22.03.1961
Sameinað þing: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í D-deild Alþingistíðinda. (2534)

79. mál, hafnarstæði við Héraðsflóa

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls um till. núna, en mér finnst ástæða til þess að segja nokkur orð í tilefni af því, að hv. 2. þm. Austf. fann hjá sér hvöt að segja nokkur orð.

Ég mun hafa látið það koma fram, þegar ég flutti þessa till., bæði á þinginu í fyrra og þegar till. var hér til umr. á þessu þingi, að ein ástæðan og mikil ástæða til þess, að ég flutti þessa till., var sú, að það voru beinar óskir um það heiman úr héraði. Ég gat þess einnig þá, að ég legði engan dóm á, hvaða niðurstaða væri líkleg af þessari rannsókn, en ég vildi halda því fram, að hún væri eðlileg og réttmæt, þegar litið er til þess, hvað hafnargerðir eru mikilvægar hverju byggðarlagi, og þarna er um að ræða eitt af stærstu samfelldu byggðarlögum landsins. Það er svo rétt að benda á það, að fjvn., eftir að hún hefur fengið jákvætt álit frá vitamálastjóra um að samþykkja tillöguna, leggur einróma til, að till. sé samþykkt, og þar á meðal hv. 2. þm. Austf., Halldór Ásgrímsson. Þess vegna finnst mér það dálítið einkennilegt, að það skín þó í vissa óánægju af hans hálfu í þessu máli. Ég, ætla að vona, að við getum lagzt á eitt með það að vinna að samgöngumálum á Austurlandi eftir beztu getu, og ég vil segja það hér, bæði honum og öllum öðrum, að hvað sem út úr þessari þáltill. kemur, hefur það ekki áhrif á það að draga úr að leggjast af alefli á það að bæta samgöngumálin á landi, bæta vegakerfið, auðvelda mjólkurframleiðendum á Héraði að flytja sína mjólk að nýstofnuðu mjólkurbúi o.s.frv. Þetta er í raun og veru það mál, sem mér finnst ekki koma þessu við, og ég sé ekki ástæðu til þess að vera að hefja hér deilur við hv. 2. þm. Austf. út af þessu. En ég vil bara undirstrika það, að þessi þáltill. er fram borin eftir beinni ósk frá íbúum Fljótsdalshéraðs. Ég tel sanngirnismál að þessi rannsókn verði gerð. Vitamálastjóri leggur með því og fjvn. öll. Með því finnst mér, að hægt sé að ljúka þessari umr., og ég vona, að till. nái fram að ganga.