10.11.1960
Efri deild: 19. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í C-deild Alþingistíðinda. (2213)

33. mál, fiskveiðilandhelgi Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Við höfum heyrt nokkuð oft talað um þá miklu þjóðareiningu, sem hafi verið í þessu máli og hv. stjórnarandstæðingar tala um, að núv. ríkisstj. sé að stefna í voða. Af ræðum hv. 2. þm. Vestf. (HermJ) og hæstv. utanrrh. (GÍG) heyra menn, hvernig sú þjóðareining var í framkvæmd á dögum vinstri stjórnarinnar, og er sannarlega ekki miklu fyrir að fara.

Það voru nokkur atriði í þeim stórmerku upplýsingum, sem hér hafa komið fram, sem ég vildi gjarnan fá frekari skýringar á, áður en umr. heldur lengra áfram og áður en allir hv. stjórnarandstæðingar og talsmenn hv. 2. þm. Vestf. hafa talað sig dauða. (HermJ: Það hef ég nú gert nú þegar.) Já, en hann hefur góða talsmenn og góðan sessunaut, sem ég hygg að sé búinn að kveðja sér hljóðs, og væri þá gott, að hann gæti svarað.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði hér næstsíðast, er hann talaði, — það var í síðustu viku, að því er ég hygg, — að það gæti verið, að einhverjir sérfræðingar hefðu, áður en útfærslan átti sér stað, látið sér til hugar koma að bjóða fram veiði innan 12 mílna lögsögunnar gegn viðurkenningu. Hann sagði, að það gæti verið, að sérfræðingar og kannske einhverjir aðrir hefðu gert þetta. Þetta var hans yfirlýsing þá að efni til. Nú er fram komið, að því er mér skilst, og ómótmælt, að hann hafi sjálfur sent símskeyti í maí 1958, þar sem þetta tilboð er gert. Hann segir að vísu: Það stóðu ekki til neinir samningar. Hann segir: Gegn einhliða viðurkenningu hinna ætluðum við að gefa út svo og svo einhliða yfirlýsingu. En ég segi: Ef yfirlýsingar eru gefnar gegn annarri yfirlýsingu, þá er það ekkert annað en samningur. Það tjáir ekki að vera með neinn orðaleik um það. Ef ein ákvörðun er bundin annarri, skilyrði er sett eftir viðræður aðila, þannig að önnur ákvörðunin er háð hinni, þá er það að efni til samningur og ekkert annað en samningur. Þetta er þess vegna allt fullkominn orðaleikur hjá hv. þm.

En látum vera hans orðaleik í því. Hann sagði, að skeytið, sem nú hefur verið skýrt frá hér í d. að hann sjálfur hafi samið, hafi verið sent í nafni allrar þáverandi hæstv. ríkisstj., enda heyrði ég það með mínum eigin eyrum, þegar hv. þm. las það upp áðan, að sagt var, að ríkisstj. liti svo og svo á. Og hv. þm. sagði, að með sinni vitund og í sínu nafni hefði af hálfu hæstv. þáv. ríkisstj. aldrei verið sent neitt, nema öll ríkisstj. stæði þar á bak við, og hann vitnaði í það sem mun á sér og hæstv. utanrrh., sem hann taldi í einhverju öðru ótilgreindu tilfelli hafa farið öðruvísi að.

Nú spyr ég: Var þetta skeyti frá því í maí sent í nafni allrar þáv. ríkisstj., eins og stendur í skeytinu sjálfu og eins og hv. 2. þm. Vestf. hér svo rækilega lýsti yfir, eða var þarna beinlínis brotið á móti vissum hluta þáv. hæstv. ríkisstj., fulltrúum Alþb, í þáv. stjórn? Að því er stendur í Þjóðviljanum í morgun, þá er það tvímælalaust, að þetta skeyti var einungis sent í nafni hluta ríkisstj. Annar hvor fer því hér með ósatt mál, hv. 2. þm. Vestf. eða málsvari hans, Þjóðviljinn, í morgun. Það er mjög nauðsynlegt fyrir þingheim að vita, hvor aðilinn það er, sem hér er að segja ósatt.

Annað mjög athyglisvert atriði var í þessu skeyti, sem hv. 2. þm. Vestf. las upp. Hann sagði, — og það er sagt í því skeyti, — ég hygg, að það hafi verið sent 18. maí, — að þá hafi ríkisstj. verið búin að ákveða tiltekna útfærslu landhelginnar og þar með voru nýjar grunnlínur. Hvað varð um þá ákvörðun ríkisstj., þegar sjálf landhelgin var stækkuð með reglugerðinni, sem var gefin út nokkrum dögum seinna, og hvaða ástæður lágu til þess, að þá var grunnlínustækkunin ekki tekin með? Er nokkur skýring önnur á því en að þá hafi það verið vegna þrýstings utan frá, að hæstv. þáv. ríkisstj. féll frá því, sem hún var búin að tilkynna Atlantshafsbandalaginu í þessu skeyti, að skyldi verða gert?

Þetta liggur fyrir í þeim sönnunargögnum, sem hv. þm. hefur sjálfur lesið hér upp, maðurinn, sem er að segja, að það megi aldrei taka tillit til þess, sem aðrir aðilar segi, og ef maður byrji að láta undan, þá komi ofbeldið strax á eftir. Var það þá vegna þess, að hæstv. vinstri stjórn guggnaði strax á fyrsta skrefinu, sem ofbeldið hófst 1. sept. 1958?

Ég skal ekki segja um, hvort orsakasamhengið er það, en eftir rökstuðningi hv. 2. þm. Vestf. liggur fyrir hans eigin skýring á þessu, orsök og afleiðingu. Það er óumdeilanlegt, að hann er nú hér búinn að leggja fram gögn um það, að hans ríkisstj. er í makki við erlenda aðila um málið og fellur frá einu höfuðatriði máls síns, eftir að þeir eru búnir að heyra mótmæli frá þessum aðilum. Partur af þeim mótmælum var lesinn upp hér áðan. Og það skyldi þó aldrei vera svo, að ástæðan til þess, að þarna hafi verið guggnað, væri sú, að eftir ákvörðun laganefndarinnar frá 1956 var ótvíræður réttur okkar til þess að færa út í 12 mílur, en hv. þm. hafi sannfærzt um, að ekki væri hægt að fara lengra í grunnlínubreytingum nema með samþykki annarra aðila. Er þetta skýringin? Eða hver er skýringin? Það liggur fyrir eftir gögnum þm. sjálfs, að hann hefur guggnað á fyrsta skrefi, sem hann steig. (HermJ: Má ég grípa fram í?) Já, með ánægju. (HermJ: Hæstv. ráðh. hlýtur að vita, að það var ekki samkomulag milli flokkanna um annað en þetta.) Var ekki samkomulag um það? Já, hvernig var samkomulagið? Var samkomulag milli flokkanna um skeytið, sem var sent 18. maí? Var samkomulag á milli flokkanna? Hafði Alþb. samþ. það skeyti? Svari hann nú. (HermJ: Ég skýrði frá því í ræðunni. Ég býst við, að þessi hæstv. ráðh. heyri.) Hvað sagði hann? Ég ætla að bíða. Var samkomulag milli flokkanna eða ekki, stjórnarflokkanna? (HermJ: Ég skýrði frá þessu í ræðu minni.) Já, var samkomulag innan stjórnarinnar um skeytið eða var ekki samkomulag um það? (HermJ: Ég sagði frá því í ræðu minni.) Já, var það eða var það ekki? (Gripið fram í.) Nei, ég skal bíða. Hafði Alþb. samþykkt skeytið, sem var sent? (HermJ: Ég skýrði frá því í ræðu minni, og ráðh. gat heyrt það.) Já, en hafði Alþb. samþykkt það eða ekki? Hv. þm., sem fæst ekki til að svara þessu núna, hann sagði, að sér hefði aldrei dottið í hug að senda skeyti í nafni allrar ríkisstj, án samþykkis hennar allrar. Nú þorir hann ekki að svara því,,vegna þess að það liggur fyrir og er alþjóð kunnugt, að Alþb. var á móti því, að þetta skeyti væri sent, En þegar maður byrjar að skrökva, þá þvælist maður alltaf í sínu ósannindaneti eins og þessi orðlausi hv. þm. (HermJ: Ég efast ekki um, að ráðh. hefur reynslu fyrir því.) Já, ég hef oft horft upp á þennan þm. áður í sama neti, það er satt. Það er engin nýjung.

En svo var ákaflega athyglisvert, hvað hv. þm. talaði mikið um þetta að vísu nokkuð loðna og óákveðna skeyti frá því í maí, en vildi lítið segja um skeytið frá 22. ágúst 1958. Það skauzt þó upp úr hv. þm., að hann hefði verið ósamþykkur skeytinu eða orðalagi skeytisins. En ég spyr: Vissi hann ekki um skeytið? Var það þannig, að hæstv. utanrrh. hefði þá í heimildarleysi frá hv. þm. og hans flokki sent þetta skeyti? Já, svari þingmaðurinn. Nei, nú þegir hann líka. Sannleikurinn er sá, að auðvitað var skeytið sent með samþykki hv. þm. Og þar segir stjórnin: „Við minnum á okkar fyrri tillögu um viðurkenningu á 12 mílum gegn því, að erlendir veiði á seinni 6 mílunum um takmarkaðan tíma.“ Þar býður stjórnin fram samninga um viðurkenningu. — Ef hinir vilja láta viðurkenninguna í té, þá ætlar stjórnin af sinni hálfu að breyta reglugerðinni, sem var búið að setja í maí.

Hv. þm. sagði á dögunum : Það er allt annað að bjóða eitthvað fram einhliða af sinni hálfu, áður en reglugerðin er sett og ákvörðunin tekin, en það er fáheyrt að ætla að fara í samninga og láta undan ofbeldi eftir á. En hvað er það, sem gerist með tilboði þáv. hæstv. forsrh. 22. ágúst 1958, annað en að ríkisstj. býður að breyta reglugerðinni, sem búið var að setja, gegn því að fá viðurkenninguna? Þá ætlar hún að hleypa þeim erlendu inn, a.m.k. um þriggja ára tímabil. Mér er ekki títt að vera að herma úr einkasamtölum manna um það, sem skeði, en ég man fullvel, að þeir voru margir og það valdamiklir menn í Framsfl., sem sögðu á þeim dögum, að það væru ekki þrjú ár, sem væru síðasta orðið, ef að meginstefnu væri fallizt á þetta tilboð. Það eru allt of margir menn, sem vita það, sem þá var sagt, og heyrðu ýmsa valdamikla menn tala, til þess að það tjái að neita þeirri staðreynd.

Þessu tilboði að breyta reglugerðinni, því var hreyft, það var sett fram löngu eftir að Bretar höfðu tilkynnt, að þeir ætluðu að koma með sinn herskipaflota hingað 1. sept. 1958. Það var sett fram undir beinni ógnun um valdbeitingu, þannig að hv. þm., sem hefur ekki átt nógu sterk orð um lítilmennsku þeirra manna, sem nú eru að reyna að finna leiðir til þess að eyða þessari deilu, er sjálfur staðinn að allri þeirri lítilmennsku á fyrsta stigi málsins.

Ég hefði ekki talið það lítilmennsku af hv. þm. að geta komið í veg fyrir þessa deilu, frekar en ég tel það lítilmennsku að reyna að eyða henni nú. En það er betra að tala dálítið varlegar, taka minna upp í sig, þegar maður hefur slíkan feril sem þessi hv. þm. Ég er að vísu vorkunnlátur maður, og það má þess vegna vera, að það sé sökum þeirrar minnar skapeigindar, að mér rann til rifja, þegar ég sá hv. þm. hér á dögunum undir ræðu hæstv. utanrrh., af því að aldrei hef ég vitað á minni þingævi nokkurn mann svo innikróaðan eins og þennan hv. þm. Hv. þm. reynir nú að brjótast út úr kvínni með þeim málflutningi, sem ég hef nú nokkuð lýst, og ég vildi nú leggja til, að við veittum undanþágu frá þingsköpum og leyfðum hv. þm. að svara.