18.10.1960
Neðri deild: 6. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (1885)

8. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á Alþingi 1947 flutti ég frv. til l. um iðnaðarmálastjóra og framleiðsluráð. Gerði ég ýtarlega grein fyrir nauðsyn þess að skapa íslenzkum iðnaði skilyrði til þess að geta notið tæknilegrar aðstoðar stofnunar, sem hefði með höndum að vinna að þeim verkefnum, sem Iðnaðarmálastofnunin nú vinnur að og ætlazt er til að lögfest verði með frv. því á þskj. 8, sem hér er til umræðu. Var flutningur þess frv. upphaf þess, að Iðnaðarmálastofnunin var sett á stofn, eins og kunnugt er. Verkefni stofnunarinnar var þó samkv. því frv. allmiklu víðtækara en verkefni þau, er Iðnaðarmálastofnunin enn hefur unnið að eða gert er ráð fyrir með þessu frv., sem hér er til umræðu, eins og sjá má af 5. gr. frv., en þar segir, með leyfí hæstv. forseta, að stofnunin skuli annast rannsóknir á skilyrðum til fullkominnar hagnýtingar á öllum þeim hráefnum, sem landið á yfir að ráða, hvort heldur er úr lofti, jörð eða sjó, að stofnunin skuli gera árlega till. til ríkisstj. um heildartilhögun á sviði iðnaðarmála með það fyrir augum, að eðlileg og holl hlutföll haldist á milli atvinnuvega þjóðarinnar um skiptingu á vinnuafli, rekstrarfé, fjárfestingu, opinberri aðstoð, að framleiðslunni sé beint að þeim greinum, sem hagfelldastar eru fyrir þjóðina og samrýmast bezt þörfum hennar á hverjum tíma, að hendi sé ekki sleppt af neinum afurðum, er við öflum, fyrr en þær hafa verið svo úr garði gerðar, að þær skili landinu sem mestum erlendum gjaldeyri, ef út eru fluttar, en spari sem mestan útlendan gjaldeyri, ef þær eru seldar innanlands að stuðla að umbótum á vinnslu og meðferð framleiðslunnar m.a. með því, að fylgjast með öllum nýjungum, sem fram koma meðal annarra þjóða í iðnaðarmálum, og láta þær iðnrekendum í té, að leiðbeina iðnrekendum um endurbætur á vélum, húsakynnum og vinnutilhögun í iðjuverum, að leiðbeina iðnrekendum um meðferð hráefna og á hvern hátt gera megi þau sem verðmætust, t.d. með blöndun annarra efna, að halda uppi sífelldum tilraunum til endurbóta á hinum ýmsu sviðum iðnaðarins, að stuðla að því, að ekki sé fluttur inn fullunninn varningur, ef unnt er og hagkvæmt að vinna hann hér á landi, heldur sé hann fluttur inn á því stigi, sem hann er ódýrastur, en þó hæfur til að vinnast að fullu í íslenzkum iðjuverum, að fylgjast með framleiðslu, eftirspurn og sölu á íslenzkum iðnaðarvörum á hverjum tíma, svo og með innflutningi á sams konar vörum, gæðum þeirra og verði, að vinna að aukinni hagnýtingu markaða fyrir íslenzkar iðnaðarvörur utanlands og innan, að gera tillögur til ríkisstj. um ný iðjuver, sem hagkvæmt þykir, að reist verði á kostnað ríkissjóðs eða styrkja beri af opinberu fé, svo og um endurbætur eða stækkun á eldri iðjuverum, að gera tillögur um sölu á iðjuverum ríkisins, ef hagkvæmara þykir, að þau verði starfrækt af öðrum aðilum, að athuga ársreikninga og fjárhagsáætlanir iðjuvera ríkisins og gera tillögur til úrbóta, ef sýnt er, að fyrirtækin eru starfrækt með tapi.

Eins og sést á þessari grein, var gert ráð fyrir því, að Iðnaðarmálastofnunin hefði miklu víðtækara verkefni en gert er ráð fyrir í því frv., sem fyrir liggur hér.

Frv. náði þá ekki fram að ganga, en var afgr. með rökst. dagskrá þess efnis, að ríkisstj. skyldi láta fram fara athugun á málinu fyrir næsta þing og undirbúa löggjöf um það að lokinni þeirri athugun. Úr þessari framkvæmd varð þó ekki. Var því flutningur frv. tekinn upp að nýju á árunum 1949–1950. Í þeim umr. öllum, sem fram fóru um þetta mál í báðum deildum þingsins, eru alþm. raunverulega ætíð sammála um nauðsyn þess, að stofnun yrði komið upp á líkan hátt og gert er ráð fyrir í frv. Er það og mjög athyglisvert, að eftir allar þær umr., sem um málið hafa verið þing eftir þing, eru menn ávallt sammála um, að þau verkefni skuli óbreytt vera, sem stofnuninni beri að vinna að og í höfuðatriðum eru þau sömu og lagt var til upphaflega, þegar málið var flutt. Það sést m.a. á þskj. 790, sem gefið var út á Alþingi 1950, en þar eru tekin upp svo að segja í höfuðatriðum öll þau verkefni, sem gert var ráð fyrir upphaflega í frv. Málið var þá afgr. með rökst. dagskrá, eftir að meiri hl. hafði lagt til, að frv. yrði samþykkt með þeim breyt., sem fram eru settar á þskj. 790 og ég hef minnzt á. Minni hl. n. bar þó fram á þskj. 802 rökst. dagskrá, þar sem lagt er til, að fé sé tekið upp í fjárlög árið 1952 til þessarar starfrækslu og lög eigi sett um iðnaðarmálastjóra fyrst um sinn, þar sem engin lög séu um búnaðarmálastjóra eða fiskimálastjóra, sem veita forstöðu hliðstæðum stofnunum fyrir landbúnað og sjávarútveg. Var sú dagskrá samþykkt, fé síðan veitt til starfsemi samkv. dagskránni og Iðnaðarmálastofnuninni þannig komið á fót.

Mér þótti rétt að gefa þetta stutta yfirlit yfir meðferð þessa máls, sem verið hefur til umræðu hér á Alþingi svo að segja árlega síðustu 13 ár, fengið mikinn undirbúning í nefndum og verið rætt frá ýmsum hliðum og af ýmsum aðilum, og einkum þó vegna þess, að stofnunin hefur enn ekki sinnt þeim verkefnum, sem jafnan hefur verið frá upphafi ætlazt til, að væru eitt af aðalverkefnum hennar, verkefnunum samkv. 5. gr. frv. á þskj. 42 frá 1947, þótt jafnan hafi verið samkomulag um það á Alþingi, að stofnunin skyldi einmitt vinna að þessum málum sérstaklega, ef henni yrði komið á fót og til hennar yrði lagt nægilegt fé.

Það má að vísu segja, að það sé ekki höfuðatriðið, eins og hæstv. ráðh. gat um í framsöguræðu sinni, að upp sé talið í lögunum allt, sem stofnunin skuli vinna að, einkum þegar ákveðið er í 4. gr. frv., að markmið stofnunarinnar sé að efla framfarir í iðnaði hér á landi og stuðla að aukinni framleiðslu í íslenzku atvinnulífi með þeim hætti, sem nánar verði ákveðið í reglugerð, sem ráðh. setur að fengnum tillögum stjórnar stofnunarinnar. Við þetta orðalag er það þó að athuga, að hér er til þess ætlazt, að stofnunin sjálf ákveði að mestu þessi verkefni með þeim takmörkunum, sem ráðh. kann að setja á hverjum tíma.

Ég ætla mér ekki á þessu stigi málsins að bera fram brtt. við frv. En ég vænti þess, að með tilliti til þeirrar baráttu, sem ég hef háð árum saman hér á Alþ. fyrir framgangi þessa máls, og fyrir þá þekkingu, sem ég óhjákvæmilega hlaut að öðlast í gegnum þau störf, þá sýni formaður hv. iðnn., sem ég geri ráð fyrir að þetta mál fari til, mér þá tillitssemi að lofa mér að ræða málið við n., ef vera mætti, að hún gæti fallizt á orðalagsbreytingu á frv., sem tryggði, að stofnuninni yrði falið að vinna að þeim verkefnum, sem frá upphafi var ætlazt til, að hún ynni að, eftir því sem ástæður leyfa og eru fyrir hendi á hverjum tíma. Eins vil ég einnig vænta þess, að hæstv. ráðh. hafi ekkert við það að athuga, þó að gerðar verði till. til breyt. eða samþ. verði breytingar í þá átt, sem að framan greinir. Þá væri og mjög æskilegt, þegar nál. verður gefið út, að því verði látin fylgja skýrsla frá stjórn stofnunarinnar um árangurinn af störfum hennar, hvaða verkefni hún hefur haft með höndum undanfarin ár, og hvaða verkefnum hún hyggst vinna að, svo og hve miklu fé stofnunin hefur haft yfir að ráða árlega.

Ég mun láta þessi orð nægja á þessu stigi málsins, en vænti, að mér gefist kostur á að hafa samvinnu við hv. n. um afgreiðslu málsins, áður en það kemur til 2. umr.