07.03.1961
Sameinað þing: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (2420)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef tekið eftir því alveg sérstaklega í sambandi við umr. um þetta mál til þessa, að bæði fylgismenn og mótstöðumenn þáltill., sem hér liggur fyrir, eru sannfærðir um, að hún marki tímamót í sögu landhelgismálsins. Ég er alveg á sama máli og álít, að nú sé verið að skapa mikil tímamót, og ég er viss um, að menn eiga síðar eftir að vitna til þess, sem nú er verið að gera. Með tilliti til þessara staðreynda og af því að ég hef þá trú, að landhelgismálið verði ekki að fullu skilið né heldur túlkað rétt án sögulegrar yfirsýnar, þá mun ég hér í upphafi ræðu minnar fara nokkrum orðum um sögu landhelgismálsins og stikla þó á mjög stóru.

Frá upphafi Íslandsbyggðar og til loka þjóðveldistímans upp úr 1260 er ekki vitað, að neitt verulega hafi reynt á það, hversu langt íslenzkt yfirráðasvæði var talið ná undan ströndum landsins, og það er ekki fyrr en í upphafi 15 aldar, sem á þetta reynir, svo að umtalsvert sé. En hins vegar má líka fullyrða, að alla tíð síðan og allt til þessa dags hafi ákvörðun þessa yfirráðasvæðis verið eitt mikilvægasta landsmál á Íslandi, hvernig svo sem stjórn landsins hefur verið háttað, hvort heldur það var einvaldsstjórn erlendra konunga, þingbundin konungsstjórn eða lýðveldi.

Upp úr aldamótunum 1400 fara erlendir fiskimenn að sækja hingað til fiskveiða, og samtímis fer að bera á árekstrum um fiskveiðiréttinn milli hinna erlendu sjómanna annars vegar og landsmanna og konungsvalds hins vegar. Konungur hélt fram rétti sínum til hafsvæðisins umhverfis Ísland, og þann rétt urðu erlendar þjóðir að virða, og skapaðist sú venja mjög brátt og hélzt svo um aldir, að enskir og þýzkir sjómenn urðu að sækja um sérstakt leyfi til þess að mega fiska á íslenzku hafsvæði. Væri brotið í bága við leyfi þessi, var því jafnan mótmælt af landsmanna hálfu og þeirra, sem gættu réttar konungs. Þannig stóðu sakir í fullar tvær aldir, eftir að fiskveiðar útlendinga byrjuðu fyrir alvöru á Íslandsmiðum. Ekki verður séð, að hinar erlendu þjóðir vinni sér á þessu tímabili neinn hefðbundinn rétt til óskoraðra fiskveiða við landið, heldur bendir allt til hins gagnstæða. Yfirvöld landsins og landsmenn sjálfir, þar á meðal Alþ., sýna allt þetta tímabil viðleitni í verki til þess að halda uppi rétti gagnvart útlendum fiskimönnum og helga Íslandi þau yfirráð yfir hafinu, sem því að réttu bar.

Í upphafi 17. aldarinnar er verzlunareinokun komið á, svo sem allir þekkja, og veitir konungur síðan einstökum verzlunarfélögum einkaleyfi til verzlunar á Íslandi, og jafnframt náði einokunin yfirleitt til fiskveiði- og hvalveiðiréttinda við landið. Árið 1631 er merkilegt ár í sögu landhelgismálsins vegna þess, að þá var einokunarfélaginu gefið einkaleyfi til veiða á Íslandsmiðum og jafnframt heimilað að taka þau erlend skip, sem stunduðu veiðar innan ákveðinna marka frá landi. Mörk þessi voru miðuð við fjarlægð, sem samsvarar 16 sjómílum, þegar um ensk skip var að ræða, en 24 sjómílum, ef þau voru af öðru þjóðerni.

Næstu 230 ár eða svo má fullyrða, að landhelgi Íslands sé aldrei minni en 16 sjómílur og stundum meira, 24 eða 32 sjómílur. Það var ekki fyrirhafnarlaust að verja þessa landhelgi og kostaði bæði deilur og átök. Íslendingar stóðu ævinlega á rétti sínum, eftir því sem máttur var til á þeim tíma, og gerðu allt, sem þeir framast máttu, til þess að mótmæla erlendum yfirgangi, og dönsk yfirvöld, þótt slæm væru, sýndu nokkra viðleitni til landhelgisgæzlu. Þó seig stöðugt á ógæfuhlið í þessu máli Danska stjórnin lét smám saman undan ásælni Breta og Frakka og fleiri þjóða um að opna íslenzka landhelgi fyrir fiskveiðiflota þeirra, og svo fór að lokum nokkru eftir miðja seinustu öld, 1859, að danska flotamálastjórnin tilkynnti með bréfi, að enda þótt íslenzk landhelgi hafi verið 16 sjómílur, þá sé það ekki lengur í samræmi við alþjóðlegar hugmyndir um víðáttu landhelginnar og skuli landhelgi Íslands því ákveðast 4 sjómílur eða sem því svarar, en flóar og firðir skyldu þó lokaðir fyrir fiskveiðum útlendinga.

Þessi tilslökun við yfirgangsmennina á Íslandsmiðum var auðvitað löglaus með öllu, nema að því leyti sem hervald og ofbeldishótanir voru lög. Þó voru Englendingar engan veginn ánægðir með þessar lyktir, því að enn voru flóar og firðir lokaðir fyrir rányrkju þeirra, og næsta stigið í baráttu þeirra til yfirdrottnunar á Íslandsmiðum var að fá það bann úr gildi numið. Næstu 40 ár og vel það eru hvert um sig vörðuð dæmum af yfirgangi Breta við Ísland, beinni íhlutun um innanríkismál og heigulslegri undanlátssemi af hálfu danskra yfirvalda gagnvart hótunum hins brezka stórveldis.

Veiðitækni fleygði stórlega fram. Í stað handfæraskipanna, sem hér fiskuðu lengst af fyrr á öldum og fram undir þennan tíma, komu gufutogarar Breta, búnir stórvirkari veiðitækjum en áður höfðu þekkzt, og skófluðu upp þeim ókjörum af fiski, að fáa hafði dreymt um, að slíkt væri mögulegt. Þessir togarar sóttu mjög til Íslands, enda var þá farið að tregast um afla í Norðursjó og öðrum heimaslóðum Englendinga vegna hinnar óskammfeilnu rányrkju, sem öll stefndi að eyðingu og uppþurrkun fiskstofnanna, sem hefur verið höfuðstefna Englendinga í útgerðar- og fiskveiðimálum í aldanna rás.

Yfirgangsstefna Breta náði hámarki með nauðungarsamningnum, sem tókst að gera við Dani um landhelgi Íslands árið 1901. Í miðri þróunarsögu hinna ægilegu fiskdrápstækja tekst enskum stjórnmálamönnum og diplómötum að svipta í sundur síðustu lagaákvæðunum, sem í gildi voru til varnar fiskstofnunum við Ísland. Flóar og jafnvel tiltölulega litlir og þröngir firðir voru opnaðir fyrir brezku togurunum og um leið togurum annarra þjóða, sem réðust að bráðinni og tóku upp þá siði, sem þeir voru vanir úr sínum heimahögum, og byrjuðu að yrja upp fiskslóðirnar allt upp í landsteina.

Rányrkjan á Íslandsmiðum var komin í algleyming, og henni linnti ekki eða lítið næstu áratugi. Mótmæli landsmanna voru að engu höfð, yfirgangur erlendra togara var hér óþolandi lögleysa og ofbeldi, sem ótal dæmi sanna, en landhelgisgæzlan af hálfu Dana oftast bágborin.

Dansk-enski samningurinn frá 1901 er einhver hin voðalegasta stjórnarframkvæmd, sem gildi hefur haft á Íslandi. Tildrög hans voru ofbeldishótanir og nauðung og afleiðingarnar gegndarlaus rányrkja og eyðing fiskstofna og fiskveiða. Samningurinn var bæði Dönum og Bretum til hinnar mestu vansæmdar, en Íslendingum var hann hálfrar aldar kúgunarok og orsök hins versta arðráns. Það er ekki hægt að leiða neinum getum að því, hve mikið fjárhagslegt tjón Íslendingar hafa beðið af völdum þessa smánarsamnings, en hitt er víst, að tjónið er geigvænlegt.

Þessi samningur hafði þó einn kost, og hann var sá, að það var hægt að segja honum upp með vissum fyrirvara, og hann gekk loks úr gildi eftir að hafa verið við lýði í 50 ár. Á gildistíma þessa samnings, 1901–1951, var landhelgi Íslands 3 sjómílur samkvæmt kröfu Englendinga, en við brottfall hans hlaut landhelgi Íslands að verða a.m.k. hin sama og hún var í reynd á árunum 1859–1901, 4 sjómílur, og firðir og flóar innan hennar, og sumir hefðu talið, að við brottfall samningsins mætti jafnvel lýsa yfir stærri landhelgi af sögulegum ástæðum einum saman.

Eins og ég sagði áðan, varð reynslan af dansk-enska samningnum frá 1901 sú, að fiskmagn á Íslandsmiðum fór síþverrandi ár frá ári, svo að til stórvandræða horfði fyrir íslenzkt efnahagslíf, sem var svo mjög háð fiskveiðum.

Í heimsstyrjöldunum fyrri og síðari minnkaði nokkuð um skeið ásókn erlendra togara á íslenzk fiskimið, enda brá svo við, að fiskmagnið jókst talsvert og varð þannig bein sönnun fyrir ofveiði á miðunum og að mögulegt væri að viðhalda fiskstofnunum og auka þá með skynsamlegri nýtingu og friðunaraðgerð.

Að sjálfsögðu hafa hvorki Bretar né aðrir getað hnekkt þessari staðreynd, og þess vegna voru þeir nauðbeygðir til að samþykkja vissar ráðstafanir, sem miðuðu að því að sporna við ofveiði, svo sem reglur um möskvastærð, en hins vegar stóðu þeir í vegi fyrir friðun Faxaflóa, þó að aðrar þjóðir samþykktu að stuðla að þeirri friðun. Er öll okkar reynsla af viðskiptum við Breta í landhelgis- og fiskveiðimálum á einn veg, og höfum við því miður einskis annars að minnast í samskiptum við þá en óbilgirni þeirra, ágengni þeirra, lögbrota þeirra og yfirgangs þeirra. Öldum saman hefur þeim haldizt uppi með þessar aðfarir, og skákuðu þeir þar í skjóli herveldis síns og heimsdrottnunar og þeirra skoðana, sem almennt voru viðurkenndar, að hinn veiki og varnarlausi yrði að sitja og standa eins og sá stóri og sterki vildi. Meðan þessi skoðun mótaði hugarfar hins menntaða heims, var ekki við því að búast, að réttur smáþjóða væri tryggður, ef stórveldi var við að etja. Undanlátssemi Dana á 19. öld og fram á 20. við Breta og aðra útlendinga á Íslandsmiðum verður skiljanleg í ljósi þessarar staðreyndar. En hins vegar ættu hinar gömlu yfirdrottnunarþjóðir ekki að reka upp stór augu, þótt smáþjóðirnar rísi upp hver af annarri og heimti rétt sinn, þegar hugarfar heimsins er að breytast í þá átt, sem tvær heimsstyrjaldir hafa þó orkað að þoka því til.

Til lengdar verður ekki haldið uppi stefnu í landsmálum eða heimsmálum, sem fer verulega í bága við almenningsálitið í heiminum. Meðan það þótti fínt og í fyllsta máta réttmætt að knýja fram réttindaafsöl gagnvart smáþjóðum í skjóli ósigrandi hernaðarmáttar, var ekkert við því að gera, þótt slíku væri beitt, enda óx orðstír yfirdrottnunarþjóðanna, því meir sem þær létu gjalda aflsmunar og færðu út áhrif sín og yfirráð. En nú, þegar heimsdrottnunarstefnan þykir hvergi fín né aðdáunarverð, þá megnar enginn mannlegur máttur — og hvað þá sá, sem öllu er ofar — að finna því réttlæti stað, sem fólgið er í að halda í gamlar leifar yfirdrottnunar- og kúgunaraðstöðu. Út frá þessum staðreyndum langar mig að ræða landhelgismál Íslendinga frá styrjaldarlokum til þessa dags.

Hvað sem segja má um ógnir síðustu heimsstyrjaldar, þá verður því ekki neitað, að um margt kollvarpaði hún fyrri tíðar hugmyndum og varð til þess að skapa nýjan heim í fleiri en einum skilningi. Síðan styrjöldinni lauk, hefur hin gamla nýlendustefna algerlega orðið að láta í minni pokann, svo að þau réttindi, sem nýlenduveldin höfðu tekið sér í skjóli valds síns, hafa hrunið af þeim eins og lausagrjót úr bröttu fjalli.

Þessar staðreyndir hafa reynzt mikilvægar fyrir þróun landhelgismála Íslendinga undanfarinn einn og hálfan áratug. Þó að hægt væri farið af stað í fyrstu, varð þessi þróun samt örari með hverju árinu sem leið, svo að við getum ekki annað en undrazt árangurinn. En þegar betur er að gætt, þarf þetta í sjálfu sér ekki að vera neitt undrunarefni, þar sem landhelgismál okkar hafa alla tíð markazt af viðhorfum heimsins til valds og þjóðréttinda á hverri öld.

Nú er sú stefna í algleymingi að létta erlendu oki og íhlutun af þjóðum heims, og hafa tugir nýrra þjóðríkja risið af grunni undanfarin ár, og enn munu fleiri bætast í ríkjasamfélag heimsins í náinni framtíð, ef ekki verður stórbreyting á þeirri stefnu, sem nú ríkir.

Íslendingum hefur smám saman tekizt að öðlast fullveldi á þessari öld, og með lýðveldisstofnuninni 1944 og breyttu mati á viðhorfum í heimsstjórnmálum eftir styrjöldina var skapaður grundvöllur undir það að vinna aftur forn réttindi yfir hafinu umhverfis landið, og má fullyrða, að um það mál hafi verið fullkomin þjóðareining. Þjóðin var fyrir löngu orðin einhuga um að vera viðbúin miklum aðgerðum, þegar samningstímanum við Breta um landhelgina lyki að undangenginni uppsögn, og einskis var látið ófreistað af yfirvaldanna hálfu til þess að undirbúa þessar aðgerðir. Fræðimenn, sem rannsökuðu íslenzk landhelgismál sögulega, komust að þeirri niðurstöðu, sem nú er alkunn og ég hef rakið hér nokkuð í stórum dráttum. Jafnframt var þeirri kenningu haldið fram, að ríki hefðu rétt til þess að ákveða landhelgi sína einhliða, þ.e. án milliríkjasamninga, þó innan skynsamlegra marka. Þessari kenningu um einhliða rétt var þó harðlega mótmælt af nokkrum ríkjum, aðallega hinum gömlu stórveldum og siglingaþjóðum, þ.e.a.s. þær vildu ekki, að nein þjóð víkkaði út landhelgi sína á þann hátt, sem við helzt kusum, til þess að ná fiskveiðiréttindum. Hins vegar stækkuðu þær eigin landhelgi sína til þess að ná yfirráðum yfir auðlindum hafsbotnsins, svo sem Bandaríkjamenn í sambandi við olíulindir við strönd sína.

Þær héldu því fram, þessar þjóðir, í viðskiptunum við smáþjóðirnar, að þriggja mílna landhelgi væri gild alþjóðaréttarregla, sem ekki yrði fram hjá komizt. Íslendingar ráku sig mjög á þessa skoðun. og hafa nú um margra ára skeið barizt fyrir að eyða henni og láta hið sanna koma í ljós. Íslendingar áttu frumkvæði að því árið 1949, að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti að fela þjóðréttarnefnd samtakanna að rannsaka ásamt fleiru allt það, er varðaði landhelgismál, og leggja álit sitt síðan fyrir allsherjarþingið. Með þessu komst nýr skriður á málið, og æ fleiri þjóðir létu þetta mál sig skipta, og átti það eftir að sýna sig, að það var hinum íslenzka málstað til mikillar styrktar.

Áður en lengra er haldið að rekja þróun málsins á alþjóðavettvangi, er rétt að geta þeirra aðgerða, sem mörkuðu stefnu Íslands í landhelgismálinu. Íslendingar voru sannfærðir um rétt sinn til einhliða ákvarðana í sambandi við landhelgismálið, og þeir héldu því einnig fram, að kenningin um þriggja mílna landhelgi sem alþjóðlega réttarreglu væri ekki einasta röng, heldur væri hitt sannast, að engin almenn þjóðréttarregla væri í gildi um hámark landhelginnar. Á grundvelli þessara skoðana samþykkti Alþ. árið 1948 hin mjög svo merkilegu lög um vísindalega friðun fiskimiða landgrunnsins, en með lögum þessum heimilast ríkisstj. að ákvarða með reglugerð takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins. Jafnframt skyldi ríkisstjórninni heimilað að setja reglur, sem nauðsynlegar væru til verndar fiskimiðum á landgrunninu. Tekið er fram í lögunum, að reglum þeim, sem settar kynnu að verða í samræmi við lögin, skuli einungis framfylgt að svo miklu leyti sem samrýmanlegt sé milliríkjasamningum þeim, sem Ísland sé eða kunni að verða aðili að.

Þegar lögin voru sett, voru tveir milliríkjasamningar því til fyrirstöðu, að hægt væri að framfylgja friðun á landgrunninu með einhliða ákvörðunum Íslendinga. Annars vegar var alþjóðlegur samningur um möskvastærð, og mátti segja, að þar væri um mjög minni háttar atriði að ræða, en hins vegar var sá gamli dragbítur, dansk-enski samningurinn frá 1901, sem var í rauninni eina hindrunin, og að auki má svo segja, að jafnvel þótt þessi samningur félli skjótlega úr gildi, þá væri björninn ekki að fullu unninn, meðan Bretum og öðrum stórveldum væri alvara með að halda kenningu sinni um þriggja mílna regluna til streitu með góðu eða illu.

Það hlaut því að verða stefna ríkisstj. Íslands að fara með fullri gát að útfærslu fiskveiðimarka og friðunarsvæða á landgrunninu, meðan málið væri undirbúið á alþjóðafundum og hjá alþjóðlegum stofnunum. Eigi að síður var ríkisstj. það ljóst, að við brottfall dansk-enska samningsins og eftir úrslitin í deilu Norðmanna og Breta fyrir Haagdómstólnum um grunnlínuákvörðun Norðmanna var ekkert því til fyrirstöðu að færa landhelgina út í 4 mílur miðað við grunnlínur, sem dregnar væru umhverfis landið á nákvæmlega sama hátt og Norðmönnum heimilaðist samkv. Haag-dómstólnum. Útfærslan 1952 í 4 mílur heppnaðist því fullkomlega þrátt fyrir mótmæli Breta og hefndaraðgerðir þeirra, sem birtust í löndunarbanninu. Í reynd urðu Bretar að viðurkenna útfærsluna, enda undirgengust brezkir togaraskipstjórar marga sektardóma fyrir brot, sem framin voru innan hinnar nýju landhelgi.

Um áhrif þessarar fyrstu allsherjarútfærslu landhelginnar á friðun íslenzkra fiskimiða skal hér ekki fjölyrt, en aðeins sagt, að þau voru mikilsverð og komu skjótlega í ljós. Varð það ekki sízt til þess að réttlæta aðgerðir Íslendinga í augum alls heimsins, og mátti segja, að við gætum vel við unað.

Á meðan þessu fór fram hér heima, var unnið jafnt og þétt að landhelgismálum á alþjóðavettvangi, og var starf þjóðréttarnefndarinnar þar mikilvægast. Eftir sjö ára starf skilaði nefndin áliti til Sameinuðu þjóðanna og komst m.a. að þeirri niðurstöðu, að engin alþjóðaregla væri til um víðáttu landhelginnar, — engin ein alþjóðleg regla. Kom í ljós, að mikill minni hluti þjóða heims aðhylltist 3 mílna regluna, og var þá þegar bersýnilegt, að kenningin um algildi hennar átti sér enga stoð. Þá upplýstist það einnig, sem Íslendingar höfðu haldið fram og byggt á, þegar þeir settu landgrunnslögin árið 1948, að fjölmargar þjóðir höfðu markað sér landhelgi með einhliða ákvörðun. Við þessar upplýsingar varð Íslendingum enn ljósara en áður, hve mikilvæg landgrunnslögin voru, og flestir voru þeirrar skoðunar, að möguleikar til útfærslu á grundvelli þeirra væru enn miklir, enda var það yfirlýst stefna stjórnar Hermanns Jónassonar, sem mynduð var 1956, að vinna að frekari útfærslu fiskveiðimarkanna með einhliða ákvörðunum. En þó varð það samkomulag í stjórninni, að sjálfsagt væri að bíða með aðgerðir, þar til Sameinuðu þjóðirnar hefðu komið sér saman um einhverjar fastar reglur um víðáttu landhelginnar, ef það mætti verða á allsherjarþinginu sjálfu eða — eftir að allsherjarþingið samþykkti að kveðja saman ráðstefnu um málið — á þeim vettvangi.

Sameinuðu þjóðirnar kvöddu síðan til alþjóðaráðstefnu um málið í Genf fyrri hluta árs 1958. Ráðstefnuna sóttu flestar, ef ekki allar þær þjóðir, sem aðild áttu að samtökum Sameinuðu þjóðanna, fast að 90 að tölu. Ráðstefna þessi er mönnum enn í fersku minni, og mun ég ekki rekja gang mála þar að neinu ráði. Ráðstefnan setti sér fastar starfsreglur, m.a. um það, hve mikið atkvæðamagn þyrfti, til þess að afgreidd mál yrðu skuldbindandi alþjóðalög. Þurfti til 2/3 atkv., svo að það mætti verða. Ráðstefnan lauk ýmsum málum endanlega og þótti að mörgu leyti hin athyglisverðasta, en samt var henni slitið svo, að engar reglur urðu samþykktar um víðáttu landhelgi, og var málið því jafnóleyst í lok ráðstefnunnar og það hafði verið í upphafi hennar. Eigi að síður höfðu menn skipzt á mikilvægum skoðunum um málið, og eitt staðfesti ráðstefnan, svo að ekki var um deilt, að 3 mílna kenningin var búin að vera og ekki var hægt að benda á neina fasta reglu, sem gildi hefði að alþjóðalögum um landhelgisvíðáttuna. Þá kom það líka í ljós, að fulltrúar voru almennt á þeirri skoðun, að rétt væri að greina á milli almennrar landhelgi og fiskveiðilögsögu. Tóku Íslendingar undir þá skoðun og fylgdu þeirri tillögu á ráðstefnunni, sem lengst gekk í þessu efni, till. um 6+6, sem svo hefur verið kölluð. Kváðust Íslendingar geta fylgt því, að ráðstefnan ákvæði fiskveiðilandhelgina almennt 12 mílur, en fluttu jafnframt tillögu um, að þjóðir, sem að mestu leyti byggðu afkomu sína á fiskveiðum, hefðu rétt til hafsvæðis utan 12 mílnanna, ef nauðsyn krefði að þeirra áliti. Var sérstaða Íslands sem fiskveiðiþjóðar rækilega skýrð á fundum ráðstefnunnar, og er óhætt að fullyrða, að hinum íslenzka málstað óx mikið fylgi og sérstaða landsins var almennt viðurkennd. Hafði ráðstefnan því ótvírætt gildi fyrir málstað Íslands, og mun það seint ofmetið.

Íslenzku fulltrúarnir létu þess getið við lok ráðstefnunnar, og hæstv. utanrrh. hefur áréttað það nú í ræðu þeirri, sem hann hélt hér áðan, að úr því að ráðstefnan hafi ekki komizt að niðurstöðu um, hvað skyldi teljast viðurkennd landhelgi að alþjóðalögum, og þar sem margt væri í óvissu um það mál, mundi íslenzka ríkisstj. ekki fresta lengur að færa út fiskveiðimörkin með einhliða ákvörðun. Hún hefði nógu lengi beðið eftir alþjóðlegu samkomulagi, og úr því að það hefði brugðizt, væri ekki eftir neinu að bíða. Eins og hæstv. utanrrh. tók fram hér áðan, kom þetta fram í hans eigin orðum á ráðstefnunni og eins eftir að hann kom heim, og Hans G. Andersen tók þetta líka fram í lokaræðu sinni á ráðstefnunni. Aðrar þjóðir þurftu því ekki að vera í neinum vafa um, hvað mundi gerast og að Íslendingum væri alvara. Það var að vísu augljóst, að hér vorum við að stíga djarfmannlegt spor. En við höfðum almenningsálitið í heiminum með okkur, þó með einni undantekningu, eins og síðar kom í ljós.

Þegar hér var komið sögu, hafði aldrei borið á minnsta ágreiningi opinberlega innanlands í landhelgismálinu milli flokka. (Forseti: Á hv. ræðumaður mikið eftir af ræðu sinni?) Já. (Forseti: Getur hann lokið henni á 5 mínútum eða svo?) Nei, það get ég ekki. (Forseti: Það eru enn þá 12 manns á mælendaskrá, og verður nú gert hlé á fundinum, fundi frestað til kl. 5.) — [Fundarhlé].

Herra forseti. Ég hafði ekki lokið máli mínu, þegar fundarhlé var gert kl. 4, og mun nú halda áfram ræðu minni, þar sem frá var horfið. Seinasta atriði, sem ég ræddi um sérstaklega, var Genfarráðstefnan 1958 og þær yfirlýsingar, sem hæstv. þáv. utanrrh. og núv. utanrrh. gaf eftir ráðstefnuna um það, að Íslendingar mundu hefjast handa um útfærslu landhelginnar að loknum þessum fundi. Og ég gat þess, að þetta hefði víst mátt telja djarfmannlegt spor af okkar hálfu, en þó töldum við, að við hefðum almenningsálitið í heiminum með okkur, þó að þar mætti finna á undantekningar.

Fram undir þennan tíma hafði aldrei opinberlega borið á minnsta ágreiningi innanlands í landhelgismálinu milli flokka eða stétta. Segja mátti, að þjóðin stæði einhuga, og fram að þessu hafði ríkisstj. á hverjum tíma verið treyst til þess að fylgja landhelgismálinu fram og gera þær aðgerðir, sem framkvæmanlegar væru á hverjum tíma, miðað við aðstæður að mati ríkisstjórnarinnar. Aldrei hafði það komið fyrir, að flokkar, sem væru utan stjórnar, réðust að ríkisstjórn, sem fór með landhelgismálin, með brigzlum og stóryrðum. Þaðan af síður hafði það komið fyrir, að flokkar, sem samvinnu höfðu í ríkisstjórn, væru að skattyrðast um málið opinberlega. En eftir Genfarfundinn gerist hvort tveggja. Þeir stjórnmálaflokkar, sem tóku þátt í þessum opinbera skrípaleik vordagana og fram eftir sumri 1958, á þeim tíma, þegar mest var einingar þörf, voru Sjálfstfl. og Alþb. og raunar Alþfl., sem inn í það dróst.

Framsóknarmenn reyndu að miðla málum innan stjórnarinnar og tókst það, enda þurfti ekkert um það að villast eftir þær yfirlýsingar, sem fram höfðu farið, að ríkisstj. var staðráðin í að gefa út nýja reglugerð um víðáttu fiskveiðilögsögunnar, og það var því illa farið, að stjórnarflokkarnir tveir, Alþb. og Alþfl., skyldu láta sig hafa það að deila opinberlega um þau atriði, sem átti að leysa á ráðherrafundum og hægt var að leysa þar, eins og líka kom í ljós. Þó er einna verstur hlutur Sjálfstfl., því að hann gerði allt, eða hans flokksforusta, til þess að gera fyrirhugaðar ráðstafanir ríkisstj. sem tortryggilegastar, svo að Bretar, sem vissulega voru aðalandstöðumenn útfærslunnar, drógu þær ályktanir af skrifum og ræðum Sjálfstfl.-forustunnar, að íslenzka þjóðin væri klofin í málinu, þjóðareiningin búin að vera. Þetta var þó alls ekki rétt ályktað, því að sjálfstæðismenn almennt voru jafneindregnir í málinu og aðrir Íslendingar. En þessar fávíslegu deilur um landhelgismálið sumarið 1958 voru þjóðhættulegar, enda versta sundrungariðja, sem höfð hefur verið í frammi hér á landi um langan aldur. Má e.t.v. segja, að við séum nú að gjalda skuld þessarar flónsku með þeim nauðungarsamningi, sem stjórninni er nú réttur úr hendi Breta.

Þrátt fyrir misvitra forustu sumra stjórnmálaflokka sumarið 1958 skapaðist þjóðareining að nýju um málið, þegar útfærsla landhelginnar í 12 sjómílur gekk í gildi 1. sept. Öll þjóðin og allir flokkar sameinuðust á þeim degi og fordæmdu ofbeldisaðgerðir brezku stjórnarinnar.

Þegar hin nýja fiskveiðilögsaga hafði staðið í eitt ár, var það einróma álit blaða og stjórnmálamanna og allrar þjóðarinnar, að við ættum sigurinn vísan, aðgerðirnar hefðu heppnazt. Og má í því sambandi minna á ummæli bæði Alþýðublaðsins og Morgunblaðsins og fleiri blaða. Mikilvægustu atriðin voru þau í fyrsta lagi, að allar þjóðir nema Bretar viðurkenndu landhelgina í verki. Í öðru lagi var greinilegt, að togaramenn í Bretlandi voru ófúsir til að standa í „þorskastríðinu“, sem þeir kölluðu svo, og voru að gefast upp. Það var brezka stjórnin, sem neyddi þá til lögbrotanna. Slíkt gat auðvitað ekki staðið til lengdar. Í þriðja lagi voru veiðarnar undir herskipavernd fyrir fram gefinn taprekstur. Í fjórða lagi hafði friðunin heppnazt 80%, telja margir, þrátt fyrir aðgerðir Breta til þess að hnekkja henni með hervaldi. Og í fimmta lagi var almenningsálitið Íslendinga megin, og því betur sem málið var kynnt og lengra leið, því meira bar á fordæmingu á atferli Breta meðal annarra þjóða.

Við höfðum því fyllstu ástæðu til að ætla, að tíminn ynni með okkur í þessu máli og fyrr eða síðar mundu Bretar gefast algerlega upp á þessu hlægilega „þorskastríði“, sem gerði þá að hreinu viðundri í augum alls heimsins. Hitt mátti auðvitað segja, að deila þessi væri á margan hátt bagaleg fyrir Íslendinga, m.a. væru fiskmarkaðir lokaðir í Bretlandi, og ekki er hægt að neita því, að verulegur háski gat fylgt því fyrir íslenzka varðskipsmenn, ef í odda skærist, svo að um munaði, eins og hæstv. dómsmrh. hefur oft lagt áherzlu á. En ef það mætti teljast líklegt, að við ynnum þessa deilu með seiglu og staðföstum vilja, þá sé ég ekki, að ástæða hefði verið til þess að semja um tilslakanir á aðgerðum okkar og framtíðarfyrirætlunum til þess að létta af þessu óhagræði, sem deilan við Breta kynni að valda okkur í bili.

Samningafyrirætlanir ríkisstj. nú sýna undanlátssemi og vantrú á málstaðinn, sem getur ekki talizt í samræmi við vilja Alþingis né vilja íslenzku þjóðarinnar almennt. Það læðist jafnvel að manni grunur um, að einhverjar annarlegar ástæður valdi þessum samningsvilja ríkisstj., einhvers konar pressa, sem hún treystir sér ekki til að standa gegn. Ella mundi hún ekki vilja ganga að eins óhagstæðum samningi og henni virðist nú standa til boða, því að hann er verulega óhagstæður þrátt fyrir allar gyllingar stjórnarinnar á kostum hans — ef kosti skal kalla.

Ég mun nú víkja aðeins að tillögunni, eins og hún liggur fyrir hér á þskj. 428, ásamt þeim athugasemdum og fylgiskjölum, sem fylgja. Efni till. er það, að Alþingi heimili ríkisstj. í fyrsta lagi að leysa fiskveiðideiluna við Breta, — það á að leysa fiskveiðideiluna við Breta. Og í öðru lagi á lausnin að vera í samræmi við orðsendingu utanrrh., sem prentuð er sem fskj. Markmiðið er því samkv. tillögugreininni að leysa deiluna, og er það vissulega mikilsvert, ef vel tekst til, og ef til vill eru það fleiri en ríkisstj., sem mundu fagna lausn landhelgisdeilunnar, ef lausnin væri byggð á þeim grundvelli, sem ótvírætt er hagstæður og leiðir til raunverulegrar lausnar, en vekur ekki upp eftirmál, jafnskjótt og búið er að undirrita samninginn.

Það er vissulega einfalt verk og fljótunnið að hespa af slíka samninga. Og það ber oft við í viðskiptum einstaklinga, að slíkir vafasamningar séu gerðir. Er því þá gjarnan um kennt eftir á, að undirbúningur hafi verið ónógur og ekki nægilega vandað til ráðunauta í sambandi við samningsgerðina. Þessir alkunnu vafasamningar í einkaviðskiptum leyna oft hættulegum smugum, sem síðar koma í ljós, en samningsaðili gat ekki gert sér grein fyrir við undirskrift samningsins, annaðhvort af því, að hann var beinlínis blekktur, ellegar af því, að hann brast hæfileikann til þess að meta efnisatriðin rétt og þær skyldur, sem hann tæki sér á hendur. Þá er það líka alkunna, að sumir eru samningamenn, eins og kallað er, þ.e.a.s. eiga auðvelt með að ná samningum og virðast oft slá af sínu, en þegar betur er að gætt og nokkur reynsla er fengin af samningunum, þá kann að koma í ljós, að sá sem talinn var slá undan, tók í staðinn ýmislegt, sem gagnaðilinn áttaði sig ekki á, þegar hann gerði samninginn. Liprustu samningamenn beita oft vissum sjónhverfingum, sem sáttfúsir, ódeilugjarnir eða langþreyttir menn láta blekkjast af, svo að þeir sjá ekkert nema kostina við samningana, en ókostir samninganna og torráðið orðalag þeirra er þeim með öllu hulið. Mér dettur þetta allt í hug, þegar ég heyri menn gera mikið úr ágæti hins fyrirhugaða landhelgissamnings við Breta, enda held ég, að engir aðrir lofi ágæti þessa væntanlega samnings — fyrir utan hæstv. ráðherra auðvitað — en þeir, sem aðeins hafa lesið niður fyrir miðja síðu á bls. 1 á þskj. 428, þar sem ríkisstj, kemur með ýmsar fullyrðingar um það, hvað felist í samningnum. Ef maður les ekkert annað en það, sem þar stendur, og fyrirsagnirnar í stjórnarblöðunum, þá er þar að finna nokkur atriði, sem ástæða er til að fagna. En af því að hér er um að ræða mikilsverða samningagerð, langar mig til þess að biðja menn að hlaupa alveg yfir útskýringarnar á bls. 1 á þskj., því að þær eru ekki hlutlausar, og lesa eingöngu fskj. I á bls. 8 og 9 og draga sínar sjálfstæðu ályktanir af því, sem í því felst, og gera sér grein fyrir því, hvers konar plagg hér er um að ræða.

Það er fyrst, ef maður lítur á ytri gerð plaggsins, þá er þetta kallað orðsending utanrrh. Íslands til utanrrh. Bretlands. Þetta mundi e.t.v. merkja það, að hæstv. utanrrh. okkar sé búinn að senda kollega sínum í Bretlandi neðanskrifaða orðsendingu, en þó er það engan veginn víst, og ekki liggur fyrir svarorðsending brezku stjórnarinnar. Í öðru lagi veitir maður því athygli, að orðsendingin er ódagsett, hvað sem því veldur. En hér má segja að sé um minni háttar atriði að ræða, enda sé það efnið, sem öllu máli skiptir, og það er líka mín skoðun. En leyfist mér að segja eins og er, að við hljótum, allir þingmenn og enginn undanskilinn, að gera háar kröfur til efnis þess samnings, sem nú á að gera við Breta, ef hann er gerður á annað borð. Við erum beðnir að samþykkja þáltill. um lausn deilunnar, og lausnin á að felast í orðsendingunni á bls. 8 á þskj. En það verður undireins ljóst við lestur orðsendingarinnar, að sum þessara samningsatriða, sem talin eru að eigi að verða lausn á deilumálinu við Breta, eru einmitt allsendis laus við þá eiginleika, sem þau þyrftu að hafa, ef samningurinn er hugsaður sem lausn á deilumálum Breta og Íslendinga í framtíðinni. Hitt sýnist mér sönnu nær, að ef við gerðum samning á þessum grundvelli, eins og hér er lagt til, þá séum við að opna fyrir ný misklíðarefni milli Breta og Íslendinga, sem líklega koma til með að endast báðum þjóðum fleiri kynslóðir en hæstv. ráðherra órar nú fyrir.

Hæstv. utanrrh. hélt hér ræðu áðan — langa og mikla og svaraði þar gagnrýni, sem fram hefur komið á þessa samningagerð, og m.a. tók hann fyrir orðalagið, sem er í orðsendingu hans, þar sem segir, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni. Þetta orðalag túlkar ráðherrann svo, að það þýði fortakslausa viðurkenningu Breta á 12 mílna landhelginni umhverfis Ísland. En hvers vegna er þá þetta orðalag eins og það er? Hvers vegna má þá ekki segja fullum fetum, að Bretar viðurkenni íslenzku landhelgina? Þrátt fyrir útskýringar hæstv. utanrrh. hér áðan er hvorki ég né mjög margir aðrir þingmenn sannfærðir um, að þetta sé rétt orðalag og það sé rétt, að þetta orðalag haldi sér. Þess vegna hafa framsóknarmenn og Alþýðubandalagsmenn staðið að brtt., ef svo skyldi fara, að þessi samningagerð yrði á annað borð samþykkt, — brtt., sem felur í sér breytingu á þessu orðalagi, þannig að það komi alveg fortakslaust í ljós, að um raunverlega viðurkenningu sé að ræða. Annars hlýtur mann að gruna, að þetta orðalag hafi einhverja leynda eða dulda meiningu.

Í öðru lagi: Telur hæstv. ríkisstj. Breta eiga samningsrétt um það, hvaða grunnlínur gildi hér á landi? Það verður helzt ráðið af orðsendingunni, að svo sé. Það er ómögulegt annað en skilja það svo. En hæstv. utanrrh. hlýtur að viðurkenna, ef hann athugar málið, að um ákvörðun grunnlinanna þarf ekki að semja við einn eða neinn og alls ekki við Breta framar öðrum þjóðum.

Í þriðja lagi: Telur hæstv. ríkisstj., að það samrýmist ákvæðum landgrunnslaganna frá 1948 að binda frekari útfærslu fiskveiðilögsögu eða friðunarsvæða við tilkynningarskyldu til Breta og málsskot til alþjóðadómstóls? Þetta atriði er vissulega mjög mikilvægt. Við höfum lagt mikið upp úr gildi landgrunnslaganna, og við hljótum að gera það enn, og það hlýtur að þurfa mikið til, áður en Alþingi samþykkir að veita ríkisstj. heimild til að gera slíkan samning við aðrar þjóðir, að raunverulega sé verið að afnema þessi lög.

Í fjórða lagi: Telur ríkisstj., að hún vinni bezt að framkvæmd þáltill. frá 5. maí 1959 með því að binda hendur sínar og annarra ríkisstj. með tilkynningarskyldunni og málskotsákvæðinu? Hæstv. ríkisstj. ætti að athuga það, að margir eru meira en í vafa um, að það verði bezt gert með því móti. Meðan alþjóðlegt samkomulag er ekki fyrir hendi um víðáttu landhelginnar og fiskveiðimarkanna, er fráleitt að binda hendur sínar og annarra eftirkomandi ríkisstjórna með slíku samningsákvæði við Breta. Hæstv. ráðh. túlka þetta svo, að þarna séum við að fara að alþjóðalögum og við viljum koma fram sem réttarríki. Ég held, að jafnvel þótt við gerðum ekki slíkan samning við Breta, þá værum við áfram réttarríki, eins og Ísland hefur verið svo lengi sem ég man til, því að það er ekkert dæmi um það, að nokkur þjóð hafi skotið til alþjóðadómstóls deilu um slíkan hlut eins og hér er um að ræða, sem er hið raunverulega yfirráðasvæði landsins.

Og loks: Hvers vegna þessa samninga við Breta eina? Ber að skilja það svo, að hæstv. ríkisstj. sé nú að viðurkenna það, sem hingað til hefur verið harðlegast mótmælt, að Bretar hafi í aldanna rás áunnið sér sérstök ítök á íslenzku hafsvæði? Það er rétt, að það komi fram skýrt og skorinort, ef hæstv. ríkisstj. hefur ekki áttað sig á því, að þannig liggur beinast við að túlka þetta atriði og raunar alla þessa samningagerð, eins og hún er fyrirhuguð samkv. hinni ódagsettu orðsendingu. Og hæstv. ríkisstj. ætlast til þess, að Alþingi veiti henni sérstaka heimild til samninga í þessum anda. Mér finnst þetta vera óhæfa og nokkuð langt gengið og fullmikil tilætlunarsemi af hæstv. ríkisstj.

Þegar það var tilkynnt í ágústmánuði s.l., að ríkisstj. hefði ákveðið að taka upp viðræður við brezku stjórnina eða fulltrúa hennar um ástand það, sem ríkti á Íslandsmiðum, þar sem Bretar neyddu fiskimenn sína til þess að veiða innan íslenzkrar landhelgi undir herskipavernd, þá varð ég að segja það sem mína skoðun, að ég sá í sjálfu sér ekkert við það að athuga, að slíkar viðræður ættu sér stað, ef viðræðurnar snerust einvörðungu um það af Íslendinga hálfu að kynna enn nánar en þegar hefur verið gert hin íslenzku viðhorf í málinu, ef það hefði síðar mátt leiða til hinnar einu lausnar, sem við höfum leitað eftir og fengið í skiptum við allar þjóðir heims nema Breta. Og lausnin á landhelgismálinu var aldrei nema ein: óskilorðsbundin viðurkenning á rétti okkar til útfærslu í 12 mílur 1958 og viðurkenning á rétti okkar til frekari útfærslu, ef nauðsyn krefði, í samræmi við anda og bein ákvæði laga um vísindalega friðun fiskimiða landgrunnsins. Ef ríkisstj. hefði getað náð slíkri viðurkenningu úr hendi Breta, þá var sízt um að sakast, þótt viðræður færu fram, og þá tel ég, að ekki mundi hafa verið nein goðgá — heldur þvert á móti hyggileg ráðstöfun og ég hefði greitt því atkv. — að semja um þriggja ára biðtíma, ef það var eina skilyrðið, sem Bretar settu, vegna þess að slíkt ákvæði mundi að mínum dómi hafa samsvarað lausn á málinu. En það er ekki þetta, sem ríkisstj, semur um. Í stað þess að leysa málið annaðhvort strax eða með frestandi samningsákvæði, sem ég tel að hefði getað komið til greina, þá er verið að binda hendur ríkisstj. Íslands um alla framtíð, og það er verið að viðurkenna beinlínis, að Bretar hafi sérréttindi á Íslandi. Það er verið að afnema landgrunnslögin og slá striki yfir allar röksemdir okkar í landhelgismálinu undanfarin ár. Verri samning væri ekki hægt að gera, og þess vegna ber Alþingi að fella þá þáltill., sem hér er til umr., nema henni verði stórlega breytt.