28.02.1961
Efri deild: 67. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í C-deild Alþingistíðinda. (2242)

64. mál, kornrækt

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Þessi síðasta ræða gefur ekki tilefni til þess að lengja þessar umr. mikið frá því, sem orðið er, enda erum við, frsm. meiri hl. og ég, sammála um það, að meginstefna frv. sé rétt og að það sé tímabært að setja löggjöf, sem að þessu lýtur.

Þegar hv. frsm. meiri hl. talaði um, að það hefðu orðið sinnaskipti hjá okkur flm. málsins, á þá leið, að við setjum nú hærri tölur inn í frv. en áður hafa staðið þar, þá má að vissu leyti segja, að það sé rétt. En ástæðan er sú, að verðlag í okkar landi og verðgildi krónunnar er ekki stöðugt, heldur er það á hreyfingu í þá stefnu, að krónunum fjölgar sífellt, jafnframt því sem verðgildi þeirra minnkar, og með tilliti til þess er full ástæða til að breyta tölum í löggjöf eins og þeirri, sem hér er fjallað um, til samræmis við hið almenna verðlag og verðgildi peninga í landinu. En það gaf mér nú sérstaklega ástæðu til þess að standa upp aftur og segja þessi fáu orð, að ég vil endurtaka það, sem áður hefur komið fram í umr., og leggja á það sérstaka áherzlu, að þetta hámark, sem nemur 200 þús. kr. til vélasamstæðu vegna hvers kornræktarfélags, hefur ekki úrslitaþýðingu fyrir þetta mál, vegna þess að það er önnur regla, sem takmarkar framlögin, þ.e.a.s. reglan um 50% af kostnaðarverði vélanna, sem keyptar eru. Og sé kostnaðarverð vélanna lægra en 400 þús. kr., sem hvert kornræktarfélag þarf að standa straum af, þá leiðir það af sjálfu sér af aðalreglu frv., að framlagið fari aldrei fram úr 50%, að það kemur ekki til, að hámarkið hafi áhrif í þessu efni. Hér er því ekki um svo veigamikið atriði að ræða í frv., að það út af fyrir sig eigi að stefna málinu í hættu eða að þingmönnum eigi að þykja það sérstaklega viðsjárvert. Ef menn á annað borð viðurkenna nauðsyn þess að efla kornræktina, viðurkenna réttmæti þess að styðja þá framleiðslugrein hliðstætt því, sem gert er t.d. gagnvart nýræktinni skv. jarðræktarlögum og lögum um jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum, þá er sjálfsagt að fallast á þessa meginreglu um 50% framlag úr ríkissjóði vegna stofnkostnaðar kornyrkjuvéla.