16.12.1960
Sameinað þing: 25. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1961

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Reynslan varð sú við 2. umr. fjárl., að allar brtt. frá þm. í stjórnarandstöðunni voru felldar, hver og ein einasta. Þetta er auðvitað ekki uppörvandi. En samt vildi ég nú freista þess að bera fram við þessa umr. tvær litlar brtt. Þær eru báðar á þskj. 235, II og V.

Sú fyrri er við 13. gr. fjárl. um, að veittar verði til Vatnsfjarðarbryggju í Norður-Ísafjarðarsýslu 70 þús. kr. Það höfðu komið fram mjög eindregnar óskir um það, að fjárveiting fengist til þess að lengja ofur lítið og breikka þessa bryggju, sem er þýðingarmikið samgöngutæki fyrir héraðið, einkanlega um að breikka bryggjuna það mikið, að hún yrði fær vörubifreiðum. Út af þessu hafði verið um það rætt af Vestfjarðaþm. úr hópi stjórnarliðsins, að þess yrði freistað að fá fjvn. til að taka þessa litlu fjárveitingu upp nú við 3. umr., og hafði ég fram á síðustu stundu búizt við því, að svo yrði gert. En þetta virðist nú hafa annaðhvort gleymzt eða ekki fengið áheyrn, og þá vildi ég ekki láta hjá líða að minna á þetta, og held, að málið sé ekki stærra í sniðum en svo, að það væri vel hægt, ef vilji væri fyrir hendi, að verða við þessu.

Hin till. er um það að heimila ríkisstj. að verja allt að 700 þús. kr. til rekstrar þyrilvængju til póstflutninga, farþegaflutninga og sjúkraflugs um Vestfirði, ef Flugfélag Íslands eða einhverjir aðrir aðilar kynnu að hefja rekstur slíkrar flugvélar á árinu. Það má kannske segja, að ekki séu miklar líkur til þess, að það verði gert, en ef svo yrði gert, þá er hér um svo mikla tilraunastarfsemi að ræða, að það væri alls ekki óeðlilegt, að slík byrjun yrði styrkt af ríkinu, meðan reynsla væri að fást af því, hversu mikilsverð þessi þjónusta væri fyrir fólkið í hinum dreifðu byggðum.

Hér áðan var á það minnzt, að allar líkur væru til, að flugsamgöngur við marga staði á Vestfjörðum féllu niður á þessu ári, vegna þess að hætt yrði flugi sjóflugvélar á Vestfjarðasvæðið, en það hefur einmitt verið sjóflugvél, sem þessum samgöngum við Vestfirði hefur haldið uppi. Þó að nálega sé fullgerður, og svo hafi verið um nokkuð mörg ár, flugvöllur rétt hjá Hólmavík og vanti líklega ekki nema svona 50 metra lengingu á þeim velli, til þess að hann sé nothæfur Dakota-flugvélum, eins og hér var sagt áðan, þá hefur þetta þó dregizt úr hömlu, að því er virðist vegna fjárskorts, mörg undanfarin ár, og nú, þegar sjóflugvélin er að hætta starfsemi, eru allar líkur til þess, að þessi litla lenging á Hólmavíkurflugvellinum, sem ekki fæst framkvæmd, valdi því, að flugsamgöngur við Strandasýslu falli með öllu niður.

Á ýmsum öðrum stöðum á Vestfjörðum, sem á undanförnum árum hafa notið þjónustu sjóflugvélarinnar, hagar þannig til — landslagi er þannig háttað þar í mörgum fjörðunum, — að þar verða ekki gerðir flugvellir, þó að fjármagn væri fyrir hendi. Slíkur staður er t.d. Súgandafjörður. Þar er enginn möguleiki til að byggja flugvöll, og sá staður og það blómlega kauptún, sem þar er, mundi þess, vegna slitna algerlega úr tengslum við flugsamgöngurnar, ef ekki væri reynt eitthvað nýtt í þessum .efnum, og þá kem ég ekki auga á annað en einmitt að gera tilraun með það, hvers virði flug þyrilvængju væri um Vestfjarðasvæðið til þess að annast bæði póstflutninga, farþegaflutninga og sjúkraflug, hvert sem væri í þessum landshluta.

Það er kunnugt, að slíkar vélar þurfa engan flugvöll. Þær geta setzt á hvern sléttan blett sem er. Þyrilvængja getur þess vegna komið á hvaða bæ, sem á þyrfti að sækja sjúkan mann, og hefur stundum verið gripið til aðstoðar herliðsins í Keflavík til þess að fá lánaða þyrilvængju, þegar sérstaklega hefur staðið á. En það er ekki hægt að lifa á slíkum bónbjörgum til langframa, og væri því ekkert eðlilegra en að íslenzka ríkið stuðlaði að því, að ein slík þyrilvængja væri til í eigu ríkisins eða einhvers aðila, sem tæki að sér rekstur slíks samgöngutækis og ræki það. En slíka byrjunarstarfsemi bæri að styrkja af almannafé. Það hefur oft verið um það talað að reka þyrilvængju í sambandi við okkar nýjasta og fullkomnasta varðskip, Óðin, og mun hafa verið gerður nokkur undirbúningur að því. Ég tel því ekki útilokað, að sú hugmynd komist í framkvæmd á árinu 1961, og ef svo yrði, þá væri að sjálfsögðu eðlilegt að staðsetja slíka vél einhvers staðar á Vestfjörðum og ganga úr skugga um það, hvort ekki væri hagkvæmt að annast farþegaflug og póstflutninga og sjúkraflug einmitt með þessu tæki, þegar það væri staðsett í landi og ekki í þjónustu landhelgisgæzlunnar, sem það yrði ekki nema annað slagið. Skipherra á Óðni hefur tjáð mér, að auðvitað komi ekki til mála — það skilur líka hver maður — að hafa þyrilvængjuna staðsetta á skipsfjöl, nema þegar bezt væri og blíðast. Hún yrði að hafa bækistöð sína í landi, og er þá auðvitað sjálfsagt að hafa hana í einhverri notkun fyrir fólkið þess á milli. Það er þetta, sem fyrir mér vakir, og vona ég, að ég hafi gert hv. þm. það skiljanlegt. Ég teldi mjög eðlilegt, að heimild væri fyrir hendi fyrir ríkisstj. til þess að verja nokkurri upphæð fjár til þessara nota, ef til þess kæmi, að einhver aðili keypti þyrilvængju á árinu, og hugsanlegt væri, að slík tilraunastarfsemi væri gerð, sem að mínu áliti mundi ein vera fær um að leysa þau samgönguvandkvæði, sem skapast á Vestfjörðum við það, að sjóflugvélin hættir störfum.