25.10.1960
Neðri deild: 10. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í C-deild Alþingistíðinda. (1930)

50. mál, bann gegn vinnustöðvun íslenskra atvinnuflugmanna

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég býst nú við því, að umr. um þetta mál mótist að sumu leyti af því, að svo furðulega stendur á, að litlar líkur eru til þess, að um þetta mál fari fram nema ein umræða á Alþingi. Mér skilst, að þessi brbl. falli úr gildi nú um næstu mánaðamót, sem eru nær því komin, og þau séu því lögð fyrir Alþ. alveg um leið og þeim er ætlað að renna út. Það muni þess vegna ekki líklegt a.m.k., að það verði um þetta mál nema þessi eina umr. Það, sem ég segi hér, mótast að sumu leyti af þessu.

Ég tel, og það munu flestir telja, að það sé ein þýðingarmesta skylda ráðherra í lýðræðislandi, þingræðislandi, að gefa ekki út brbl., nema það sé alveg tryggt, að á bak við þau lög standi þingmeirihluti. Þetta er fyrsta skylda ráðh. í lýðræðislandi, sem vill ekki verða með réttu sakaður um að traðka á þingræðinu. Sá ráðh., sem leyfir sér að gefa út brbl., án þess að það liggi alveg ljóst fyrir, að hann hafi hreinan og öruggan þingmeirihluta að baki sér, hann traðkar á þingræðinu.

Nú liggur þetta mál, sem hér er til umr., þannig fyrir, að lögin voru gefin út í sumar, og af þeim undirtektum, sem lögin fengu utan þings, því að það var auðvitað passað að gera svona hlut, á meðan þingið var ekki nálægt, er full ástæða til þess að efast um, að hæstv. ráðh. hafi nokkurn tíma haft tryggan eða öruggan þingmeirihluta að baki þessari brbl: útgáfu. Einn þingmanna annars stjórnarflokksins hefur lýst sig alveg andvígan þessari löggjöf. Var á þetta minnzt af fyrra ræðumanni. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Vill hann lýsa því yfir hér, að hann hafi tryggt sér það, þegar hann gaf út brbl., að allir þm. Alþfl. greiddu atkv. með þeim á þingi? Lá það fyrir? Tryggði hann sér það? Ef hann hefur ekki tryggt sér það, þá hefur hann með þessari lagaútgáfu traðkað á þingræðinu.

Við erum svo sem ekki alveg óvanir því nú að sjá traðkað á þingræðinu, því að samkv. því, sem kom fram á sínum tíma, var útgáfa brbl. um stöðvun afurðaverðsins haustið 1959 hrein tröðkun á þingræðinu. Það kom greinilega í ljós, að mikill meiri hluti stjórnarliðsins, sem þá var lýsti því yfir, og þá hver í kapp við annan, að þeir væru á móti þeirri löggjöf. Samt sem áður var sú löggjöf sett, og með því var traðkað á þingræðinu. Ég sé ekki betur en núverandi ríkisstj. sé farin að leika þann leik að gefa út brbl. á milli þinga alveg án tillits til þess, hvort þau hafa raunverulega þingmeirihluta að baki sér eða ekki, og ef það er nægilegt, eru lögin látin gilda, þangað til Alþ. kemur saman, látin falla úr gildi, áður en á það reynir raunverulega 1 þinginu, hvort hún hefur nokkurn þingmeirihluta að baki löggjafarinnar eða ekki. Það er farið að leika þennan þokkalega leik. Þetta er auðvitað hrein tröðkun á þingræðinu, eins og ég hef margtekið fram. En þegar þetta er haft í huga, þá er ekkert einkennilegt, þó að hæstv. ríkisstj. hafi það sem eitt helzta áhugamál sitt að stytta þinghaldið, því að fyrir stjórn, sem er svona ósvífin og hagar sér á þennan hátt, er auðvitað um að gera að hafa þinghaldið sem allra stytzt til þess að geta hagað útgáfu brbl. alveg eins og henni sýnist mestan hluta ársins og jafnvel gert þýðingarmestu ráðstafanir þvert ofan í þingviljann, eins og hann hlyti að koma fram, ef Alþingi sæti.

Ég óttast, að það sé einmitt þetta, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj. að gera í vaxandi mæli é næstu missirum, ef hún situr og getur komið því fram að hafa þinghaldið mjög stutt. Það er áreiðanlega þetta, sem vakir fyrir hæstv. ríkisstj., að komast þannig hjá því að þurfa að taka til greina sjálfan þingviljann. Ég er alveg sannfærður um, að þessi löggjöf, sem hér liggur fyrir, hefði aldrei farið í gegnum Alþingi Íslendinga, eins og það er skipað núna. Á þessu sjáum við, hvað hefur raunverulega gerzt. Alveg sama er um brbl. um afurðaverðið. Þau hefðu aldrei farið í gegn á Alþ. Þess vegna er hér hvorki meira né minna á ferðinni en það í fleiri en einu dæmi, að þingviljinn er alveg blygðunarlaust fótum troðinn og virtur að vettugi og sætt lagi að komast fram hjá honum með þessum hætti. Og þegar þetta er athugað, er ekkert einkennilegt, þó að þessir hæstv. ráðh. hafi áhuga á því, eins og ég sagði áðan, að þingið sé sem fjærst. En ég spyr aftur og endurtek spurninguna, sem ég bar fram áðan: Tryggði hæstv. ráðh. sér, eins og honum bar skylda til, þegar hann gaf brbl. út, að allir þm. Alþfl. væru þeim fylgjandi?

Hæstv. ráðh. segist hafa gripið til útgáfu brbl. til þess að koma í veg fyrir stöðvun á flugrekstrinum og vegna þess, hversu þjóðhættuleg slík stöðvun hefði orðið. Eins og kunnugt er, hefur því verið haldið fram, og fyrir því hafa verið færðar mjög sterkar líkur, að ég ekki segi meira, að raunverulega hafi verið komin lausn á þessa deilu, þegar hæstv. ráðh. og ríkisstj. fór að skipta sér af málinu, hæstv. ráðh. og ríkisstj. hafi skipt sér af málinu vegna þess, að þau sáu fram á, að deilan væri að leysast. Samkv. þeim frásögnum, sem fyrir liggja um þetta efni frá þeim, sem þetta mál hafa haft með höndum fyrir flugmennina, verður ekki annað séð en þetta sé rétt.

Það er fróðlegt að athuga þetta í ljósi þeirrar yfirlýsingar um stefnuna í kaupgjaldsmálum, sem hæstv. ríkisstj. gaf þegar hún setti efnahagslöggjöfina, því að þá lýsti hæstv. ríkisstj. því yfir sem stefnu sinni, að það ætti algerlega að vera mál atvinnurekenda og launasamtaka, hvað yrði um kaupgjalds- og kjarasamninga, það ætti algerlega að vera þeirra mál. En þessa stefnuyfirlýsingu hefur stjórnin auðvitað hreinlega svikið með þessum brbl., og það ömurlegasta fyrir hæstv. ríkisstj. er, að þessi lög munu fyrst og fremst vera sett til þess að koma í veg fyrir, að samkomulag geti orðið, til þess að koma í veg fyrir, að málin gætu þróazt á þann hátt, sem stjórnin lýsti sjálf yfir í fyrravetur að hún vildi láta þau ganga.

Ég skal ekki fara langt út í að ræða hér þau ósmekklegu storkunaryrði, sem komu frá hæstv. ráðh. í garð íslenzkra flugmanna, þar sem hann í hæðnistón var að lýsa því, að hann hefði orðið að bjarga þeim með því að gefa út þessi brbl., og annað álíka smekklegt í sömu stefnu. Ég vil bara vekja athygli á því, hversu geðslegur slíkur málflutningur er í máli eins og þessu.

En varðandi sjálft málið, þá er það þannig, að hæstv. ríkisstj. hefur með þessum brbl. bannað, að vinnustöðvun, sem hafði verið boðuð hjá íslenzkum atvinnuflugmönnum, kæmi til framkvæmda. Og rökin fyrir því, að það hefði þurft að gera þessa óvenjulegu framkvæmd, eru þau, með leyfi hæstv. forseta, lesin upp úr grg., að „komi slík vinnustöðvun til framkvæmda, mundi hún valda algerri stöðvun á flugi þeirra tveggja íslenzkra flugfélaga, sem halda uppi reglubundnu áætlunarflugi, en rekstrarafkoma félaga þessara mun ekki þola slíka stöðvun nú, og væri framtíð þeirra teflt í mikla hættu, ef starfsemi þeirra væri þannig stöðvuð.“ Enn fremur segir: „Slík stöðvun mundi nú, er þúsundir erlendra ferðamanna hafa pantað far hjá félögum þessum, verða flugfélögunum og þjóðinni allri álitshnekkir og stórspilla samkeppnisaðstöðu íslenzkra flugfélaga á alþjóðavettvangi. Loks mundi stöðvun á starfsemi flugfélaganna, þar með á flugi á innlendum flugleiðum, valda innlendum aðilum tilfinnanlegum óþægindum og tjóni.“

Þessi rök eru þannig, að ef á þau væri fallizt og banna ætti með lögum verkfall vegna þeirra, þá væri stjórninni í raun og veru veitt heimild til þess að banna öll verkföll með lögum, því að svona lagaðar, almennar ástæður mætti færa fyrir því að banna svo að segja hvaða vinnustöðvun og hvaða verkfall sem er. Þetta ætla ég, að öllum hv. alþm. sé algerlega ljóst. Og af þessari ástæðu tel ég ekki koma annað til mála en vera á móti þessu frv., sem hér hefur verið lagt fram, á móti staðfestingu þessara brbl.

Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun, að hæstv. ríkisstj. hafi ætlað sér að hafa þetta mál að eins konar prófmáli, hvað henni væri óhætt að ganga langt í því að banna verkföll eða vinnustöðvanir, og gera þannig verkalýðsfélögin í landinu alveg óvirk. Það er lítill vafi á því, að það, sem hér er á ferðinni, er prófmál í þessa stefnu. M.ö.o.: hér er verið að prófa, hvort stjórninni mundi haldast uppi að svíkja algerlega, eins og svo margt annað, þá stefnuyfirlýsingu, sem hún gaf um þessi mál sjálf í fyrravetur, sem sé, að um kjaramálin ættu þeir að semja, atvinnurekendur og verkalýðsfélögin. Og það er enginn vafi á því, að það verður litið á þetta mál sem prófmál að þessu leyti.

Hitt er svo annað mál, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur litizt á undirtektirnar, sem þetta mál fékk. Ég býst við, að ríkisstj. hafi hugsað með sér, að það væri gott að prófa þetta fyrst á flugmönnunum, því að þeir væru yfirleitt taldir sæmilega launaðir. Og ef ekkert væri við því sagt, þá mundi vera rétt að taka þann næsta og svo þar næsta og svo áfram. Ég held, að þetta sé nokkuð nærri lagi, að þannig hafi þetta verið hugsað. En ég efast um, að hæstv. ríkisstj. hafi haft mikla ánægju af þeim undirtektum, sem þetta mál fékk, vegna þess að þó að þeir, sem hér eiga hlut að máli, séu sennilega allvel launaðir, þá mun mönnum í verkalýðshreyfingunni og launasamtökunum yfirleitt fljótt hafa orðið ljóst, hvað hér var á ferðinni, og ekki látið það á nokkurn hátt villa sér sýn í málinu, — séð, að hér var á ferðinni prinsipmál, stórkostlega þýðingarmikið prinsipmál, og snúizt við því algerlega eftir því. Þess vegna rigndi mótmælunum gegn þessu, þar sem hér væri gengið á þennan þýðingarmikla rétt verkalýðsfélaganna, og ég vil leyfa mér að efast um, að hæstv. ríkisstj. leggi út í að setja út annað prófmál hliðstætt.

Í þessu sambandi vil ég minna á, að auðvitað væri mjög æskilegt, að það kæmist betri skipan á samningamál launþegasamtaka og atvinnurekenda en verið hefur. Sérstaklega væri þýðingarmikið, ef þau gætu þróazt í þá átt, að samningar færu fram nokkuð í einu lagi fyrir sem flesta starfshópa, eins og raunar orðið er, að því er manni skilst, víða í nágrannalöndunum. Það hefur ekki tekizt hér að koma þessari skipan á. Mér er ekki fullkomlega ljóst, hvernig á því stendur, en e.t.v. er þetta einmitt að þróast í þessa átt, og væri það ákaflega heppilegt fyrir báða aðila málanna og þjóðfélagið sjálft.

Ég hef oft undanfarið bent á, að það væri nauðsynlegt að endurskoða þær reglur, sem um þessi mál gilda, og þá álít ég, að það eigi að gera fyrst og fremst í samráði við verkalýðssamtökin, og t.d. bæri þá sérstaklega að skoða, hvort samtökin eru í raun og veru nægilega sterk í þessu tilliti. Þar með meina ég t.d. heildarstjórn samtakanna, hvort hún er nægilega sterk til að koma á þessi mál nægilega góðri reglu og hafa í þessum málum ákveðna stefnu. Og mér finnst, ef það reyndist við íhugun, að heildarsamtökin væru ekki nógu sterk og þau þyrftu á einhverri aðstoð löggjafans að halda til að koma á þessi mál betri reglu, þá finnst mér sjálfsagt að snúa sér að því að koma nýrri lagaskipan á þau í samráði við samtökin. En e.t.v. geta samtökin leyst þetta án nýrrar löggjafar, eins og mér skilst að gert hafi verið sums staðar annars staðar.

Í framhaldi af því, sem ég þegar hef sagt, vil ég lýsa því yfir, að ég mun greiða atkv. á móti þessu máli nú við 1. umr. Ef allt hefði verið með felldu um þetta mál, þá hefði ég ekki gert það, heldur setið hjá, t.d. þegar málið hefði verið afgreitt til 2. umr. og n. En þar sem hér er um alveg óvenjulega málsmeðferð að ræða, mun ég greiða atkv. á móti því nú þegar við þessa umræðu.