02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2397)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Á langri þingævi minni hef ég aldrei heyrt illan málstað jafnilla varin og stjórnarandstæðingar nú hafa gert, — og þó. Kannske er þetta of harður dómur, þegar á það er litið, að málstaður þeirra er óverjandi. En auk þess finna þessir menn andúðarnepjuna næða um sig frá nær allri þjóðinni, sem búin er að gegnumlýsa þá og sér, að þegar Íslendingar vinna stóran sigur undir forustu ríkisstj. sinnar, þá reiðast þeir, en gleðjast ekki. Fyndnastur fannst mér hv. síðasti ræðumaður, Hermann Jónasson, þegar hann sagði: Nazistar lofa alltaf því gagnstæða við það, sem þeir gera. — Man þessi maður eftir manni, sem myndaði stjórn í júlímánuði 1956, lofaði ýmsu og gerði alltaf það gagnstæða?

Þessi sami maður sagði, að rök ríkisstj. fyrir ágæti samningsins væru eingöngu þau, að Bretar séu sagðir óánægðir. Ég skal nú sýna sannleiksgildi þessarar fullyrðingar.

Á öndverðu þingi báru Alþb. og Framsfl. fram lagafrv. í Ed., en síðan þáltill. í Sþ. varðandi fiskveiðilögsöguna úti fyrir ströndum Íslands. Í umr., sem þá fóru fram, gerðu hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, og hæstv. utanrrh., Guðmundur Í. Guðmundsson, ýtarlega grein fyrir málinu. Þeir skýrðu m.a. frá því, að ríkisstj. teldi mjög æskilegt að eyða deilunni við Breta, ef ekki þyrfti að sæta neinum afarkostum, og drápu á sum helztu rökin, sem að því hníga. Eins og þá stóðu sakir, var ekki auðið að segja allt um málið án þess að eiga á hættu að skaða hagsmuni Íslendinga. Nú, þegar málið er á lokastigi og við höfum bindandi tilboð frá Bretum um lausn þess, þarf engu að leyna.

Rétt tel ég að benda á, að meðferð landhelgismálsins eftir Genfarráðstefnuna 1958 var af Íslands hálfu með þeim hætti, að sú gagnrýni, sem að okkur hefur verið stefnt af þeim sökum, er vel skiljanleg, og hæpið, að smáþjóð geti oft leikið slíkan leik. Menn athugi, að Genfarráðstefnan var haldin til þess að ákveða víðáttu landhelginnar. Íslendingar tóku þátt í ráðstefnunni án alls fyrirvara og viðurkenndu í rauninni með því, a.m.k. að vissu leyti, að ákvarðanir ráðstefnunnar skyldu marka stefnuna. Okkar óskir lutu þar í lægra haldi. Við héldum heim og tilkynntum, að þrátt fyrir þetta hefðum við ákveðið að skammta sjálfum okkur 12 mílna fiskveiðilandhelgi. Bretar svöruðu: Þetta er ólöglegt athæfi. Úthafið er afrétt okkar beggja og raunar margra annarra. Við munum vernda hagsmuni fiskimanna okkar. Látum okkur a.m.k. ræða málið. Svar okkar var: Við ykkur höfum við helzt ekkert að tala. — það var þá, sem Bretar sendu herskip sín hingað.

Ég hef alltaf talið, að hyggilegra hefði verið að halda öðruvísi á málinu. Um það má auðvitað alltaf deila og þýðingarlaust úr þessu. Og hvað sem öðru líður, er það staðreynd, að þegar menn berjast fyrir hagsmunum þjóðar sinnar, gilda nokkuð önnur lögmál en í einkaviðskiptum manna. Og vilji einhver á okkur deila út af málsmeðferðinni, hverfum við án efa í ljósi eða skugga þeirrar yfirsjónar Breta að senda flota sinn inn í landhelgi okkar.

Í hinni ýtarlegu grg., sem fylgir þáltill. ríkisstj., er saga landhelgismálsins rakin og rökin lögð á borðið. Hæstv. utanrrh. hefur nú einnig skýrt málíð. Ég skal ekki endurtaka þessi rök nema að litlu leyti, heldur aðeins lýsa gleði minni yfir því. að með þessari lausn málsins hefur mikið og viðkvæmt vandamál verið leyst og fullar sættir tekizt milli gamalla vinaþjóða. Ég fer ekki dult með, að mér er mikið gleðiefni, að sáttagerðin ber órækt vitni um sáttfýsi Breta og sýnir, að þeir skilja hvort tveggja, að öll afkoma Íslendinga veltur á landhelginni, sem og hitt, að vestræn samvinna fær aldrei staðizt, ef stærsti bróðirinn brýtur upp búrhurð hins minnsta, leggur sér matarforða hans til munns og skilur hann eftir í svelti. Og þetta gildir alveg jafnt, hvort sem slíkt atferil á sér stoð í lögum eða ekki. Þetta er og verður kjarni málsins. En hitt ber að játa, að frá brezkum sjónarhól blasir margt fleira við, og erum við menn að meiri, ef við reynum einnig að sjá þeirra hlið á málinu.

Í haust, þegar forsætisráðherra Breta, herra Macmillan, samkv. ósk íslenzku ríkisstj. kom við á Íslandi á leið sinni til New York, átti ég við hann nokkurra stunda viðtal. Við ræddumst við einir og af fullri hreinskilni. Ein af þeim myndum, sem forsrh. brá þá upp fyrir mér, var af brezku togaramönnunum. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þeir væru kjarni enska sjóliðsins, sem ætti hvað veigamesta þáttinn í því, að Bretar og bandamenn þeirra unnu báðar heimsstyrjaldirnar. Þessir menn væru því hans og margra annarra uppáhald, sem brezka þjóðin og raunar allur hinn frjálsi heimur stæði í þakkarskuld við. Öll skerðing á afrakstrinum af starfi þeirra ylli því brezkum stjórnarvöldum miklum sársauka o.s.frv. Þá rökstuddi herra Macmillan mjög vel það sjónarmið, að meðan Bretar ekki viðurkenndu 12 mílna fiskveiðilandhelgina, bæri stjórninni skylda til að hindra töku og refsingu brezkra skipa. Frá brezku sjónarmiði hefðu þeir ekki brotið af sér, og Íslendingar gætu ekki með sanngirni krafizt þess, að Bretar beygðu sig fyrir einhliða ákvörðunum um, að íslendingar helguðu sér úthafið sem einkaeign og vildu ekki svo mikið sem ræða málið við Breta. Ég vona, að ég brjóti ekki þagnarheit, þótt ég nú að leikslokum greini frá þessum hluta af okkar löngu viðræðum.

Mín gagnrök skipta Íslendinga minna. Þau eru öll kunn. En mesta áherzlu lagði ég á þetta: Ég tel aðgerðir Íslendinga reistar á lögum og rétti. A.m.k. kann ég engin lög og engar reglur, sem banna 12 mílna fiskveiðilandhelgi. En hvað sem því líður, hvort heldur mannanna lög eru með okkur eða móti, þá eru guðs lög með okkur, þ.e.a.s. helgur réttur lítillar, dugmikillar menningarþjóðar til þess að lifa frjáls og öðrum óháð í landi sínu. Og þennan rétt má enginn skerða, meðan við höfum dug og áræði til þess að berjast við vetrarmyrkur, storma og stórsjói og sækja greipar Ægis þá fjármuni, sem 180 þús. sálir þurfa til að lifa menningarlífi í stóru landi. Íslenzka ríkið væri tilraun minnstu þjóðar veraldarinnar til að lifa menningarlífi á borð við stærstu menningarþjóðirnar, — tilraun, sem væri einstök í veraldarsögunni, — tilraun, sem mundi heppnast, ef við kynnum fótum okkar forráð og ef ekki yrði framið innbrot í fjárhirzlu okkar, þ.e.a.s. fiskveiðilandhelgina. Allir Íslendingar vissu, að í okkar lögmáli stæði: landauðn eða landhelgi.

Ég rek ekki frekar viðræður mínar við forsrh. Breta. Ég skal ekki heldur tíunda hér þau hin sterku rök, sem aðrir ráðherrar hafa fram borið okkur til styrktar, en þar eiga þeir hæstv. utanrrh. og hæstv. dómsmrh. fyrst og fremst hlut að máli. Minni ég í því sambandi m.a. á sakaruppgjöf dómsmrh. að aflokinni Genfarráðstefnunni og viðræður utanrrh. við utanrrh. Breta rétt fyrir áramótin, en hvort tveggja þetta á ómetanlegan þátt í þeirri prýðilegu lausn, sem nú hefur náðst.

En, segja menn, yfir hverju er verið að býsnast? Er það nokkuð að miklast af að láta Breta svínbeygja sig? Nei, ekki ef svo er. En sé það Bretinn, sem hefur látið undan síga, þá er það að sönnu honum mest til sóma, en kannske líka nokkuð ríkisstj. Íslands og þá einkum þeim ráðh., sem málið fellur undir, og samninganefndarmönnum þeirra, en allir þessir menn hafa skýrt þarfir og rétt okkar, og með sterkum rökum, hóflegum, en einörðum málflutningi hefur þeim tekizt að skapa okkur þá samúð, sem ein gat leitt til þess ágæta samkomulags, sem við nú eigum kost á. Hófst sú viðureign í Genf á s.l. vori og hefur staðið nær linnulaust alla tíð síðan.

En er þetta þá nokkurt afrek, sem unnið hefur verið? spyr einhver.

Þeim, sem vilja gera sér rétta grein fyrir því, er hollt að hafa til samanburðar það tilboð, sem vinstri stjórnin gerði NATO og þá fyrst og fremst Bretum, þegar leitazt var við að fá þá til að viðurkenna rétt okkar til 12 mílna landhelginnar sumarið 1958, rétt áður en reglugerð okkar um 12 mílurnar var gefin út og einnig skömmu áður en hún tók gildi. Skeytin, sem Hermann Jónasson forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar þá sendi Spaak framkvæmdastjóra NATO með samþykki Finnboga Rúts Valdimarssonar og án efa með vitund ráðh. Alþb. í ríkisstj., þeirra Lúðviks Jósefssonar og Hannibals Valdimarssonar, hafa verið birt og eru því þjóðinni kunn. Af þeim er ljóst, að Hermann Jónasson bauð þá Bretum full afnot af ytri 6 mílunum í þrjú ár og gegn því einu, að Bretar að loknu því tímabili viðurkenndu einkarétt Íslendinga á 12 mílunum auk lítils háttar breyt. á grunnlínum. Þessu tilboði höfnuðu Bretar þá.

Nú hins vegar fá Bretar aðeins lítinn hluta þessara fríðinda. Nú fá þeir aðeins rétt til að vera frá 3–8 mánuði á ári á ytri 6 mílunum í þrjú ár, þ.e.a.s. frá 9–24 mánuði alls á öllu tímabilinu, í stað 36 mánaða samkv. tilboði vinstri stjórnarinnar. Sé eingöngu miðað við flatarmál veiðisvæðanna og lengd veiðitímanna á hverju veiðisvæði, kemur í ljós, að fríðindi Breta jafngilda aðeins rúmum 1/4 hluta þess, sem vinstri stjórnin bauð 1958. Hún bauð þá afnot allra ytri 6 mílnanna, sem eru um 20500 km2, í þrjú ár, allt árið, alls staðar og alltaf. Nú heimilast Bretum hins vegar aðeins veiðar á sem svarar 5500 km2 svæði í þrjú ár og gegn því, að Ísland fái sem einkaeign þegar í stað að heita má jafnstóran viðauka á úthafinu utan 12 mílnanna, eða 5065 km2, og ekki aðeins til þriggja ára, heldur um allra framtíð.

Þetta er ótrúlegt, segja menn. Já, það er satt. En samkomulagið er okkur samt sem áður enn hagstæðara en þessar tölur gefa til kynna. Það stafar af því, að auðvitað höfum við af fremsta megni leitazt við að miða við þann tíma ársins, sem veiðar Breta eru okkur skaðminnstar. En auk þessa er svo á hitt að líta, sem afar miklu máli skiptir, að á aðalaflamiðum Íslendinga er veiðitíminn stytztur og grunnlínustækkanirnar mestar, eins og bezt sézt af því, þegar athugað er, að á veiðisvæðinu frá Vestmannaeyjum til Stykkishólma veiddist árið 1950 70.3% af heildaraflamagni bátaflotans. Á öllu þessu veiðisvæði er veiðitími Breta 3 árin samtals aðeins 9 mánuðir.

Er þá loks þess ógetið, sem mestu skiptir, en það er, að á þessum helztu veiðistöðvum okkar fá Bretar aðeins þriggja ára afnot af sem svarar 755 km2, en viðurkenna fyrir sitt leyti að afhenda Íslendingum strax nýja og um alla framtíð óafturkallanlega stækkun friðunarsvæðisins utan 12 mílnanna, sem nemur hvorki meira né minna en 3060 km2. Menn taki eftir: Á langdýrmætustu fiskimiðunum lánum við Bretum afnot af 755 km2 svæði í enn þrjú ár, en fáum á þessum stöðum í staðinn, auk alls annars, nú þegar og um alla framtíð meir en fjórum sinnum stærra svæði utan 12 mílnanna, eða 3060 km2. Þetta leyfi ég mér að kalla tíðindi.

Enn er þess ógetið, að fyrir öllum Vestfjörðum og á nokkrum öðrum stöðum viðurkenna Bretar 12 mílna landhelgina þegar í stað.

M.ö.o.: það, sem við nú látum, er aðeins lítið brot af því, sem vinstri stjórnin bauð árið 1958, en það, sem við nú fáum, er hins vegar svo ósambærilega margfalt meira en vinstri stjórnin bað um, að tæplega er saman berandi.

Ég skal ekki um það dæma, hvort eða að hve miklu leyti Íslendingar hefðu getað fengið sér tildæmdan einhvern rétt til útfærslu á grunnlínum fyrir alþjóðadómstóli. En það er ljóst mál, að mat núv. stjórnarandstæðinga, þeirra sem hér hafa verið að tala, á líkunum til þess hefur ekki einkennzt af bjartsýni. Um það vitnar sú staðreynd, að þegar landhelgin var færð út 1958, var ekki hirt um að færa út grunnlínurnar, og ber hitt þó enn þá meiri vott um skeytingarleysi eða svartsýni af hendi þessara manna um hugsanlegan rétt Íslendinga í þessum efnum, að fyrir þessu þingi liggur lagafrv., flutt af Alþb. og Framsfl., þar sem lagt er til, að lögfestar verði núgildandi grunnlínur, en ekki svo mikið sem minnzt á þá 5065 km2 útfærslu þeirra, sem við nú höfum fengið viðurkenningu Breta á okkur til handa. Þessi lítilþægni stjórnarandstæðinga er ekki til fyrirmyndar, heldur víti, sem núv. ríkisstj. hefur haft vit á að varast.

Þá vil ég aðeins víkja að því örfáum orðum, að þrátt fyrir þetta samkomulag munu Íslendingar að sjálfsögðu halda áfram baráttunni á alþjóðavettvangi fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar og hagnýta sérhvern aukinn rétt, jafnóðum og hann fellur til að okkar mati. Íslendingar munu án efa telja sér hagkvæmt að rasa ekki um ráð fram, þ.e.a.s. gera ekki aðrar ráðstafanir en þær, sem við teljum að fái sennilegast staðizt fyrir óhlutdrægum alþjóðadómi. En héðan af er líka tryggt, að það verður ekki ofbeldið, ekki hervaldið, sem sker úr, hvort aðgerðir okkar verða virkar eða að meira eða minna leyti aðeins pappírsgagn, eins og var 1958, heldur alþjóðalög og réttur, eins og hann á hverjum tíma er að mati óhlutdrægra dómara. Þetta tel ég einna mesta vinning Íslendinga af þessu ágæta samkomulagi. Hygg ég, að þegar rennur af framsóknarmönnum, verði þeir að sættast á þetta sjónarmið, enda hefur Framsfl. frá öndverðu fallizt á að láta Haagdóminn dæma í landhelgismálum okkar. Þannig var það stjórn Steingríms Steinþórssonar, en í henni sátu bæði Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson, sem bauðst til að vísa landhelgisdeilunni við Breta til Haagdómstólsins 1953. Og fáir Íslendingar hafa betur lýst nauðsyn Íslendinga og raunar allra smáþjóða á því, að deilur verði útkljáðar fyrir alþjóðadómi, en ekki með ofbeldi, en einmitt höfuðlögfræðingur stjórnarandstöðunnar, Ólafur Jóhannesson prófessor, gerði á Alþingi í haust.

Að lokum vil ég segja þetta: Þessir samningar eru okkur svo hagstæðir, að sumum finnst, að ótrúlegt sé. Mitt mat er, að þeir séu okkur ósambærilega miklu hagstæðari en þótt okkur hefðu boðizt 12 mílurnar óskiptar og skilmálalaust þegar í stað. Þegar þess er gætt, að þetta samkomulag er endir á deilu milli fámennustu sjálfstæðu þjóðar veraldarinnar og eins mesta stórveldis heims, þá verður að viðurkenna, að það er rétt, að með því hafa Íslendingar unnið einn sinn allra stærsta sigur á sviði stjórnmálanna. Auk þess er samkomulagið Bretum til sóma. Þessu samkomulagi getur því enginn hafnað annar en sá, sem vill hætta lífi og fjármunum íslenzkra sjómanna og íslenzku þjóðarinnar í því einu skyni að glæða elda ófriðar við Breta, og svo hinir, sem vita ekki, hvað þeir gera.

Ég veit, að þjóðin fagnar þessari farsælu lausn hinnar löngu og leiðu deilu við Breta af heilum hug. Og úr þessu fækkar þeim áreiðanlega, sem til skamms tíma letruðu á skjöld sinn: „Samningar eru svik“. Það er líka boðskapur, sem réttara er að flytja öðrum en viti borinni þjóð, sem liggur á mörkum austurs og vesturs og veit, að einasta lífsvon mannkynsins er, að ólíkir hagsmunir og lífsskoðanir semji um deilumál sín, og þar með, að hroðalegustu svikin, sem auðið er að fremja gegn öllum þjóðum veraldarinnar, eru einmitt þau að svíkjast um að semja.