16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1866)

100. mál, fæðingarorlof

Fram. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. 2. umr. um þetta mál var frestað þann 14. f.m., m.a. vegna fram kominnar brtt. frá hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) á þskj. 361 og enn fremur fyrir ósk frá hv. 4. landsk., sem óskaði eftir, að málið yrði nánar rætt við forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins. Nú stóð svo á þá, að ég, sem var frsm. fyrir meiri hl., varð að víkja af þingi um stund til þess að gegna störfum í Norðurlandaráði og kom ekki til baka aftur til þings fyrr en 1. marz og gat því ekki tekið þátt í þeim umr., sem farið hafa fram um málið í millibilinu. En það hefur verið tekið hér til umr. 28. febr., vegna þess að hv. flm. frv. var þá staddur hér á þingi, og var eðlilegt, að hæstv. forseti gæfi honum tilefni til þess að ræða málið, eftir að nál. hefðu komið fram og eftir að málið hafði verið rætt hér að nokkru við 2. umr. Ég átti þess ekki kost að hlusta á þær umr., en hef hins vegar kynnt mér ræðu hv. flm., sem er mjög löng og ýtarleg. En efnislega kemur þar ekkert nýtt fram. Allt það, sem rætt er um þar, hafði komið fram áður, verið svarað af mér, og sé ég því ekki ástæðu til að svara neitt þeim aths., sem þar voru gerðar, og skal því ekki eyða tíma hv. d. til þess að ræða um þá ræðu í einstökum atriðum.

Síðan ég kom aftur til þings, hefur ekki verið unnt að ná viðtali við forstjóra Tryggingastofnunarinnar, vegna þess að hann hefur dvalizt erlendis og mun dveljast þar nokkurn tíma, og það hefur orðið að samkomulagi í hv. heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. að láta nú málið ganga til atkv. við 2. umr. og ljúka henni, þó að ekki sé unnt að ná viðtali við forstjórann, svo sem óskað var.

Ég hef hins vegar leitað upplýsinga um þann kostnað, sem mundi leiða af brtt. á þskj. 361, ef hún yrði samþ., og hef ég fengið þær upplýsingar um það atriði, er ég nú skal skýra frá.

Tryggingastofnun ríkisins hefur tjáð mér, að áætlaður kostnaður við fæðingarstyrki á árinu 1961 skv. gildandi lögum frá 1960 sé 11.4 millj. kr. Ef samþ. ætti till., mundi á yfirstandandi ári þurfa að bæta við 22.8 millj. kr. til þess að mæta nauðsynlegum útgjöldum, eftir að till. hefði verið samþ. Þessar 22.8 millj. mundu skiptast þannig, að ríkissjóður yrði að greiða 8 millj. og 208 þús. kr., hinir tryggðu yrðu að greiða 7 millj. 296 þús. kr., sveitarsjóðirnir yrðu að greiða 4 millj. 104 þús. kr. og atvinnurekendur 3 millj. 192 þús. kr. Allur kostnaðurinn yrði þá 22 millj. 800 þús. kr. og fæðingarstyrkurinn þá rúmlega 33 millj. kr. Ég vænti þess, að hv. d. og einnig hv. minni hl. geti fallizt á, að þess sé ekki að vænta, að hægt sé að leggja til að taka svo stóra fjárhæð inn með nýjum lagaákvæðum, þegar ekki hefur verið gert ráð fyrir því að taka hana inn á fjárl. og ekki heldur verið við því búizt af sveitarfélögum eða atvinnurekendum að þurfa að taka á sig slíka byrði á þessu ári. Hins vegar hefur hv. flm. till. fært það í tal við mig sem formann n., hvort ég mundi vilja beita mér fyrir því, að till. yrði samþykkt með þeim breytingum, að þetta tæki þó ekki gildi fyrr en á næsta ári. Ég hef ekki séð mér fært að mæla með því á þessu stigi málsins, en till. okkar meiri hl. er að vísa málinu til hæstv. ríkisstj., og getur hún þá að sjálfsögðu látið rannsaka, hvort það þykir tiltækilegt að breyta lögunum þannig, að hækkaður yrði fæðingarstyrkurinn, annaðhvort svo sem hér er fyrir mælt eða á einhvern annan hátt, og mundi þá undirbúa málið fyrir næsta Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið meir, en endurtek till. hv. meiri hl. n. um, að frv. verði vísað til ríkisstj.