07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í D-deild Alþingistíðinda. (2419)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan hefur nú í mörgum, löngum og ýtarlegum ræðum gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Það verður ekki sagt, að í öllum þessum löngu ræðum hafi neitt nýtt komið fram. Hér hefur hver ræðumaður á fætur öðrum tuggið upp eftir fyrri ræðumanni án þess að hafa nokkuð nýtt fram að færa. En eftir að við höfum hlustað á allan þennan málflutning, verður því ekki neitað, að það liggur ekki aðeins greinilega fyrir, að stjórnarandstöðuflokkarnir báðir eru andvígir því, að samkomulag komist á milli Íslendinga og Breta út af fiskveiðideilunni, heldur hefur einnig í umr. komið svo greinilega fram sem frekast má vera, hvaða ástæður liggja til grundvallar þessari afstöðu flokkanna beggja, og það vekur óhjákvæmilega athygli, að ástæður Alþb. og ástæður Framsfl. fyrir þessari andstöðu eru að verulegu leyti ólíkar, þó að báðir komist að sömu niðurstöðu. Ég ætla fyrst að snúa mér að Alþb.

Hv. þm. Einar Olgeirsson minntist á landgrunnslögin í ræðu sinni í gær. Hann sagði, að landgrunnslögin hafi verið stefnuyfirlýsing Íslendinga í landhelgismálinu. Með þeim hafi Íslendingar sagt öllum heiminum, að þeirra stefna í landhelgismálinu væri sú að friða allt landgrunnið kringum landið fyrir fiskveiðum útlendinga. Og til þess að sýna heiminum, að Íslendingum væri alvara í þessum efnum, hafi landgrunnslögin veitt ríkisstj. heimild til þess að færa fiskveiðimörkin við Ísland út að endimörkum landgrunnsins með einfaldri reglugerð. — Þetta er alveg rétt hjá þessum hv. þm. En hann hefði gjarnan mátt hafa þessa frásögn ofur lítið ýtarlegri og skýra frá vissu atriði, sem nokkru máli skiptir, þegar landhelgismálið er rætt í heild.

Þegar utanrmn. á sínum tíma hafði landgrunnslögin til meðferðar og undirbúnings fyrir Alþ., lagði þessi hv. þm., sem sæti átti í nefndinni, á það megináherzlu, að þegar ríkisstjórnir í framtíðinni gripu til þess að fara fiskveiðitakmörk við Ísland út með reglugerð, þá gerðu þær það með hinni mestu varkárni, undirbyggju hvert skref, sem stigið væri, vel og örugglega, þannig að víst væri, að við stæðum á alþjóðlegum grundvelli og ekki væri gefin út reglugerð um útfærsluna, nema því aðeins að okkar aðgerðir væru áður kynntar vel og rækilega á erlendum vettvangi og leitað eftir því að fá samþykkt annarra þjóða fyrir þessu. Þessi hv. þm. lét bóka það eftir sér í fundargerð utanrmn. á sínum tíma, að jafnan yrði að athuga vel undirtektir annarra ríkja, áður en til ráðstafana væri gripið. Og þetta var alveg rétt hjá þessum hv. þm. Það var stefna Íslendinga, og það var til þess full ástæða að undirbúa vel allar aðgerðir áður en í þær væri farið, og reyna að fá fyrir því samþykki annarra þjóða.

En ég vil biðja menn að hafa það í huga, að þegar þessi hv. þm. hafði slíkan áhuga fyrir varfærni í útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland, þá var ekkert Atlantshafsbandalag til og þá var í bili ekki þörf á neinum sérstökum ráðstöfunum til þess að stofna til árekstra og illinda á milli Íslendinga og þeirra bandalagsþjóða.

Þegar vinstri stjórnin var mynduð 1956, hafði hún það á sinni stefnuskrá að vísa varnarliðinu úr landi. Atburðirnir sumarið 1956 kenndu okkur, að það var ekki tímabært að gera neinar slíkar ráðstafanir. Þess vegna ákváðu Framsfl. og Alþfl. að hætta við þetta að sinni. Alþb. undi þessu mjög illa og hafði í hótunum um að fara úr ríkisstj. Það varð hins vegar að ráði hjá bandalaginu að bíða átekta og freista þess, hvort ekki gæfist síðar tækifæri til þess að rifta samstarfi okkar og samvinnu við bandalagsþjóðir okkar innan Atlantshafsbandalagsins.

Snemma á árinu 1957 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að halda ráðstefnu þá árið eftir í Genf, í því skyni að reyna að fá settar alþjóðareglur um víðáttu landhelgi og fiskveiðilögsögu. Á meðan beðið var eftir þessari ráðstefnu lagði þáverandi sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, fram till. innan ríkisstj. um það, að við biðum ekki eftir ráðstefnunni, heldur færum í útfærslu strax sumarið 1957. Þessi útfærsla átti ekki að vera nein breyting á 4 mílna lögsögu við Ísland. Hún skyldi standa áfram óbreytt. Hins vegar átti að friða takmarkaðan tíma úr ári þrjú takmörkuð svæði þó nokkuð langt út fyrir 4 og jafnvel út fyrir 12 mílur. Öllum, sem sáu og heyrðu þessa till., var ljóst, að þarna var í fyrsta lagi um ófullnægjandi ráðstafanir fyrir Ísland að ræða. Í öðru lagi var greinilegt, að ef í þetta hefði verið farið sumarið 1957, þá hefðu þessar aðgerðir stórspillt aðstöðu okkar á væntanlegri Genfarráðstefnu og gert mál okkar þar miklu torsóttari. Í þriðja lagi var ljóst, að við þessa útfærslu hefði verið mjög erfitt fyrir okkur að ráða vegna þeirrar andstöðu, sem hún hefði mætt. En umfram allt var ekki á því nokkur vafi, að ef við rétt fyrir þessa alþjóðlegu ráðstefnu, sem allar þjóðir heims voru sammála um að halda til að reyna að leysa þetta mál, hefðum farið í þessar aðgerðir, þá um sumarið, hefði það kostað okkur illindi, erjur og erfiðleika við okkar bandamenn í Vestur-Evrópu innan Atlantshafsbandalagsins. Og það var máske þetta, sem hæstv. sjútvmrh. var að stíla upp á með sínum ófullnægjandi till. sumarið 1957. Það tókst þó, sem betur fer, að afstýra þessu.

Síðan er Genfarráðstefnan haldin, og eins og allir vita, leiddi hún ekki til þeirrar niðurstöðu, sem ætlað var. Þá kemur upp það vandamál innan ríkisstj., hvernig skuli nú við hlutunum snúast. Um það var enginn ágreiningur innan vinstri stjórnarinnar 1958, að fiskveiðilögsagan skyldi færð út í 12 mílur. Ég lýsti því yfir á Genfarráðstefnunni, að þetta mundi verða gert að henni lokinni, hvort sem ráðstefnan leiddi til niðurstöðu eða ekki. Ég lýsti þessu líka afdráttarlaust yfir í útvarpsræðu, strax og ég kom heim af ráðstefnunni. Hitt var ágreiningsefni innan ríkisstj., hvort og hve mikill tími skyldi gefinn til þess að reyna að undirbúa þetta mál við okkar nágrannaþjóðir með það fyrir augum að reyna að afstýra árekstrum og erfiðleikum. Alþfl. og Framsfl. vildu starfa í þeim anda, sem Elnar Olgeirsson lýsti svo fjálglega 1948, þegar landgrunnslögin voru sett, að eftir skyldi starfað. Alþb. var hins vegar gersamlega búið að leggja á hilluna allar þær yfirlýsingar, sem Einar Olgeirsson hafði gefið fyrir hönd flokksins fyrir 10 árum, og vildi ekkert tóm gefa til þess að kynna öðrum þjóðum málið og reyna að brjóta andstöðuna á bak aftur.

Það varð engu að síður að ráði, að viðræður voru teknar upp við grannþjóðir okkar og einmitt innan Atlantshafsbandalagsins, vegna þess að við það vorum við samningsbundnir, því miður leiddu þessar viðræður ekki til þess árangurs, sem ætlað var, enda var allt gert hér heima af hálfu Alþb. til þess að trufla viðræðurnar og koma í veg fyrir, að nokkurt samkomulag eða nokkur lausn gæti fengizt. Þó má segja það, og hef ég áður bent á það, að það var þessum viðræðum að þakka, að Bretar urðu hér einir um sínar aðgerðir 1. sept. 1958, en ekki aðrar og fleiri þjóðir með þeim. En allar aðgerðir Alþb. í sambandi við útfærsluna, bæði tilraun þeirra 1957 og framkvæmd útfærslunnar 1958, sýndu ljóslega, að það var ekki fyrst og fremst útfærslan sjálf, sem þessir menn höfðu í huga, heldur að framkvæma hana þannig, að sem mestum árekstrum, erfiðleikum og illindum ylli á milli okkar og okkar bandalagsþjóða, ef ske kynni, að út úr því gæti Alþb. fengið þann árangur, sem það fékk ekki 1956, þegar það vildi slíta okkur úr tengslum við bandamenn okkar.

Ég mun síðar í ræðu minni hér á eftir koma nokkuð frekar inn á þetta og benda á enn ljósari dæmi. En það, sem ég nú hef sagt, ætti að vera alveg nægjanlegt til að undirstrika og vekja athygli á, svo að ekki verði um villzt, að grundvöllurinn undir stefnu og aðferðum Alþb. í sambandi við landhelgismálið hefur allar götur frá 1957 verið fyrst og fremst að nota það sem utanríkismál til að sundra okkur og slíta okkur úr sambandi við bandamenn okkar.

Framsfl. hefur nokkuð önnur viðhorf og nokkurn annan grundvöll fyrir sinni afstöðu. Ég vil minna á, að þegar farið var í útfærsluna 1952, hafði Framsfl. forsæti í ríkisstj. Þá var útfærslan undirbúin vel og rækilega, og þegar Bretar beittu okkur ofbeldisaðgerðum til þess að reyna að kúga okkur til undanhalds, ákvað ríkisstj. að bjóða Bretum, að deilan skyldi lögð fyrir alþjóðadómstólinn í Haag og báðir aðilar skyldu una þeirri niðurstöðu. Þetta var ekki talið afsal á neinum landsréttindum þá. Þetta var talin sjálfsögð og skynsamleg lausn á erfiðri deilu. Þegar viðræðurnar voru teknar upp 1958 út af útfærslunni þá, hafði Framsfl. forustu um það, að bandamönnum okkar voru send tvö tilboð til lausnar á deilunni. Þeim var boðið upp á samkomulag um það, að ef þeir vildu fallast á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland, þá mættu þeir veiða næstu 3 árin kringum allt land alla 12 mánuði ársins, enda fengjust vissar mjög takmarkaðar grunnlínubreytingar einnig viðurkenndar. Framsfl. þótti það skynsamlegt sumarið 1958 að leysa deiluna við Breta með samkomulagi um að leyfa þeim að veiða um takmarkaðan tíma innan 12 mílnanna. En nú er hljóðið allt annað. Nú eru það landráð að ætla sér að leysa deiluna við Breta með því að leyfa þeim að fiska um miklu takmarkaðri tíma en boðið var 1958 innan 12 mílnanna og á miklu þrengri svæðum, og það enda þótt nú eigi að fást viðurkenndar grunnlínubreytingar, sem eru margfalt meiri en það, sem farið var fram á 1958. Nú eru það landráð að ætla að láta alþjóðadómstól dæma í framtíðinni um lögmæti fiskveiðiútfærslu okkar, — þetta, sem Framsfl. hafði forustu um að bjóða 1952. Hvað er það, sem hér hefur gerzt? Jú, einfaldlega það, að 1952 og 1958 var Framsfl. í stjórnaraðstöðu. Þá var hann ábyrgur stjórnarflokkur. Í dag er hann í stjórnarandstöðu. Það, sem var gott og sjálfsagt, meðan flokkurinn stjórnaði landinu, það eru landráð og svik, ef það er gert, þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu. Þetta er grundvöllurinn fyrir afstöðu Framsfl.

Það er þannig ljóst, að þó að báðir flokkarnir í stjórnarandstöðunni komist að þeirri niðurstöðu að vera á móti öllu samkomulagi við Breta, þá er grundvöllur annars flokksins fyrst og fremst sá að stofna til illinda og viðhalda deilum á milli okkar og bandamanna okkar, en grundvöllur hins flokksins ábyrgðarleysi stjórnarandstöðunnar og tilraun til þess að reyna að gera sig góðan, þegar aðrir eru að reyna að leysa þýðingarmikil og alvarleg vandamál fyrir þjóðina.

Undir umr. hefur verið rætt allmikið um orðalag þeirrar orðsendingar, sem lagt er til að Bretum verði send til lausnar á fiskveiðideilunni. Hefur þar verið farið út í hinar mestu hártoganir og rangsnúninga og það í svo ríkum mæli, að furðu gegnir. Ég get ekki farið að eltast við þessar rangfærslur í öllum einstökum atriðum, en ég vil aðeins með nokkrum orðum víkja að þeim helztu, til þess að þeim sé ekki ómótmælt.

Því hefur verið haldið fram af ríkisstj., að í orðsendingunni felist endanleg og ótvíræð viðurkenning á því, að Íslendingar skuli hafa sína 12 mílna fiskveiðilögsögu. Þessu er andmælt af stjórnarandstöðunni. Í 1. tölulið orðsendingarinnar segir, að Bretar falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland. Í enska textanum er þetta ef til vill enn harðar orðað. Ríkisstj. vildi hafa veikt orðalag á þessu, til þess að hún skyldi ekki vera sökuð um það að ganga of langt í sinni þýðingu.

En hvað felst í þeirri yfirlýsingu, að Bretar falli frá sínum mótmælum? Við skulum athuga, hver eru mótmæli Breta og hvernig þau hafa verið fram sett.

Hinn 28. maí 1958 afhendir sendiherra Breta í Reykjavík mótmæli ríkisstj. sinnar gegn útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Í skjali þessu tekur brezka ríkisstj. fram, að fyrirhuguð reglugerð, sem geri ráð fyrir 12 mílna fiskveiðilögsögu með breyttum grunnlínum, sé markleysa samkvæmt alþjóðalögum. Frá þessum mótmælum falla Bretar fyrirvara- og skilyrðislaust, þegar þeir samþykkja nótu okkar. Í skjalinu segir enn fremur, að ekkert ríki geti með einhliða yfirlýsingu takmarkað réttindi annarra þjóða á úthafinu og geti því ekki meinað öðrum þjóðum fiskveiðar á svæði, sem lengi hafi talizt hluti af úthafinu. Frá þessu falla Bretar skilyrðis- og fyrirvaralaust. Í yfirlýsingu, sem brezka ríkisstj. gaf út 3. júní 1958, tekur hún fram, að hún muni ekki sjá sér fært að viðurkenna, að hin fyrirhugaða reglugerð um útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland muni hafa nokkurt lagagildi, ef hún verður gefin út. Einnig gerir hún fyrirvara um grunnlínur. Brezka stjórnin vekur sérstaka athygli á því, að hún muni telja það skyldu sína að koma í veg fyrir hvers konar ólögmætar tilraunir til afskipta af brezkum fiskiskipum á úthafinu, hvort sem slík afskipti fara fram á þeim svæðum, sem íslenzka ríkisstj. hefur nú í hyggju að telja sig hafa yfirráð yfir, eða ekki. Frá öllu þessu fellur brezka ríkisstj. fyrirvaralaust með því að samþ. orðsendinguna.

Ef menn líta á það, sem brezka ríkisstj. hefur sagt í þessum orðsendingum sínum, og athuga hvaða mótmæli og hvaða yfirlýsingar hún er að afturkalla og falla frá fyrirvaralaust, þá er ekki nokkur leið að efast um, að í þessu felst svo fullkomin viðurkenning af Breta hálfu sem frekast má vera á því, að okkar 12 mílna fiskveiðilögsaga skuli standa áfram óhögguð og ómótmælt af þeirra hálfu.

Vegna þeirra andmæla, sem hér hafa komið fram út af þessum skilningi á 1. tölulið orðsendingarinnar, leitaði hæstv. dómsmrh. til lagadeildar háskólans og bað um skilning lagadeildarinnar á orðalagi 1. gr. orðsendingarinnar. Og það er ekki um að villast, hvernig lagadeildin skilur þetta. Þar segir greinilega, með leyfi hæstv. forseta, eins og reyndar hefur tvisvar verið lesið upp áður:

„Þegar réttarágreiningur er á milli tveggja aðila og annar hefur andmælt skilningi hins eða aðgerðum, en lýsir síðan yfir því fyrirvaralaust, að hann falli frá andmælum sínum, er það skýrt svo skv. almennum lagasjónarmiðum, að með því skuldbindi sá aðili sig til að hverfa endanlega frá andmælum sínum og tjói ekki að hafa þau uppi síðar. Gegnir þessu eigi síður í milliríkjaviðskiptum. Ef greint orðalag verður þáttur í samningi milli brezku og íslenzku ríkisstj., teljum við því, að samningurinn feli í sér skuldbindingu fyrir brezka ríkið um að virða framvegis 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland. Skv. þessu er það skoðun okkar, að framangreint orðalag feli efnislega í sér viðurkenningu brezku ríkisstj. á 12 mílna fiskveiðilögsögu umhverfis Ísland, ef fiskveiðideilan verður leyst með þessum hætti.“

Hér er ekkert um að villast. Hér hafa þeir aðilar á Íslandi, sem bezta þekkingu hafa á þessu máli, bezta aðstöðu hafa til að mynda sér á því skoðun, látið álit sitt í ljós, og það er tvímælalaust og afdráttarlaust á sama veg og álit ríkisstj.

Það var óneitanlega dálítið broslegt að heyra hv. þm. Lúðvík Jósefsson í gær vera að reyna að vefengja þessa umsögn. Hann sagðist hafa tekið eftir því, að í umsögn prófessora háskólans væri sagt:

„Þegar skýra á framangreint orðalag í orðsendingu utanrrh. Íslands, verður að hafa í huga annars vegar, að ekki er að því stefnt að kveða á um, hvor aðili hafi hér á réttu að standa, heldur að því að leysa deiluna til frambúðar, og verður þá skiljanlegt, að sneitt sé hjá að nota orðið að „viðurkenna“ í þessu sambandi.“

Þarna segir sem sagt, að prófessorarnir hafa í huga, þegar þeir láta sitt álit í ljós, að orðalagið á 1. gr. sé tekið upp með það fyrir augum að leysa deiluna. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson hafði annaðhvort ekki fyrir því eða hann skorti ráðvendni til þess að láta það koma fram, að í sjálfri orðsendingunni til Breta, sjálfum inngangi orðsendingarinnar segir, að samkomulagið sé gert til þess að leysa deiluna. Þar stendur: „Er ríkisstj. reiðubúin að leysa deiluna á eftirfarandi grundvelli.“ Þegar prófessorarnir taka þetta upp í sína umsögn, þá byggja þeir það beinlínis á því, sem í orðalaginu stendur. En þrátt fyrir þetta leyfir þessi hv. þm. sér að demba því hér yfir hv. alþm. um hánótt, að prófessorarnir hafi í heimildarleysi búið það til, að orðsendingin sé gefin í því skyni að leysa deiluna, það finnist hvergi fyrir því stafur. Þessi hv. þm. er ekki vanur að láta sér blöskra alls konar meðferð á sannleikanum, en að spýta svona rauðu, það skal hreysti til þess.

Hv. talsmaður Alþb., Einar Olgeirsson, sagði í ræðu sinni í gær, að það væri ekki nóg að vita, hvernig við Íslendingar litum á orðalag 1. gr., það væri ekki okkar skoðun á þessu atriði, sem máli skipti. Hann þyrfti endilega að fá að vita, hvernig Bretar litu á þetta, til þess að hann gæti sætt sig við það, sem við erum að semja. Ég veit, að þessi hv. þm. tekur nokkurt tillit til Breta og hefur gjarnan gert, en ég hafði ekki átt von á því, að hann teldi, að ekki væri nein lagaskýring fullnægjandi, nema hann vissi, hvernig Bretar hugsuðu um það atriði. En úr því að hann spyr, þá er sjálfsagt að svara þessu.

Þegar brezka ríkisstj. skýrði neðri deild brezka þingsins frá samkomulaginu við Íslendinga, sagði sá ráðh., sem frá samkomulaginu skýrði, á þessa leið:

„Eftir að þriggja ára umþóttunartímabilið er liðið, munu Bretar ekki framar hreyfa neinum andmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland.“

Þetta er yfirlýsing brezka ráðh. í neðri deild brezka þingsins. Sama daginn er málið og tekið fyrir í efri deild. Þar lýsir brezkur ráðh. yfir nákvæmlega því sama: Þegar þrjú árin eru liðin, mun brezka ríkisstj. ekki hafa uppi nein andmæli gegn 12 mílna fiskveiðilögsögu á Íslandi.

Og það eru fleiri en íslenzkir háskólaprófessorar og brezkir ráðherrar, sem hafa tekið af allan vafa um þetta. Brezk blöð eru einnig full af ummælum um þessa hluti. Alls staðar kemur það skýrt og greinilega fram, bæði í ritstjórnargreinum og eins í blaðaviðtölum við einstaka menn, að Bretar gera sér það ljóst, að 12 mílna fiskveiðilögsaga við Ísland er endanleg og engin andmæli af hálfu Breta koma þar til greina frekar.

En í þessu sambandi eru tilburðir stjórnarandstöðunnar og sérstaklega Alþb. að vissu leyti dálítið athyglisverðir. Þeir hafa borið fram brtt. Í þessari brtt. vilja þeir láta færa allt það orðalag á orðsendingunni til þess vegar, að ekki sé neitt um að villast, að þeir telja. Á þetta jafnt við um 1. gr. og 3. gr. En þá leggja þeir líka til, stjórnarandstaðan, að auk þess sem við höldum í orðsendingunni yfirlýsingunni, að við munum halda áfram að vinna að útfærslu fiskveiðilögsögunnar, þá skuli sagt, að hún skuli framkvæmd samkv. íslenzkum lögum og alþjóðarétti, og orðsendinguna þannig breytta vilja þeir láta Breta samþykkja. Maður skyldi ætla, að flestir Íslendingar mundu telja, að það væri afskaplega mikill og merkilegur sigur og meiri en menn geta gert sér nokkra von um, að Bretar ekki aðeins viðurkenni grunnlínubreytingarnar og 12 mílna fiskveiðilögsöguna, sem um er talað, heldur einnig viðurkenni þeir og skuldbindi sig til þess að þola í framtíðinni, að fiskveiðilögsagan við Ísland skuli færð út samkv. íslenzkum lögum og þeir í þessum efnum verði að sæta íslenzkum lögum. Maður skyldi ætla, að ef væri hægt að fá svona samkomulag, þá mundi hver einasti Íslendingur fagna því. En hvað sagði hv. þm. Einar Olgeirsson í gær? Hann segir: Þó að Bretar samþykki þessa yfirlýsingu, þó að þeir fallist á hana, þó að þeir viðurkenni skilyrðislaust 12 mílurnar og viðurkenni skilyrðislaust í framtíðinni, að þeir muni sætta sig við útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland eftir íslenzkum lögum, þá vilja þeir samt láta fella samkomulagið og hafna öllum samningum við Breta. — Það er furðulegt að heyra svona orð á Alþ., og maður mundi ekki skilja það, ef maður vissi það ekki fyrir fram, að það, sem er efst í huga og hjarta þessara manna, er ekki að reyna að leysa alvarleg og þýðingarmikil vandamál fyrir þjóðina, heldur að halda uppi illindum og fjandskap. Og enn betur kom þetta jafnvel fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósefssyni, þegar hann var að tala hér í gær. Hann komst að orði eitthvað á þá leið, að hann vildi langhelzt semja við Breta um það, að þeir héldu áfram veiðum innan fiskveiðilögsögu undir vernd herskipa. Þetta er það samkomulag, sem Lúðvík Jósefsson lýsir yfir á hv. Alþ., að hann telji æskilegast fyrir Íslendinga í deilunni við Breta. Þurfa menn frekar sannana við, ef þeir hafa verið í efa um, hvað það er, sem þjáir þetta fólk? Betur og skýrar er naumast hægt að gera grein fyrir hugarfari sínu og afstöðu sinni.

Þá kemur að ræða um grunnlínubreytingarnar. Eins og upplýst hefur verið, viðurkenna Bretar útfærslu grunnlína hjá okkur, sem svarar til þess, að fiskveiðilögsagan stækki um rúma 5000 km2, og það á þeim stöðum við landið, sem þýðingarmest er fyrir okkur. Þegar þessi viðurkenning liggur á borðinu, segir stjórnarandstaðan: Þetta er einskis virði, þetta gátum við gert sjálfir, við þurftum enga um þetta að spyrja.

Við skulum athuga nokkur atriði úr atburðum liðinna ára. Þegar Genfarráðstefnunni var lokið, var aðalráðunautur ríkisstjórnarinnar í landhelgismálum, Hans G. Andersen, kallaður heim til skrafs og ráðagerða við ríkisstj. Hann lagði sínar till. fyrir hana. Till. hans voru á þá leið, að við skyldum í fyrsta lagi breyta grunnlínum í mjög ríkum mæli, við skyldum í öðru lagi færa fiskveiðilögsöguna út í 12 mílur, en þannig, að seinni 6 mílurnar kæmu ekki til framkvæmda fyrr en eftir 3 ár. Með þessu hugðist þjóðréttarfræðingurinn tryggja í fyrsta lagi framgang stórfelldra breytinga á grunnlínum, tryggja þær með þeim hætti, að grannþjóðir okkar mundu una þeim á grundvelli þess, að 12 mílurnar kæmu ekki að öllu leyti til framkvæmda fyrr en eftir 3 ár. Hvernig brást sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, við þessum till.? Tók hann upp till. þjóðréttarfræðingsins, Hans G. Andersens, um breytingar á grunnlínunni? Hann lagði fyrir ríkisstj., Lúðvík Jósefsson, sínar till. Fyrstu till. hans gengu út á það, að grunnlínur skyldu óbreyttar, en fiskveiðilögsagan færð út í 12 mílur, og þannig sendi hann þessar till. sínar m.a. til Fiskifélags Íslands og atvinnudeildar háskólans. Undir umr. var á það bent, ekki sízt af okkur Alþfl.-mönnum, að mjög væri varhugavert að fara í þetta mál án þess að nota tækifærið til að rétta af grunnlínurnar, og við lögðum á það áherzlu. En við lögðum jafnframt áherzlu á hitt, eins og ég hef áður sagt, að okkur gæfist nokkurt tóm til að kynna þessar aðgerðir okkar á erlendum vettvangi og reyna að brjóta niður andstöðuna gegn því. Það var grundvöllurinn undir þessum aðgerðum, að okkur gæfist tóm til að kynna þær á erlendum vettvangi og reyna þannig að tryggja framgang þeirra. Alþb. vildi hins vegar ekkert tóm gefa til þessara hluta, heldur knýja málið áfram án alls þess. Þegar þannig stóð á, ákváðum við í Alþfl. að láta sjútvmrh. einan um það, hvað hann gerði í grunnlínubreytingunum. Og það varð til þess, að þegar hann gaf út reglugerðina, gerði hann enga tilraun til þess að breyta einu né neinu í grunnlínunum.

Áður hefur verið á það minnzt hér á hv. Alþingi, að fyrir nokkru bar stjórnarandstaðan í Ed. fram frv. um það að lögfesta reglugerðina frá 1958 án þess að hreyfa á nokkurn hátt við grunnlínum eða gera tilraunir til að breyta þeim. Ég varaði sérstaklega við þessu, undir umr. í deildinni. Ég benti á, að mjög væri varhugavert að taka frv. og lögfesta það eins og það væri án þess að athuga gaumgæfilega um grunnlínurnar og reyna að breyta þeim. Á þetta var ekki hlustað. Og fyrir nokkrum dögum lagði stjórnarandstaðan til, að frv. yrði samþ. óbreytt. Svo koma þessir menn nú, þegar þeir eru búnir að hegða sér svona, og segja: Þær eru einskis virði, við höfum ekki fyrir neitt að þakka. þó að á það sé fallizt, að við færum út grunnlínur, því að við höfum alla tíð átt þennan rétt, — þennan rétt, sem þeir sjálfir hafa ekki hirt nokkurn skapaðan hlut um að reyna að tryggja eða halda fram. Svo kemur enn til viðbótar, að stjórnarandstaðan ber fram brtt. við orðsendingu ríkisstj. Hún vill láta breyta orðalaginu á 1. gr., hún vill láta breyta orðalaginu á 3. gr., hún vill láta breyta 4. gr. og hún vill láta breyta niðurlaginu, um alþjóðadómstólinn. En einu má ekki breyta. Eitt skal óhaggað standa. Grunnlínurnar eiga að vera eins og í okkar uppkasti að orðsendingunni. Þar á engu að breyta. En um leið og hv. þm. Lúðvík Jósefsson er að tala fyrir þessari till. sinni, þar sem hann vill ekki hreyfa við grunnlínunum, þá segir hann okkur: Við eigum rétt til 7 annarra grunnlínubreytinga. — Hvers vegna eru þær ekki komnar? Ég spyr: Af hverju skilur þessi hv. þm. þetta atriði eitt eftir úr sínum brtt., fyrst hann telur okkur eiga tvímælalausan rétt til þessa? (Gripið fram í: Það er búið að leggja fram brtt.) Ég held, að þessi hv. þm. ætti að fara að hætta sem slíkur. Hann er þegar búinn að ganga allt of langt, og þjóðin sér fullkomlega, hvernig hann hefur hegðað sér.

Þá hefur talsvert verið rætt um 3. og 4. gr. orðsendingarinnar, og í sambandi við 4. gr. er því haldið fram, að orðalagið: „á áðurgreindu þriggja ára tímabili er þó skipum, sem skráð eru í Bretlandi, óheimilt að stunda veiðar á svæðinu á milli 6 og 12 mílna innan fiskveiðilögsögunnar“, — að þetta orðalag eigi að skilja þannig, að þegar 3 ár séu liðin, þá sé Bretum heimilt að stunda þessar veiðar áfram. Þetta er algerlega röng túlkun og stafar annaðhvort af því, að menn hafa ekki lesið orðsendinguna nógu gaumgæfilega, eða þeir hafa ekki eða vilja ekki skilja hana. Ég vil í fyrsta lagi út af þessu benda á, að í 1. og 2. tölulið orðsendingarinnar kemur fram sú grundvallarregla, að fallizt er á 12 mílna fiskveiðilögsögu við Ísland með breyttum grunnlínum. Ef ekkert stæði annað en þetta í orðsendingunni, þá væri 12 mílna fiskveiðilögsagan alger og Bretum með öllu óheimilt að veiða að nokkru innan 12 mílnanna. En í 3. gr. orðsendingarinnar kemur undantekningin fram. Þar er Bretum heimilað að veiða í næstu þrjú ár, takmarkaðan hluta úr ári og á takmörkuðum svæðum við landið. Í 3. gr. eru svæðin sett upp þannig, að landshlutar — heilir, stórir landshlutar — eru teknir undir eitt, og þar tekið fram, á hve löngum tíma og hvaða mánuði úr ári Bretar megi veiða á þessum svæðum. Ef 3. gr. stæði svona, án þess að nokkuð frekar væri sagt, mundi það þýða, að Bretar mættu veiða kringum allt land á þeim mánuðum innan þessara þriggja ára, sem fram eru tekin í 3. gr. Þetta er auðvitað ekki meiningin. Meiningin er að undanskilja viss svæði á seinni 6 mílunum, sem þeir mega aldrei fiska á, hvorki á þessum þremur árum né síðar. Til þess að undantaka þessi svæði er 4. gr., og hún er að sjálfsögðu bundin við sama tíma og 3. gr., sem hún er undantekning frá. Ef menn líta á sjálfa orðsendinguna, t.d. 1. lið, þá segir þar, að á svæðinu frá Horni að Langanesi megi Bretar veiða á seinni 6 mílunum frá júní til september. Ef þetta stæði svona, þýddi það, að fyrir Norðurlandi, á þessu svæði, mættu Bretar veiða þennan tíma. En það er ekki meiningin. Undantekningin kemur fram í 4. gr., þar sem greinilega segir, að á þessu þriggja ára tímabili megi Bretar ekki veiða á svæði, sem afmarkast af línu, sem dregin er frá Siglunesi í Grímsey og í Lágey. 4. gr. er takmörkun á 3. gr., og þess vegna er 4. gr. að sjálfsögðu miðuð við sama tíma og 3. gr. En í 1. gr. kemur aðalreglan skýrt og ákveðið fram, að 12 mílurnar eru algerar og eftir 3 ár er ekki um neina veiði útlendra að tala á þeim svæðum.

Þá hefur verið rætt nokkuð um alþjóðadómstólinn í sambandi við þetta mál. Því hefur verið haldið fram, að við með því að fallast á alþjóðadómstól séum að afsala okkar einhliða rétti til útfærslu fiskveiðilögsögu síðar. Þetta er algerlega rangt. Við erum ekki að afsala okkur neinum rétti. Við lýsum því yfir í upphafi þeirrar gr., sem fjallar um alþjóðadómstólinn, að Íslendingar muni halda áfram að vinna að útfærslu fiskveiðilögsögu við Ísland að endimörkum landgrunnsins. Það er skýr og ótvíræð yfirlýsing um, að þetta munum við gera. En við komum okkur saman um það við Breta, að ef ágreiningur verði um það okkar á milli, hvort okkar aðgerðir séu byggðar á alþjóðareglum eða ekki, þá ætla Bretar ekki að beita ofbeldi með herskipum til að knýja okkur til undanhalds í því máli, heldur skuli hlutlaus alþjóðadómstóll fjalla um það, hvort við höfum á réttu að standa eða ekki. Því fer að sjálfsögðu víðs fjarri, þó að eitt réttarríki fallist á það, að deilumál þess og annars ríkis skuli úrskurðuð af hlutlausum alþjóðadómi, að þá sé það þar með að afsala sér einhverjum rétti. Það væri nákvæmlega sama og að segja, að þegnar þjóðfélagsins væru réttlausir, vegna þess að þeir væru háðir dómsvaldinu í landinu. Slíkri fjarstæðu kemur auðvitað engum manni til hugar að halda fram. Við Íslendingar höfum alla tíð leitazt við að sýna það og sérstaklega þeir, sem hafa viljað sýna ábyrga afstöðu í þessu máli, að það hefur ekki verið tilgangur þeirra að færa út fiskveiðilögsögu við Ísland öðruvísi en við værum um leið öruggir um það, að við værum ekki að brjóta nein alþjóðalög. Á því hafa útfærslur okkar að undanförnu verið byggðar. Þennan vilja sinn hefur ríkisstj. Íslands sýnt 1953, þegar hún bauð upp á alþjóðadómstól. Og með öllu okkar starfi í Genf, á tveim ráðstefnum, sýndum við það líka, að við vildum ekki byggja friðanir eða útfærslu við Ísland öðruvísi upp en þannig, að við brytum ekki alþjóðareglur, og að við værum reiðubúnir til að láta alþjóðadómstóla úrskurða um ágreining um það atriði.

Það hefur áður verið á það minnt, að á ráðstefnunum bæði 1958 og 1960 bárum við Íslendingar sjálfir fram till. um það, að heimilað yrði að koma á vissum friðunarráðstöfunum og vissri útfærslu út fyrir 12 mílur. En við buðum það fram í bæði skiptin, að alþjóðadómstóll skyldi um það fjalla, hvort farið væri að lögum hverju sinni eða ekki. Þetta sýndi ótvíræðan vilja okkar og stefnu í málinu. Þessar till. fengust ekki samþ., eins og kunnugt er. Aðrar samþykktir voru gerðar á báðum þessum ráðstefnum. Þær samþykktir miðuðu að því að tryggja verndun fiskimiða og fiskistofna utan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar. Allar byggðust samþykktirnar á því, að alþjóðlegur dómstóll fjallaði um ágreininginn. Öllum þessum samþykktum fylgdum við, og þessar samþykktir hefur Ísland undirritað og staðfest og sumar af þeim í tíð vinstri stjórnarinnar. Vilji okkar og stefna í þessum málum hefur þess vegna verið alveg ótvíræð á undanförnum árum.

Ef við ætlum að halda því fram, að við séum að hafa af okkur rétt með því að vilja fallast á alþjóðadómstól, og afneita honum á þeim grundvelli, þá er það nákvæmlega sama og við séum að segja, að við viljum ekki í útfærslu fiskveiðilögsögu í framtíðinni fara eftir alþjóðareglum. Nú finnst enginn maður á Íslandi, sem treystir sér til að segja það, meira að segja ekki stjórnarandstaðan hér á hv. Alþ., og lætur hún sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Ég vek enn athygli manna á því, að í þeirri brtt., sem stjórnarandstaðan hefur borið hér fram, býður hún Bretum upp á það, að Íslendingar skuldbindi sig til þess að fara að alþjóðalögum við útfærslu fiskveiðilögsögunnar í framtíðinni. Stjórnarandstaðan beinlínis leggur það til í sinni brtt., að við bjóðum upp á þetta, þannig að a.m.k. í orði hikar ekki stjórnarandstaðan við að lýsa þessu yfir.

Það hafa orðið um það nokkrar umr. hér, með hverjum hætti frekari útfærsla fiskveiðilögsögu við Ísland yrði, ef til kæmi. Orðalagið á sjálfri orðsendingunni er skýrt og greinilegt, og ætti enginn efi að þurfa að vera á um það atriði. Þar segir, að ríkisstjórn Íslands muni tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstóls. Ég vek athygli á því hér, að það er berum orðum tekið fram, að sjálf útfærslan skuli tilkynnt með 6 mánaða fyrirvara og ágreiningi um sjálfa útfærsluna skuli skotið til alþjóðadómstóls, ekki ákvörðun um útfærslu. Í framkvæmd yrði þetta þannig, ef ríkisstjórnin ætlaði sér að færa út fiskveiðilögsöguna, að hún gefur út reglugerð, þar sem ákveðið er, hversu mikið fiskveiðilögsagan skuli færast út. Það er ákveðið í reglugerðinni sjálfri, hvenær útfærslan skuli koma til framkvæmda. Það má ekki verða fyrr en 6 mánuðum eftir að reglugerðin er út gefin og afhent Bretum. Þessa 6 mánuði hafa Bretar til þess að snúa sér til alþjóðadómstólsins. Ef alþjóðadómstóllinn er búinn að kveða upp úrskurð, áður en 6 mánuðir eru liðnir, sem stöðvar þessa útfærslu okkar, þá er það dómurinn, sem stendur. Ef alþjóðadómstóllinn er ekki búinn að kveða upp neinn úrskurð, áður en 6 mánuðir eru liðnir, þá kemur reglugerðin til framkvæmda eftir orðanna hljóðan. Þetta er alveg skýrt og ótvírætt. Ég get látið það koma fram hér, að Bretar voru með þá hugmynd, að þeim skyldi tilkynnt ákvörðun um útfærslu 6 mánuðum áður en í framkvæmdina yrði ráðizt. Þessu neituðum við afdráttarlaust. Við stóðum fast á því, að það væri útfærslan sjálf, sem þeim skyldi tilkynnt með 6 mánaða fyrirvara, og þetta var gert af okkar hálfu til þess að tryggja, að við gætum gefið reglugerðina út, tilkynnt reglugerðina sjálfa, og ef ekki lægi fyrir úrskurður um annað frá alþjóðadómstólnum, áður en 6 mánuðir væru liðnir, þá gengi reglugerðin í gildi. Þetta er skýrt og ótvírætt og verður ekki um villzt.

Það er ýmislegt dálítið spaugilegt í málfærslu stjórnarandstæðinga í sambandi við þetta mál. Því var haldið hér fram af miklum sannfæringarkrafti í haust af stjórnarandstöðunni, að það væri nákvæmlega sama, um hversu takmarkaðan umþóttunartíma við semdum við Breta innan 12 mílna fiskveiðilögsögunnar. Þeir mundu tvímælalaust koma í lok þess tímabils og krefjast þess, að tíminn yrði framlengdur. Þetta var eitt af veigamestu rökunum, sem stjórnarandstaðan færði fram þá. Þegar við vorum að ræða við Breta nú um lausn fiskveiðideilunnar, sögðum við þeim frá því, að á Íslandi væri talsverður ótti í mönnum við allt samkomulag við þá út af þessu máli, vegna þess að menn teldu, að þeir kæmu í lok umþóttunartímans og færu fram á framlengingu. Af þessum ástæðum vildum við hafa það alveg skýrt og ótvírætt frá þeim, að til slíks kæmi ekki, svo að við m.a. gátum skýrt stjórnarandstöðunni frá þessu, þegar hún nú tæki upp sínar fyrri röksemdir. Þetta leiddi til þess, að Bretar lýstu því afdráttarlaust yfir við okkur, að þeim kæmi ekki til hugar að fara fram á neina framlengingu að umþóttunartímanum liðnum. Og við höfum yfirlýsingu frá þeim, þar sem segir: „Stjórn hennar hátignar staðfestir, að hún hefur alls ekki í huga að fara fram á neina framlengingu á þriggja ára umþóttunartímanum, sem brezk fiskiskip fá að halda áfram veiðum á vissum svæðum á seinni 12 mílunum.“ Þessa yfirlýsingu fengum við frá Bretum eingöngu vegna gagnrýni stjórnarandstöðunnar. Frá þessu skýrði ég í útvarpsumr. En hvað haldið þið, að gerist? Þá sprettur stjórnarandstaðan upp á Alþingi og segir: Sjáum nú til, svo slæma samvizku hafði ríkisstjórnin, — hún hélt, að það væri verið að plata sig, — að hún þorði ekki annað en fá þessa yfirlýsingu. — Fyrst framkallar stjórnarandstaðan yfirlýsinguna, og síðan ræðst hún á ríkisstj. og segir hana hafa slæma samvizku, þegar verið er að fullnægju og mæta þeirri gagnrýni, sem uppi hefur verið höfð af hennar hálfu.

Þá hefur því verið haldið fram, að óþarfi hafi verið fyrir okkur að gera nokkra samninga við Breta, því að þeir væru búnir að tapa deilunni, væru farnir í burtu með herskipin og mundu ekki leggja í að koma hingað aftur. Við vitum það öll, að Bretar héldu hér uppi látlausum ofbeldisaðgerðum fram að Genfarráðstefnunni. Þá hurfu þeir burt með skipin, og þeir lýstu því yfir, að þau væru eingöngu tekin héðan í burtu, á meðan Genfarráðstefnan stæði, þar til séð yrði, til hvers hún leiddi. Þegar ljóst var, að Genfarráðstefnan var árangurslaus, hurfu Bretar að sinni fyrri iðju við Ísland, þó að nokkurt hik væri í þeim að koma með herskipin fyrst í stað. En það var öllum ljóst á s.l. sumri, að á fiskimiðunum kringum landið var að sækja í nákvæmlega sama horfið og áður. Ofbeldisaðgerðirnar voru að byrja aftur, og við gátum búizt við stórslysi, hvenær sem væri. Stjórnarandstaðan leit svo alvarlegum augum á þetta, að hún óskaði eftir fundi í utanrmn. Formaður Framsfl. lýsti því þar yfir, að nú væri bersýnilegt, eftir að Genfarráðstefnan hefði endað án árangurs, að Bretar væru að taka upp sömu iðju við Ísland og áður, að því er ofbeldisaðgerðirnar varðaði, og ástandið væri jafnvel orðið verra en áður var, og það mætti búast við því, að á hvaða augnabliki sem væri gæti orðið hér stórslys. Þessa ræðu sína endaði formaður Framsfl. með því að krefjast þess af ríkisstj., að hún gerði einhverjar nýjar, róttækar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að þessir árekstrar héldu áfram og til stórslysa leiddi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað, af hvaða heilindum stjórnandstaðan er að tala nú, þegar hún vill halda því fram, að ekki hafi verið orðið neitt hættuástand á Íslandsmiðum eftir Genfarráðstefnuna og að Bretar hafi í raun og veru verið búnir að gefast upp.

Hv. stjórnarandstæðingar vilja nota þá kyrrð, sem verið hefur í kringum landið, á meðan á umr. við Breta hefur staðið, til þess að reyna að telja fólki trú um, að allt sé nú komið endanlega í lag og alger sigur unninn, þó að ekkert sé við Breta samið. En áður en þessi kyrrð fékkst vegna samninganna, viðhafði stjórnarandstaðan þau orð, sem ég áðan vitnaði til úr ræðu hv. formanns Framsfl.

Ég hef þá vikið að þeim helztu atriðum í þessu máli, sem ég sé ástæðu til að koma að. Í mínum augum liggur málið einfaldlega þannig fyrir: Við eigum annars vegar um það að velja að komast ekki að neinum samningum við Breta og láta deiluna halda áfram og taka þeim afleiðingum, sem hún kann að hafa. Hins vegar getum við fengið okkar 12 mílna fiskveiðilögsögu endanlega viðurkennda. Við getum fengið grunnlínur, sem enginn hefur hingað til treyst sér til að ráðast í á Íslandi. Við getum fengið Breta til þess í framtíðinni að hætta við að beita okkur ofbeldi út af útfærslum og þola úrskurð alþjóðadómstóls gegn því, að við gerum slíkt hið sama, fyrir það eitt, að þeir fái smávægilegan umþóttunartíma. Valið, sem Íslendinga bíður, er svo einfalt og auðvelt sem frekast má verða, og ég vil biðja menn að gera sér grein fyrir, hvað okkar mundi bíða, ef við framan í öllum heiminum ættum að segja við Breta: Við þeim kosti, sem þið viljið ganga að til lausnar á deilunni, viljum við ekki taka. — Ég er sannfærður um það, að eftir slíkt svar væri vegur okkar lands og okkar þjóðar á alþjóðavettvangi ekki mikill og þá væri 12 mílna fiskveiðilögsaga við Ísland og 4 mílna fiskveiðilögsaga við Ísland ekki mikils virði.