14.11.1960
Neðri deild: 21. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í C-deild Alþingistíðinda. (2021)

99. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í grg. þessa frv. og í ræðu hv. flm., sem ég vildi leiðrétta. Það er rétt, sem hann sagði í ræðu sinni og segir í grg., að ráð var fyrir því gert í grg. fyrir efnahagsfrv. ríkisstjórnarinnar á s.l. vetri, að námsbókagjald yrði fellt niður, og skyldi þetta vera einn liður í þeim niðurgreiðslum, sem ríkisstj. gerði ráð fyrir til þess að vega á móti þeirri verðhækkun, sem vitað var að sigla mundi í kjölfar gengisbreytingarinnar. Þetta er rétt. Hins vegar er það alrangt, sem hann sagði í framsöguræðu sinni og segir í grg., að í því felist nokkur svik af hálfu ríkisstj., að horfið var frá því að fella námsbókagjaldið niður. Ríkisstj. sagði í sambandi við setningu efnahagslöggjafarinnar, að hún mundi gera ráðstafanir til að vega á móti þeirri verðhækkun, sem sigla mundi í kjölfar gengisbreytingarinnar, annars vegar með því að auka fjölskyldubætur mjög verulega og mundi sú aukning lækka vísitöluna aftur um það bil 8.5 stig, og hins vegar mundi hún auka ýmsar niðurgreiðslur, þ. á m. greiða niður námsbókagjald, þ.e. fella það niður, greiða það niður 100%. Nánari athugun á því máli leiddi hins vegar í ljós, að það fyrirkomulag var ekki alls kostar heppilegt af ýmsum ástæðum, sem ég skal ekki rekja hér. Um leið og tekin var sú ákvörðun að hætta við niðurgreiðslu námsbókagjaldsins, var sú ákvörðun tekin að hækka niðurgreiðslur á öðrum vörum, sem því svaraði og raunar heldur meira. Það var áætlað, að niðurgreiðsla námsbókagjaldsins mundi lækka vísitöluna um 0.2 stig, og var tekin ákvörðun um að auka aðrar niðurgreiðslur sem þessu svaraði og raunar heldur meira. Niðurstaðan hefur orðið sú, að síðan efnahagslöggjöfin var sett, hafa auknar niðurgreiðslur ekki lækkað vísitöluna um 1.8 stig, eins og gert var ráð fyrir í grg. með frv., heldur milli 3 og 4 stig, nær fjórum stigum. Á þessu sést, að því fer víðs fjarri, að í því hafi falizt nokkur brigð af hálfu ríkisstj. að hætta við niðurfellingu eða niðurgreiðslu námsbókagjaldsins.

Það, sem gert var, var, að í stað niðurgreiðslu námsbókagjalds var tekin önnur niðurgreiðsla, sem heppilegri þótti, fyrst og fremst vegna þess, að niðurgreiðslukerfi var fyrir hendi á því sviði.

Að því er það snertir, að námsbókagjald hefur hækkað nú á þessu ári úr 95 kr. í 160 kr., er þess að geta, að hér er um að ræða aukna þjónustu við þær fjölskyldur, sem börn eiga á skólaskyldualdri, svo að því fer víðs fjarri, að í þessari hækkun námsbókagjaldsins felist aukin byrði á þær barnafjölskyldur, sem eiga börn á skólaskyldualdri. Þegar það er haft í huga, að námsbókagjaldið er ákveðinn hluti af kostnaði ríkisútgáfunnar, á kostnaði við útgáfu skólabóka, en hinn hlutinn er greiddur á fjárlögum, þá er alveg augljóst mál, að þær fjölskyldur, sem eiga börn á skólaskyldualdri, fá miklu meira í sinn hlut en nemur þeirri hækkun, sem þær greiða í námsbókagjald. Ríkið eykur sína fjárveitingu á móti, hefur gert það á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár og mun halda áfram að gera það samkv. tillögum í fjárlagafrv. núverandi ríkisstjórnar. Þess vegna er það líka á algerum misskilningi byggt, að þessi hækkun feli í sér auknar byrðar. Þvert á móti. Það kemur á móti aukin þjónusta af hálfu ríkisútgáfunnar, sem að mjög verulegum hluta er greidd af því opinbera, af ríkissjóði. Einnig þetta atriði í málflutningi hv. flm. er á algerum misskilningi byggt. Að því er þá þjónustu snertir, sem ríkisútgáfan veitir, hefur hagur almennings eða þeirra fjölskyldna, sem börn eiga á skólaskyldualdri, beinlínis verið bættur mjög verulega með stóraukinni þjónustu við þau börn, sem skóla ríkisins sækja.