30.01.1961
Efri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (1941)

169. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er samið af þeim prófessor Ármanni Snævarr og dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara, sem á árinu 1956 voru skipaðir til þess að semja frv. til erfðalaga og hafa um það samvinnu við fulltrúa frá hinum Norðurlöndunum, sem höfðu þá um nokkurra ára bil starfað að samræmingu réttarreglna á öllum Norðurlöndum um þessi efni. Hinir íslenzku nefndarmenn hafa síðan unnið að þessu verkefni sjálfstætt, en þó haft fullt samráð við sína norrænu félaga, en því miður, ef svo má segja, varð ekki samkomulag á milli allra Norðurlandaþjóðanna um að samræma þessa löggjöf til fulls. Atvik og fyrri réttarákvæði voru svo ólík í löndunum, að ekki þótti fært að setja um þetta alveg samhljóða reglur. En þó er talið, að mikið hafi áunnizt í þessum efnum og að löggjöfin verði, ef þau frumvörp, sem samin hafa verið, ná lögfestingu, mun líkari innbyrðis en áður var. En þó að full samræming hafi ekki tekizt, hefur verið höfð hliðsjón af bæði gildandi reglum og fram komnum tillögum í hverju landinu um sig varðandi samningu þessa frv., og þess vegna enginn vafi á því, að það hefur orðið málinu til gagns, að þessi samvinna skuli hafa tekizt.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja einstakar greinar þessa frv. nú, en einungis gera grein fyrir höfuðefni þess.

Í fyrsta lagi er með þessu frv. reynt að gera erfðalögin heillegri en verið hefur. Upp í frv. eru tekin ákvæði úr öðrum lögum eða lagabálkum, sem betur eru talin eiga heima í erfðalögum en í þeim sérlögum, þar sem þau nú eru. Er þar fyrst að geta ákvæðanna um setu í óskiptu búi, sem nú er að finna í VIII. kafla I. nr. 20 1923, um réttindi og skyldur hjóna. Þessi ákvæði eru tekin upp í þennan lagabálk með þeim breytingum, sem heppilegar þykja. Þá eru einnig teknar upp í þetta frv. reglur um brottfali erfðaréttar, sem að nokkru að vísu voru í gömlu erfðalögunum, en hefur einnig verið eð finna í ákvæðum almennra hegningarlaga og að nokkru í lögum um stofnun og slit hjúskapar. Það er lagt til, að þessi ákvæði verði öll felld inn í þessi nýju erfðalög. Þá eru einnig ákvæði um sönnun fyrir dauða manns tekin upp úr sérlögunum, sem um það efni eru, í þetta frv., að svo miklu leyti sem talið er, að þau hafi gildi fyrir erfðarétt. Hins vegar haldast nokkur sérákvæði þrátt fyrir þessa heildarlöggjöf, og er þar að telja erfðir að höfundarrétti, sem haldast í l. nr. 13 frá 1905, og lög um erfð að óðalsrétti og erfðaábúð, sem haldast í lögum nr. 116 1943, þó að nokkur breyting sé lögð til í sérstöku frv., sem má telja eins konar fylgifisk þess frv., sem hér liggur fyrir. Þessar breyt., sem ég nú hef talið, eru fyrst og fremst formbreytingar um að gera löggjöfina heillegri en verið hefur, en hafa ekki í sér fólgnar verulegar efnisbreytingar.

En í þessu frv. eru einnig nokkrar efnisbreytingar, sumar allþýðingarmiklar, og er þá fyrst að geta þess, að eins og nú háttar til löggjöf, fá þau börn, sem sannað er faðerni þeirra með eiði eða drengskaparheiti, ekki erfðarétt eftir föður sinn eða föðurfrændur. Með þessu er í raun og veru gefið í skyn, að þessi sönnun sé ekki jafngild öðrum sönnunum fyrir faðerni, og er það í senn óviðkunnanlegt og ósanngjarnt, úr því að hún á annað borð er talin gild sem faðernissönnun. Hitt er þá sönnu nær, að fella þessa aðferð til sönnunar faðernis úr lögum, en það hefur ekki verið talin ástæða til þess hér á landi, og er þá rétt að taka afleiðingunum, eins og gert er í þessu frv., og gera þessi börn að öllu leyti jafnrétthá öðrum börnum.

Þá eru nú nokkuð ósamkvæm sjálfum sér ákvæðin, sem gilda um erfðarétt kjörbarna. Þau halda erfðarétti eftir sitt náttúrlega foreldri, þó að þau séu gerð kjörbörn annarra, en öðlast einnig erfðarétt eftir kjörforeldri, þó að kjörforeldri hafi takmarkaðan erfðarétt eftir kjörbörn. Í þessu frv. er lagt til, að það verði fullkomin erfðatengsl milli kjörbarns og niðja þess annars vegar og kjörforeldra og ættingja þeirra hins vegar, eins og um eigið barn kjörforeldra væri að ræða. En aftur á móti falla að öllu leyti niður við ættleiðingu lögerfðatengsl milli kjörbarns og þess náttúrlegs foreldris og annarra ættingja á þann veg. Þetta eru heillegri reglur og rökréttari en þær, sem gilt hafa, og virðast horfa til góðs, þar sem ætlunin er einmitt, að kjörbarnið verði að öllu leyti í fjölskyldu- og ættartengslum við sitt kjörforeldri, en slíti þeim við sitt náttúrlega foreldri.

Í þriðja lagi er nú takmarkaður erfðaréttur niðja foreldra arfleifanda, þannig að foreldrarnir taka að vísu arf, börn þeirra og barnabörn, en ekki fjarlægari niðjar. Þessi takmörkun var leidd í lög með erfðalögunum frá 1949. Sams konar takmörkun mun vera óþekkt annars staðar á Norðurlöndum, og er lagt til, að hún verði felld úr gildi, þannig að niðjar foreldris arfleifanda fái erfðarétt, jafnvel þó að ættleggurinn sé lengra genginn fram en einungis til barnabarns foreldris. Þarna er um beina rýmkun erfðaréttar skyldmenna að ræða frá því, sem verið hefur í gildi nú um tíu ára bil eða rösklega það, og ætlunin að þessu leyti að taka upp sams konar reglur og áður giltu hér á landi.

Þá er erfðaréttur þess hjóna, sem lifir eftir sinn maka, rýmkaður frá því, sem verið hefur, með tvennu móti. Í fyrsta lagi er lagt til, að erfðahluti maka, þegar niðjar hins látna eru á lífi, verði 1/3 í stað 1/4 hluta, eins og nú er mælt í erfðalögum, og í öðru lagi er lagt til í frv., að í stað þess, að makinn taki aðeins helming arfs, þegar skipt er arfi með honum og útörfum hins látna, þá taki hann 2/3 hluta arfs, ef foreldri hins látna er á lífi, en ella allan arf. Í því felst það, að systkini og aðrir fjarskyldari ættingjar arfleiðanda taka engan arf, ef maki hins látna er á lífi. Þarna er um verulega breytingu að ræða frá því, sem verið hefur.

Loks er breytt heimild arfleifanda til að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá, þegar skylduerfingjar, niðjar eða maki, eru á lífi. Samkv. gildandi erfðalögum er honum heimilt að ráðstafa 1/4 hluta eigna sinna, ef niðjar lifa, en helmingi eigna, ef niðja nýtur ekki, en maki er á lífi. Í frv. er ákveðið, að arfleifandi geti ráðstafað með erfðaskrá 1/3 hluta eigna sinna frá niðjum og maka, og er ráðstöfunarheimildin þannig rýmkuð gagnvart niðjum, en þrengd gagnvart maka.

Þetta eru aðalbreytingarnar, sem í þessum lagabálki felast, og sé ég ekki ástæðu til þess á þessu stigi að ræða þær frekar. Frv. er flutt alveg eins og þeir tveir mætu lögfræðingar, er ég gat um áðan, lögðu til, sá dómsmrn. ekki ástæðu til að breyta því í neinu við athugun sína á málinu. Sjálfsagt er í þessu eins og öðru sitthvað, sem menn geta haft ólíkar skoðanir um, og vonast ég til þess, að hv. d. athugi málið rækilega, það verði þá fyrst og fremst athugað í nefnd, eins og eðlilegt er um svo sérfræðilegt frv., sem hér um ræðir, og leyfi ég mér svo að leggja til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að þessari umræðu lokinni.