14.02.1961
Neðri deild: 63. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

100. mál, fæðingarorlof

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þegar hv. 3. þm. Reykv. var um skeið fjarverandi frá þingstörfum í nóvember í haust, tók frú Margrét Sigurðardóttir sæti hans á meðan, og meðan hún sat hér á þingi, flutti hún það frv., sem hér er til umr., frv. um fæðingarorlof. Þetta frv. hefur verið til meðferðar hjá heilbr.- og félmn. og var sent einum fjórum aðilum til umsagnar, og bárust svör frá þremur þessara aðila. Formaður n., hv. 1. þm. Vestf., spurði þá, sem málið var sent til, ýmissa spurninga, og hafði hann samið þær spurningar til umsagnaraðilanna án samráðs við nefndina. Þegar ég heyrði þetta bréf, sem umsagnaraðilum var sent, duldist mér það ekki, að spurningarnar voru þannig samdar, að þær í raun og veru báru í sér andmæli gegn frv., enda kemur það í ljós í svari eins þessara aðila, nefnilega Vinnuveitendasambands Íslands, að þeir gera þar að umtalsefni margvíslega framkvæmdaörðugleika, eins og þeir orða það, eins og bent er á í fyrrgreindu bréfi nefndarinnar. M.ö.o.: spurningarnar voru þannig fram settar, að þeir, sem áttu að veita málinu umsögn, lögðu spurningarnar út sem bein andmæli gegn málinu, töldu það vera ábendingar á vandkvæðum á framkvæmd málsins. Ég hreyfði því í n., að ég teldi, að svona ætti ekki að leggja mál fyrir umsagnaraðila, það ætti að leggja á þeirra vald, hvort svör yrðu jákvæð eða neikvæð. En úr þessu fékkst ekki bætt. Svona var málið lagt fyrir umsagnaraðilana, og svar eins þeirra a.m.k. bar það alveg greinilega með sér, að hann taldi, að formaður n. væri í bréfi sínu að benda á vandkvæði í framkvæmd frv., ef að lögum yrði.

En þrátt fyrir það, þó að málið væri þannig lagt fyrir umsagnaraðilana, komu svör, sem voru, eins og ég áðan sagði, jákvæð frá nokkrum þeirra, en aðrir lögðust á móti. Málið var m.a. sent til Hjúkrunarfélags Íslands, og það svaraði ósköp stutt, en ákveðið á þann veg, að stjórn Hjúkrunarfélags Íslands styddi þetta frv. eindregið og mælti með samþykkt þess. Hins vegar miklaði Vinnuveitendasamband Íslands fyrir sér þau vandkvæði á framkvæmd laganna, sem Vinnuveitendasambandið taldi að formaður nefndarinnar hefði bent á í bréfi sínu, og lagði til, að frv. yrði ekki samþykkt. Hins vegar barst ekki aðeins ein, heldur tvær umsagnir frá Kvenréttindafélagi Íslands, því að rétt eftir að frv. hafði verið lagt fram á Alþ., kom bréf til Alþingis frá Kvenréttindafélaginu, þar sem Kvenréttindafélagið skýrði frá því, að á fundi, sem haldinn hefði verið í því félagi 15. nóv., hefði verið gerð samþykkt, þar sem lýst var ánægju yfir frv. til laga um fæðingarorlof, sem þá var nýkomið fram á Alþingi. En þegar Kvenréttindafélagið svo aftur fékk sérstök tilmæli um umsögn, ýtarlega umsögn, kom rækilegt og ýtarlegt svar frá Kvenréttindafélaginu, sem vitnaði til framanritaðrar afstöðu og svaraði í einstökum atriðum, að hve miklu leyti félagsskapurinn, Kvenréttindafélag Íslands, teldi frv. meðmælavert, og endaði það bréf á því, að Kvenréttindafélag Íslands mælti eindregið með því, að þetta frv. yrði lögfest á þessu þingi.

Fjórði aðilinn, sem málið hafði verið sent til umsagnar, var Tryggingastofnun ríkisins, en frá þeirri stofnun barst n. ekki nein umsögn. Hins vegar mun formaður n. hafa átt tal við forstjóra trygginganna, og skýrði hann n. frá viðræðu sinni við forstjórann. Hafði hann það eftir forstjóranum á nefndarfundi, að hann legðist mjög á móti þessu frv., teldi það lítt framkvæmanlegt í því formi, sem það væri, og teldi, að hætta væri á því, að reynt yrði að fara í kringum það, svíkja sér út fæðingarorlof, og þessi skoðun, sem höfð er eftir forstjóra trygginganna af formanni n., kemur líka beint fram í nál. meiri hl. Nú mun forstjóri trygginganna hins vegar ekki alveg vilja fallast á það, að þessi umsögn sé í öllum atriðum rétt eftir sér höfð, en hitt viðurkennir hann þó, að hann hafi frekar lagt á móti frv.

Út af þessu er ástæða til þess að segja það, að það er miklu æskilegra, að stofnanir, sem beðnar eru umsagnar um mál, láti þær umsagnir frá sér fara skriflegar ellegar láti það heldur vera að veita umsögn en hvísla einhverju í eyra eins og eins nm. upp á þau býti, að þau séu svo höfð eftir í þingskjölum á Alþingi og ræðuflutningi sem öruggur sannleikur, sem þm. svo byggi á, og er það miður farið, ef ekki er að öllu leyti rétt farið með.

Þetta liggur þá þannig fyrir, að frv. um fæðingarorlof hefur fengið meðmæli tveggja aðila og andmæli tveggja, — við skulum segja andmæli Tryggingastofnunar ríkisins og andmæli Vinnuveitendasambands Íslands, en meðmæli Hjúkrunarfélags Íslands og Kvenréttindafélags Íslands.

Andmælin, sem höfð eru uppi gegn þessu máli, eru eiginlega tvenns konar. Í fyrsta lagi er það, að málin gangi of skammt. Í annan stað er hins vegar það, að hér sé um nýja skattlagningu á atvinnuvegina að ræða og á þær byrðar sé ekki bætandi. Og stangast þetta nú heldur á. Ef mönnum yxu mjög í augum þær byrðar á atvinnulífið, sem með þessu frv. séu lagðar á atvinnuvegina, þá ættu menn ekki í sömu andránni að fjölyrða um það, að frv. gangi of skammt, þannig að óskað væri eftir, að þessar byrðar yrðu meiri. En það er sjálfsagt eð ræða þetta hvort tveggja.

Nú er það þannig, að fallizt hefur verið á af löggjafanum að greiða fæðingarorlof. Og hverjir eru það, sem þess fæðingarorlofs njóta? Það eru konur, sem börn ala og eru í þjónustu ríkisins. Það eru sem sé fastlaunaðar manneskjur. Þörf þeirra fyrir að fá greitt fæðingarorlof í þrjá mánuði vegna barnsburðar hefur verið viðurkennd af löggjafanum. Þetta lagaákvæði er orðið nokkurra ára gamalt og hefur verið framkvæmt, og í sambandi við framkvæmd þess hef ég ekki heyrt talað um neina misnotkun, neinar krókaleiðir, sem farnar hafi verið, til þess að fleiri nytu þess en vera bæri. En ef það er rétt að tryggja þeim konum, sem eru í þjónustu ríkisins, fæðingarorlof, þ.e. óskert laun í þrjá mánuði, meðan þær eru frá störfum vegna barnsburðar, hví er það þá ekki líka rétt gagnvart konum, sem eru í þjónustu hins almenna atvinnulífs? Hví ætti það þá að vera rangt? Hví ættu þeir menn, sem hafa staðið að því að lögfesta fæðingarorlof fyrir konur í þjónustu ríkisins, ekki að fallast á, að konum, sem vinna skrifstofustörf hjá ýmsum verzlunarfyrirtækjum og ýmsum kaupmönnum og heildsölum, og konum, sem vinna eyrarvinnustörf í þjónustu sjávarútvegsins og annarra atvinnuvega, — hví ætti ekki að vera sama þörfin og sami rétturinn til þess að tryggja þeim þriggja mánaða laun, þegar þær verða fyrir tekjumissi af völdum barnsburðar? Ef það fyrra er réttmæt þjóðfélagsráðstöfun og stefnir í menningarátt, þá mundi það að gera þessa menningarlegu þjóðfélagsráðstöfun víðtækari ekki síður eiga rétt á sér, heldur öllu fremur. Og það er einmitt það, sem lagt er til í þessu frv. Ég fæ því ekki séð, að nokkur minnstu rök geti hnigið að því að mæla gegn þessari aukningu á greiðslu fæðingarorlofs.

Þetta frv. stefnir að því að láta lagaákvæðin, sem nú eru í gildi, ekki einungis ná til kvenna, sem börn fæða og eru í þjónustu ríkisins, heldur einnig til kvenna, sem taka laun sín hjá einstökum atvinnurekendum, vinna í þjónustu atvinnulífsins almennt, en slíkar konur mundu í langflestum tilfellum missa niður allar tekjur sínar þann tíma, sem þær eru frá störfum vegna barnsburðar.

Þá kemur að því, að þeir, sem tala um ranglæti í sambandi við þetta frv., geta a.m.k. ekki litið fram hjá því, að við erum þó heldur nær réttlætinu með því að láta réttinn um fæðingarorlof ná til miklu fleiri kvenna en sá réttur nær nú. Það er meira misrétti að láta þennan rétt eingöngu ná til þeirra kvenna, sem eru í þjónustu ríkisins. Við þokumst að réttu marki um það, að þessi réttur nái til allra, með því að samþykkja þetta frv. Og maður hélt, að það væri áfangi í áttina, enda tók hv. flm. það fram, að hún teldi þetta frv. vera áfanga í rétta átt, í viðbót við þá réttarbót, sem þær konur hefðu öðlazt áður í löggjöf landsins, sem væru í þjónustu ríkisins. Hins vegar tók hún einnig fram, að ef þingvilji væri fyrir því að gera meira í þessu efni, að lögfesta fæðingarorlof handa öllum konum, sem börn ala, þá væri hún meira en reiðubúin til þess. Og það var einnig tekið fram í n. af mér, að ég væri fús til þess að standa að slíkri tillögu, ef vilji væri fyrir því. En þá reyndist hann ekki vera svo ýkjamikill. Það var miklu fremur farið að tala um, að hérna væri verið að leggja byrðar á atvinnulífið og þetta væri að því leyti viðsjárvert mál. Menn væru ekki svo aldeilis reiðubúnir til þess.

Það er alveg rétt, að einhvers staðar verður það að koma niður, ef þjóðfélagið sæi sæmd sína í því að tryggja öllum þeim konum, sem laun taka og börn ala, óskertar tekjur í þrjá mánuði, þ.e.a.s. greiða konum í fastlaunuðum stöðum fæðingarorlof í 90 daga og öðrum konum, sem meira eða minna stopular atvinnutekjur hafa, fjórðung árstekna sinna, eins og þær hefðu verið taldar fram árið áður, sem fæðingarorlof. Það verður einhvers staðar að taka. Og hvernig á að taka þetta? Þetta á að taka að hálfu með iðgjaldi miðuðu við vinnuvikur hjá atvinnurekendum og að hinum helmingnum frá ríkinu. Enginn neitar því, að þetta er lítils háttar byrði. En þær athuganir, sem skattstofa Reykjavíkur hefur þó gert í sambandi við, hversu mikil þessi útgjöld væru, benda ekki til þess, að þarna sé um svo svimháar tölur að ræða, að eiginlega sé umtalsvert. Það þótti miklu réttara að fara þessa leið en ætla hverjum þeim atvinnurekanda, sem konu hefði í sinni þjónustu, að taka á sinn atvinnurekstur greiðslu fæðingarorlofs í hverju tilfelli. Með þessu móti verður myndaður sjóður af atvinnurekendum og ríkinu í vörzlu trygginganna, og af þeim tekjum, sem hann fær, yrðu svo fæðingarorlofsupphæðirnar greiddar, þannig að það skipti ekki hinn einstaka atvinnurekanda máli, hvort hann réði til sín karla eða konur, og ég hygg, að það mundi vera miklu heppilegra í framkvæmd.

Það hefur verið haft uppi sem mótbára gegn þessu frv. um fæðingarorlof, að það séu til tvenn lög um orlof, annað hin almenna orlofslöggjöf og hin lögin um orlof húsmæðra, og talað um svona einnig í undanbragðaskyni til þess að komast hjá að samþykkja þetta frv., hvort ekki væri heppilegra að fara aðra hvora hina leiðina: að setja þessi ákvæði inn í almennu orlofslögin ellegar þá inn í lögin um orlof húsmæðra. Í n. lét ég í ljós og tek það einnig fram í nál minni hl., að ég lít á það sem algert formsatriði og mundi ekkert setja það fyrir mig. Ef meiri hl. n. hefði ekki haft annað gegn málinu að segja, þá hefði ég verið til með það að flytja efni þessa frv. sem brtt. við önnur hvor hinna laganna. Þó finnst mér, að efni þessa frv. eigi þar ekki heima, það væri hálfgert klastur og því síður ákjósanlegri leið en að lögfesta þetta með sérstöku lagafrumvarpi. Það er reginmunur á því, hvort verið er að tryggja konum, sem börn ala, laun þann tíma, sem þær forfallast frá vinnu af þeim sökum, eða hvort verið er að tryggja tekjur til árlegs hvíldarorlofs karla og kvenna. Það er allt annars eðlis. En ekki stæði það í vegi, jafnvel það mundi ég vilja vinna til, ef menn vildu heldur lögfesta þessi mannréttindi, sem hér er um að ræða, í því formi að binda það öðrum hvorum þessum gildandi orlofslögum.

Þá hafa menn sagt, að það væri enn þá óbrotnara en vera að setja um þetta sérstök lög að margfalda þann fæðingarstyrk, sem nú er gert ráð fyrir í tryggingalöggjöfinni. Hv. formaður n., hv. 1. þm. Vestf., hefur það eftir forstjóra almannatrygginganna, að ef þar ætti að fást jafngildi 90 daga orlofs, 3 mánaða fæðingarorlofs, þá þyrfti að gera þá breytingu á almannatryggingalögunum að sexfalda fæðingarstyrkinn eða eitthvað í kringum það. Einnig kom það fram í hv. n., að ef menn vildu endilega fara þá leið og því aðeins fylgja efni málsins, að borin yrði fram brtt. við núverandi tryggingalög og fæðingarstyrkur fimm- eða sexfaldaður, þá stæði ekki á því. En engir hv. nm. gáfu sig fram til meðflutnings að slíkri tillögu, og held ég því, að áhugi hv. nm. á að bjarga á einhvern hátt innihaldi þessa frv. og efni á land, þ.e.a.s. koma því inn í löggjöf landsins, hafi ekki verið eins mikill og þeir vildu vera láta, nema í öðru orðinu.

Það má vel vera, að réttlætiskennd manna sé svo mikil, að þeir vilji ekki sætta sig við neitt hálfkák í þessu máli. Þeir vilja ekki una við, að eingöngu þær konur, sem eru í þjónustu ríkisins, fái fæðingarorlof, eins og löggjöf landsins tryggir nú, og þeir vilja ekki heldur sætta sig við það, að allar þær konur, sem taka laun, sem eru launþegar í þjónustu annarra, fái þennan rétt, eftir séu samt sem áður húsmæður, sem hafi ekki tekjur utan heimilanna, og þeir vilji líka, að þær fái þennan rétt. Meðnm. mínir í hv. heilbr.- og félmn. gáfu engir kost á því að vera meðflm. að slíkri tillögu, en til þess tjáði ég mig reiðubúinn. En nú sé ég, að hv. 1. þm. Norðurl. v., Skúli Guðmundsson, hefur flutt brtt. við frv., og þær fara einmitt í þessa átt: í fyrsta lagi, að hin formlega hlið málsins breytist á þann hátt, að um verði að ræða margföldun á fæðingarstyrknum, sem nú er greiddur af tryggingunum, og í annan stað, að takmarkandi tilvísunarsetningin: „sem laun taka fyrir vinnu sína“, falli burt, og þar skilst mér, að hann leggi til, að réttindin um fæðingarorlof nái til allra kvenna, sem börn ala. Ég lýsi því hér með yfir og veit, að ég geri það einnig fyrir hönd flm., að ég vil samþykkja slíka tillögu. Það gleddi mig meira en lítið, ef stórhugur þingsins væri svo mikill og réttlætiskenndin svo rík, að þeir vildu ekkert minna samþykkja í þessu, og skal ekki standa á mínu atkv. um það. Vænti ég þá, að fullnægt sé áhuga meðnm. minna, sem kom fram í þá átt, að ranglætið yrði að útþurrka. Það heyrði ég líka á framsöguræðu hv. meiri hl., formanns heilbr.- og félmn., að hann talaði um, að það væri óþolandi, að menn stæðu ekki jafnir fyrir lögunum, misréttið ætti að útiloka, og hér gefst honum kostur á að greiða atkv. um till., sem setti alla við sama borð að því er þessi réttindi snertir, með því að fylgja 1. brtt. hv. 1. þm. Norðurl. v. Mér þætti málið vera orðið stærra og fá enn betri afgreiðslu, ef svo giftusamlega mætti til takast, að þessi brtt. yrði samþykkt.

Hitt er aftur annað mál, að þegar kemur að næstu till. um að þrefalda fæðingarstyrkinn, þá virðist mér eftir upplýsingum forstjóra trygginganna, sem þarna yrði að vísu um hálft fæðingarorlof að ræða, þ.e.a.s. fæðingarorlof, sem svaraði launum í 1½ mánuð, og sé þó í raun og veru ekki, hvernig ætti að ákveða laun þeirra kvenna. Fyrir konur, sem væru á launum allt árið, mundi það svara til hálfs annars mánaðar tekna eftir þessu, ef það er rétt, að forstjórinn hafi sagt, að til þess að ná efni frv. þyrfti að sexfalda núverandi fæðingarstyrk.

Ég fagna því, að þessar till. eru fram komnar. Þá gefst þeim mönnum, sem létu í ljós, að þeir mundu heldur vilja fylgja efni málsins, ef það væri flutt í því formi að vera breyt. á núverandi tryggingalöggjöf og margföldun á fæðingarstyrknum, sem greiddur er samkvæmt þeim lögum, kostur á því að fylgja frv., og þá fæst úr því skorið, hvort þeir gera það ekki í verki.

Ég held, að það sé ekki ástæða fyrir mig að fara miklu fleiri orðum um þetta. Ég vil skýra frá því, að hv. 4. þm. Reykn. hefur skrifað unðir nál. minni hl., að vísu með fyrirvara, og mun hann gera grein fyrir honum. Ég hygg, að það muni vera í sambandi við það, að hann teldi réttara, að þessi réttur næði ekki eingöngu til launþega, heldur til allra kvenna, sem börn ala, en hann gerir sem sé áreiðanlega nánari grein fyrir því. En hann var að meginefni samþykkur því, að frv. næði fram að ganga, að þessi mannréttindi yrðu aukin.

Það er svo komið, að flestar menningarþjóðir, sem í fremstu röð vilja standa, leggja áherzlu á að umbæta sína löggjöf að því er snertir mæðravernd, telja það ekkert sérmál kvenna, heldur eitt af meiri háttar menningarmálum þjóðfélagsheildarinnar, og ég hefði viljað vænta þess, að íslenzka þjóðfélagið skipaði sér þar í röð meðal hinna fremri menningarþjóða.

Það er kunnugt, að nágrannar okkar Svíar hafa þegar lögfest fæðingarorlof í allvíðtæku formi og einmitt mjög svipuðu formi og gert er ráð fyrir í þessu frv. með iðgjaldagreiðslu af hendi atvinnurekenda og mótframlagi frá ríkinu, og innheimtunni hagað á svipaðan hátt og í slysatryggingunum. Það er miðað við vinnuvikur af hendi atvinnurekendanna og mótframlag frá ríkinu, og það er ætlunin, að innheimtan á þessum gjöldum yrði framkvæmd á sama hátt og iðgjöld til slysatryggingarinnar.

Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér, hvernig standi á því, að við höfum mikið orð á því, Norðurlandaþjóðirnar, að við séum á undan öðrum þjóðum að því er snertir félagsmálalöggjöf, félagsleg réttindi í þjóðfélaginu, þjóðfélagslegt öryggi. Og það mun rétt vera, að þessar þjóðir eru þar í fremri þjóða röð, og það hefði ég haldið að væri þeirra stolt. En hins vegar hafa menn nú viljað halda því fram, að þær þjóðir, sem væru austan við járntjald, stæðu heldur að baki þessum forustuþjóðum menningarinnar, Norðurlöndum, og væri ekki eftirsóknarvert líf, sem fólkið lifði þar, eða þau réttindi, sem það byggi við. Ég var s.l. sumar í einu austantjaldslandi um þriggja vikna skeið, Tékkóslóvakíu, og þar er það staðreynd, að þar hafa allar konur, sem börn ala, fjögurra mánaða, — ekki þriggja, heldur fjögurra mánaða fæðingarorlof á fullum launum. Þetta eru mannréttindin, sem eru tryggð konum jafnvel í þessum löndum hinnar margprédikuðu eymdar og réttindaleysis, austan við járntjaldið illræmda.

Að því er snertir tryggingalöggjöfina hjá þeim, varð ég þess líka áskynja, að hún stóð ekki að baki þeirri margrómuðu Norðurlandalöggjöf. Hér fá menn ellitryggingar 67 ára gamlir, karlar og konur. Þar fá konur full ellilaun 55 ára og karlmenn þegar þeir eru sextugir. Það mundi þykja aðeins breyting á íslenzkri tryggingalöggjöf, ef ætti að færa réttinn til ellilífeyris niður úr 67 árum í 65, það þori ég að fullyrða og þá yrði mikið reiknað um háar tölur, sem kæmu til útgjalda. En hvað ætli menn segðu hér, ef ætti að færa ellilífeyrisréttindi kvenna niður í 55 ár og karlmanna niður í 60 ár? Ég er hræddur um, að það þætti nokkur rausn, og það væri það kannske. En í þessu landi austan járntjalds búa menn við þessi mannréttindi, þetta öryggi.

Ein af þeim heilbrigðisráðstöfunum, sem ég varð var við þar að vinnandi fólk var aðnjótandi, var það, að í öllum meiri háttar verksmiðjum var starfandi tannlæknir og gert við tennur hvers einasta verkamanns og verkakonu að jafnaði í þessum verksmiðjum. Ég er hræddur um, að það þætti rausnarlegt hjá atvinnurekendum á Íslandi að sjá fyrir slíkri heilbrigðisráðstöfun. En það telja læknar, alveg sérstaklega tannlæknarnir, vera eitt grundvallaratriði góðs heilsufars, að tannlækningar séu í lagi.

Enn eitt má segja um þessar þjóðir austan tjalds, þar sem hörmungin ríkir og frelsi er svo takmarkað, að þar er ekki ungum námsmönnum aðeins veittur réttur til lána til þess að geta komizt áfram við nám upp á að borga þær skuldir e.t.v. síðar. Nei, þar eru námsmennirnir viðurkenndir starfsmenn þjóðfélagsins og eru á námslaunum. Það að vera við nám er þar metið til jafns og að vera við gagnlegt starf. Við metum það ekki þannig. Við erum ekki komnir enn á það stig.

En þó að við vildum ekki feta í fótspor þessara þjóða, hvorki um slíkar umbætur á okkar félagsmálalöggjöf né annað, þá mættum við kannske gefa frændum okkar, Svíum, auga að því er þetta snertir, því að eins og ég áðan sagði, er fæðingarorlof talinn einn sjálfsagður liður í þeirra félagsmála- og tryggingalöggjöf, og í þeirra spor mættum við þó a.m.k. feta.

Ég fullyrði það, að eins og það var rétt af ríkinu að tryggja þeim konum, sem í þess þjónustu vinna, fæðingarorlof, þá er það einnig rétt, að þjóðfélagið og atvinnurekendur taki saman höndum um það að tryggja þeim konum, sem við minna atvinnuöryggi búa og eru starfandi í þjónustu atvinnuveganna, — tryggja þeim einnig fyrir beggja tilverknað, atvinnurekenda og ríkis, fæðingarorlof, meðan þær missa tekjur vegna barnsburðar. Og mestur sómi Alþ. væri sá að ganga hér ekki hálft til verks, heldur fullnægja réttlætistilfinningu formanns hv. heilbr.- og félmn. og annarra þm. og samþ. till. hv. 1. þm. Norðurl. v. og koma hér á algeru fæðingarorlofi, sem næði til allra kvenna, hvort sem þær eru í þjónustu annarra eða eru húsmæður á heimilunum og vinna þar sín verðmætu, þýðingarmiklu störf, — og létu sem sé þessi mannréttindi, sem þetta frv. vildi þoka lengra áleiðis, ná til allra kvenna, sem börn ala á Íslandi. Þá er ég ánægður.