15.11.1960
Neðri deild: 22. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1843)

100. mál, fæðingarorlof

Flm. (Margrét Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sú hefur orðið reyndin um heim allan, að með breyttum þjóðfélagsháttum, vélvæðingu og sérhæfingu hætta heimilin að vera þær vinnustöðvar, sem þau voru áður. Afleiðingin er óhjákvæmilega sú, að fjöldi kvenna leitar sér starfssviðs utan vébanda þeirra, auðvitað fyrst og fremst ógiftar konur og barnlausar, en í æ ríkara mæli einnig þær, sem eiga fyrir heimili að sjá.

Hvort sem mönnum geðjast þessi þróun eða ekki, mun öllum aðilum hollast að viðurkenna, að þannig er þessu varið. Það mun affarasælast að átta sig á nýjum og breyttum viðhorfum og snúa sér að athugun á því, hvernig bezt er hægt að samræma þátt konunnar í athafnalífinu hennar mikilvægasta verkefni, móðurhlutverkinu. Þau spor, sem stigin eru í þá átt að gera konunni auðveldara, árekstraminna og öruggara að annast störf sín, jafnframt því sem hún rækir skyldurnar við börn sín, eru heillavænleg spor, líkleg til að skapa þjóðfélaginu farsæld og kjölfestu.

Það frv. um fæðingarorlof, sem hér liggur fyrir, er hugsað sem liður í þeirri mæðravernd, sem öll nútíma menningarþjóðfélög láta sér annt um að efla.

Til marks um þá þýðingu, sem þeir aðilar, sem forustu hafa um þjóðfélagslegar umbætur í heiminum, telja, að þessi þáttur mæðraverndar hafi, er það, að til er alþjóðasamþykkt um þetta efni frá árinu 1919. Á alþjóðavinnumálaþinginu í Genf 1952 er hún endurskoðuð og liggur fyrir sem samþykkt nr. 103 til fullgildingar öllum þjóðum, sem eru aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni, en meðal þeirra er Ísland.

Það frv., sem hér liggur fyrir, byggist í höfuðdráttum á efni þeirrar samþykktar. Það mundi, ef að lögum yrði, skapa grundvöll þess, að Ísland fullgilti hana, ekki aðeins í orði, heldur framkvæmdi í reynd þessa alþjóðasamþykkt, sem menningarþjóðum er ætlað að tileinka sér.

Full ástæða er til að ætla, að þetta mál njóti skilnings hér á landi, og það hefur reyndar sýnt síg í verki. Eins og kunnugt er, hafa konur í þjónustu ríkis og bæja þriggja mánaða orlof með fullum launum vegna barnsburðar. Virðist það einfalt réttlætis- og sanngirnismál, að konur, sem vinna hin erfiðustu störf í framleiðslunni, iðnverkakonur, verzlunar- og fjöldi skrifstofustúlkna, fái einnig að njóta þeirra réttinda, sem konur í þjónustu ríkisins hafa notið um sex ára skeið.

Verkakvennafélög hafa vitanlega haft mikinn hug á að tryggja félögum sínum fæðingarorlof, en lítið orðið ágengt í samningum við atvinnurekendur. Aðeins tvö félög hafa náð samningum um þetta atriði. Alþýðusambandið hefur og tekið þetta mál föstum tökum og skipaði milliþinganefnd í málið á Alþýðusambandsþinginu 1958. Er nefndarálit þeirrar nefndar birt sem fskj. með þessu frv.

Kvennasamtökin í landinu hafa og gert samþykktir um þetta mál. t.d. segir svo í tryggingamálasamþykktum landsfundar kvenna, sem haldinn var í sumar er leið, með leyfi hæstv. forseta: „Þá telur fundurinn eðlilegt, að konur í öllum atvinnustéttum hafi rétt til fæðingarorlofs, eins og gildir um starfsmenn ríkis og bæja.“

Allt þetta sýnir, að málinu er haldið vel vakandi hér á landi og mikill áhugi ríkir fyrir framgangi þess, þó alveg sérstaklega hjá þeim konum, sem gætu orðið orlofsins aðnjótandi, enda eru fæðingarorlof mjög vinsæl meðal þeirra, sem njóta þeirra nú þegar.

Þegar um þetta mál er fjallað, er skylt að geta þess, að fæðingarorlof eru í rauninni ekki óþekkt í okkar tryggingalöggjöf. Í lögum um almannatryggingar frá 1946 voru ákvæði um greiðslur í 3 mánuði vegna barnsburðar. Það, sem á milli ber þessara ákvæða í tryggingalögunum frá 1946 og frv., sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli þetta:

Í tryggingalögunum var greiðsla þessi einungis ætluð ógiftum mæðrum. Mun hafa verið litið svo á, að þar sem þær hefðu ekki eiginmann að bakhjarli, bæri þjóðfélaginu að veita þeim þennan styrk. Í frv. er hins vegar enginn munur gerður á giftum konum og ógiftum, þar sem telja verður, að flestallar konur, sem leggja fyrir sig störf utan heimilis, hafi þörf fyrir launin, sem fyrir þau eru greidd, og jafnframt, að þjóðfélaginu sé þörf og þökk að hverri vinnandi hönd, sem nytsöm störf vinnur. Þá er það annað, sem á milli ber, að samkvæmt tryggingalögunum var hér um að ræða fastákveðna greiðslu, jafna til allra, sem á annað borð áttu rétt á henni. Sú greiðsla jafngilti rúmlega mánaðarlaunum skrifstofustúlkna á árinu 1947. En í frv. er gert ráð fyrir, að greiðslan miðist við launatekjur viðkomandi konu og sé ¼ af árstekjum hennar, eða sem svarar þriggja mánaða launum til þeirra, sem vinna allt árið eða eru fastráðnir starfsmenn. Í tryggingalögunum frá 1946 voru þessar bætur greiddar beint úr hinum almenna sjóði trygginganna. En í frv. er gert ráð fyrir sjóðmyndun, sem atvinnurekendur annars vegar og ríkissjóður hins vegar greiði til. Sá sjóður skal að vísu vera í vörzlu Tryggingastofnunarinnar og undir stjórn tryggingaráðs, en skal standa allan straum af greiðslu orlofsfjárins.

Eins og hv. alþm. mun kunnugt, er þetta ákvæði um þriggja mánaða greiðslu vegna barnsburðar, sem var í tryggingalögunum frá 1946, ekki lengur við lýði. Við endurskoðun laganna 1951 var það úr gildi numið. Sömuleiðis var þá felld úr tryggingalögunum bótagreiðsla, sem mæður, sem unnu ekki utan heimilis síns, fengu „upp í þann kostnað, sem fæðingin hafði í för með sér,“ eins og það er orðað í tryggingalögunum. Eftir var þá aðeins hinn almenni fæðingarstyrkur, sem greiðist öllum mæðrum jafnt. Hann var hækkaður 1951 og er nú röskar 2 þús. kr. Hann hrekkur rétt aðeins til greiðslu vegna sængurlegu á fæðingarstofnun og gengur beint til þess, þannig að móðirin fær hann ekki í hendur til persónulegra afnota. Hins vegar er styrkurinn greiddur beint til móðurinnar, ef hún elur barn sitt í heimahúsum.

En þar mun einnig verða sú raunin á, að hann hrekkur rétt aðeins til beinna útgjalda vegna barnsburðarins.

Það liggur í augum uppi af því, sem hér hefur verið sagt, að þessi vísir að fæðingarorlofi, sem fólst í lögunum frá 1946, var ófullnægjandi og í honum gætti beinlínis rangláts misræmis gagnvart giftum mæðrum, sem missa tekjur vegna barnsburðar. Hvort fyrir hv. alþm. hefur vakað að afnema það misrétti eða um beina sparnaðarráðstöfun hefur verið að ræða á þinginu 1951, er mér ekki kunnugt. En það er ljóst, að við þá breytingu, sem þarna var gerð, var stigið spor aftur á bak í tryggingamálum okkar, ekki einungis vegna þess, að fáir eða engir munu hafa við erfiðari lífskjör að búa í þessu landi heldur en einstæðar mæður, — og það er því sannarlega ráðizt á garðinn, þar sem hann er lægstur, þegar dreginn er spónn úr aski þeirra, — heldur einnig vegna þess algilda sannleika, „að mönnunum munar annaðhvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið.“ Og þarna var sporið stigið aftur á bak, í staðinn fyrir að taka sporið fram á við og láta alla, sem eðli málsins samkvæmt gátu átt rétt til þess að njóta þessara bóta, fá tilkall til þeirra.

Hv. alþm. gefst nú tækifæri til að snúa frá þeirri öfugu braut, sem haldið var inn á í þessum efnum árið 1951, og samþykkja með frv. því, sem hér liggur fyrir, fæðingarorlof til handa öllum konum, sem launaða vinnu stunda. Ég efa ekki, að þeim muni ljúft að sýna, „að mönnunum munar nokkuð á leið“.

Nú kann einhver að segja sem svo, að ekki sé öllu réttlæti fullnægt í þessum efnum með þeirri úrlausn, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Sá hópurinn, sem stærstur sé, fái enga úrlausn samkv. því. En það eru mæðurnar, sem vinna allt sitt starf á heimilunum og teljast því ekki til launþega. Það er vissulega rétt, að um þennan hóp kvenna er ekki fjallað í þessu frv. Að því, að þær eru undanskildar, liggja þau rök, sem nú skal greina:

Í fyrsta lagi: Konur, sem vinna heimilisstörf eingöngu, sinna venjulega störfum sínum allt fram að fæðingu barnsins og hverfa að þeim aftur fljótlega eftir barnsburð, þó vitanlega að því tilskildu, að konan þjáist ekki af neinum óeðlilegum sjúkdómi. Séu börn viðkomandi konu fá eða engin, verður röskun á starfi hennar mjög óveruleg. Kona, sem starfar utan heimilis síns, verður hins vegar í lagflestum tilfellum að hverfa frá starfi nokkrum vikum fyrir barnsburð, og mjög er óheppilegt, að hún sé mestan hluta dagsins í burtu frá barni sínu fyrstu vikurnar af ævi þess.

Í öðru lagi er ákaflega erfitt að finna aðila, sem með eðlilegum hætti stæði undir þeim iðgjöldum, sem af svo almennu fæðingarorlofi leiddi. Kæmi þar varla til mála annar aðili en ríkissjóður. Að vísu mætti segja, að það lægi beint við, að öll hjón greiddu iðgjöld til orlofssjóðsins. En til þess að um verulega upphæð væri að ræða frá þeirra hendi þyrfti talsverð skattlagning að koma til. Er ástæða til að ætla, að Alþingi teldi slíkt ekki heppilegt, og styðst sú skoðun við afgreiðslu á hliðstæðu frv., sem að lögum varð á síðasta Alþingi, en það var frv. um orlof húsmæðra. Eins og kunnugt er, felldu hv. alþm. úr þau ákvæði frv., sem gerðu ráð fyrir sérstakri iðgjaldagreiðslu húsmæðranna.

Í þriðja lagi er það, sem er langveigamest í þessu sambandi, að hjálp, sem að gagni mætti koma húsmæðrum undir þessum kringumstæðum, þyrfti að veita í öðru formi en hér er ráð fyrir gert. Kæmi þar til greina heimilishjálp til að annast heimilin, á meðan húsmóðirin liggur á sæng. Er það vissulega hjálp, sem mjög mikil þörf er að veita barnmörgum heimilum, og full ástæða til að taka það mál til rækilegrar athugunar, þó að hér verði ekki nánar farið út í það.

Af þessum sökum öllum þótti eðlilegast að leggja fyrir frv. um fæðingarorlof einungis til handa þeim konum, sem eru launþegar.

Ekki er hægt að segja með vissu, hve há sú upphæð yrði, sem kæmi til greiðslu úr fæðingarorlofssjóði samkv. þessu frv. Skattstofan í Reykjavík hefur samkvæmt beiðni milliþinganefndar Alþýðusambandsins látið framkvæma lauslega athugun á því, hversu margar konur gætu átt rétt á fæðingarorlofi í Reykjavík, en sú athugun mun miðuð við skattframtöl ársins 1958, og eftir þeim upplýsingum, sem þar liggja fyrir, mundu ársútgjöld sjóðsins ekki fara fram úr 4 millj. kr. fyrir allt landið, en yrðu sennilega lægri.

Með tilliti til þess, að atvinnurekendum er það beinn hagnaður, að atvinnureksturinn eigi jafnan kost á nægum vinnukrafti, þótti rétt að ætla atvinnurekendum að standa undir iðgjöldum til fæðingarorlofssjóðsins til helminga á móti ríkissjóði. í frv. er miðað við, að greiðslur atvinnurekenda miðist við vinnuvikur, og er þetta sami háttur og hafður er á um iðgjöld til slysatrygginga, og er því fengin reynsla fyrir álagningu og innheimtu iðgjalda á þennan hátt.

Í okkar litla þjóðfélagi, þar sem verkefnin eru mörg, en hendurnar fáar til að anna þeim, er nauðsynlegt að gera sem flestum kleift að vinna við framleiðsluna og önnur þarfleg störf. Sá er annar höfuðtilgangur þessa frv. Hinn er sá að auka og treysta mæðravernd. En hún verður að teljast einn af hornsteinum félagslegs réttlætis í hverju þjóðfélagi. Með því að lögfesta fæðingarorlof til handa þeim konum, sem launþegar teljast, aukum við og styrkjum mæðravernd í landi okkar. Í þessum tilgangi er þetta frv. fram borið. Ég vildi mega vænta þess, að frv. fái vinsamlega og nákvæma athugun í nefnd.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að frv. sé að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.