02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2403)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í ræðum ráðh. hér í kvöld hefur það komið fram, að þeir telja sig hafa fordæmi fyrir því, sem þeir hafa gert, í viðræðum þeim, er fram fóru 1958, áður en fiskveiðilandhelgin var færð þá út. Þessu hefur seinasti ræðumaður nú svarað, og þarf engu við það að bæta, en það aðeins áréttað, að í þeim viðræðum var aldrei léð máls á því að afsala réttinum til frekari einhliða útfærslu landhelginnar. En afsölun þessa réttar er meginatriði samkomulagsins við brezku stjórnina, sem ríkisstj. hefur nú gert.

Hæstv. ráðh. segja enn fremur, að Íslendingar hafi flutt tillögur á hafréttarráðstefnunni 1958 þess efnis, að þeir gætu sætt sig við gerðardóm. Í þeirri till., sem hér er átt við, fólst engin takmörkun á útfærslu sjálfrar fiskveiðilandhelginnar, heldur fjallaði hún eingöngu um friðun vissra svæða á úthafinu, þ.e.a.s. utan sjálfrar fiskveiðilandhelginnar, sem nauðsyn bæri til að friða vegna eyðingar á fiskstofninum. Íslenzka gerðardómstillagan, sem flutt var á hafréttarráðstefnunni í fyrra, gekk nokkru lengra. En hún var líka flutt gegn eindregnum mótmælum fulltrúa Framsfl. í sendinefndinni. Það er því algerlega rangt, að Framsfl. hafi nokkru sinni léð máls á því, að réttur Íslands til frekari útfærslu fiskveiðilandhelginnar yrði háður gerðardómsákvæði.

Hæstv. fjmrh., sem er langmestur loddari af ráðh., sýndi það greinilega, að þegar ráðh. tala fagurlega um einhvern hlut, þá meina þeir hið gagnstæða. Hæstv. fjmrh. talaði með miklum fjálgleik um það, að okkur bæri að halda fast á rétti okkar til landgrunnsins. Með samkomulaginu við Breta er raunverulega verið að ógilda landgrunnslögin og hinn einhliða rétt okkar til landgrunnsins og gera rétt okkar til þess háðan samþykki Breta eða alþjóðadómstóls. Samt er loddaraskapur hæstv. fjmrh. svo mikill, að hann þykist standa trúan vörð um landgrunnið. Sami hæstv. ráðh, talaði líka af miklum fjálgleik um Haagdóminn og hve mikið traust smáþjóðirnar bæru til hans. Þetta er því miður ekki rétt, því að margar smáþjóðir hafa einmitt að undanförnu látið uppi óánægju yfir skipun dómsins, vegna þess að stórveldin ráði áhæfilega miklu um hana, en enginn maður nær kosningu í dóminn, nema hann sé kjörinn af öryggisráðinu, en þar ráða stórveldin langsamlega mestu. Af þessum ástæðum m. a. hefur Haagdómurinn enn ekki unnið sér tiltrú smáþjóðanna, eins og sést á því, hve fáar þeirra hafa vísað málum til hans og margar þeirra hafa tekið upp baráttu fyrir breyttri skipan hans.

Vegna þess að ég hef talið mig persónulegan kunningja hæstv. menntmrh., fannst mér sorglegt að hlusta á mál hans. Hann talaði nær ekkert um málið, sem hér liggur fyrir, en eyddi mestu af tíma sínum til þess að reyna að setja kommúnistastimpil á Framsfl. að hætti Mac Carthys hins ameríska. Á ráðh. varð ekki annað skilið en það væri kommúnismi að vilja ekki afsala rétti Íslands til einnliða útfærslu á landhelginni, og nægir það til að sýna, á hvert andlegt stig ráðh. er kominn.

Ráðherrarnir hafa hreykt sér mjög af því, að Bretar telji samkomulagið óhagstætt fyrir sig. Þekkja þeir ekki þá grundvallarreglu enskra utanríkismála, að Bretar reyna jafnan að tefla þannig, að andstæðingurinn áliti sig vera að vinna, þegar hann er raunverulega að tapa? Ríkísstjórn Elísabetar leikur nú sömu listina við íslenzku ríkisstj. og ríkisstjórn Viktoríu lék við negrahöfðingjana í Afríku á öldinni, sem leið. Bretar töldu negrahöfðingjunum trú um, að Viktoría væri þeim undirgefin, á sama tíma og stjórn hennar hátignar var að hneppa þá í nauðungarfjötra.

Ráðh. hafa sagt, að samkomulag þeirra við brezku stjórnina sé mikill sigur í sjálfstæðisbaráttunni. Hvernig er hann í reynd, þessi sigur, sem á að hafa unnizt? Bezta svarið við því er að bera saman ástandið í landhelgismálunum, eins og það er í dag og eins og það verður, ef samkomulag ríkisstj. við brezku stjórnina kemur til framkvæmda.

Í dag er ástandið í landhelgismálunum þannig, að við höfum óskerta 12 mílna fiskveiðilandhelgi umhverfis allt landið, sem aldir erlendir togarar, þ. á m. brezkir togarar, hafa virt um margra mánaða skeið. Auk þess höfum við óskoraðan einhliða rétt samkvæmt landgrunnslögunum frá 1948 til friðunarráðstafana innan endimarka landgrunnsins og þurfum engan að spyrja um, hvenær eða hvernig við notfærum okkur þann rétt. Hvernig verður svo ástandið, eftir að samkomulagið gengur í gildi? Í fyrsta lagi verður það þannig, að nær alls staðar umhverfis landið, að Vestfjörðum undanskildum, verður ekki í reynd nema 6 mílna fiskveiðilandhelgi, þegar veiðitíminn er beztur á hverju svæði. Í öðru lagi höfum við ekki lengur hinn lífsnauðsynlega rétt að geta fært fiskveiðilandhelgina út einhliða, heldur verðum við háðir samþykki Breta eða alþjóðadómstóls. Það liggur því ljóst fyrir, að samkv. þessu samkomulagi minnkum við fiskveiðilandhelgina raunverulega úr 12 mílum í 6 mílur víðast hvar umhverfis landið á bezta veiðitímanum og glötum hinum mikilvæga rétti til einhliða útfærslu landhelginnar. Geta menn hugsað sér meiri blekkingar og argari öfugmæli en að kalla þetta sigur í sjálfstæðisbaráttunni?

Hæstv. ráðh. hafa hampað því hér í kvöld, að fyrir þetta augljósa réttindaafsal fengjum við mikilsverð hlunnindi. Ráðh, hafa nefnt, að nú sé fengin fullgild viðurkenning Breta. Þetta eru hin óskammfeilnustu ósannindi, því að Bretar lofa aðeins að hætta mótmælum, en það er vissulega allt annað en fullgild viðurkenning. Í samkomulaginu eða orðsendingu utanrrh. er ekki minnsta trygging fyrir því, að Bretar telji sig ekki alveg óbundna að þremur árum liðnum.

Ráðh. hafa einnig sagt í kvöld, að nú hætti Bretar að beita herskipum til ofbeldisverka innan fiskveiðilandhelginnar. Bretar hafa ekki treyst sér til að gera þetta mánuðum saman vegna fordæmingar almenningsálitsins í heiminum og þeirrar reynslu, að ekki er hægt með neinum árangri að stunda togveiðar undir herskipavernd. Það þurfti því ekki að kaupa þá til að hætta því, sem þeir voru hættir.

Þá segir ráðh., að við höfum fengið leiðréttingu á grunnlínum. Til þess að fá þessa leiðréttingu þurfti enga samninga við Breta. Þó að samkv. einróma samþykktum hafréttarráðstefnunnar í Genf 1958 áttum við skýlausan rétt til þessara leiðréttinga og gátum notað þann rétt, hvenær sem við vildum. Við hefðum notað þennan rétt strax 1958, ei ekki hefði þá strandað á Sjálfstfl. og Alþfl.

Samkvæmt þessum samþykktum Genfarráðstefnunnar 1958 eigum við ekki aðeins rétt til þeirra breytinga, sem nú eru gerðar, heldur til stórfelldra grunnlínubreytinga við Norðurland og Austurland, í sambandi við Grímsey og Hvalbak, og víðar við landið. Fram að þessu höfum við getað notað okkur þennan rétt, hvenær sem okkur hefur þóknazt. Ef samkomulagið gengur hins vegar í gildi, getum við ekki leiðrétt grunnlínurnar við áðurnefnda staði nema með samþykki Breta eða úrskurði alþjóðadóms, og það getur vel tekið 5–6 ár að fá slíkan úrskurð.

Sannleikurinn um grunnlínubreytingarnar er því sá, að við höfum ekki áunnið okkur þar neinn nýjan rétt, heldur er raunverulega verið að takmarka stórkostlega þann rétt, sem við eigum nú til stórfelldra grunnlínubreytinga við Norður- og Austurland og víðar. Það falla því um sjálf sig öll rök hæstv. ráðherra fyrir því, að hægt sé að benda á einhvern ávinning í sambandi við þetta samkomulag. Við fáum ekki neitt með því, en við fórnum hættulega miklu.

Hæstv. ráðh. segja, að ekki sé hundrað í hættunni, því að undanþágur fyrir erlenda togara eigi ekki að gilda nema í 3 ár. En hvað sögðu þessir hæstv. ráðh. fyrir síðustu kosningar? Þeir sögðu þá, að það ætti aldrei að veita neinar undanþágur. Þeir sóru það þá og sárt við lögðu. Nú eru þeir þó búnir að veita undanþágu til þriggja ára. Hvað mundu þeir gera að þeim þrem árum liðnum, ef þeir hefðu völdin? Nokkra vísbendingu um það er að finna í grg. till., sem hér liggur fyrir, en þar er bent á brezk-rússneska landhelgissamninginn sem sérstaka fyrirmynd og það tekið fram, að hann hafi verið framlengdur hvað eftir annað. Og jafnvel þótt undanþágur féllu niður eftir 3 ár, vegna þess að önnur ríkisstj. yrði komin til valda, stendur eftir sem áður, að við erum búnir að afsala okkur um ófyrirsjáanlegan tíma réttinum til frekari einhliða útfærslu fiskveiðilandhelginnar, einum mikilvægasta réttinum, sem við eigum í dag.

Ráðh. hafa í umr. hér í kvöld reynt að gera lítið úr hinum einhliða rétti til útfærslu, hann sé lítils virði, þegar um sé að ræða andspyrnu annarra þjóða. Það var þó á þessum rétti, sem við byggðum útfærslurnar 1952 og 1958 gegn mótmælum annarra. Landhelgin væri í dag 3 mílur og mestallir stærri firðir og flóar utan hennar, ef við hefðum ekki notað hinn einhliða rétt gegn mótmælum annarra. Þeir einir geta talið hinn einhliða rétt einskis virði, sem álita útfærslu landhelginnar árin 1952 og 1958 hafa reynzt okkur einskis virði þau ár, sem síðan eru liðin. Eins og við stækkuðum landhelgina á grundvelli hins einhliða réttar í bæði þessi skipti, eins gætum við haldið því áfram í nýjum áföngum, ef þessi réttur væri ekki látinn af hendi, eins og nú er ætlunin að gera.

Hvað er það, sem er raunverulega orsök þess, að ríkisstj. fórnar svona miklu án þess að fá nokkuð í staðinn? Orsökin er hin algera undirgefni, sem jafnan hefur einkennt alla framkomu foringja núv. stjórnarflokka í afstöðu þeirra til Bretlands og Bandaríkjanna. Þeir hafa jafnan skilið þátttöku Íslands í samstarfi vestrænna þjóða á þann veg, að Íslendingar ættu að sitja og standa eins og stjórnirnar í London og Washington vildu. Afstaða þeirra til London og Washington hefur verið á nákvæmlega sama veg og afstaða línukommúnista til Moskvu. Foringjum stjórnarflokkanna hefur ekki skilizt, að þótt við eigum um margt sameiginlega hagsmuni með Bretum og Bandaríkjamönnum, þá rekast hagsmunir okkar og þeirra oft á, og þá er ekki nema eðlilegt, að t.d. Bretar hugsi meira um hagsmuni sína en okkar. Í stað þess að skilja þetta hafa foringjar stjórnarflokkanna talið sér skylt og sjálfsagt að gera það eitt, sem stjórnirnar í London og Washington óskuðu, oft og tíðum án alls tillits til íslenzkra hagsmuna.

Vegna samstarfs við aðra flokka á undanförnum árum hefur þessi þjónustuafstaða foringja Sjálfstfl. og Alþfl. gagnvart Bretum og Bandaríkjamönnum oft ekki komið eins glöggt í ljós og ella. Það er í þessu sambandi fróðlegt að rifja upp, að við áttum í landhelgisdeilu við Breta á árunum 1952–1956 og leiddum hana til lykta með fullum sigri. Hvers vegna var ekki látið undan þá eins og nú? Hvers vegna stóðum við þá af okkur löndunarbannið og aðrar tilraunir Breta til að neyða okkur til undanhalds? Það var vegna þess, að allan þann tíma sat Framsfl. í ríkisstj. og neitaði að láta undan í hvert sinn, þegar Sjálfstfl. vildi svíkja og semja. Þess vegna vannst fullur sigur í þeirri deilu, og sæmd þjóðarinnar óx meðal annarra þjóða.

Ég er í hópi þeirra, sem telja þátttöku Íslands í samstarfi vestrænna þjóða eðillega. Hún getur orðið okkur til margvíslegs gagns, ef rétt er á haldið. En hún getur líka orðið okkur til tjóns, ef við leyfum stórveldum að troða þar á rétti okkar, þegar hagsmunir þeirra og okkar rekast á. Við eigum að taka þátt í vestrænu samstarfi til þess að tryggja og treysta rétt okkar, eins og gert var á árunum 1952 og 1956, en ekki til þess að láta rétt okkar af hendi, eins og nú er verið að gera.

Það er staðreynd, sem verður ekki á móti mælt, að þjóðin var búin að vinna fullan sigur í þessari hinni síðari landhelgisdeilu við Breta. Einhugur þjóðarinnar, einurð og drengileg framkoma áhafna íslenzku varðskipanna, erfiðleikar Breta við fiskveiðar undir herskipavernd og samúð almenningsálitsins í heiminum, — allt stuðlaði þetta að því, að Bretar hrökkluðust með herskip sín úr íslenzkri landhelgi fyrir mörgum mánuðum og hafa ekki þorað að senda þau þangað aftur og mundu aldrei hafa þorað að senda þau þangað aftur. Fullnaðarsigur í þessu máli var því raunverulega unninn. Þessum mikla sigri þjóðarinnar hefur nú verið breytt í hinn mesta ósigur. Það hefur verið afsalað hinum dýrmætasta rétti þjóðarinnar, réttinum til einhliða útfærslu, og erlendum togurum hleypt inn í landhelgina á ný, án þess að nokkuð hafi fengizt í staðinn, er við áttum ekki fyrir eða vorum ekki búnir að vinna.

Hér hefur sannarlega gerzt einn hörmulegasti atburður allrar Íslandssögunnar, — atburður, sem vel getur átt eftir að kippa grundvellinum undan einum helzta atvinnuvegi okkar, sjávarútveginum, þar sem afnuminn er rétturinn til frekari einhliða útfærslu á fiskveiðilandhelginni. Að því leyti er þessi nýi samningur við Breta miklu verri en landhelgissamningurinn 1901, að þeim samningi var hægt að segja upp, en þessi nýi samningur er óuppsegjanlegur að því er snertir bannið á útfærslu fiskveiðilandhelginnar.

Ég vil ljúka máli mínu með því að vitna til ummæla Eysteins Jónssonar, sem vegna forfalla getur ekki tekið þátt í þessum umræðum, en þau er að finna í Tímanum í dag. Eysteinn segir m. a. á þessa leið:

„Ég læt í ljós það traust á þjóðinni, að hún bregðist við nú þegar og reisi slíka öldu gegn samningnum, að ekki verði talið fært að halda honum til streitu. Þetta er hægt, ef menn liggja ekki á liði sínu, en láta í þess stað skoðanir sínar óhikað í ljós. En menn verða að bregða skjótt og skörulega við með fundarhöldum og ýmsu öðru móti, því að tíminn er naumur. En sigurinn er líka vís, ef allir fara af stað, sem samstöðu eiga gegn þessum samningi.“