22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í D-deild Alþingistíðinda. (2482)

110. mál, vitar og leiðarmerki

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Allshn. Sþ. hefur haft till. til þál. á þskj. 125 til meðferðar og mælir með, að hún verði samþ. með lítils háttar breyt., sem eru fólgnar í því, að inn er sett nafn þeirra laga, sem farið er fram á að verði endurskoðuð. N leitaði álits bæði hjá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og eins hjá vita- og hafnarmálastjóra um till. þessa, og mæla báðir aðilar með samþykkt hennar. Farmanna- og fiskimannasambandið tekur þó réttilega fram, að varasamt sé, eins og kemur fram í grg. með till., að gera sér of háar hugmyndir um, að hægt sé í náinni framtíð að hætta við að byggja ljósvita, þar sem þeirra er enn þá og verður í náinni framtíð mikil þörf, en mælir annars með samþykkt hennar. Vita- og hafnarmálastjóri gerir það einnig, eins og ég minntist á. Hann bendir á það réttilega, að á síðustu árum eða síðan þessi lög voru samin, en þau eru síðan 19. júní 1933, hafi komið fram ýmsar markverðar nýjungar í vitamálum, svo sem radar og ýmis radíóstaðsetningarkerfi. Hann segir, að embætti hans hafi fylgzt með þessum nýjungum í nokkur ár og þar á meðal fengið tilboð í eina tegund staðsetningarkerfa, en þeim hafi þótt þetta kerfi of dýrt og eins hafi ekki verið komin fram nægileg reynsla í því efni. Hins vegar eru nú þegar komnir tveir slíkir staðsetningarvitar hér á landi, eins og hv. flm. benti réttilega á við framsögu, bæði á Reynisfjalil og eins á Snæfellsnesi, og bæði af þeim ástæðum og eins vegna þess, hve radartækjum hefur fjölgað verulega í fiskibátum í seinni tíð, tekur hann undir þau rök, sem flm. hefur haft með þessari till. sinni, og mælir með samþykkt hennar, — svo og gerir allshn. Sþ., eins og ég gat um.