01.03.1961
Sameinað þing: 43. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í D-deild Alþingistíðinda. (2394)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið hér í fundarbyrjun, en ég var látinn vita um það, að hér hefði komið fram ósk varðandi meðferð landhelgismálsins, og kom þess vegna hingað til þess að kynna mér, hvað um væri að vera.

Ég tel ástæðu til að segja frá því, að á mánudagsmorguninn bar ég fram þá ósk við hv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. Vestf., að þeir vildu koma til viðtals við mig hingað niður í þinghús kl. hálf tvö þann dag, og það gerðu þeir. Ég var þá að láta þá vita, að ríkisstj. mundi leggja till. varðandi þetta mál fyrir Alþingi þennan dag, á mánudaginn kl. 5, og vildi þá ræða við þá um meðferð málsins. Við ræddum svo þetta mál nokkuð fram og aftur. Ég bar fram ósk um, að þeir féllust á, að útvarpsumr. færu fram um málið á miðvikudagskvöld, þ.e. í dag. En ég heyrði þá þegar, að nokkur tregða var af þeirra hendi um að verða við þeirri ósk, einkum skildist mér það á hv. 2. þm. Vestf. Við ræddum svo málið áfram nokkru síðar, og þá voru fleiri þeirra flokksmenn með þeim, en ég var einn af hálfu stjórnarliðsins.

Það atriði, sem hér er deilt um, var rætt einvörðungu á milli okkar þriggja, Hermanns Jónassonar, hv. 2. þm. Vestf., Einars Olgeirssonar, hv. 3. þm. Reykv., og mín. Það, sem var afgert um málsmeðferðina og allir urðu sammála um, var það, að ég tæki til athugunar, hvort ég sæi mér fært að verða við óskum um það, að útvarpsumræður færu fram á fimmtudag. Ég tjáði þeim svo síðar eftir frekari umr. um málið þennan sama dag, að við féllumst á það, stjórnarliðar, enn fremur, að að loknum þeim útvarpsumr. yrði málið sent til nefndar og yrði þá tekið aftur fyrir hér á þinginu á mánudaginn kemur. Um þetta eru allir sammála.

Nokkur ágreiningur eða misskilningur hefur risið um það, hvort fram skyldi fara ein eða tvær umr. um þetta mál. Ég hef skilið þetta á ákveðinn hátt, hv. 3. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, á annan veg, en hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, sagði: Ég lagði ekkert upp úr því og festi mér það ekkert í minni og læt það mig einu gilda. — Nú er það sannleikur málsins, að ég hafði engan áhuga sjálfur fyrir því, hvort það væri ein umr. eða tvær, og sannast sagna var það að mínu minni hv. 3. þm. Reykv., sem færði það í tal, núverandi gamall forseti úr hv. Nd. og kunnugur þingsköpum, og ég man, að ég sagði við hann: Tala þú um þetta, því að á því hefur þú betur vit en ég. Ég skildi hann þá svo, að það færi fram ein umr. um málið og henni yrði aðeins frestað eftir útvarpsumr. og svo yrði framhald umr., þegar málið kæmi úr nefnd. Ég segi það alveg eins og er, að ég beit mig í þetta, sem hann sagði, vegna þess að ég vissi, að hann hafði miklu meiri þekkingu en ég um þetta. Ég skýrði svo mínum flokki frá þessu.

Þegar ég frétti um þann ágreining, sem hér hefur orðið, og það, að hv. 3. þm. Reykv. teldi, að um þetta hefði ekki verið samið, þá vildi ég þó festa hann á þessu, einkum til þess að slá því föstu, að viðræður okkar á milli stæðu og skilaboð, sem ég flytti mínum flokki, væru áreiðanleg, og ég held mér að þeim skilningi. Hins vegar segir hv. þm., að hann óski eftir hinu. Ég fór þá og ræddi við minn flokk, og með því að öllum mönnum í þeim flokki, Sjálfstfl., var nákvæmlega sama, hvort yrði ein eða tvær umr., þá get ég ekki að þessu sinni um þetta mál rifizt við hann meira og felist á hans óskir um það í umboði míns flokks og með heimild Alþýðuflokksins.