02.03.1961
Sameinað þing: 44. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (2404)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er rétt, að íslenzka þjóðin þarf og á að láta til sín heyra í þessu mikla máli. Hún hefur brugðið skjótt við. Hvaðanæva streyma nú, eins og stjórnarandstæðingar hafa viðurkennt, yfirlýsingar frá þeim, sem bezt hafa vit á og mest eiga í húfi, til stuðnings þáltill., sem hér liggur fyrir. Hv. þm. Karl Guðjónsson hélt því raunar fram áðan, að þetta væri vegna þess, að ríkisstj. hefði haft svo mikinn áróður í frammi máli sínu til stuðnings og útvarpið hefði verið misnotað í því skyni. Það voru einmitt stjórnarandstæðingar, sem fengu frestað útvarpsumr., en ríkisstj. vildi, að rödd þeirra fengi að heyrast fyrr til þjóðarinnar en þeir sjálfir óskuðu eftir.

Hv. þm. Karl Guðjónsson var á fundi í gærkvöld sem heiðursgestur flokkssamtaka Framsóknar á Suðurlandi, þar sem þeir félagar höfðu undirbúið tvær miklar tillögur til áfellis þessu samkomulagi og til vantrausts á hæstv. ríkisstj. En þegar þeir félagar sáu og heyrðu undirtektir fundarmanna, gáfust þeir upp við að bera upp sínar eigin tillögur og fóru þess á leit að mega slíta fundinum, áður en héraðsmenn fengju sjálfir að taka til máls. Þeir voru þá búnir að fá nóg.

Allir eru sammála um, að ályktunin, sem Alþ. Íslendinga gerði shlj. 5. maí 1959, sé sú umboðsskrá, sem ríkisstj. hafi verið bundin við um meðferð þessa máls. Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 9 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem þvílíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Þannig hljóðaði þessi ályktun, umboðsskráin, sem ríkisstj. bar að fara eftir.

Í ályktun þessari eru fjögur efnisatriði:

Í fyrsta lagi mótmælir Alþingi brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld efndu til með ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar fiskveiðilandhelgi.

Í öðru lagi lýsir Alþingi yfir, að það telur Ísland eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi.

Í þriðja lagi, að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.

Í fjórða lagi, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948.

Í fyrsta lið orðsendingar utanríkisráðherra Íslands til utanrrh. Bretlands, sem hér liggur fyrir, segir:

Ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland o.s.frv.

Með staðfestingu brezku ríkisstj. á þessu frumskilyrði okkar er tryggt, að ofbeldisaðgerðir af hennar hálfu innan fiskveiðilandhelgi okkar hverfi úr sögunni. Mótmæli Alþingis gegn þeim hafa þess vegna borið tilætlaðan árangur. En áður hafði ríkisstj. Íslands með sakaruppgjöfinni s.l. vor og ákvörðuninni um viðræður við Breta á s.l. sumri tekizt að hindra þær að mestu um sinn.

Ákvörðun brezku ríkisstjórnarinnar um að falla frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni tryggir ekki einungis, að hún taki ekki upp ofbeldisaðgerðir að nýju, heldur felur ákvörðunin einnig í sér, að héðan í frá muni brezka stjórnin ekki bera brigður á hinn ótvíræða rétt, sem Alþingi Íslendinga hinn 5. maí 1959 lýsti yfir að Ísland hefði til 12 mílna fiskveiðilögsögu, og þetta heitorð er helgað með skrásetningu, þinglýsingu, hjá sjálfum Sameinuðu þjóðunum til tryggingar því, að við það verði staðið. Héðan í frá verður ekki um það deilt, að Íslandi einu ber þessi réttur og það getur þar af leiðandi án samráðs við aðra ráðstafað honum eins og það telur sér henta.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson og Hermann Jónasson héldu því að vísu fram, að með þessu væri ekki fengin viðurkenning Breta á 12 mílna lögsögunni. Þetta segja þeir í sömu andránni og Hermann Jónasson fjölyrðir um þá „Viðurkenningu í verki“, er við höfum hlotið frá ríkjum, sem létu ekki skip sín fiska hér undir herskipavernd, en mótmæltu þó stækkuninni 1958 berum orðum. Nú falla Bretar ekki einungis frá valdbeitingu, heldur berum orðum frá mótmælum sínum. Þetta er svo skýr viðurkenning sem á verður kosið. Hitt er annað mál, að Alþingi hefur aldrei falið ríkisstj. að afla viðurkenningar Breta á 12 mílna fiskveiðilögsögunni, þegar af því, að það taldi rétt okkar til hennar ótvíræðan og þess vegna óþarfa aðra viðurkenningu Breta en þá, að þeir hættu ofbeldisaðgerðum, eins og fram kemur í ályktuninni frá 5. maí 1959.

Um þriðja meginefni þeirrar ályktunar leiðir af því, sem þegar hefur verið skýrt, að fiskveiðilögsagan verður hvergi minni en 12 mílur umhverfis landið. En vegna hinna nýju grunnlína, sem í öðrum lið orðsendingar utanrrh. Íslands er áskilið að Bretar viðurkenni, verður fiskveiðilandhelgin nú þegar 5065 km2 stærri en hún var, þegar samþykktin 5. maí 1959 var gerð. Með hinum nýju grunnlínum fást færð inn fyrir íslenzka fiskveiðilögsögu sum hin allra þýðingarmestu fiskimið við Íslandsstrendur. Um úrslitaþýðingu þeirrar ákvörðunar verður ekki deilt.

Stjórnarandstæðingar halda því raunar fram, að þennan rétt hefðum við getað tekið okkur, hvenær sem okkur þóknaðist. Lúðvík Jósefsson sagði, að við ættum þennan rétt. En af hverju gaf hann þá Bretum þessa ómetanlegu gjöf með reglugerð sinni 1958? Tal Lúðvíks og Hermanns um sína eigin vanrækslu afsakar sízt atferli þeirra. Með skrafi sínu nú kveða stjórnarandstæðingar upp harðan og harðasta áfellisdóm yfir gerðum vinstri stjórnarinnar, sem nokkur hefur upp kveðið fyrr og síðar, að þeir hafi gefið Bretum ómetanlega eign Íslendinga.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson og félagi hans, Hermann Jónasson, létu óbreyttar standa grunnlínurnar, sem settar voru með reglugerðinni 19. marz 1952. Ef þeir töldu Íslendinga eiga rétt til annars og meira, af hverju beittu þeir þeim rétti þá ekki 1958, þegar þeim bar réttur og skylda til að gæta hagsmuna Íslands? Trúi hver annar en sá, sem þessa menn þekkir, því, að þeir hafi gert þetta af undanlátssemi og tillitssemi við okkur sjálfstæðismenn. Um þetta hljóta þeir að verða krafðir svara nú og síðar og þá einnig um hitt, af hverju þeir í okt. 1960 lögðu fram á Alþ. frv. um að lögfesta þessar gömlu grunnlínur frá 1952. Óumbreytileiki þeirra var svo ríkur í þeirra huga allt til hinna síðustu daga, að jafnvel hinn 13. febr. s.l. lögðu þeir til í nál. um lögfestingarfrv. sitt að samþykkja frv. óbreytt og þar með hagga í engu hinum sömu grunnlínum og þeir treystust ekki til að breyta 1958, heldur vildu þeir enn lögfesta þær um óákveðna framtíð fyrirvaralaust.

Á þessu athæfi er engin skýring önnur en sú, að þeir hafi talið breytingu grunnlínanna svo vafasama, að ekki væri á hana hættandi. Því augljósara er, hversu mikla þýðingu það hefur, að Bretland, sem ætíð hefur staðið fastast gegn stækkun fiskveiðilandhelgi okkar, skuli nú fallast á þessar þýðingarmiklu breytingar. Bretar gerðu það að vísu gegn því, að við að fullveldi Íslands yfir fiskveiðilögsögunni allri veitum þeim tímabundinn, takmarkaðan rétt til veiða á nokkrum hluta fiskveiðilandhelgi okkar milli 6 og 12 mílna. Þeirri tímabundnu, takmörkuðu veiðiheimild lýkur með öllu að þrem árum liðnum, þar sem grunnlínubreytingin og stækkunin, sem af henni leiðir, stendur um alla eilífð. Ekki þarf að eyða orðum að því, hvort hagkvæmara er fyrir Ísland. Vinningur okkar er auðsær, jafnvel þótt miðað væri einungis við næstu þrjú ár, hvað þá ef litið er til allrar framtíðar. Má t.d. um það vitna til ummæla hins gerkunnuga manns í landhelgismálunum, Eiríks skipherra Kristóferssonar, sem hann viðhefur í Morgunblaðinu í morgun.

Fjórða meginatriði samþykktar Alþingis hinn 5. maí 1959 var, að afla beri viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948. Á orðalagi þessarar yfirlýsingar og hinnar fyrri um hinn ótvíræða rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi er þýðingarmikill munur. Alþingi mælir fyrir um, að „afla beri viðurkenningar á rétti til landgrunnsins,“ þar sem það aftur á móti segir réttinn til 12 mílna fiskveiðilögsögu ótvíræðan. Hvernig er hægt að afla þessarar viðurkenningar nema með því að fá hann með málaleitun til einstakra ríkja eða með samningum þeirra í milli eða með alþjóðasamningum eða loks staðfestingu alþjóðadómstólsins á því, að þessi réttur sé fyrir hendi? Hér koma vissulega ekki fleiri möguleikar til greina.

Í umr. um landhelgismálið fyrr í vetur lögðu stjórnarandstæðingar megináherzlu á, að ef við semdum nú við Breta, mundum við þar með svipta okkur rétti eða möguleikum til að gera frekari stækkanir síðar nema með samningum við Breta og þar með binda okkur við þá leið til öflunar viðurkenningar á landgrunninu, sem ólíklegast er að leiði til árangurs. Hv. þm. Hermann Jónasson sagði t.d. í lok útvarpsræðu sinnar hinn 25. nóv. s.l.:

„Landhelgi, sem þjóðirnar viðurkenna, stækkar svo að segja með hverju árinu. Þjóðir, sem nú fá frelsi og koma í Sameinuðu þjóðirnar, heimta stækkaða landhelgi. Það getur svo farið, að eftir nokkurn tíma verði landgrunnið viðurkennt sem landhelgi. Ef Bretar geta tælt okkur nú til samninga, segja þeir næst, þegar við ætlum að færa út, þótt þá væri í samræmi við alþjóðalög: „Þegar þið fenguð 12 mílur, urðuð þið að viðurkenna það, að þið gætuð ekki tekið ykkur þær nema með samþykki okkar. Þar með játuðuð þið ykkur undir það, að þið gætuð ekki gert frekari útfærslu nema með samningum við okkur.“

Þetta voru ummæli Hermanns Jónassonar 25. nóv. í vetur. Í orðsendingu utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands er tekið af skarið um þetta, þegar segir:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstj. Bretlands slíka útfærslu með sex mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Þetta segir í orðsendingunni.

Með þessu bindur Ísland sig hvorki við viðurkenningu, sem fást kynni með málaleitun eða samningum við einstök ríki, Bretland eða önnur, né við alþjóðasamninga, heldur við það eitt, að við áskiljum okkur rétt til að gera einhliða ákvarðanir um stækkun, jafnskjótt og við teljum, að einhver sú réttarheimild sé fyrir hendi, sem alþjóðadómstóllinn viðurkenni. Á þennan veg höfum við Íslendingar tryggt okkur að njóta góðs af allri þeirri þróun alþjóðaréttar, sem kann að verða okkur til hags í þessum efnum. Á hvern hátt er betur hægt að tryggja sér þá viðurkenningu, sem Alþingi hinn 5. maí 1959 lagði fyrir ríkisstj. að afla? Því er skemmst til að svara, að engin okkur hagkvæmari leið er hugsanleg.

Þeir, sem nú telja réttindaafsal fólgið í till. ríkisstj., gefa þar með til kynna, að þeir hafi hvorki gert sér grein fyrir efni fyrirmæla Alþingis 5. maí 1959 til ríkisstj. né þeir skilji frumatriði þessa máls. En auðvitað eru hv. þm. ekki eins skyni skroppnir og þeir láta.

Til góðs eða ills töldu íslenzk stjórnarvöld á sínum tíma réttinn til 12 mílna fiskveiðilögsögu svo ótvíræðan, að óþarft væri að bera hann undir alþjóðadómstólinn. Alþingi hefur hins vegar lýst því berum orðum, að um réttinn til landgrunnsins alls beri að leita viðurkenningar annarra. Sú ályktun Alþingis var síður en svo af fljótræði gerð. Hún var tekin að vel íhuguðu máli og í fullu samræmi við yfirlýsta stefnu allra stjórnmálaflokka, sem nú eru á Alþingi.

Hv. þm. Hermann Jónasson segir nú, að sök sér hafi verið, þótt Norðmenn legðu ágreining sinn og Breta undir alþjóðadómstólinn, því að þeir hafi átt svo lítið í húfi, allt öðru máli sé að gegna um okkur, því að um lífið sjálft sé að tefla. En hvað hefur Hermann Jónasson sjálfur gert, þegar hann réð, hvað gert var, og hvað hefur hann sagt allt fram á síðustu daga?

Þegar deilt var við Breta um reglugerðina frá 19. marz 1952, þar sem nýjar grunnlínur voru aðalatriðið, lagði þáv. ríkisstj., sem skipuð var Steingrími Steinþórssyni, Hermanni Jónassyni, Eysteini Jónssyni, Ólafi Thors, Birni Ólafssyni og mér, til, að þeim ágreiningi yrði skotið til alþjóðadómstólsins. Þá voru það Bretar, sem vildu ekki fallast á þá málsmeðferð, heldur tóku upp löndunarbann á íslenzkum ísvörðum fiski í þess stað.

Á Genfarráðstefnunni fyrri 1958, þegar vinstri stjórnin undir forustu Hermanns Jónassonar sat við völd á Íslandi og Lúðvík Jósefsson réð meðferð landhelgismálanna, lét hún leggja fram tillögu um rétt strandríkis til ráðstafana utan við sjálfa fiskveiðilögsöguna. Í þeirri till. var eitt meginatriðið, að ef ágreiningur yrði, skyldi gerðardómur skera úr. Sú till. náði þá ekki samþykki, en var á ný flutt á ráðstefnunni 1960, þá að tilhlutan núv. stjórnar, en með samþykki allra íslenzku fulltrúanna á Genfarráðstefnunni, þ. á m. Hermanns Jónassonar og Lúðvíks Jósefssonar. Þannig var það tvívegis berum orðum gert að beinni tillögu af Íslands hálfu á alþjóðavettvangi, að ráðstafanir utan 12 mílna fiskveiðilögsögu yrðu ekki gerðar, nema ágreiningur út af þeim væri borinn undir dóm.

Það er ekki um að villast, að Alþingi Íslendinga hefur talið þörf á viðurkenningu annarra á ráðstöfunum utan 12 mílna fiskveiðilögsögu, og íslenzkar ríkisstj. hafa fyrr og síðar boðið fram, að þann ágreining, sem af slíkum ráðstöfunum stafaði, skyldi útkljá með dómi, ýmist sjálfum alþjóðadómstólnum eða gerðardómi.

Ef um gerðardóminn eða alþjóðadómstólinn er að velja, er augljóst, að okkur er meiri trygging í ákvörðunum hins síðarnefnda. Hann er hæfasta stofnunin, sem til er, til þess að skera úr því, hver séu gildandi alþjóðalög.

Hingað til hefur enginn haldið því fram, að við gætum eða ættum að gera frekari ráðstafanir til stækkunar landhelgi nema í samræmi við alþjóðalög. Í umræðum um landhelgismálið á fyrri hluta þessa þings lýsti Hermann Jónasson t.d. hvað eftir annað yfir því, að þær ráðstafanir ættu að vera í samræmi við alþjóðalög, eins og hann sagði, og þar „yrðum við eingöngu að fara eftir alþjóðalögum“, eins og hann komst að orði í hv. Ed. hinn 7. nóv. s.l. Nú minnist Hermann Jónasson ekki á alþjóðalög, og félagi hans, Lúðvík Jósefsson, segir, að um þetta séu engin alþjóðalög til — sú heimild, sem Hermann Jónasson sagði hvað eftir annað í vetur að yrði að vera grundvöllur allra aðgerða okkar, en hann virðist nú telja landráð, ef við fylgjum.

Hv. þm. Hermann Jónasson spurði í vetur, hvernig mönnum gæti dottið í hug, ef samið yrði við Breta, eins og hann segir, „þegar á að fara að færa út fyrir 12 mílur, út á landgrunnið, þar sem allt er vafasamara út frá alþjóðarétti, að við gætum gert það, nema þeir heimti, að við semjum um það við stærri ríkin, og beiti ofbeldi að öðrum kosti.“

Þetta sagði Hermann Jónasson þá. Með till. ríkisstj. er þessari hættu bægt frá. Bretar skuldbinda sig til að krefjast hvorki samninga né grípa til ofbeldis, heldur sætta sig við úrskurð alþjóðadómstólsins. En eru það þá ekki samningar? segja þeir, sem halda því fram að samningar séu svik. Hvað sagði Eysteinn Jónsson um það í útvarpsumræðunum 25. nóv. s.l.? Þá sagði hann:

„Þá er það utanrrh., sýnishorn af hans málflutningi áðan. Hann segir, að það hafi verið samið um landhelgismálið áður. Dæmi: Það var samið um landhelgismálið 1952. Með hverju? Með því að gera boð um að skjóta því til Haagdómstólsins. Það voru samningar um landhelgismálið að dómi hæstv. utanrrh. Það hlýtur að vera meira en lítið bogið við þann málstað, sem þarf svona málflutning, ef nefna á þvílíkan útúrsnúning svo virðulegu nafni.“

Þetta sagði Eysteinn Jónsson þá. Og það er hverju orði sannara, sem hv. þm. Ólafur Jóhannesson sagði í umræðum á Alþingi hinn 14. nóv. s.l.:

„Vissulega er það svo, að smáþjóð verður að varast að ganga svo langt, að hún geti ekki alltaf verið við því búin að leggja mál sín undir úrlausn alþjóðadómstóls, því að sannleikurinn er sá, að smáþjóð á ekki annars staðar frekar skjóls að vænta en hjá alþjóðasamtökum og alþjóðastofnunum, af því að hún hefur ekki valdið til þess að fylgja eftir sínum ákvörðunum eins og stórveldin. Þess vegna hefði að mínu viti hvert eitt spor í þessu máli átt að vera þannig undirbúið, að við hefðum verið við því búnir að leggja það undir úrlausn alþjóðadómstóls.“

Þetta sagði Ólafur Jóhannesson í vetur. Hv. þm. reyndi nú að hlaupast frá þessum ummælum, en viðurkenndi þó í öðru orðinu, að alþjóðadómstóllinn væri helzta skjól smáþjóða. Svo kom flokksbróðir hans, Þórarinn Þórarinsson, og sagði dómstólinn sérstaklega hættulegan þessum smáþjóðum, sem Ólafur segir að hann sé helzta skjólið fyrir. Ólafur Jóhannesson sagði, að ekki vantaði nema herzlumun, að Bretar hefðu verið búnir að tapa deilunni. Þórarinn Þórarinsson hélt því aftur á móti fram, að við værum þegar búnir að vinna sigur. Ósamræmið er í einu og öllu hjá þeim félögum. Hið eina, sem þeim kemur saman um, er, að þegar aðrir gera hið sama og svipað — og þótt það sé betra — og Framsókn gerði, meðan hún var við völd, þá sé það ekki sambærilegt. Það er kjörorð gömlu forréttindamannanna: Það er ekki sambærilegt, það sem við gerum og aðrir.

Sannleikurinn er sá, að við erum búnir að vinna sigur í deilunni við Breta. Samkomulagið, sem nú hefur verið gert, er staðfesting á þeim sigri, eins og viðurkennt er jafnt innanlands og utan.

Spurningin er: Hvort viljum við Íslendingar heldur, að ágreiningur um ákvarðanir okkar um enn meiri stækkun fiskveiðilandhelginnar, jafnskjótt og við teljum tímabært, verði leiddur til lykta með nýjum löndunarbönnum eða herskipasendingu á Íslandsmið eða með úrskurði alþjóðadómstólsins um það, hvort við styðjumst við lög og rétt?

Þeir, sem síðari kostinum hafna, vilja þar með skipa Íslandi í flokk ofbeldisþjóða. Heimskulegra tiltæki væri trauðla hugsanlegt fyrir þjóð, sem sjálf býr yfir engu afli öðru en því, sem lög og réttur, hófsemi og sanngirni veita henni.

Landhelgismálið sjálft er þýðingarmikið, og verður seint orðum aukið, hver nauðsyn okkur er á að tryggja rétt okkar í því sem allra bezt. Enn þýðingarmeira er þó, að Ísland haldi áfram að vera réttarríki. Undir því er gæfa þjóðarinnar komin, og á því getur sjálfstæði hennar oltið. Með samþykkt þeirrar till., sem nú liggur fyrir, er allt þetta tryggt. Slegin er skjaldborg um lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar og fáni laga og réttar, frelsis og fullveldis hennar dreginn að hún. Alþingi Íslendinga má allra sízt hverfa af verðinum, eins og sumir hv. þm. leggja nú til, þegar svo mikið er í húfi. Þess vegna kemur ekki til mála, að það samþykki að víkjast undan þeirri ábyrgð, sem stjórnarskrá Íslands leggur því á herðar. Það mun ekki skjóta þessu máli frá sér, heldur afgreiða það lögum samkvæmt og með samþykkt sinni afla sér virðingar og þakklætis þjóðarinnar í bráð og lengd. — Góða nótt.