09.03.1961
Sameinað þing: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (2442)

204. mál, lausn fiskveiðideilunnar við Breta

Jón Skaftason:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh., sem talaði hér í gærkvöld, var greinilega mikið niðri fyrir, sem er mjög skiljanlegt eftir þær umr., sem hér hafa farið fram á undan. Mér finnst ástæða til þess að gera nokkrar aths. við nokkur atriði í ræðu hans í gær.

Í fyrsta lagi: Hæstv. ráðh. hélt því fram, að alþjóðadómstóllinn væri á undan þróuninni til að skapa alþjóðarétt. Nefndi hann dæmi af dómi í deilu Norðmanna og Breta og hin víðtæku áhrif þess dóms á fiskveiðilögsögureglur þjóðanna.

Víst er um það, að dómur þessi hafði sín áhrif, og þá ekki hvað sízt hér á landi. Ég hygg þó, að alþjóðleg venja og praksís þjóðanna hati tvímælalaust verið á undan sem réttarskapandi, enda þótt venja þessi og praksís hafi hvergi fengið staðfestingu með alþjóðadómi. Bendi ég á í þessu sambandi, að á milli 30 og 40 þjóðir hafa fært út fiskveiðilandhelgi sína einhliða í 12 mílur eða jafnvel enn þá meira og halda þeirri landhelgi óáreittar. Það er einmitt þetta atriði, sem gerir skylduákvæðið um málskot til alþjóðadómstólsins í væntanlegu samkomulagi við Breta varhugavert að mínu viti, því að engin vissa er fyrir fram, að dómstóllinn staðfesti friðunaraðgerð, þótt praksís margra þjóða styðji þá aðgerð. Venjan þarf að standa um langan tíma til þess að skapa rétt. Ummæli Gunnars G. Schrams þjóðréttarfræðings í útvarpinu á mánudaginn var staðfesta líka þessa staðhæfingu mína, en Gunnar sagði, ef ég man rétt, eitthvað á þessa leið, efnislega: að setning lagareglna um verndun fiskstofna á úthafinu hefði orðið á eftir þróuninni. (Gripið fram í: Hvaða þróun?) Þróun, sem hefur fengizt, fyrir, — ég nota sama orðið og hæstv. dómsmrh. notaði um þetta atriði í gær í sinni ræðu, þar talaði hann um þróun, þ.e.a.s. reglur, sem skapast fyrir venju eða samning ríkja í milli eða eitthvað slíkt.

Það er líka eðlilegt, að dómar alþjóðadómstólsins séu lítið réttarskapandi á vettvangi alþjóðareglna. Það hefur verið upplýst hér, að einungis um 1/3 hluti þeirra þjóða, sem nú eru í samtökum Sameinuðu þjóðanna, hefur skuldbundið sig til þess að skjóta öllum deilumálum ríkja í milli fyrir alþjóðadómstólinn. 2/3 hlutar þjóðanna standa þar fyrir utan. Og það er, eftir því sem ég bezt veit, heldur fátítt, að stór milliríkjamál beri fyrir dómstóllinn, þannig að hann fær ekki það tækifæri til að skapa alþjóðlega réttarreglu, sem hann gæti gert, ef fleiri mál kæmu fyrir hann.

Í öðru lagi talaði hæstv. ráðh. um það og nefndi það skinhelgi hjá stjórnarandstöðunni, er hún héldi því fram, að einungis ætti að leggja ágreiningsmál Íslendinga við aðrar þjóðir fyrir alþjóðadómstólinn, þegar við töldum fyrir fram líkur fyrir því, að við mundum vinna þau mál, annars ekki. Ég er sammála hæstv. ráðh. í því, að þessi regla er náttúrlega algerlega óviðunandi, að mínu viti. Ég hef alltaf litið þannig á, að við Íslendingar ættum að skuldbinda okkur til þess að hlíta dómi og lögsögu alþjóðadómstólsins, ef mikill meiri hl. þjóðanna gerði slíkt hið sama. En ég get ekki fellt mig við, að Íslendingar bindi sig fyrir fram um aldur og ævi til að leggja hvert eitt milliríkjadeilumál fyrir þennan dómstól, meðan aðeins 1/3 eða 1/4 hluti þeirra þjóða, sem skipa Sameinuðu þjóðirnar, hefur skuldbundið sig til þess að gera það.

Út af þessari fullyrðingu hæstv. ráðh. í gær langar mig til þess að spyrja hann að því, hver stefna hans sjálfs og hans flokks sé í þessu máli. Ég minnist þess ekki, að árið 1958, þegar við færðum út fiskveiðilandhelgina í 12 sjómílur og mjög var um gildi þeirrar aðgerðar deilt milli Breta og Íslendinga, kæmi ein einasta rödd fram úr hópi sjálfstæðismanna, er legði það til, að við létum alþjóðadómstólinn dæma um þetta mál. Ef þeir gerðu þetta ekki 1958, og ef þetta var ekki þeirra skoðun og þeirra regla þá, því er þá það talið sjálfsagt í dag, að við skulum um alla framtíð binda okkur skilyrðislaust við það að leggja hvert eitt deilumál, sem upp kann að rísa milli Íslendinga og annarra þjóða, fyrir alþjóðadómstól?

Í þriðja lagi gerði hæstv. ráðh. mjög mikið úr því, að íslenzka sendinefndin, með samþykki íslenzku ríkisstj., hefði á Genfarráðstefnunni 1958 samþykkt það, að gerðardómur mætti úrskurða ákveðin atriði á hafinu fyrir utan 12 mílna fiskveiðilandhelgina. Með þessu taldi hæstv. ráðh., að framsóknarmenn og þeir, sem þá stóðu að ríkisstj., hefðu sýnt það greinilega, að þeir í parksísnum sem meginstefnu gætu samþ. það að bera deilumál milli ríkja undir alþjóðlegan dómstól. En er nokkur leið að jafna þessu saman við það, sem nú er verið að gera? Hvað var það, sem gerðist 1958 á Gefnarráðstefnunni? Það var það, að við Íslendingar og íslenzka sendinefndin og íslenzka ríkisstj. taldi eðillegt, að Íslendingar samþ., að gerðardómur skæri úr ágreiningi, er kynni að rísa utan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar, þ.e.a.s. á svæði, sem er utan lögsögu Íslendinga, svæði, sem tilheyrir úthafinu, og eiga því ekki að gilda frekar þar íslenzkar reglur en reglur annarra þjóða. Ég tel því, að hér sé ekki um sambærileg atriði að ræða.

Í fjórða lagi var svo að skilja af ræðu hæstv. ráðh. hér í gær, og raunar kom það sama fram í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), að Íslendingar væru skuldbundnir samkvæmt 33. gr. stofnskrár hinna Sameinuðu þjóða til að leggja deilumál, sem rísa kunna út af landhelgismálunum, undir úrskurð alþjóðadómstóls. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég lesa upp 33. gr. laga Sameinuðu þjóðanna, þó að hæstv. ráðh. hafi raunar gert það í gær, en þar segir svo:

„Aðilar að sérhverju deilumáli, sem með áframhaldi gæti stofnað í hættu heimsfriði og öryggi, skulu fyrst leita lausnar á deilumálinu með samningaumleitunum, rannsókn, miðlun, sættargerð, gerðardómi, dómsúrskurði, afnotum svæðastofnana eða samninga eða með öðrum friðsamlegum aðgerðum samkvæmt eigin vali.“

Ég hygg, að fáir fallist á þá skýringu hæstv. ráðh., að svonefnt þorskastríð hér við Ísland á Íslandsmiðum hafi skapað hættu fyrir heimsfriðinn út af fyrir sig. Þótt málið sé að vísu stórt í augum okkar Íslendinga og taki eðlilega hug okkar allan, þá verður það aldrei talið meðal annarra þjóða þess eðlis, að ófriðarhætta stafi af. Hygg ég því, að þetta sé rangt hjá hæstv. ráðh. Og mér er spurn: Hver er þá eiginlega tilgangurinn með samningsákvæðinu um, að Bretum og Íslendingum skuli báðum skylt að leggja hugsanleg ágreiningsmál út af landhelginni fyrir alþjóðadómstólinn? Hver er meiningin með þessu ákvæði í samkomulaginu, ef það er skylda beggja þessara þjóða sem meðlima að Sameinuðu þjóðunum að leggja slík mál til úrskurðar hjá alþjóðadómstólnum? (Gripið fram í.) Ég minnist þess ekki. Ég minnist þess ekki heldur að hafa heyrt eða lesið um það, að þessi skilningur hv. sjálfstæðismanna hefði verið til staðar á árunum 1952 eða 1958. A.m.k. komu engar till. frá þeim um málskot út af þeim deilum, sem þá risu, — eða a.m.k. út af deilunni, sem reis 1958, komu engar till. frá þeim um að leggja málið fyrir alþjóðadómstól.

Í ræðu minni á mánudaginn var beindi ég nokkrum spurningum m.a. til hæstv. utanrrh. Hann hefur ekki svarað neinni þeirra enn þá. Vildi ég því ítreka eina spurningu, sem ég hef ekki fengið svar við í þeim umr., sem orðið hafa á þinginu, en sú spurning er þessi: Því hefur verið yfirlýst af talsmönnum ríkisstj. í þessu máli, að meiningin sé að gefa öðrum erlendum veiðiþjóðum en Bretum kost á að gerast aðilar að því samkomulagi, sem nú er verið að ganga frá og samþykkja. Í þessu felst m.a. það, að erlendar veiðiþjóðir, sem stundað hafa veiðiskap á Íslandsmiðum á undanförnum árum, eiga þess kost að fá veiðiréttindi inn að sex mílna beltinu á næstu þrem árum. Ég spurði hæstv. ráðh. að því, við hvað upphaf þessa tímamarks yrði miðað gagnvart öðrum þjóðum, er kynnu að vilja ganga inn í samning þennan. Mér finnst þetta geta skipt máli og vildi því gjarnan fá svör við því.

Það er augljóst, að samkomulag það, sem nú er verið að ræða, er eitt hið örlagaríkasta, sem Íslendingar hafa gert við aðrar þjóðir fyrr og síðar, ekki hvað sízt fyrir þá sök, að gert er ráð fyrir því, að það gildi um aldur og ævi, að undanteknu undanþáguveiðitímabilinu í 3. lið 1. mgr., sem bundið er við þrjú ár, og að samkomulagið geti ekki breytzt nema a tvennan hátt: í fyrra lagi með samkomulagi samningsaðila og í síðara lagi fyrir dóm frá alþjóðadómstólnum. Það er því rík ástæða fyrir því, að hv. alþm. geri sér glögga grein fyrir efni samkomulagsins og hugsanlegum afleiðingum með hlutlægu mati, en skoði það ekki fyrst og fremst í pólitísku kastljósi.

Ég vil mótmæla alveg sérstaklega þeim ummælum hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hér í gær, er hann viðhafði í umr., að ummæli stjórnarandstæðinga yfirleitt og tillöguflutningur þeirra væri til þess fallinn að skaða íslenzka hagsmuni og gæti reynzt gagna útlendingum í hugsanlegri deilu út af málinu. Málefnaleg gagnrýni er hér nauðsynleg sem oftar, og þar sem nokkuð er af óljósum ákvæðum í samkomulaginu, verður að fást upplýst á óyggjandi hátt um sameiginlega túlkun samningsaðila á þeim ákvæðum, og slíkt fæst ekki eftir öðrum leiðum betur gert en setja þau ákvæði í samkomulagið á ljósan og ótvíræðan hátt.

Af málflutningi hv. stjórnarliða og með nákvæmri athugun þáltill., grg. og þá fyrst og fremst orðsendingar utanrrh. á fskj. I virðist mér það einkum þrennt, er talið sé mæla með samkomulaginu. Þetta þrennt er: 1) Fallið sé frá mótmælum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni af hálfu Breta. 2) Mikilvægar breytingar á grunnlínum fáist. 3) Lýst er yfir þeirri fyrirætlun ríkisstj. að halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland. Mun ég víkja að hverju þessara atriða hér á eftir og hafa þá jafnframt í huga, er ég ræði þau, að því er yfir lýst af hálfu ríkisstj., að öðrum fiskveiðiþjóðum en Bretum, sem hér hafa stundað veiðar, verði heimilað að gerast aðili að réttindum og skyldum þessa samkomulags.

1. liður samkomulagsins kveður svo á, að ríkisstj. Bretlands falli frá mótmælum sínum gegn 12 mílna fiskveiðilögsögunni umhverfis Ísland. Deilt hefur verið um það, hvort jafna megi þessu við afturkallanlega viðurkenningu á 12 mílunum. Hafa talsmenn stjórnarinnar lýst yfir, að svo sé, og er sú yfirlýsing studd af áliti þriggja prófessora við lagadeild Háskóla Íslands. Spurningin í mínum huga er sú ein, hvort Bretar leggi í þetta orðalag sama skilnings. Og þar sem ljóst er, að orðalag orðsendingarinnar er að þessu leyti óvenjulegt, og vegna ágreinings, sem upp er risinn hér á hv. Alþingi út af því, sýnist einsætt að breyta orðalaginu úr „að falla frá mótmælum“ í „að viðurkenna óafturkallanlega“, eins og lagt er til með brtt. á þskj. 450. Þar með þyrfti ekki að deila um þetta atriði frekar. Augljóst er, að ófriðarástand það, sem ríkt hefur á fiskimiðunum kringum Ísland undantekningarlítið frá 1. sept. 1958, er brezk herskip ösluðu inn á fiskimiðin til þess að vernda veiðiþjófnað brezkra togara allt að þrem sjómílum, var hið alvarlegasta. Það skapaði ekki einungis sjómönnum okkar mikla hættu, heldur hefur deilan valdið eðlilegu samstarfi vestrænna þjóða, fyrst og fremst Breta og Íslendinga, miklum og vaxandi erfiðleikum. Þar sem vonlítið var að mínu viti, að Bretar mundu á næstunni hverfa af ofbeldisbraut sinni ótilneyddir, varð að leita einhverra ráða. Ég tel það ráð, sem hæstv. ríkisstj. tók í þessu máli, þ.e.a.s. að kaupa okkur friðinn við Breta með því að veita þeim a.m.k. tímabundið stöðvunarvald um allar frekari friðunaraðgerðir Íslendinga, hafi ekki verið bezta ráðið. Ég óttast þá aðstöðu, sem Bretum er fengin með þessu samkomulagi, — aðstöðu, sem þeir hafa verið að sækjast eftir í 13 ár árangurslaust, — óttast hana vegna þess, að engin erlend þjóð hefur verið okkur jafnandsnúin og sýnt jafnlítinn skilning á þörfum okkar og Bretar. Slíkri þjóð er hættulegt að rétta litla fingurinn, því að hætt er við, að þeir taki þá höndina alla. Mín skoðun er sú, að Íslendingar hefðu átt að kæra framferði Breta fyrir Sameinuðu þjóðunum, kæra það sem vopnaða árás á svæði, er Íslendingar áttu lögsögu yfir. Þegar tillit er tekið til skipunar hinna Sameinuðu þjóða nú, m.a. þess, að á nokkrum mánuðum hafa þeim bætzt um 20–30 ný meðlimaríki frá hinni svörtu Afríku, ríki, sem voru að brjótast undan áþján nýlenduvelda, þá er ég viss um, að málstaður okkar hefði mætt á þessum vettvangi velvild og skilningi, enda barátta þessara þjóða frelsisstríð, ekki mjög frábrugðið því, er við höfum háð við Breta a.m.k. á þriðja ár. Ég trúi því, að á vettvangi hinna Sameinuðu þjóða sé nú grundvöllur og tækifæri til að fá meirihlutasamþykkt þjóðanna til að fordæma árás Breta á Íslendinga, ef hún væri tekin aftur upp, og mér er sem ég sjái Bretana halda ofbeldinu áfram, eftir að slík samþykkt hefði fengizt.

Einhver kann nú að segja, að ekki sé slík kæra á hendur bandalagsþjóð samrýmanleg anda slíkrar samvinnu. En þeim hinum sama vil ég svara því, að jafnvel samstarf lýðfrjálsra þjóða geta Íslendingar keypt of dýru verði.

Í öðru lagi er rétting grunnlína í 2. lið samkomulagsins á fjórum stöðum hér við land talinn mikill ávinningur fyrir Íslendinga. Þetta er rétt. En þurftum við að kaupa þessar grunnlínubreytingar dýru verði? Alls ekki, að mínu viti, og skal ég nú rökstyðja það nokkuð.

Árið 1954 gaf ríkisstj. Íslands, sem þá var skipuð ráðh. Framsfl. og Sjálfstfl., út hvíta bók, sem á ensku nefndist: The Icelandic Efforts for Fisheries Conservation, sem þýða mætti á íslenzku: Barátta Íslendinga fyrir verndun fiskimiðanna. Á almenningsvitorði er, að bók þessi var samin af aðalráðunaut ríkisstj. í landhelgismálinu, Hans G. Andersen þjóðréttarfræðingi. Í bók þessari, á bls. 23, segir svo um þessar fjórar grunnlínubreytingar, með leyfi hæstv. forseta:

Í raun réttri, segir sérfræðingur ríkisstj., þetta er sagt á árinu 1954, takið vel eftir því, — í raun réttri er mjög sennilegt, að í nokkrum tilfellum hefði verið mögulegt að draga grunnlínur fjær landi en gert var, — gert var, þá á hann við reglugerðina, sem gefin var út 1952, — svo sem beina línu á milli grunnlínupunkta 1 og 5, þ.e.a.s. frá Horni í Ásbúðarrif, milli grunnlínupunkta 12 og 15, þ.e.a.s. frá Langanesi í Almenningsfles, milli grunnlínupunkta 25 og 28, frá Stokksnesi í Ingólfshöfða. milli grunnlínupunkta 28 og 31, frá Ingólfshöfða í Meðallandssand II, og að öllum líkindum á milli grunnlínupunkta nr. 35 og 39, þ.e.a.s. Geirfuglasker-Eldeyjardrangur.

Þetta er álit Hans G. Andersens, sem kemur fram í hvítri bók, sem gefin var út af ríkisstj. Íslands á árinu 1954. Og um grunnlínu út af Faxaflóa segir svo í orðsendingu frá utanrrn. þann 12. maí 1952, með leyfi hæstv. forseta:

„Því er haldið fram, að það mundi hafa verið leyfilegt að nota Geirfugladrang sem grunnlínupunkt við lokun Faxaflóa og einnig að draga frá honum beina grunnlínu í Geirfuglasker sunnan við Vestmannaeyjar. Jafnvel þótt þetta hefði verið gert, þá hefðu þau svæði, er lent hefðu innan grunnlínunnar, verið gömul og þekkt íslenzk fiskimið, og mundi þetta vera talið í samræmi við regluna um hagkvæm afnot og þarfir viðkomandi þjóðar án þess að víkja í nokkrum verulegum atriðum frá lögun strandarinnar.“

Af þessu er ljóst, að strax, — takið eftir því, — að strax á árunum 1952 og 1954 er það yfirlýst skoðun íslenzku ríkisstj., sem byggð er á mati sérfræðings hennar, Hans G. Andersens, að þá þegar hefðu Íslendingar átt vafalítinn lagalegan rétt til allra þessara grunnlínubreytinga. Því verður að telja, að ástæðulítið hafi verið fyrir Íslendinga að kaupa þær með samningum af Bretum og gefa þannig fordæmi, að héðan í frá getum við enga grunnlínu rétt af nema ræða um það við Breta og væntanlega fá dóm um hana hjá alþjóðadómstólnum. Þegar hér við bætist sú staðreynd, að með alþjóðasamkomulaginu í Genf frá 1958 um grunnlínur var viðurkenndur enn ríkari réttur ríkja til að draga grunnlínur fjær ströndunum en bjartsýnustu þjóðréttarfræðingar þorðu að gera ráð fyrir á árunum 1952 og 1954 að yrðu að veruleika á næstu áratugum, er augljóst mál, að þessar grunnlínubreytingar þurftu Íslendingar ekki að kaupa.

Þessu til enn frekari undirstrikunar vil ég vekja athygli hv. þm. á þeirri yfirlýsingu, er hæstv. utanrrh. gaf í umr. þeim, sem hér hafa orðið á undanförnum dögum, um tillögur Hans G. Andersens til ríkisstj. 1958, er verið var að færa út í 12 sjómílur, en hæstv. ráðh. sagði, að þjóðréttarfræðingurinn hefði ráðlagt ríkisstj. í fyrsta lagi að færa stórlega út grunnlínur og í öðru lagi að færa út sjálfa fiskveiðilandhelgislínuna.

Þegar þetta allt er athugað, þá tel ég, að enginn vafi geti lengur verið um ótvíræðan rétt Íslendinga til þessara fjögurra grunnlínubreytinga og jafnvel enn þá fleiri breyt. en á að gera með samkomulaginu.

Ég vildi leyfa mér að spyrja, af því að það hefur aldrei komið nein skýring fram á því af hálfu hæstv. utanrrh., hver ástæðan hafi verið fyrir því, að á árinu 1958 var ekki fylgt till. Hans G. Andersens um útfærslu grunnlína. Ég vil fyrir fram vara hæstv. ráðh. við því að svara spurningunni út í hött með því að segja, að fyrrv. sjútvmrh. hafi ráðið þessu, því að frá hæstv. sjútvmrh. og fleirum, Hermanni Jónassyni o.fl., hefur sú skýring verið gefin á því, að ekki var látið til skarar skríða um útfærslu grunnlína, að um það hafi ekki tekizt samkomulag í ríkisstj. og ekki heldur við sjálfstæðismenn, sem þá voru í stjórnarandstöðu. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh., hver hans skýring sé á þessu.

Þá kem ég að þriðja og síðasta atriðinu í því, sem formælendur ríkisstj. telja, að við vinnum með þessu samkomulagi. Því er lýst yfir af hálfu ríkisstj. í samkomulaginu, að hún muni vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland. Þessi yfirlýsing er því aðeins nokkurs virði, að einhver árangur náist í þessa stefnu fyrir aðgerðir ríkisstj. Ljóst er, að ríkisstj. gat ekki gefið aðra yfirlýsingu en þessa efnislega. Hún var ekki einungis bundin af einróma samþykkt Alþingis frá 5. maí 1959, heldur fyrst og fremst af ákvæðum landgrunnslaganna frá 5. apríl 1948, þar sem Alþingi kveður svo á með lögunum, að ákveða skuli verndarsvæði við strendur landsins allt að endimörkum landgrunnsins. Allir vita, að slíkt hefur ekki tekizt enn þá, það á langt í land. Og á meðan svo er, er hvaða ríkisstj. á Íslandi sem er bundin af þessum lögum og ber að fylgja skýrum fyrirmælum þeirra eins fljótt og eins vel og aðstæður leyfa hverju sinni. Þetta er mergurinn málsins. Stefnan í yfirlýsingu þessari getur því ekki verið Bretum neitt nýmæli, nema þeir hafi álitið, að þeir væru búnir að kaupa Íslenzku ríkisstj. til þess að hverfa frá frekari friðunaraðgerðum með samkomulagi þessu, en Bretar virðast halda því fram, að það sé Íslendingum sérstaklega hagstætt, a.m.k. sumir hverjir Bretar.

Ég hef þá rakið lið fyrir lið þann ávinning, sem Íslendingar eru taldir hafa öðlazt við þetta samkomulag, og sýnt fram á, að með því höfum við engin ný réttindi fengið, sem við áttum ekki og gátum tekið einhliða sjálfir, ef undan er skilinn réttur Íslendinga til þess að vera lausir við herskipaarás Breta. Þann rétt gátum við ekki tryggt sjálfir vegna aflsmunar. En hægt var að fara aðra og útlátaminni leið til þess að tryggja hann, eins og ég hef sýnt fram á hér á undan.

Þá kem ég að hinni hliðinni á samkomulaginu, þ.e.a.s. þeim skyldum, er við tökumst á herðar með því. Þær eru að mínu viti aðallega tvenns konar: Í fyrsta lagi veiðiréttur skipa skrásettra í Bretlandi í þrjú ár á mjög stóru svæði umhverfis landið, allt upp að 6 mílum, og í öðru lagi takmarkanir á möguleikum, sem við tökum á okkur samkv. samningi, um frekari einhliða útfærslu og aðrar friðunaraðgerðir. Þessar takmarkanir felast að mínu viti í þessu:

1) Tilkynningarskyldunni við Breta.

2) Skyldunni til að sæta dómi hjá alþjóðadómstólnum, ef Bretar æskja þess.

3) Stöðvunarvaldi því, sem Bretum er með samkomulaginu fengið, um aðgerðir Íslendinga.

Vík ég þá að þessum atriðum.

Samkv. 3. lið 1. mgr. samkomulagsins eiga skip skrásett í Bretlandi að fá veiðirétt inn að 6 mílna mörkunum frá þeim tíma, er svar Breta við orðsendingu utanrrh. hefur borizt, undanþágu á sjö stórum svæðum umhverfis landið. Eins og vænta mátti, eru svæði þessi og veiðitími við það miðað, að brezku togararnir geti fylgt fiskinum á Íslandsmiðum á hverjum tíma og veitt hann, þar sem hann er hvað mestur. Nú hefur því verið yfir lýst af hálfu ríkisstj., að öðrum veiðiþjóðum á Íslandsmiðum verði boðið að gerast aðilar að samkomulagi þessu. Það þýðir, að við eigum von á skipum þessara þjóða, auk Breta, á Íslandsmið, skipum Þjóðverja, Belga, Frakka, Rússa, Dana, Svía, Norðmanna og Færeyinga. Ekki þykir mér ósennilegt, að á milli 500 og 1000 togarar og önnur erlend skip muni nota sér þessa heimild, — og hvað halda menn, að mikið af göngufiski komist fram hjá veiðitækjum skipanna og inn á grunnmið, þar sem Íslendingar eru að athafna sig? Ekki nóg með þetta, þótt ærið áhyggjuefni sé eitt út af fyrir sig, því að við erum með samkomulaginu að hleypa skipum allra erlendra veiðiþjóða inn á beltið milli 6 og 12 mílnanna, — skipum, sem fram til þessa hafa, öll önnur en þau brezku, haldið sig utan 12 mílna markanna, virt okkar landhelgi. Hvernig lízt mönnum á fyrir norðan og austan t.d. að fá e.t.v. mörg hundruð rússneskra síldveiðiskipa upp að 6 mílna línunni? Ætli það auðveldi um 300 íslenzkum síldveiðiskipum að athafna sig á þessu svæði á sumar- og haustvertíð eða geri afla þeirra vissari? Vita þeir menn, sem fyrir þessu samkomulagi standa, hvaða flóðgátt þeir eru að opna með þessu? Ég trúi því tæpast. Menn geta svo rétt ímyndað sér, með hvers kyns hugarfari t.d. enskir sjómenn munu stunda þessar veiðar á undanþágutímabilinu. Þeir hafa sannfæringu fyrir því, að Íslendingar séu ólöglega að reka þá af aflasælum fiskimiðum, sem þeir telja sig hafa fundið og eiga sögulagan rétt til að nytja. Halda menn, að þeir sýni íslenzkum sjómönnum, bátum þeirra og veiðarfærum sérstaka tillitssemi? Ég trúi því tæplega.

Þá kem ég að síðari kvöðinni og þeirri, er gerir það að verkum fyrst og fremst, að ég tel óráðlegt að gera samkomulag þetta. Hér á ég við þann rétt, sem veita á Bretum með samkomulagi þessu og síðan fleiri þjóðum til þess að tefja og ef til vill stöðva alveg frekari útfærslu íslenzkrar fiskveiðilandhelgi. Sumir gagnrýnendur samkomulags þessa hafa haldið því fram, að með því sé alveg girt fyrir frekari útfærslu um alla framtíð. Undir það tek ég ekki. En ég bendi hins vegar á, að við getum hvorki breytt grunnlínum né fært út friðunarlínuna að samkomulaginu gerðu nema á tvennan hátt: í fyrra lagi með samkomulagi við samningsaðila hvern og einn, og þá er slíkt aðeins skuldbindandi gagnvart þeim einum, er samþykkja þær breytingar, eða í síðara lagi fyrir dómsúrskurð alþjóðadómstóls út af ágreiningsatriði. En til þess að svo geti orðið, þarf að vera til einhver alþjóðleg réttarregla, svo skýr og ótvíræð, að dómurinn treystist til að byggja á henni um frekari rétt Íslendingum til handa. En hver er hér sá inni af hv. alþm., er treysti sér að segja um það, hvenær sú réttarheimild verður til eða hvort hún verður yfirleitt til? Ekki treysti ég mér til þess.

En nú kann einhver að segja, að myndist ekki slík réttarregla, er hafi almennt og öruggt gildi, þá sé útilokað hvort sem er fyrir Íslendinga að ráðast í frekari útfærslu og því skipti samkomulagið engu máli, hvað þetta atriði snertir. Þetta er misskilningur að mínu viti. Það verður bezt rökstutt með því að rifja upp útfærslu landhelginnar 1958 í 12 sjómílur. Því hefur verið haldið fram, að þá hafi ekki verið til sú alþjóðaregla, sem t.d. alþjóðadómstóllinn í Haag hefði talið nægjanlega örugga réttarheimild til að byggja á dóm, er viðurkenndi 12 mílna fiskveiðilandhelgina umhverfis Ísland. Þessa staðhæfingu styðja m.a. tvær staðreyndir. Sú fyrri er sú, að þrátt fyrir, að alþjóðalaganefndin kæmist að þeirri niðurstöðu í tilkynningu, dags. 25. okt. 1956, að alþjóðalög banni ekki útfærslu landhelgi allt í 12 sjómílur, þá fékk þetta álit nefndarinnar ekki betri undirtektir en það hjá hinum Sameinuðu þjóðum, að reglan var aldrei samþykkt, þannig að hún væri skuldbindandi fyrir meðlimaríkin. Hin síðari staðreynd er sú, að íslenzka ríkisstj. 1958 vildi aldrei fallast á, og ég veit ekki til þess, að nokkrar tillögur hafi komið fram um það frá stjórnarandstöðunni, sjálfstæðismönnum, að orðið yrði við margendurteknum kröfum Breta um að leggja gildi 12 mílna reglunnar í dóm hjá alþjóðadómstólnum, sem hlýtur að stafa af því m.a., að ríkisstj. og formælendur sjálfstæðismanna vantreystu því, að til væri nægilega örugg réttarheimild, er dómstóllinn dæmdi eftir, þrátt fyrir þá staðreynd, að um 31 þjóð hafði þá stækkað landhelgi sína í 12 sjómílur eða meiri með einhliða aðgerðum.

En hver varð þá reynslan af útfærslunni 1958? Hlaut hún ekki að mistakast, eins og allt var í pottinn búið? Nei, aldeilis ekki. Allar þjóðir aðrar en Bretar viðurkenndu línuna de facto — í verki. Er vafasamt, að önnur stjórnvaldsráðstöfun en einmitt útfærslan 1958 í 12 sjómílur hafi á síðari árum fært Íslendingum meiri ávinning.

Þessari stefnu á að mínu viti að halda áfram, fylgjast vel með þróuninni í þessum málum, gera allt, sem fært er af hálfu Íslendinga, til þess að hraða þeirri þróun og nota svo réttinn til hins ýtrasta, jafnvel þótt ekki sé fullvissa um örugga réttarheimild fyrir fram, því að lífsrétturinn og sanngirnin verður okkar megin í þeirri baráttu, eins og hæstv. forsrh. hefur svo oft minnzt á.

Um tilkynningarskylduna gagnvart Bretum vil ég segja þetta: Í 13 ár hafa Bretar barizt árangurslausri baráttu fyrir því að fá Íslendinga til að fallast á að viðurkenna, að við hverja einustu friðunaraðgerð á landgrunninu yrðu þeir að semja við Breta. Hv. 4. landsk. þm. (HV) las í gær upp nokkur ummæli þeirra hæstv. forsrh. og hæstv. dómsmrh., er sýndu ljóslega, hvað þeir töldu fyrrum mikilsvert, að Íslendingar viðurkenndu ekki slíka samningsskyldu. Þarf ég þar engu við að bæta. Með tilkynningarskyldunni er verið að opna fyrir samningsviðræður um þessi mál við Breta. Skriðan er að byrja að falla, og þegar hún er komin einu sinni af stað, verður þess ekki langt að bíða, að fall hennar verði hratt. Ég tel vafamál, að einn einasti hv. þm. dragi í efa, að núv. hæstv. ríkisstj. teldi sér stætt á því að neita Bretum um viðræður út af friðunaraðgerðum hér við land, eftir að samkomulag það, sem hér liggur fyrir, hefði verið samþykkt. Ég er hræddur um, að það yrði talin ókurteisi á þeim bæ.

Það getur verið, að sumir telji, að í þessum ummælum mínum felist of mikil tortryggni í garð Breta. Ég tel hana þó ekki óeðlilega og raunar staðfesta af reynslunni, ekki einungis í samskiptum þeirra við Íslendinga, heldur og margar aðrar þjóðir. Ég rakti í fyrri ræðu minni á mánudagskvöldið var nokkuð viðbrögð Breta við friðunaraðgerðum Íslendinga allt frá árinu 1950, og skal það ekki endurtekið. Á hitt vil ég þó benda hv. þm. til umþenkingar, að það eru ekki liðin nema rúm 11 ár, síðan Bretar neituðu að mæta á 12 þjóða ráðstefnu, sem íslenzka ríkisstj. bauð til 1949 í Reykjavík að tillögu alþjóðahafrannsóknarráðsins, en það hafði mælt með því, að Faxaflói innan línu frá Garðskaga að Malarrifi yrði friðaður í 15 ár, þar eð hann væri mikilsverð uppeldis- og hrygningarstöð nytjafiska, sem allar veiðiþjóðir hefðu hag af að vernda. Sýnir dæmi þetta einstaka lubbamennsku og algeran skilningsskort á högum og þörfum íslenzku þjóðarinnar, svo sem síðari afrek Breta á þessari sömu braut undirstrika enn þá betur. Ég segi því hiklaust: Gefum Bretum ekkert tak á okkur með samningum, verum vel á verði gegn leyndarráðum þeirra og trúum því ekki eitt einasta augnablik, að við snúum á Breta í samningum. Þeir hafa miklu meiri þjálfun í því en við, og það er ekki nema barnaskapur að halda, að við höfum hér snúið sérstaklega á þá.

Þá er það ákvæðið um alþjóðadómstólinn. Samkv. 38. gr. samþykkta hans eru þær réttarheimildir, er hann á að fara eftir og getur byggt dóma sína á, þessar: 1) Milliríkjasamningar, almenns eða sérstaks eðlis, enda geymi þeir fyrirmælin berum orðum viðurkennd af sakaraðilum. 2) Milliríkjavenjur, sem vegna almennrar og sannaðrar notkunar eru viðurkenndar eins og lög. 3) Almennar grundvallarreglur laga viðurkenndar af siðuðum þjóðum. 4) Dómsúrlausnir, enda sé gætt fyrirmæla 59. gr. og kennisetninga beztu sérfræðinga ýmissa þjóða, er veita mega, er annað þrýtur, leiðbeiningar um tilvist og efni réttarreglna. Og að lokum, þessi ákvæði skulu ekki skerða heimild dómstólsins til þess að úrskurða mál ex aequo et bono, ef aðilar eru því samþykkir. Augljóst er, að réttarheimildir þessar eru þröngar, sem reyndar er ekkert óeðlilegt, ef það er tekið með í reikninginn, að almennar réttarreglur þjóðaréttarins eru fáar og sumar óljósar. Þjóðirnar eru ekki heldur lengra komnar áleiðis að því marki að skapa alheimsstjórn og játa sig undir almennar, alþjóðlegar reglur en svo, að sérstakt samþykki beggja þjóða, sem eiga í deilum fyrir alþjóðadómstólnum, þarf til þess, að hann megi dæma eftir reglunni um sanngirni og réttlæti, — ex aequo et bono. En dómar, er byggðust á þeirri réttarreglu, mundu að mínu viti vera smáþjóðum a.m.k. farsælastar alþjóðareglur. Tökum dæmi: Setjum svo, að Íslendingar vildu færa út í t.d. 16 sjómílur fiskveiðilandhelgina. Slíkt mundi tvímælalaust að mínu viti ekki standast fyrir alþjóðadómstólnum nú. En þó er það staðreynd, að margar þjóðir hafa þá fiskveiðilandhelgi og jafnvel enn stærri. Hví á þá sú þjóðin, er mest á undir víðri fiskveiðilandhelgi allra þjóða heims, að þurfa að sætta sig við minni rétt en hinar? Í hvítri bók, sem gefin var út í apríl 1959 af utanrrn. og nefnist „The Icelandic Fishery Limits“, segir svo á bls. 6:

„Ekki hefur náðst alþjóðlegt samkomulag um, hvernig ríki megi ákveða stærð lögsögu á hafinu. Því verður að fylgja ríkjandi venju. Flest, ef ekki öll ríki hafa ákveðið þessa lögsögu einhliða. Það er þess vegna ekkert réttlæti í því að halda fram, að Ísland hafi brotið alþjóðalög eða venju með einhliða útfærslu fiskveiðimarkanna. Þvert á móti, Ísland hefur fylgt ríkjandi venju á þessu sviði. Meira að segja hefur í þeim mótmælaorðsendingum, sem ríkisstj. Íslands hafa borizt, hvergi verið tilgreindar þær reglur eða venjur, sem Ísland hafi brotið. Þó verður að viðurkenna, að réttur ríkis til útfærslu fiskveiðimarka einhliða sé bundinn vissum takmörkunum.“

Þetta var skoðun ríkisstj. Alþfl. og þá væntanlega hæstv. utanrrh. árið 1959 á rétti Íslendinga til einhliða útfærslu landhelginnar. Nú á að skerða þennan rétt fyrir fram. Fyrir fram á að semja um það við mestra mótgangsmann Íslendinga, Breta, að þeir geti heimtað, að hver ein og einasta friðunaraðgerð Íslendinga, stór eða smá, örugg eða hæpin lagalega, þurfi að dæmast hjá alþjóðadómstólnum, enda þótt flestar aðrar þjóðir eigi að halda áfram einhliða rétti til útfærslu fiskveiðimarkanna. Mér er t.d. ekki kunnugt um, að þetta ákvæði sé í margnefndum samningi Breta og Norðmanna, sem gerður var s.l. ár. Ég tel því jafnvel hagkvæmara Íslendingum að samþykkja heldur 10 ára undanþáguveiðiheimild fyrir Breta hér við land, eins og Norðmenn hafa gert, og losna þá við þetta bindingarákvæði.

Þá er ég kominn að síðasta atriðinu og einu því allra versta að mínu viti. Orðalag niðurlagsgreinar orðsendingar þeirrar á fskj. I, sem utanrrh. Íslands hyggst senda brezku ríkisstj.þáltill. þessari samþykktri, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilandhelginnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og rísi ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til alþjóðadómstólsins.“

Hæstv. utanrrh. og hv. 5. þm. Reykv. skýra niðurlagsákvæði þessarar greinar þannig, að tilkynna beri Bretum sjálfa útfærsluna með sex mánaða fyrirvara og ef þeir æski þess, að málið gangi til dómstólsins og ekki verði búið að kveða upp dóm innan sex mánaða frestsins, þá taki framkvæmdin gildi og standi, þar til dómur gangi um framtíðargildi hennar. Ég hef dregið þessa samningstúlkun í efa, og ég fæ ekki séð samkv. almennri skýringarreglu, að ótvírætt megi skilja ákvæðið svona. Ég hef borið ákvæðið undir nokkra lögfræðinga, og eru þeir mér allir sammála. Ég hef því leyft mér að bera fram breytingar- og viðaukatillögu við málsgrein þessa um, að eigi skuli málskot til alþjóðadómstólsins fresta útfærslu lengur en 6 mánuði. Er það engin efnisbreyting frá þeirri skýringu, er talsmenn stjórnarinnar segja vera rétta, en orðsendingin sker alls ekki úr um. Kæmi þetta atriði til álita fyrir alþjóðadómstólnum, er vafalaust, að orðalag samningsins yrði metið eftir orðanna hljóðan, ef aðila greinir á um skýringu þess. Það er því öllum fyrir beztu og bezt að horfast í augu við það strax, að samningsákvæði þetta þarf að gera skýrt. Væri svo sem ég held fram, að Íslendingar yrðu að bíða með hverja þá friðunaraðgerð, sem fyrir dómstólinn ber, er augljóst, að með því móti gætu Bretar, með því einu að skjóta máli til dómstólsins, tafið framkvæmd sérhverrar friðunaraðgerðar á Íslandsmiðum um mörg ár, segjum 3 ár, 5 ár eða 8 ár, og ég veit ekki hvað. Þetta gætu þeir gert, hvort sem friðunaraðgerðin væri smávægileg og greinilega lögleg, t.d. rétting grunnlínu í Meðallandsbugt og Mýrabugt, eða um stærri og vandasamari aðgerðir væri að ræða, svo sem útfærslu sjálfrar fiskveiðilandhelginnar í 16 sjómílur. Hvaða Íslendingur gæti sætt sig við slíkt, miðað við fyrri reynslu okkar af viðskiptum við Breta í landhelgismálum?

Ég hef heyrt þeirri skýringu haldið fram um málsmeðferð hjá dómstólnum, að hann muni strax og ágreiningsatriði er undir hann borið kveða upp bráðabirgðaúrskurð, er kveði á um, að friðunaraðgerðin skuli standa, þar til endanlegur dómur gangi um hana. Þessu á ég bágt með að trúa. Samkv. 41. gr. samþykktrar dómstólsins hefur hann vald til þess að gera hverja þá bráðabirgðaráðstöfun, er hann telur þurfa að gera til hagsmunagæzlu hvors deiluaðila. Samkomulagið væntanlega kveður ekkert á um það, að dómstóllinn skuli nota þetta vald sitt, ef mál fer til hans á milli Íslendinga og Breta. Við slíkt samningsákvæði væri dómstóllinn að sjálfsögðu bundinn. Þess vegna er það á valdi dómstólsins eins, hvort hann notar þessa heimíld og hvenær, og mér þykir mjög sennilegt, að kæmi til þess, að hann notaði heimildina í hugsanlegu deilumáli Breta og Íslendinga, þá mundi hann úrskurða, að hin umdeilda friðunaraðgerð skyldi bíða, — status quo, frá því sem var fyrir hina umdeildu aðgerð. Mér þykir í hæsta máta ólíkleg önnur niðurstaða. Tæplega teldi dómstóllinn sér fært að dæma Íslendingum hinn aukna rétt og hinn umdeilda rétt, áður en efnisatriði málsins hefðu verið skoðuð, málgögn lögð fram, álitsgerðir fengnar o.s.frv., o.s.frv. slík niðurstaða væri í ósamræmi við allan venjulegan dómstólapraksis, því að þar er meginreglan sú, að menn verða að bíða eftir dómnum til þess að geta notið hins umdeilda réttar.

Herra forseti. Ég hef nú reynt að vega og meta efni þessa samkomulags á eins hlutlægan hátt og mér er mögulegt, og niðurstaða mín af þessum athugunum er sú, að áhættan og óvissan, er samningur þessi skapar Íslendingum, sé allt of mikil til þess, að hægt sé að samþykkja hann. Því mun ég eindregið greiða atkv. gegn samþykkt þessarar þáltill., og ég hvet alla hv. þm. til þess að skoða hug sinn nú rækilega, áður en þeir stíga svo örlagaríkt spor sem samþykkt þessarar þáltill. óneitanlega er.