16.03.1961
Neðri deild: 76. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (1867)

100. mál, fæðingarorlof

Frsm. minni hl. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það er langt um liðið, síðan þetta mál var síðast til umr., og ástæðan til þess, að umr. var frestað, er sú, sem hv. frsm. meiri hl. n. gat hér um áðan, m.a. fjarvera hans af þingi um skeið. En síðan umr. var frestað að hans beiðni, hefur farið fram umr. um málið, og hv. flm. frv., frú Margréti Sigurðardóttur, gefizt kostur á að túlka sín sjónarmið í þessu máli, og af þeim ástæðum tel ég miklu minni ástæðu til þess, að ég flytji nú langa ræðu um þetta mál. Það hefur sem sé verið rætt ýtarlega frammi fyrir hv. þingheimi og á að liggja ljóst fyrir.

Það er hv. þm. sjálfsagt í fersku minni, að efni frv. er það, að allar þær konur, sem börn fæða og taka laun fyrir vinnu sína, skuli samkvæmt þessum lögum fá þriggja mánaða kaup, þegar þær forfallast frá vinnu vegna barnsburðar. Þær konur hins vegar, sem vinna fyrir tímakaupi eða vinna aðeins nokkurn hluta árs, skuli fá sem svarar ¼ hluta af launum samkvæmt skattaframtali hverrar slíkrar konu fyrir síðasta ár, þannig að þær fengju þá einnig sem svarar þriggja mánaða tekjum, miðað við meðaltalstekjur þeirra árið á undan.

Framkvæmd frv. á samkvæmt ákvæðum þess að vera í höndum Tryggingastofnunarinnar og gert ráð fyrir, að greitt sé í sjóð vegna þessara skuldbindinga, sem í frv. felast, og greiði atvinnurekendur í hann eftir vinnuvikufjölda þess starfsfólks, sem hjá þeim hefur unnið, og er grundvöllur þessa frv. og framkvæmd öll hugsuð með sama hætti og slysatrygginganna.

Hér var því haldið fram fyrr í umr., að ekki væri nægilega vel vandað til þessa frv. Því mótmæli ég alveg. Ég held, að það sé hverjum manni ljóst, sem les frv., að þar er gert alveg nákvæmlega ráð fyrir því, hvernig skuli hagað framkvæmd þessarar lagasetningar, hvaða réttindi skuli veitt samkvæmt frv. og hvernig fjár skuli til þess aflað að standast framkvæmdina.

Því var haldið fram m.a., að orðalag 1. gr. væri ekki nægilega skýrt. Mætti skilja það svo, að þær konur, sem nú njóta fæðingarorlofs, þ.e.a.s. þær konur, sem eru á launalögum ríkisins, og konur, sem samkvæmt stéttarfélagasamningum njóta fæðingarorlofs nú, ættu eftir orðalagi 1. gr. e.t.v. að fá að halda þeim réttindum og fá svo hin lögboðnu réttindi að auki. En það er alveg ástæðulaust að halda þessu fram, því að það stendur, að þó skuli þær konur, sem samkvæmt öðrum lögum eða samningum stéttarfélaga njóti jafngóðra eða betri kjara um fæðingarorlof, halda þeim réttindum. En ef það hefði staðið að þær skuli auk þess halda þeim réttindum, þá hefði hverjum manni verið ljóst, að þær áttu að fá hin lögboðnu réttindi og halda sínum að auki. En þar sem ekki stendur neitt „auk þess“, þá er það gefinn hlutur, að ef þær hafa eins góð réttindi samkvæmt núgildandi lögum eða stéttarfélagasamningum, þá eiga þær að halda þeim, og kemur þá þeirra réttur, ef hann er jafngóður eða betri, í stað þess réttar, sem aðrar konur hefðu öðlazt með þessu frv. Það er því engin ástæða til þess að halda því fram, að hér sé ætlazt til þess, að slíkar konur fengju tvöfaldan rétt.

Um mörg ár hefur það verið ljóst, að konur í verkalýðshreyfingunni hafa haft mikinn hug á því að koma þessu máli fram. Það mun hafa verið á þingi Alþýðusambandsins 1956, sem konur lögðu þetta mál fyrir og fengu þá skipaða mþn. til þess að athuga það nánar. Á því þingi var, með leyfi hæstv. forseta, gerð svo hljóðandi samþykkt um þetta mál, og er sú samþykkt grundvöllur undir síðari aðgerðum kvenna innan verkalýðshreyfingarinnar til þess að reyna að þoka málinu í höfn, — till. er svo hljóðandi:

„25. þing Alþýðusambands Íslands skorar á Alþingi að tryggja með löggjöf, að allar konur, sem vinna utan heimila sinna, njóti sömu réttinda að því er varðar forföll frá vinnu vegna barnsburðar og nú tíðkast um konur, sem taka laun samkvæmt lögum um laun starfsmanna ríkisins, þ.e.a.s. að þær fái þriggja mánaða leyfi frá starfi á fullu kaupi. Telur þing Alþýðusambands Íslands, að ófullnægjandi sé, að einungis fastráðnir ríkisstarfsmenn njóti þessara sjálfsögðu réttinda, og telur raunar enn brýnni þörf á, að konur við hin erfiðari störf, t.d. framleiðslustörfin í frystihúsum landsins og í verksmiðjum, svo og þjónustustörf, svo sem á sjúkrahúsum, barnaheimilum, veitingastöðum og víðar, öðlist einnig þennan rétt.“

Ég er þeirrar skoðunar, að þar sem ríkisvaldið hefur gengið inn á það að veita þessi mannréttindi þeim konum, sem eru í þjónustu ríkisins, þá nái ekki nokkurri átt að veita þau ekki einnig þeim konum, sem starfa í þjónustu hins frjálsa atvinnurekstrar í landinu. En þetta frv., ef að lögum yrði, mundi víkka það svið, sem þetta réttlætismál næði til, á þann hátt, að allar konur, sem börn fæða og eru í launþegastétt, nytu þeirra réttinda, sem nú eru tryggð konum í þjónustu hins opinbera.

Viðvíkjandi till. hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG), þá hef ég áður lýst því yfir, að ég gæti vel fellt mig við það, að hún yrði samþ. og málið breyttist í það horf. Einnig hefði ég sætt mig við það, að hún hefði verið samþ. svo breytt, að hún kæmi fyrst til framkvæmda á öðru fjárhagsári hér frá, þar sem augljóst mál er, að hún mundi hafa mikinn kostnað í för með sér, ef framkvæmd yrði, og frv. þá orðið allmiklu víðtækara en það er nú í því formi, sem það er flutt.

En einmitt slík leið, að margfalda, fimm- eða sexfalda fæðingarstyrkinn, sem nú er greiddur af tryggingunum, er hugmynd, sem fram er borin í nál. hv. meiri hl., og kemur mér því nokkuð á óvart, þegar till. svo berst um að fara þá leið, sem þeir sjálfir hafa vakið máls á, að þá skuli hún ekki fá þeirra stuðning. Það bendir til þess, að það sé ekki út í bláinn, sem ég áður sagði, að hér er verið að bolast gegn góðu máli, haft við orð, að menn hefðu kannske getað hugsað sér að vera með því, ef það væri í einhverju öðru formi eða næði jafnvel til fleiri manna, væri víðtækara en frv., sem hér er verið að fjalla um, en þegar til kemur og á hólminn, þá víkja menn sér undan, og er þá niðurstaðan sú, að menn vilja ekki beint vera við það kenndir að beita sér gegn málinu, en víkja sér undan, að það verði lögfest a.m.k. að sinni.

Í umr. hér áður minntist ég á tvö lönd, sem hefðu horfið að því ráði að lögfesta fæðingarorlof á svipuðum grundvelli og þetta frv. fer fram á, og nefndi í því sambandi Svíþjóð og Tékkóslóvakíu. Út af því að Tékkóslóvakía var nefnd, gerði frsm. hv. meiri hl. n. það land og þau lýðréttindi, sem menn nytu þar, nokkuð að umræðuefni, og skal ég ekki fara langt út í það. Þó vil ég aðeins segja þetta: Það land, Tékkóslóvakía, var sundurtætt eftir síðustu heimsstyrjöld, svo að ýmsar þjóðir héldu því fram, að þar væri varla grundvöllur til að reisa sjálfstætt þjóðfélag af grunni á ný. Við skulum segja, að það búi við skipulag, sem að okkar dómi sé ekki eins líklegt til þess að tryggja hin beztu lífskjör og mannréttindi eins og okkar þjóðfélag, að við búum við betra skipulag í því efni. En hlýtur okkur þó ekki að bregða í brún, þegar við staðreynum það sjálfir, að þetta land, — við skulum segja við hið verra skipulag, — veitir nú sínum þegnum ókeypis lyf, ókeypis læknishjálp, tannlækningar eru veittar ókeypis öllu starfandi fólki í atvinnufyrirtækjunum, ellilaun eru veitt konum þar frá 55 ára aldri og karlmönnum frá sextugsaldri, og þessi ellilaun eru mun hærri en í okkar eigin landi, að ungir menn, sem búa sig undir lífsstarf í þjónustu þess þjóðfélags með löngu námi, fá ekki aðeins einhverja smástyrki eða lán og eru þannig skuldum vafðir, þegar þeir byrja sitt ævistarf, heldur eru á launum, eins og þeir væru við sérhver önnur gagnleg störf fyrir þjóðfélagið, meðan þeir stunda nám sitt, og svo að ég nefni aðeins það fimmta af mannfélagsumbótum, sem ég hef komizt í kynni við þar, nákvæmlega á sama grunni og hér er verið að ræða um í þessu frv., að fæðingarorlof þar er nú og hefur verið um nokkurt árabil fjórir mánuðir á ári handa öllum konum, sem börn fæða, konur allar á fullum launum í fjóra mánuði vegna barnsburðar? Ég fyrir mitt leyti tel, að þegar svona upplýsingar eru gefnar, — og þær eru sannar, þetta eru réttar upplýsingar, — þá má íslenzkt þjóðfélag kippast við og athuga sinn gang, hvort það vill una því að dragast svo mjög aftur úr öðrum þjóðum á skömmum tíma eins og við erum hér að gera að því er snertir ýmsa öryggislöggjöf og mannréttindalöggjöf. Og væri þá ástæða til fyrir okkur að kanna til hlítar af fyllstu alvöru, hvort við gætum ekki spyrnt þar við fótum og reynt að koma á einhverjum af þeim sjálfsögðustu mannfélagsumbótum, sem við þannig fáum vitneskju um, að aðrar þjóðir séu orðnar á undan okkur í. Ég segi þetta í engu áróðursskyni. En ég held, að þetta sé þörf áminning fyrir okkur, því að það er engin bót að því að girða sig neinum Kínamúr vanþekkingar og uppgötva svo kannske seint og síðar meir, að við séum orðnir eftirbátar flestra annarra siðaðra þjóða.

Ég harma það að lokum, að meiri hl. hv. Alþingis eða stjórnarflokkarnir skuli hafa beitt sér hér móti góðu og merku máli, sem fyllsta réttlæti mælti með að væri lögfest hjá okkur og þar sem svo hóflega var farið í sakirnar, að till. komu og þær mjög réttmætar um það, að ástæða væri til að færa út kvíarnar og láta þessi mannréttindi, sem frv. fjallar um, ná til fleiri þegna íslenzks þjóðfélags. En ég ber mig ekki svo mjög illa undan þessu. Ég veit, að þetta mál hefur sigurmátt í sér. Gegn því verður ekki lengi staðizt, og jafnvel þótt því sé nú vísað í kirkjugarð góðra mála, til hæstv. ríkisstj., þá vona ég, að þetta mál rísi þaðan upp fljótt aftur.