08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

90. mál, fiskveiðar með netum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég er út af fyrir sig alveg sammála tilgangi flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, um, að nauðsynlegt sé að gera einhverjar ráðstafanir til þess að bæta úr um vöruvöndun á fiskafla landsmanna. Hins vegar tel ég ekki, að till. þessi nái þeim tilgangi eða sé eins fljótvirk og annað, sem eðillegt væri að gera, og annað, sem nú þegar er farið að framkvæma, en það er um flokkun á þeim fiski, sem að landi berst. Ég mun þó ekki mæla gegn þessari till., og er það vegna þess, að flm. hafa haldið fram og gera það sjálfsagt með einhverjum rökum, að þetta geti miðað í þá átt að bæta um vöruvöndun á fiskinum.

En það er annað, sem ég vil vekja hér athygli á, og það er það, hvort rétt er af hv. Alþingi að leggja til við hæstv. ríkisstj., að settar séu reglur, sem ég tel að nokkurn veginn sé vitað fyrir fram að ekki sé hægt að framfylgja og ekki verði hægt að fylgjast með. Ég á þá við það ákvæði eða það atriði í till., sem fjallar um takmörkun á veiðarfærum með netum. Frsm. gat þess, að flm. gerðu sér í hugarlund, að hver bátur hefði um 75 net í sjó og væri það hámark, sem leyft væri að bátar færu með. Fyrir þá, sem til þekkja um þessi atriði, virðist vera ákaflega erfitt að gera sér það ljóst, hvernig og hver ætti að fylgjast með því, að bátar hefðu ekki meiri net í sjó en gert er ráð fyrir. Það er vitað, að hver einasti bátur, sem netjaveiðar stundar, hefur svo og svo mikið af tilbúnum netum innanborðs í hverjum róðri til þess að bæta inn í, ef eitthvað fer forgörðum í einhverri af þeirra netatrossum, sem svo eru kallaðar. Ég vildi gjarnan fá um það ábendingu frá hv. flm. þessarar till., hvernig þeir hugsa sér framkvæmdina á þessum málum. Ég sé ekki, að það sé neinn aðili frá löggjafarvaldinu, sem geti fylgzt með því, hvort þessu ákvæði væri í raun og veru framfylgt og hvort það yrði raunhæft. Og þá er spurningin: Er það rétt af Alþingi að leggja til við hæstv. ríkisstj. að gefa út reglur, sem fyrir fram er vitað að ekki verða framkvæmdar og ekki verður hægt að fylgjast með?