13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (2124)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Við flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., ég og hv. 3. þm. Norðurl. e., fluttum á síðasta Alþ. frv. til laga um heftingu sandfoks og græðslu lands. Það var að meginefni samhljóða samnefndu frv., sem samið var af sandgræðslunefnd þeirri, sem skipuð var árið 1957 af þáv. landbrh., Hermanni Jónassyni. Í þessari nefnd áttu sæti þessir: Björn Kristjánsson fyrrum alþm., formaður n., Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, Arnór Sigurjónsson fulltrúi, Páll Sveinsson sandgræðslustjóri og Árni G. Eylands stjórnarráðsfulltrúi. Verkefni þessarar nefndar var að endurskoða sandgræðslulögin og athuga um möguleika á að auka þá starfsemi. Tók sandgræðslunefnd þessi þegar til starfa og vann mikið og mjög þarft verk á skömmum tíma. Hafði hún ferðazt um þá landshluta, þar sem landspjöll hafa hvað stórfelldust orðið af uppblæstri og ágangi vatns á fyrri tímum. Kynnti n. sér rækilega störf Sandgræðslu Íslands og árangurinn af því starfi svo og tilraunir til sandgræðslu, sem aðrir höfðu að unnið. Það er ljóst, að n. hefur í upphafi gert sér fulla grein þess, hversu stórfellt verkefni lá fram undan og að ýmsu leyti glæsilegir möguleikar. Jafnframt varð eigi að síður auðsætt, að Sandgræðsla Íslands hafði unnið vel og kappsamlega að sandgræðslumálunum við erfiðar aðstæður og fjárhagsörðugleika. Í riti því, sem sandgræðslunefndin beitti sér fyrir að gefið væri út í tilefni 50 ára afmælis sandgræðslulaganna, er ýtarlega skýrt frá sandgræðslustarfinu á liðnum tíma og að verðleikum farið viðurkenningarorðum um fórnfúst og áhrifaríkt starf þeirra manna, sem hvað mest eiga hlut að, hversu giftusamlega hefur til tekizt í þessum efnum. Um líkt leyti og þetta afmælisrit Icom út, sendi sandgræðslunefndin frá sér tillögur í frumvarpsformi ásamt grg. um sandgræðslumálið, sem öllu heldur væri rétt að nefna landgræðslumál. Var hvort tveggja sent til landbrh.

Á Alþingi árið 1958 flutti Steingrímur Steinþórsson, þáv. þm. Skagf., frv. nefndarinnar. Eigi varð það útrætt. Landbn. þessarar hv. deildar flutti síðan nýtt frv., sem í ýmsum greinum var frábrugðið frv. n., en eigi varð það heldur útrætt.

Frv. því, sem við hv. 3. þm. Norðurl. e. fluttum á síðasta Alþingi, var vísað til landbn. þessarar deildar. Þegar hér var komið, ákvað hæstv. landbrh. að kveðja sandgræðslunefndina saman að nýju til starfa og endurskoða málið allt. Af þessari sök mun landbn. d. hafa talið rétt að fresta frekari meðferð málsins að svo stöddu. Þessari endurskoðun sandgræðslunefndar lauk síðan í febrúar 1960, og sendi nefndin málið til ríkisstj. með nokkrum breytingum.

Þar eð nú hæstv. landbrh. hafði eigi enn þá lagt málið fyrir hv. Alþingi, þótti okkur flm. rétt og enda skylt að flytja málið á ný með þeim breytingum, sem nefndin, sandgræðslunefndin, hefur að lokinni endurskoðun gert á sínu fyrra frv. Í þessum síðustu breytingum er græðslustarfið fært enn nokkuð út, og svo sem mátti vita fyrir, farnar eða gerðar till. um að fara nýjar leiðir til fjáröflunar, en um það atriði geta og eru sjálfsagt skiptar skoðanir, enda hafa þær verið það. Það er engan veginn víst, hvort síðustu till. sandgræðslunefndar, sem ég mun ræða um hér lítillega á eftir, um þetta efni, hljóti nægilegan byr, þó að nokkur ástæða sé til að ætla það. Mun mjög reyna á þá nefnd, sem málið fær til yfirvegunar, hvernig til tekst um samstöðu um þetta atriði.

Þetta gagnmerka mál hefur þannig verið mjög rætt og yfirvegað á liðnum árum og farið í gegnum margan hreinsunareld. Um það hafa fjallað okkar færustu menn í ræktunar- og sandgræðslumálum og fært til þess forms og efnis, sem fyrirliggjandi frv. er. Stefnt er að háu marki. Verkefnið er að hindra eyðingu gróðurs, svo sem vera má, og græða upp sand og annað ógróið eða lítt gróið land, bæði í heimalöndum og á afréttum. Það er engan veginn auðvelt starf, og er auðsætt, að hér þarf alþjóð að leggja sig mjög fram í athöfn og örlæti um fjárframlög.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að eyðing gróðurs hefur átt sér stað allt frá upphafi byggðar landsins. Orsakir hennar eru eldgos, jökulhlaup, ágangur vatns, sandfok, bæði af landi og frá sjávarströnd, og harðindi hvers konar á ýmsum tímum. Þá hafa að sjálfsögðu mennirnir átt sinn hlut að með skógarhöggi og fleiru og síðan búfénaður, kannske að einhverju leyti fyrir sakir ofbeitar.

Ætla má, að gróðursæld hafi nokkur ríkt í landinu, þegar landnám hófst, eða svo hefur Ari prestur hinn fróði talið, er hann segir í ritum sínum á einum stað, að landið hafi þá, þ.e.a.s. þegar landnámsmenn komu fyrst að, verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Hvað sem þessum orðum sagnaritarans líður, má nokkurn veginn teljast víst, að gróður landsins hafi eigi í aðra tíð verið meiri. Undirstaða hans hefur að sjálfsögðu verið birkiskógar og víðikjarr ásamt grasi.

En svo seig á ógæfuhlið, og margt hjálpast að. Á 18. og 19. öld má ef til vill segja, að gróðureyðingin nái sínu hámarki, og þau héruð, sem einna harðast verða úti, eru Rangárvallasýsla, Vestur-Skaftafellssýsla og Þingeyjarsýsla. Var þá í alvöru farið að ræða um sandfokið og uppblásturinn og þá stórkostlegu eyðingu gróðurs, sem orðið hafði, er allt sýndist stefna í þá átt, er til auðnar horfði á stórum landssvæðum. Þótti þá ýmsum góðum mönnum eigi annars úrkosta en hefjast handa um landvarnir. Í Rangárvallasýslu t.d. hafði fjöldi bújarða lagzt í eyði og það í hreppum, sem áður höfðu verið hinir blómlegustu, svo sem á Rangárvöllum og í Landsveit.

Að því kom, að Búnaðarfélag Íslands tók að vinna að þessum málum. Árið 1906 voru síðan sett lög um sandgræðslu. Var hægt, en örugglega farið af stað, og brátt kom í ljós, að græðslustarfið bar auðsæjan árangur. Upp úr 1920 færðist sandgræðslan enn í aukana og sandsvæði, sum hver mjög stór, tekin til sérstakrar vörzlu. Nú um þessar mundir munu vera rösklega 100 þús. hektarar innan sandgræðslugirðinga í landinu. En stærsta einstaka átakið var þó sandgræðslan í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Þessi jörð fór algerlega í eyði árið 1923, en hafði áður verið mjög góð bújörð. Er alkunna, hversu hefur til tekizt á þessum stað, og er þetta landvarnarátak glöggt dæmi þess, hversu breyta má svörtum sandi í hinar glæsilegustu gróðurlendur. Fyrst var landið girt, síðan grætt, hafin túnrækt og stórbúskapur að lyktum. Er Gunnarsholt nú ein stærsta og bezta bújörð á landi hér. En sandgræðslustarfið var víðar unnið, meira og minna um allt land.

Á 50 árum hafði mikið áunnizt. Aðalstarfið beindist eðlilega að heftingu sandfoks, að vörnum gróðurlendis. Aukin tækni, þekking og reynsla varð aflgjafi í viðureigninni við stærri verkefnin, og starfssviðið færðist út með hverju ári sem leið. Til ræktunar voru teknir sandar og melar til nytja og síðan unnið að verndun og uppgræðslu afrétta og annarra beitilanda, þó að í smærri stíl væri. Hefur mikið lán fylgt þessu starfi sandgræðslunnar og ætíð valizt þar hinir ágætustu menn til forustu. Má undrum sæta, hversu langt hefur verið komizt þrátt fyrir margvíslegustu erfiðleika, að ekki sé minnzt á fjármagnsskortinn og hvers kyns fordóma.

Þetta heilladrjúga starf hefur fært þjóðinni heim sanninn um það, hvað gera má í þessum efnum, þegar vel er að verki staðið og áhugi, þrek og þekking leggjast á eitt. Ótrú á sandgræðslustarfið er að mestu eða alveg horfin, en í staðinn vakinn stórhugur og vilji til stærri og glæsilegri landvinninga í þágu gróðurs og aukin trú á lífsmátt lands og þjóðar. Orð skáldsins: „Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna að nota hann“ — munu á sannast með hverjum tíma sem líður, bæði í ræktunarmálum og öðrum efnum.

Hinni fyrstu sóknarlotu í ræktunarmálum landsmanna er senn lokið. Nú hefst nýr áfangi í framtíðarbaráttunni. Bændur landsins hafa á liðnum áratugum unnið að stórfelldari ræktun lands og alhliða uppbyggingu landbúnaðarins en nokkru sinni fyrr. Búfénu fjölgar, og bústofninn verður að stækka mjög á næstu árum og áratugum. Byltingarkennd þróun í búnaðarmálunum hlýtur að leiða af sér, að mjög þrengist í búfjárhögum, bæði heima við og á afréttum. Það er engin önnur leið til, sem mætt geti dýrmætu og þróttmiklu starfi bændanna, en sú að leggja ofurkapp á að hagnýta sem bezt allt það land, sem ógróið eða lítt gróið er, sem á annað borð er hægt að koma í rækt, bæði í heimalöndum og á afréttum. Þessi landssvæði eru íslenzkum landbúnaði sams konar auðlindir og fiskimiðin eru sjávarútveginum. Þessi hagnýting landsins þarf að eiga sér stað svo fljótt og hagkvæmlega sem kostur er á, og sizt má horfa í kostnaðinn, þó að verulegur verði, á meðan skipulegu átaki er fram komið. Það má öllum vera ljóst, að þetta verkefni er eitt hið þýðingarmesta og að framtíð þjóðarinnar kann að vera því háð, að sem bezt verði að unnið og sem bezt til takist.

Frv. það, sem hér hefur verið lagt fram og liggur fyrir til umr., kveður á um það í megindráttum, hvernig að þessum málum skuli staðið. Það er rétt lítillega að athuga, hvers vegna rétt er að heyja þessa sókn í þágu gróðurs og landsnytja, og verður þó að fáu einu vikið.

Í framtíðinni hljóta grasrækt og búfjárrækt að verða máttarstoðir íslenzks landbúnaðar. Alveg sérstaklega hlýtur sauðfjárbúskapur að draga til sín athygli sem ein höfuðgrein búfjárræktar. Er þá einnig haft auga á sauðfjárafurðum sem útflutningsvarningi. Aðalbúgreinarnar eru, svo sem vitað er, nautgripir og sauðfé og sterkastir þættir landbúnaðarframleiðslunnar. Að heildarverðmæti er hlutur þeirra um 87% af allri landbúnaðarframleiðslunni. Þegar svo er virtur hlutur landbúnaðarins í heildarframleiðslu þjóðarinnar, kemur í ljós, að hann hefur verið árið 1957 13.8% og líku hlutfalli verið haldið um nokkurt skeið. Þrátt fyrir hina öru þróun í öðrum atvinnugreinum þjóðarinnar, hefur bændum tekizt í krafti umbóta og aukinnar tækni á velflestum sviðum í landbúnaði að halda sínum hlut í heildarframleiðslunni og tekizt það betur jafnvel en starfsbræðrum þeirra hjá mörgum nágrannaþjóðum, sem mjög eru langt komnar í landbúnaðarmálum. Frakkland, sem er mikið landbúnaðarland, hefur árið 1955 hlutfallstöluna 14.1 % í landbúnaðarframleiðslu miðað við þjóðarframleiðsluna.

Eins og kunnugt er, er meginhluti landbúnaðarframleiðslu okkar seldur á markaði innanlands. Hugsum okkur það, að kyrrstaða hefði verið að mestu í starfi bændanna s.l. 10 ár. Þá lætur nærri, að því er fróðustu menn telja, að flytja hefði þurft inn nær helming af þeim neyzluvörum, sem af landbúnaði fást. Er auðvelt að geta sér til, hver áhrif slík þróun mála hefði haft á gjaldeyrisaðstöðu þjóðarinnar. Um það getur enginn ágreiningur orðið, að landbúnaður okkar framleiðir búvörur, sem a.m.k. fullnægi þjóðarþörf, en það er líka álit margra, að stefna beri hærra og að því, að þjóðin framleiði búvörur til útflutnings og öflunar gjaldeyris erlendis. Allar helztu landbúnaðarþjóðir hafa bæði þessi sjónarmið uppi og vinna að þeim með skipulegum hætti og af ýtrasta megni. Víst er það, að ef ekki er stefnt að umframframleiðslu þá er eins öruggt, að skortur verði og geti orðið mjög alvarlegur á landbúnaðarafurðum, þegar illa árar, svo sem átt hefur sér oft stað og getur að sjálfsögðu átt sér stað alltaf öðru hverju. Af þessu leiðir, að þörf er umframframleiðslu og að henni getur þurft að koma í verð á erlendum markaði. Og þetta er í raun og veru algert lágmark. Þjóðinni fjölgar ört, og er líkleg meðalfólksaukning 2% á ári. Skv. því ætti fólksfjöldinn í landi þessu að vera árið 2000 um 400 þús. manns. Framleiðsluaukningin þarf a.m.k. að tvöfaldast til þess að halda í horfinu. Mjólkandi kúm þarf að fjölga væntanlega um 41500 og þó öllu meira, jafnvel upp í 50 þús. Kjötframleiðslan þarf einnig að tvöfaldast, og þannig má halda áfram varðandi hinar ýmsu búgreinar.

Af þessu er ljóst, að eigi þurfa að vera skiptar skoðanir um það, að mikið starf er fyrir höndum í landbúnaði og að honum sé nauðsyn þess að búa sem bezt um alla aðstöðu, til þess að honum verði auðið að sjá þjóðinni jafnótt og líður fyrir nægum búvörum. Ekki þarf lengi að að hyggja til að sjá, hvert metnaðarmál það hefur verið bændunum sjálfum að sjá þjóðinni farborða í þessu efni, og hafa þó aðstæður verið ærið oft erfiðar og efnahagsleg kjör eigi sem skyldi. Samt hefur bændum tekizt og það vel að auka framleiðslu sína í samræmi við vaxandi neyzluþörf þjóðarinnar. Viðfangsefnið er því að vinna þannig að landbúnaðarmálum, að bændur geti í framtíðinni fullnægt aukinni eftirspurn í búvörum og að enn fremur og eigi síður verði þeim tökum náð í hagnýtingu náttúrugæða landsins og í krafti aukinnar tækni, að landbúnaðurinn verði fær að afla í stórum og sífellt auknum stíl erlends gjaldeyris. Í þessu sambandi má geta þess, að eitt af höfuðáhyggjuefnum hagvísindamanna á alþjóðavettvangi er, að veruleg hætta sé á, að matvælaframleiðsla í heiminum aukist ekki á komandi tíð í réttu hlutfalli og nauðsynlegu hlutfalli við hina öru fjölgun mannkyns.

En auðsætt er, að án sérstakra róttækra ráðstafana til aukningar á beitargróðri og stórkostlegs átaks í ræktunarmálum almennt verður eigi unnt að auka svo bústofninn, að fullnægt geti markaðsþörf, er stundir líða, hvað þá framleiðslu afurða til sölu erlendis. Það frv., sem hér um ræðir, stefnir markvisst að því að halda áfram í enn ríkara mæli en fyrr heftingu sandfoks, græðslu sanda, mela og aura í heimalöndum og á afréttum og eflingu gróðurs á vangrónu landi í þeim tilgangi að auka beitarland búfjár og um leið að létta á haglendi því, sem fyrir er. Þetta verkefni er svo víðfeðmt, að ekki þykir annað koma til álita en gerð verði alveg sérstök framkvæmdaáætlun, sem nái yfir, eins og í frv. segir, 10 ára skeið, og séu færustu sérfræðingar til kvaddir. Þetta er höfuðatriði þess frv., sem hér liggur fyrir. Mörg mikilsverð nýmæli önnur eru í frv., sem verða ekki hér sérstaklega rakin, enda er gerð rækileg grein fyrir þeim í ýtarlegri grg. sandgræðslunefndar, sem fylgir þessu frv.

Til þess að standa straum af stórfelldum kostnaði, sem af framkvæmd frv. leiðir, ef að lögum verður, verður að afla fjár fram yfir hið fasta framlag til sandgræðslunnar úr ríkissjóði á fjárlögum ár hvert. Hlutur ríkissjóðs hlýtur að verða þar stærstur, og er það eðlilegt. Hann eða hið opinbera mun hafa forustuna í þessum efnum og annað kemur að sjálfsögðu ekki til greina. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir því, að sérstakt aukagjald verði lagt á allt áfengi, sem áfengisverzlun ríkisins selur, eða 5 kr. á hvern seldan lítra. Um þetta má að sjálfsögðu deila, og við, sem flytjum þetta frv., erum að sjálfsögðu til reiðu að ganga inn á breytingar á þessu. T.d. mætti hugsa sér, að nauðsynlegar greiðslur tilkostnaðar í sambandi við framkvæmd þessara laga séu teknar beint úr ríkissjóði á fjárlögum ár hvert. En sem sagt, það má við nánari athugun vel gera ráð fyrir því, að aðrar leiðir þyki hentari. En aðalatriðið er, að nægilegs fjármagns verði aflað til þess að standast nauðsynlegan kostnað við framkvæmdir, og við flm. treystum hv. landbn., sem væntanlega fær mál þetta til meðferðar, til þess að koma sér ásamt um færa og skynsamlega leið í þessu efni, ef ákvæði frv. þykja ekki hentug að þessu leyti. En engan veginn má það koma fyrir, að þetta stórmál strandi á þessu skeri. Það er of mikið í húfi.

Við flm. frv. höfum þá sérstöðu, að við erum fulltrúar byggðarlaga, sem einna harðast hafa verið leikin af völdum gróðureyðingar og uppblásturs. Okkur er því að sjálfsögðu nokkurt kappsmál, að skriður komist sem fyrst á uppgræðslustarfið. Við höfum leyft okkur tvívegis að flytja till. sandgræðslunefndar hér inn í hv. Alþingi vegna þess, hversu stórfellt hagsmunamál við teljum að hér sé á ferð. Einnig erum við þess fullvissir, að tillögur sandgræðslunefndar eru niðurstaða af gagnmerku starfi og víðtækri þekkingu á málsefninu, sem við, sem eigi erum neinir sérfræðingar í þessum efnum, teljum okkur geta óttalaust byggt á og fyllilega treyst.

Okkur flm. væri það hið mesta feginsefni, ef samstarf og samhugur má takast um málið. Það er okkur höfuðatriði, að stefna sú, sem felst í frv., geti orðið framkvæmd í megindráttum. Breyt. á frv. mega að sjálfsögðu verða, ef þær teljast eðlilegar og réttmætar að beztu manna yfirsýn. Það eitt varðar mestu, að landgræðslumálið komist í það horf, þann farveg, að þjóðin sé þess umkomin að leiða landvarnir sínar og ræktunarstarfið fram til þess marks, að allt það land, sem unnt er að rækta á annað borð, geti orðið til nytja öldum og óbornum. Þetta er ekki markmið, sem þjónar aðeins bændum og búaliði, heldur og miklu fremur á öll þjóðin mjög sína hagsæld því háða, að vel verði að staðið.

Við Íslendingar þurfum að bæta landið okkar, gera það verðmætara, heilnæmara og fegurra. Flestar menningarþjóðir leggja hart að sér í starfi með ærnum tilkostnaði í því skyni að vernda sitt land og vinna það. Við eigum þess ærinn kost að skapa okkur dýrmætan þjóðarauð í auknum landsgæðum, sem bera má ríkulegan ávöxt. Með því að framkvæma þá meginstefnu, sem sandgræðslufrv. markar, af myndarskap og festu færum við vissulega gull og giftu í mund þeirri framtíð, sem þjóðinni er búin í landinu.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri að sinni, en óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.