13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (2128)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt og skylt að taka tillit til þess, að hv. flm. báðir hafa eytt talsverðum tíma í að afsaka það, að þeir hafa flutt þetta frv. og málið ber þannig að, eins og ljóst er, og að báðir þessir hv. þm. hugga sig við það, að þeir hafi ekki unnið þannig að, að málið verði látið gjalda hinna óvenjulegu vinnubragða, og það er sjálfsagt að endurtaka það, að það er ekki rétt að láta gott mál gjalda þess, þótt ekki sé eðlilega að því unnið.

Hv. síðasti ræðumaður var að tala um mismuninn á þessu frv. og hinu fyrra og viðurkenndi, að það væri talsverður munur í aðalatriðum, enda þótt hann áður hafi sagt, að þetta frv. væri að meginefni til hið sama. Tekjuöflunina minntist hann ekki á. Ég vil t.d. benda á, hvaða tekjuöflunarleið var ætluð með hinu eldra frv., þó að það sé ekkert aðalatriði nú að vera að minnast á það, en þar var gert ráð fyrir, að beint framlag úr ríkissjóði væri 3 millj. kr. Það var gert ráð fyrir að borga 10 kr. skatt árlega af hverjum nautgrip og hverju hrossi og eina krónu af hverri kind, 1½% gjaldi af öllum tóbaksvörum og 16% yfirfærslugjaldi af innfluttu fóðri. Það er það eina, sem helzt í tekjuöfluninni eftir gamla frv. og hinu nýja. Þess vegna vil ég segja það, að því viðbættu, sem hv. síðasti ræðumaður lýsti hér áðan um önnur atriði frv., að það er náttúrlega engan veginn hægt að segja, að þessi frumvörp séu í meginatriðum eins, það er alveg ómögulegt.

Ég vil svo segja það. að það er undarlegt að vera að tala um, að þetta mál sé frá mínu sjónarmiði aðallega mitt mál. Það hefur mér aldrei dottið í hug, og ég tel ekki, að það sé neitt frá mér tekið með flutningi þessa frv., ekki á nokkurn hátt. Það var ekki það, sem ég var að átelja í fyrri ræðu minni, heldur það, að málinu er ekki gert neitt gagn með þessu, hefði getað verið gert ógagn, ef öðruvísi hefði verið á það litið en ég geri og aðrir fleiri, sem stjórnina styðja.

Það skal viðurkennt, að hv. 4. þm. Sunnl. minntist á þetta mál við mig hér niðri á ganginum einu sinni. Ekki dettur mér í hug að þræta fyrir það. Ég sagði honum, að ég væri ekki tilbúinn til þess að flytja frv. nú, að vísu nefndi ekki, hvort það yrði á þessu þingi, en ég sagði honum, að það væri ekki tilbúið. Það er engin ástæða til að þræta fyrir það. Og það er sannleikur. Málið er hjá ríkisstj., og það hefur ekki enn verið tilbúið til flutnings.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að það væri allt annars eðlis, þetta frv., heldur en þau frumvörp, sem gerðu ráð fyrir beinum útgjöldum úr ríkissjóði. Það væri eðlilegt, að slík frumvörp væru ekki samþykkt nema með vilja stjórnarinnar og stjórnarflokkauna. En hann gaf í skyn, að þetta frv. væri annars eðlis. Þetta frv. er vitanlega sama eðlis. Það eru óbein útgjöld úr ríkissjóði að taka tolltekjurnar af innfluttum fóðurbæti og láta þær í þetta. Það þarf að afla ríkissjóði tekna með öðru móti í stað þessara tekna. Í öðru lagi gæti verið, að fjvn. eða hæstv. fjmrh. hugsaði sem svo: Ef áfengið er ekki hækkað í því skyni að afla sandgræðslunni tekna, þá væri möguleiki að hækka það í því skyni að auka tekjur ríkissjóðs. Ég veit, að svo þingvanur maður sem hv. 3. þm. Norðurl. e. skilur þetta mætavel, og er þess vegna óeðlilegt, að hann skuli halda þessu fram.

Ég vil vegna þess, sem fram hefur komið hjá þessum hv. tveimur flm. málsins, segja það, að hugur minn til þessa máls er alveg sá sami nú og í fyrra, ekki á neinn hátt breyttur. Það, sem ég sagði áðan, var til komið vegna þessara óvenjulegu vinnubragða, að tveir hv. þm. taka að sér að flytja mál, sem er til undirbúnings hjá ríkisstj. Það er náttúrlega ágætt að fá aðstoð þessara manna til fylgis við góð mál. Það er út af fyrir sig ágætt. En hv. 3. þm. Norðurl. e. veit það af langri reynslu, að um mál eins og þetta, stórmál, þá eru það stjórnarflokkarnir, sem þurfa að standa að því, til þess að það nái fram að ganga. Og þótt þetta frv. hafi nú þegar verið næstum því ár hjá ríkisstj., þá býst ég við, að það sé vel afsakanlegt með tilliti til þess, að þetta frv. hefur í för með sér milljónaútgjöld, beinlínis milljónaútgjöld. Þegar hv. 3. þm. Norðurl. e. var hér áðan að lýsa því, hvers vegna frv. frá 1958 hafi tafizt hjá þáv. landbrh., þá vildi hann færa þar aðra ástæðu til en þá, sem er rétt. Það segir í grg., sem fylgir frv.: „Þegar það dróst, að landbrh. legði frv. fyrir Alþingi, tók einn nefndarmanna, Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, þá 1. þm. Skagf., það til flutnings á Alþingi 1958.“ Ég minntist á það áðan, hvers vegna málið hefði dregizt hjá þáv. landbrh., ekki af því, að hann hafi ekki viljað þessu máli vel, heldur vegna þess, að hann hafði og sú ríkisstj., sem hann veitti forstöðu, við sömu erfiðleikana að stríða og núv. ríkisstj., þ.e. að afla tekna, milljónatekna, til hinna ýmsu mála, sem eru meira og minna nauðsynleg. Og þessir tveir hv. flm. vitanlega vita það, að það hefur ekki orðið sú snögga breyting á nú frá því 1958, að það sé til ótakmarkað fjármagn til hinna ýmsu mála, sem við teljum nauðsynlegt að koma fram.

Það er ástæðulaust að vera að fara öllu fleiri orðum um þetta. Ég hygg, að hv. flm. og ég séum í öllum aðalatriðum sammála um málið, og það vitanlega skiptir mestu máli. Við erum sammála um, að þetta mál sé gott, það þurfi að komast í höfn. En ég gat ekki að því gert að láta skoðun mína í ljós um það, að ég teldi þetta ekki heppileg vinnubrögð, og ég tel, að það sé ekki þessum hv. þm. að þakka, þótt það skaði ekki málið. Það er hinum að þakka, sem vilja láta málstaðinn og aðalatriðin ráða, en ekki aukaatriðin. Og ég tel, að þessi orð mín til viðvörunar gætu þá orðið til þess, að þessir hv. þm. geri ekki eitthvað svipað aftur, sem gæti leitt til tjóns, ef annar skilningur ríkti þá um málin heldur en nú.