vélar með lægra verði. Bændur í þeim samböndum hafa því bæði notið ódýrari vinnu, fengið hagkvæmari ræktun og notið hennar lengur en bændur í þeim samböndum, sem síðar keyptu vélar. Það ber eigi síður að líta á það, hver aðstaða einstaklinganna er, sem samböndin mynda, og hún er tvímælalaust betri, því lengur sem þeir hafa notið þjónustu sambandanna og því ódýrari vélar sem samböndin hafa haft til rekstrar síns. Mismunun í framlagi ríkisins til sambandanna nú til vélakaupanna er því að mínu viti ekki sanngjörn, auk þess sem slíkt er ætíð nokkuð vandasamt í framkvæmd. Því á að mínu viti ein regla að gilda sem fyrr.

Svo sem fram kemur í okkar nál., lítum við svo á, að æskilegar séu ýmsar breytingar á núgildandi lögum. Við viljum vænta þess, að málið verði áfram í athugun hjá ríkisstj. með það megintakmark að leiðarstjörnu, að ræktunarsamböndin verði hér eftir sem hingað til framkvæmdaraðili ræktunar í landinu, síaukinnar ræktunar, og hafi til þess fjárhagslegt bolmagn.

Við leggjum því til, herra forseti, að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.