13.02.1961
Neðri deild: 62. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í C-deild Alþingistíðinda. (2130)

175. mál, hefting sandfoks og græðsla lands

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það, sem ég sagði áðan um þetta mál, og skal ekki heldur gera það. En þessar umræður, sem hér hafa farið fram, hafa sannfært mig um það, hafi ég ekki verið sannfærður um það áður, að það hafi ekki mátt dragast öllu lengur, að þetta mál væri flutt inn í þingið og að hæstv. landbrh. fengi þá aðstoð, sem þingmenn, hvort sem þeir eru úr stjórnarandstöðunni eða stjórnarliðinu, kunna að geta veitt honum til þess að koma þessu máli fram, og skal ég ekki um það atriði hafa fleiri orð að sinni.

Ég hefði haft tilhneigingu til þess að bera fram nokkrar fsp. til hæstv. ráðherra í sambandi við ræður hans í þessu máli, en ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, því að ég vil ekki stofna til neinna frekari deilna um þetta mál, tel, að það sé réttara, að menn reyni nú að sameina sig til átaka, þar sem það sýnir sig, að þeir vilja gera það. En ég held, að það væri hollt fyrir hæstv. ráðherra t.d. að gera sér grein fyrir því í einrúmi, hvað hann telur vera hæfilegan umhugsunartíma fyrir ríkisstjórn, þegar hún hefur mál til meðferðar. Hann telur sig hafa haft heldur stuttan tíma, en hann hefur hins vegar ekki upplýst það hér í umræðunum, hvað hann teldi hæfilegan tíma fyrir ríkisstj. að hafa mál til meðferðar, sem þjóðin biður eftir að séu afgreidd á einhvern hátt. En ég býst við, að allir geti orðið sammála um það, að sá tími hljóti að hafa einhver takmörk, því að annars mundu takmörkin ekki verða önnur en þá takmörkin á valdatíma þeirrar stjórnar, sem í hlut á.

Ég heyri það, að hv. 1. þm. Vestf. er frekar mótsnúinn þessari nýju fjáröflunarleið, sem tekin hefur verið upp í tillögu sandgræðslunefndar nú síðast og við höfum tekið upp í okkar frv., að leggja aukagjald á áfengi. Hann er því fremur mótfallinn, vegna þess að hann telur, að ef lagt sé gjald á áfengi, þá eigi frekar að nota það í öðru skyni. Auðvitað hefur hann mikið til síns máls að því leyti, að það er mikil þörf á aðgerðum á því sviði, sem hann nefndi hér áðan. Og eins og ég sagði í ræðu minni áðan, þá er mér og ég held okkur flm. það ekki neitt sérstakt kappsmál, að þetta aukagjald sé fremur lagt á vín en tóbak. Landgræðslunefndin ætlaðist í öndverðu til þess, að gjaldið yrði lagt á tóbak, en hefur svo breytt sinni till. um það efni, að mér skilst helzt vegna þess, að henni hefur skilizt, að hæstv. landbrh. væri sú leið geðfelldari. Og af því að við erum slíkir samkomulagsmenn, flm. þessa frv., og fyrir okkur vakir það eitt að koma því fram, að æskilegar framkvæmdir verði í sandgræðslumálum, þá höfum við ekki viljað gera það að neinu ágreiningsatriði, hvort féð væri fremur fengið með þessari aukaálagningu heldur en hinni. En ég vil segja það, eins og ég sagði áðan, að ég hefði alveg eins getað samþykkt aukaálagninguna á tóbak, eins og nefndin lagði til í upphafi. Aðalatriðið er, að það finnist fær leið til þess að ná þessu fé, sem til landgræðslustarfseminnar þarf.

Ég er sömu skoðunar um það og fram kom í fyrri ræðu minni, að ég tel það nokkuð annað að gera ráð fyrir beinum útgjöldum úr ríkissjóði af þeim tekjum, sem hann hefur þegar aflað sér og gert hefur verið ráð fyrir á fjárlögum, eða að lögleiða nýjan tekjustofn í einhverju sérstöku skyni. Það er töluverður munur á þessu. Hæstv. ráðherra hlýtur að geta látið sér skiljast, að það er allmikill munur á því, hvort ríkisstj., hver sem hún er, verður að láta af hendi tekjur, sem hún hefur haft, og breyta þannig áætlunum sínum, eða Alþingi leiðir í lög, að nýrra tekna skuli aflað, sem ríkissjóður hefur ekki haft. Og þetta á við um þessa aukaálagningu, hvort sem hún er á tóbak eða á áfengi. Hins vegar er það rétt, að annar tekjuöflunarliður, sem þarna er gert ráð fyrir, þ.e. tolltekjurnar af innfluttu fóðri, sem gert hefur verið ráð fyrir að rynnu til sandgræðslunnar, renna að öðrum kosti í ríkissjóð. Orð hæstv. ráðh. gætu þess vegna réttilega átt við þann hluta fjáröflunaráætlunarinnar. En þar er um miklu minna að ræða. Og ég vil segja það a.m.k. fyrir mitt leyti, að mér finnst sjálfsagt, að þeir, sem að þessu máli standa, séu til viðræðu um, hvort þessum lið fjáröflunarinnar kynni að verða breytt eða einhvers af þeim hluta yrði þá aflað á annan hátt. Þetta finnst mér að gæti komið til athugunar. Hins vegar hef ég skilið það svo, þó að það sé ekki beint sagt í grg., að einnig þessi tekjuöflunarliður muni hafa verið ákveðinn í frv. nefndarinnar í einhverju samráði við hæstv. landbrh. Mér hefur skilizt það, þó að ég vilji ekkert fullyrða um það. En aðallega mun það þó hafa verið þessi breyting, að taka aukaálag á áfengi í staðinn fyrir aukaálag á tóbak, sem gerð hefur verið fyrir einhverja ábendingu frá hæstv. landbrh.

Hv. þm. Barð., — mér er ljúfara að nefna hann svo, því að ég taldi þá kjördæmaskipun, sem áður gilti, heppilegri en þá, sem nú gildir, — nú hv. 1. þm. Vestf., var svo svartsýnn, að hann virtist vilja draga í efa eða ekki gera ráð fyrir, að slíkt mál sem þetta geti orðið útrætt á þessu þingi. Ég vona, að það fari ekki svo, að málið dagi uppi. Og þegar hv. 1. þm. Vestf. fer að íhuga það nánar og taka afstöðu til þess, þá vona ég, að andi séra Björns í Sauðlauksdal verði með honum eins og kannske stundum áður. En nú fer málið að sjálfsögðu til hv. landbn., sem áður hefur um það fjallað. Við flm. verðum að sjálfsögðu reiðubúnir til viðtals við hana, hvenær sem hún óskar, um frv. eða einstök atriði málsins, og eftir því sem hér hefur fram komið, þá ætla ég, að við höfum ástæðu til að vænta stuðnings hjá hæstv. landbrh. En eins og ég sagði áðan, þá er ég nú, eftir að hafa hlýtt á þessar umr., alveg sannfærður um, að við höfum gert rétt í því að draga ekki lengur að flytja frv., og hæstv. landbrh. ætti eiginlega að meta það við okkur, að við höfum komið málinu á framfæri í þinginu einmitt nú á þessum tíma.