08.02.1961
Sameinað þing: 37. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (2388)

90. mál, fiskveiðar með netum

Jón Árnason:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þeirrar þáltill., sem hér er til umr., og sé sérstaklega ástæðu til að segja nokkur orð í sambandi við ræðu hv. 3. þm. Sunnl. (GuðlG).

Það er ekkert óeðlilegt, að fram komi slík fsp. sem þessi í sambandi við afgreiðslu málsins, því að vitanlega skiptir það miklu máli um þessa löggjöf eins og aðrar, hvaða möguleiki er á að framfylgja lögunum. Það er nú svo, að á sínum tíma var komið eins með línuveiðarnar og netaveiðarnar, það gekk langt úr hófi fram, hvað línunotkunin var orðin mikil, og bátarnir voru komnir með það langa linu, að sólarhringurinn entist ekki í róðurinn. Þess vegna var það, að krafa kom frá sjómönnunum sjálfum í þeim efnum að stytta línuna og ákveða, hvað mætti róa með mörg bjóð. En sú krafa kemur fram vegna þess. að álagið í þessu efni var orðið svo mikið á sjómennina, eins og ég sagði áðan, að sólarhringurinn dugði ekki til þess að ljúka við róðurinn. Það gegnir öðru máli í sambandi við þorskanetin, og kann að vera, að afstaða sjómannanna til netanotkunarinnar sé að þeim sökum önnur en í sambandi við línuna, vegna þess að það er ekki nauðsynlegt eins og með línuna að vitja um öll netin í hverjum róðrí. Það er ekki hægt að setja belg á línuna og finna svo spottann, sem eftir er, í næsta róðri. en það er hægt að skilja eftir netatrossuna og láta hana halda áfram að veiða fiskinn og vitja næsta eða þar næsta dag. En við vitum allir, hvaða afleiðingar slíkt hefur í sambandi við vöruvöndunina og í því sambandi að koma með góðan fisk að landi.

Það er eins með þorskanetin og línuna, að það verður að vera eitthvert skynsamlegt hámark, sem ræður í þeim efnum. Og ef þeir, sem afla fisksins og gera skipin út, hafa ekki vit fyrir sér í þessum efnum, þá verða aðrir að koma til. Ég held, að allir séu yfirleitt orðnir sammála um það, að netanotkunin hafi gengið svo langt úr hófi fram, að ekki verði öllu lengur við það unað, að hér verði ekki sett einhver ákvæði um. Og með tilliti til þess er sjálfsagt að miða markið við afkastagetu þeirra, sem eru duglegir og afkasta miklu. Það nær náttúrlega ekki neinni átt, og það er ekki tilgangur þessarar till. eða ætlun flm. þáltill. að setja neinar hömlur á, að þeir, sem duglegir eru, fái að leggja svo mörg net í sjó sem þeir geta afkastað á einum degi eða í einum róðri. Ég álít, að þær hömlur eða takmarkanir, sem beri að setja í sambandi við netaveiðarnar, beri að setja það hátt, að það verði ekki settar hömlur á duglegu mennina, á þá, sem afkasta mestu á sjónum. En hér er um svo þýðingarmikið atriði að ræða í sambandi við bæði útgerðarkostnaðinn og vöruvöndunina, að ég tel, að því verði ekki öllu lengur slegið á frest að setja hér einhver skynsamleg ákvæði um. Ég er þeirri till. samþykkur, sem hér liggur fyrir, og tel, að það hljóti að vera næsta sporið til afgreiðslu á þessu vandasama máli.